Rífandi stemning á landsfundi Samfylkingarinnar!

Eins og ég hef áður líst í pistli á þessari heimasíðu minni þá hófst landsfundur Sjálfstæðisflokksins á fimmtudaginn var og lauk á lauk á sunnudag.  Fundurinn var að mínu mati hinn glæsilegasti og markaði hann formlegt upphaf kosningabaráttu okkar sjálfstæðismanna fyrir komandi kosningar.

En það eru fleiri sem gleðjast yfir landsfundum sínum.  Samfylkingin hélt landsfund sinn um helgina, nánar tiltekið á föstudag og laugardag.  Fulltrúar Samfylkingarinnar sem hafa tjáð sig um landsfundinn hafa ekki haldið vatni yfir því hversu vel tókst til.  Mikið hefur verið lagt upp úr því af hálfu Samfylkingarinnar að halda því fram að fundurinn hafi verið sá fjölmennasti í sögu hennar, hann hafi verið magnaður og að stæll hafi verið yfir slitum hans.  Hefur Samfylkingarfólk varla náð andanum yfir því hversu mikil eindrægni og samstaða hafi ríkt á fundinum og glimrandi góð stemming sem veiti flokknum glæsilegt veganesti inn í kosningarnar.

Fyrir okkur sem stöndum utan Samfylkingarinnar er eitthvað furðulegt við þessar lýsingar.  Ég er hræddur um að sjálfstæðismenn hefðu ekki hoppað um af kæti, eins og Samfylkingarfólks er sagt hafa gert, ef fjölmiðlar hefðu birt skoðanakannanir sem sýndu 18% fylgi flokksins meðan á landsfundinum stóð, en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur alltaf miðað Samfylkinguna við Sjálfstæðisflokkinn og sagt að hún ætti að vera sambærilegur Sjálfstæðisflokknum að stærð.  Ég er hræddur um að okkur hefði frekar runnið kalt vatn milli skinns og hörunds að fá slíkan vitnisburð.

Ekki er heldur trúlegt að skrif Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrum formanns Alþýðuflokksins, og Stefáns Jóns Hafstein, fyrrum formanns framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, hafi verið til þess fallin að rífa upp móralinn á fundinum, en þeir virðast hafa nú efasemdir um að skynsamlegt hafi verið að stofna Samfylkinguna.  Að minnsta kosti hafi markmiðið sem stefnt var að með stofnun hennar ekki náðst, þ.e. að sameina vinstri menn.  Sú niðurstaða blasir við þegar skoðanakannanir sýna Steingrím J. Sigfússon og Vinstri græna trekk í trekk stærri en flokk hinna sameinuðu vinstimanna.  Ekki er laust við að maður skynji ákveðinn uppgjafartón í skrifum þessara lykilmanna innan Samfylkingarinnar.

Þá bendir ýmislegt til þess að landfundur Samfylkingarinnar hafi ekki verið sá stærsti í sögu hennar.  Eins og Vef-Þjóðviljinn bendir á í pistli sínum í dag þá hefur verið erfitt að fá upplýst hjá Samfylkingunni hversu margir greiddu atkvæði á fundinum í kjöri framkvæmdastjórnar flokksins.  En Vef-Þjóðviljinn lét leyndina ekki aftra sér frá því að upplýsa málið, því einhver úr þeirra röðum lagði það mikla erfiði á sig að hlusta á upptökur af landsfundinum.  Upptökurnar leiða í ljós að 454 atkvæði hefðu verið greidd í kjörinu og að kosningaþátttaka hafi við 72,8%.  Af því má álykta að 624 fulltrúar hafi átt sæti á landsfundi Samfylkingarinnar.  Sú tala er í nokkru ósamræmi við yfirlýsingar Samfylkingarfólks um að vel á annað þúsund manns hafi sótt landsfundinn.  Þær eru líka í ósamræmi við fullyrðingar um að fundurinn hafi verið sá fjölmennasti í sögu flokksins, því eins og Vef-Þjóðviljinn upplýsir þá hlaut Ágúst Ólafur Ágústsson 839 atkvæði í varaformannskjöri á landsfundi flokksins árið 2005.  Deildar meiningar eru reyndar um það hvort þau hafi öll verið heiðarlega fengin, en þar til annað sannast virðast staðhæfingar Samfylkingarinnar um að fundurinn hafi verið sá stærsti í sögunni ekki standast.  Fundurinn árið 2005 virðist hafa verið mun fjölmennari.

Það vekur auðvitað líka athygli að forysta flokks sem á hátíðardögum talar um mikilvægi lýðræðis og lýðræðislegra vinnubragða skyldi ekki beita sér fyrir því að þeir landsfundarfulltrúar sem þó mættu á fundinn skyldu ekki fá að greiða atkvæði um formann og varaformann flokksins.  Í staðinn var látið nægja að leyfa þeim að klappa saman lófunum, líkt og gert var áður í ýmsum löndum Austur-Evrópu sem seint verða talin útverðir lýðræðislegra vinnubragða.  Því er óljóst með hversu sterkt umboð formaður og varaformaður Samfylkingarinnar hafa frá flokksmönnum sínum í aðdraganda kosninga.

Það sem mér fannst markverðast á við landsfund Samfylkingarinnar var hversu mikinn áhuga fjölmiðlar sýndu tveimur norrænum stjórnarandstæðingum, Svíanum Mónu Sahlin og Dananum Helle Thorning-Schmidt.  Heimsókn þeirra varpaði skugga á annað sem fram fór á landsfundi Samfylkingarinnar.  Ég fæ hins vegar ekki séð hvernig sú athygli á að hjálpa Samfylkingunni í komandi kosningum, enda kemur hún þeim ekki við.

Sigurður Kári


Vaknað með Valdísi Gunnarsdóttur

Á sunnudagsmorguninn var ég gestur Valdísar Gunnarsdóttur dagskrárgerðarkonu á Bylgjunni.  Viðtal Valdísar var mjög frábrugðið þeim viðtölum sem ég er vanur.  Ég er vanastur því að þau viðtöl sem ég fer í fjalli um pólitísk ágreiningsmál þar sem ég mæti andstæðingi sem finnur málstað mínum og Sjálfstæðisflokksins allt til foráttu.

Því var ekki að heilsa í viðtali Valdísar.  Viðtalið varðaði mig og mína persónu.  Við ræddum um æsku mína og uppvöxt, fjölskyldu, nám og um eiginlega allt sem viðkemur lífi mínu og tilveru fyrr og nú.  Þetta var þægilegt viðtal og það má Valdís eiga að hún er góður viðmælandi þegar að því kemur að ræða persónuleg málefni fólks.  Það sem gerir þátt hennar að því sem hann er, er sú feikilega mikla undirbúningsvinna sem Valdís leggur í þáttinn.  Fyrir viðtalið við mig ræddi hún við stóran hóp vina minna, ættingja og núverandi og fyrrverandi samstarfsmanna.  Í viðtalinu vitnaði hún til mjög vinsamlegra ummæla fjölda fólks sem ég hef átt samleið með fram til þessa, þar á meðal æskuvina minna Gísla Marteins Baldurssonar, borgarfulltrúa, og Rúnars Freys Gíslasonar, leikara, Stefáns Hilmarssonar, tónlistarmanns, Helga Jóhannessonar, hæstaréttarlögmanns, Jóns Steinars Gunnlaugssonar, hæstaréttardómara, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, Hafrúnar Kristjánsdóttur, systur minnar, og Birnu konunnar minnar.  Það þarf enginn sem les þessa löngu upptalningu að velkjast í vafa um að Valdís vandar til verksins í þætti sínum.

Það sem kom mér mest á óvart voru þau gríðarlega miklu viðbrögð sem ég fékk í kjölfarið.  Tölvupóstum og sms-skilaboðum rigndu yfir mig og það var eiginlega sama hvert ég fór, ótrúlega margir virðast hlusta á þátt Valdísar sem er staðfesting á því að hún hefur hitt á formúlu að útvarpsþætti sem fellur í kramið hjá almenningi.

Mér finnst ástæða til að óska henni til hamingju með það og þakka henni fyrir viðtalið, en fyrir þá sem hafa áhuga á að hlusta á sunnudagsspjall okkar er rétt að benda á að hægt er að nálgast það á heimasíðu Bylgjunnar, www.bylgjan.is.

Sigurður Kári.


Sjálfstæðisflokkurinn er klár í slaginn!

Landsfundi Sjálfstæðisflokksins lauk á sunnudaginn.  Fundurinn var að mínu mati gríðarlega vel heppnaður.  Á honum hristum við sjálfstæðismenn okkur saman fyrir komandi kosningar og verður ekki sagt að miklar fortölur hafi þarft gagnvart okkar fólki til að láta til sín taka.  Sjálfstæðismenn eru klárir í slaginn og bjartsýnir á gott gengi í kosningunum.  Segja má að stemningin á fundinum hafi stigmagnast með hverjum deginum, enda sýndu skoðanakannanir þessa daga að flokkurinn er í stórsókn og allt að 43% landsmanna ætluðu að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.  Það þarf því ekki að undra að bjartsýni hafi einkennt landsfundarstörfin.

Á landsfundinum kom í ljós hversu mikil eining er um forystu flokksins.  Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hlaut glæsilega kosningu til embættis varaformanns, eða 91,3% atkvæða, og Geir H. Haarde hlaut hvorki meira né minna en 95,8% í kosningu til formanns.  Þetta sýnir hversu mikil eindrægni ríkir um þessar mundir innan Sjálfstæðisflokksins og ljóst að forysta flokksins gengur með traust umboð flokksins til komandi kosninga.

Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hafa löngum gagnrýnt flokkinn fyrir að gera ekki nógu vel við þær konur sem starfa innan vébanda flokksins.  Ekki voru niðurstöður í miðstjórnarkjöri flokksins sönnun þess.  Á landsfundinum var kosið um 11 miðstjórnarsæti milli 25 frambjóðenda.  8 konur náðu kjöri, en einungis 3 karlar, þar af tveir reyndir flokkshestar, þeir Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, borgarstjóri.  Niðurstaða miðstjórnarkjörsins sýnir svo ekki verður um villst að Sjálfstæðisflokkurinn treystir konum til forystustarfa fyrir sína hönd og er það vel.

Á landsfundinum lögðum við einnig þær málefnalínur sem við munum leggja áherslu á í komandi kosningum.  Fjölmargar ályktanir voru samþykktar í öllum málaflokkum.  Sjálfur beitti ég mér mest á sviði menntamála, enda hef ég sem formaður menntamálanefndar Alþingis eytt miklum hluta af mínum starfskröftum í menntamál á þessu kjörtímabili.  Ályktun Sjálfstæðisflokksins á sviði menntamála sýnir glögglega þann metnað sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur fyrir hönd menntakerfisins.  Sjálfstæðisflokkurinn vill að Ísland verði þekkingarþjóðfélag í fremstu röð og setur menntamál í öndvegi.  Einnig beitti ég mér í öðru málefnastarfi á landsfundi, einkum í sjávarútvegs- og auðlindamálum.

Það málefni sem hæst bar að mínu mati á landsfundinum var útspil formanns Sjálfstæðisflokksins um málefni aldraðra, en um fá mál hefur meira veirð rætt í aðdraganda þessara kosninga.  Það er eiginlega sama við hvern er talað, allir leggja þunga áherslu á að bæta þurfi kjör hinna eldri, einkum þess hóps eldri borgara sem lakast eru settir.  Þessar áherslur koma ekki eingöngu fram hjá eldri borgurum, heldur ekki síður hjá fólki á mínum aldri, enda á það að vera sérstakt markmið hinna yngri að vinna að velferð hinna eldri.  Þeir eiga það skilið enda hafa þeir skilað sínu framlagi til þjóðfélagins með glæsilegum hætti og við af yngri kynslóðinni njótum nú ávaxta þeirrar vinnu.

Það var því mikill sigur fyrir kjarabaráttu eldri borgara þegar Geir H. Haarde lýsti því yfir á landsfundi að á næsta kjörtímabili myndi Sjálfstæðisflokkurinn leggja sérstaka áherslu á bæta kjör eldri borgara á næsta kjörtímabili, það er að segja að grípa til sérstakra aðgerða til þess að auka ráðstöfunarfé þessa hóps.  Og hvað er það sem Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að gera til þess að ná þessum markmiðum?

Í fyrsta lagi ætlum við að minnka skerðingar á lífeyrisgreiðslum frá almannatryggingakerfinu.  Slíkt er nauðsynlegt til þess að ná fram kjarabótum fyrir eldri borgara.  Í annan stað viljum við tryggja öllum lágmarkslífeyri úr lífeyrissjóði til viðbótar þeim greiðslum sem koma úr almannatryggingakerfinu, enda státa því miður ekki allir eldri borgarar af digrum lífeyrissjóðum sem þeir geta leitað í að lokinni starfsævi sinni.  Hefur formaður Sjálfstæðisflokksins nefnt að slíkar viðbótargreiðslur gætu numið 25.000 krónum á mánuði.  Í þriðja lagi viljum við sjálfstæðismenn beita okkur fyrir því að fólk sem er komið yfir sjötugt geti unnið launaða vinnu án þess að það skerði lífeyri frá Tryggingastofnun eins og nú er.  Slík breyting er mikið réttlætismál.  Í stað þess að vera sjálfkrafa dæmdir út af vinnumarkaði myndi slík breyting hvetja eldri borgara til áframhaldandi þátttöku í atvinnulífinu og til þess að gera sig áfram gildandi í samfélaginu með okkur sem yngri erum.

Þetta eru glæsilegar tillögur sem eldri borgarar geta treyst að verði hrint í framkvæmd fáum við tækifæri til þess að loknum kosningum.

Fjölmargar aðrar merkilega ályktanir voru samþykktar á landsfundi sem vert væri að fjalla um hér.  Þó svo að slík umfjöllun verði að bíða betri tíma tel ég að málefnastarfið á landsfundi hafi lagt grunninn að öflugri stefnuskrá flokksins fyrir komandi kosningar.

Þegar á allt er litið verður ekki annað sagt en að fundurinn hafi tekist eins og best varð á kosið og þeir sem stóðu að undirbúningi hans eiga allir hrós skilið fyrir.

Sigurður Kári


Landsfundur Sjálfstæðisflokksins settur í dag

Í dag verður 37. landsfundur Sjálfstæðisflokksins settur í Laugardalshöll.  Dagskráin á fundinum er með hefðbundnu sniði en í upphafi hans flytur Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, setningarræðu sína.  Vafalaust er að í ræðu sinni muni formaðurinn gera grein fyrir þeim málefnum sem Sjálfstæðisflokkurinn mun leggja áherslu á í aðdraganda komandi alþingiskosninga.  Ef ég þekki formanninn rétt mun hann einnig hvetja sjálfstæðismenn og -konur um allt land til að taka höndum saman og tryggja flokknum glæsilega útkomu í kosningunum.

Landsfundir Sjálfstæðisflokksins er afar merkilegir og magnaðir fundir.  Fyrir utan það að vera stærsta lýðræðissamkoma Íslands kenyr saman á Landsfundu flokksfólk af öllu landinu og markar stefnu fyrir flokkinn.  Gera má ráð fyrir að landsfundarfulltrúar í þetta skiptið verði í kringum 2000 og því má búast við að Laugardalshöllin verði full fram á sunnudag.  Á landsfundinum verður unnið mikið og gagnlegt málefnastarf í öllum málaflokkum, ráðherrar flokksins sitja fyrir svörum auk þess sem sjálfstæðismenn gera sér glaðan dag.

Sjálfur hef ég unnið að undirbúningi að landsfundarályktun um skóla- og fræðslumál.  Sú vinna hefur verið ánægjuleg, enda getur Sjálfstæðisflokkurinn státað af glæsilegum árangri á sviði menntamála allt frá því að flokkurinn tók við yfirstjórn menntamála árið 1991.  Óumdeilt er að frá þeim tíma hafi átt sér stað bylting í menntamálum Íslendinga.

Áður en setningin hefst mun ég verða gestur á tveimur fundum.  Sá fyrri er hádegisfundur Röskvu í Háskóla Íslands með frambjóðendum um samkeppnisstöðu Háskóla Íslands og um málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna.  Síðan mun ég halda suður í Reykjanesbæ þar sem ég mun halda erindi á merku málþingi skólans um sérkennslu í íþróttum á Íslandi.

Sigurður Kári.


Margrét Sverrisdóttir, Framsóknarflokkurinn og Evrópa

Skríbentarnir á Vef-Þjóðviljanum hitta oftar en flestir naglann á höfuðið.  Vef-Þjóðviljinn hefur einnig frá stofnun gengið hvað harðast fram í því að veita stjórnvöldum og stjórnmálamönnum aðhald, ekki síst með því að rifja upp þeirra eigin orð um ýmis málefni.

Í grein dagsins gerir Vef-Þjóðviljinn frétt Ríkissjónvarpsins þann 10. apríl sl. að umræðuefni, en í fréttinni sagði eftirfarandi:

..Íslandshreyfingin vill sækja um aðild að Evrópusambandinu strax. Aðrir flokkar vilja fara sér hægar. Þetta kom fram á málefnafundi Sjónvarpsins á Selfossi í kvöld.”

Vegna fréttarinnar sér Vef-Þjóðviljinn ástæðu til að rifja upp ummæli Margrétar Sverrisdóttur, fyrrum framkvæmdastjóra Frjálslynda flokksins og núverandi varaformanns Íslandshreyfingarinnar, í Morgunblaðinu þann 16. október 2003.  Þá sagði Margrét:

,,Með tali um upptöku evrunnar er verið að reyna að hraða þróun ESB í átt til evrópsks risaveldis með sameiginlegri mynt, en minna hugsað um efnahagslegan ávinning. Ég vara við þessum þrýstingi og leyfi mér að kalla það landráð ef menn vilja ganga inn í Evrópusambandið eins og staðan er í dag og afhenda valdaklíku stærstu fimm Evrópuþjóðanna fullveldi og sjálfstæði Íslands.”

Þegar þessi ummæli eru lesin fer ekkert á milli mála að höfundur þeirra, Margrét Sverrisdóttir, er grjótharður andstæðingur þess að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu.  Raunar er Margrét svo sannfærður andstæðingur aðildar að hún kallar talsmenn hennar landráðamenn og sakar þá um að vilja afhenda valdaklíkunni í Brussel fullveldi og sjálfstæði Íslands!  Þetta eru stór orð en afstaðan er skýr.  Af ummælunum að dæma verður að ætla að afar mikið þyrfti til að koma til þess að Margréti Sverrisdóttur myndi snúast hugur varðandi afstöðu sína til aðildar Íslands að Evrópusambandinu.

Það má halda því fram með góðum rökum að aðild að Evrópusambandinu hafi síst orðið álitlegri kostur fyrir Ísland frá því að Margrét Sverrisdóttir lét ummælin falla árið 2003.  Síðan þá hafa reyndar nokkrar Austur-Evrópuþjóðir gerst aðilar að Evrópusambandinu, þjóðir sem standa Íslandi langt að baki í efnahagslegu tilliti.  Því er líklegt að Evrópusambandið þurfi á næstu árum að eyða miklu púðri í byggja upp innri markað, efnahag og atvinnulíf þessara þjóða á næstu misserum og árum.  Efast má um að sú staðreynd geri aðild Íslands að Evrópusambandinu eftirsóknarverðari nú en en hún var áður.

Margrét Sverrisdóttir er nú varaformaður Íslandshreyfingarinnar og mun skipa efsta sæti flokksins í öðru Reykjavíkurkjördæmanna fyrir komandi Alþingiskosningar.  Í ljósi þess verður að ætla að hún hafi eitthvað að segja um stefnumörkun flokksins í mikilvægum málum, þar á meðal Evrópumálum.  Nú liggur fyrir staðfesting á því að hún og flokkurinn hennar vilji sækja um aðild að Evrópusambandinu strax.  Margrét Sverrisdóttir skuldar almenningi því skýringar á því hvað olli fullkominni umpólun hennar í afstöðunni til aðildar Íslands að Evrópusambandinu.

Framsóknarflokkurinn kynnti á dögunum stefnuskrá sína fyrir komandi kosningar.  Þar kemur fram að flokkurinn setur Evrópusambandsaðild ekki á dagskrá.  Það er að mínu mati fagnaðarefni.  Stefna Framsóknarflokksins í Evrópumálum hefur verið heldur flöktandi á síðustu misserum, enda hafa ýmsir forsvarsmenn flokksins daðrað við aðild á meðan aðrir hafa verið henni algerlega mótfallnir.  Er þar skemmst að minnast ræðu Halldórs Ásgrímssonar, þáverandi forsætisráðherra, á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs árið 2006 þegar hann spáði því að Ísland yrði orðið aðili að Evrópusambandinu árið 2015.  Í svipaðan steng hefur Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, tekið.  Á sama tíma hefur Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, alfarið hafnað aðild Íslands að sambandinu.  Nú er stefna Framsóknarflokksins í Evrópumálum orðin skýrari.  Flokkurinn telur að hagsmunum Íslands sé best borgið í gegnum EES-samninginn.  Ég er sammála því mati.

Sigurður Kári.

Hvolpalán á páskum

Páskahátíðin var ánægjuleg fyrir mig og mína fjölskyldu.  Við tókum því að mestu rólega og nutum þess að vera saman, borða páskaegg og páskalamb.´

Þó varð nokkur truflun á afslöppuninni á laugardaginn þegar ég og fleiri frambjóðendur til Alþingis öttum kappi við fjölmiðlamenn í knattspyrnu.  Leikurinn fór fram í Egilshöllinni, en allur ágóði af leiknum rann til Umhyggju- félags til stuðnings langveikum börnum, Blátt áfram og CP samtakanna.  Skemmst er frá því að segja að við frambjóðendur steinlágum fyrir fjölmiðlamönnunum 7-0.  Lið fjölmiðlamanna var vel að sigrinum kominn, enda valinn maður í flestum stöðum í því liði, en liðið var m.a. skipað Hermanni okkar Gunnarssyni, Páli Magnússyni, útvarpsstjóra, Magnúsi Ragnarssyni, sjónvarpsstjóra á Skjá einum og nágranna mínum Loga Bergmann Eiðssyni.

Það sem þó bar helst til tíðinda um þessa páskahátíð var það að á föstudaginn langa fékk ég og fjölskylda mín í hendur 8 vikna gamlan hreinræktaðan Labrador retriever hvolp sem nú er orðinn hluti af fjölskyldunni.  Það átti sér því stað fjölgun á heimilinu og höfum við reynt að taka þessum góða liðsauka með sem bestum hætti.  Krakkanir á heimilinu eru himinlifandi og ljóst er að göngutúrunum okkar Birnu mun fjölga mjög á næstu misserum og árum í kjölfar þessa happafengs sem þessi litli hvutti er.  Á laugardag var honum síðan gefið nafn og heitir hann Bjartur, enda ljós og bjartur yfirlitum og ber því nafn með rentu.

Sigurður Kári


Sama hvaðan gott kemur

Furðulegar fréttir hafa á síðustu dögum verið fluttar af framgöngu forsvarsmanna Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.

Fyrir nokkrum dögum var upplýst að Vinstri grænir hefðu látið framleiða kosningabarmmerki úr áli sem frambjóðendur flokksins og stuðningsmenn hans munu bera stoltir fram að kosningum.  Í fréttaviðtali Stöðvar 2 við Stefán Pálsson, einn helsta talsmann flokksins, kom reyndar fram að barmmerkin eru búin til úr svokölluðu góðu áli, en ekki vondu áli, hver sem munurinn á þessu tvennu er.

Furðulegri frétt um framgöngu Vinstri grænna birtist hins vegar í Fréttablaðinu í vikunni.  Þar kom fram að vinstri grænir hefðu óskað eftir 300.000 kr. fjárstyrk frá Alcan vegna kosningabaráttu flokksins.  Ekki er vitað hvort við þessari beiðni hafði orðið, en hún sýnir að forsvarsmenn eru annað hvort veruleikafirrtir eða kunna ekki að skammast sín.  Beiðni þeirra um fjárstyrk frá Alcan er álíka smekkleg og ef Samfylkingin myndi óska eftir framlögum frá Bændasamtökunum í kosningasjóð sinn eða ef Frjálslyndiflokkurinn óskaði eftir fjárstyrk frá Alþjóðahúsinu í sinn kosningasjóð.

Vinstri grænir hafa fram til þessa lagt sig mjög fram um að sýna fram á að þeir væru samkvæmir sjálfum sér og í raun allt að því heilagir þegar kemur að ýmsum málaflokkum.  Það að Vinstri grænir séu reiðubúnir til þess að þiggja fé frá álfyrirtæki, og það sem meira er, sækjast sérstaklega eftir því, sýnir hversu einbeittir þeir eru í trúnni.  Þegar á reynir er þeim sama hvaðan gott kemur.

Að öðru.  Í vikunni fékk ég kosningablað Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmum norður og suður inn um lúguna, en blaðið ber heitið ,,Reykjavík”.  Kennir þar ýmissa grasa en mestu púðri er eytt í opnuviðtal við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar, og Össur Skarphéðinsson, þingflokksformann, þar sem reynt er að undirstrika hversu samhent og samstíga þau eru í öllum sínum aðgerðum.  Það vekur hins vegar óneitanlega mikla athygli að í blaðinu er ekki minnst einu orði á varaformann flokksins, Ágúst Ólaf Ágústsson, og heldur ekki birtar af honum myndir.  Það virðist sem Samfylkingin ætli sér ekki að flagga Ágústi Ólafi mikið fyrir þessar kosningar, þó hann skipi annað sætið í öðru Reykjavíkurkjördæmanna.

Sigurður Kári

Allt fyrir alla!

Það er ekki erfitt að vera góður, ef góðverkin á að framkvæma á kostnað annarra.  Af auglýsingum síðustu daga virðist þetta ætla að verða meginstef Samfylkingarinnar fyrir komandi alþingiskosningar.

Eins og alþjóð veit hefur Samfylkingin verið í frjálsu falli í skoðanakönnunum síðustu mánaða og hefur jafnt og þétt misst fylgi allt frá því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tók við formennsku í flokknum.  Nú virðist hafa gripið um sig umtalsverður taugatitringur í röðum Samfylkingarinnar vegna afleitrar stöðu flokksins í skoðanakönnunum sem lýsir sér í því að nánast á hverjum degi birtast auglýsingar um að flokkurinn ætli sér að gera allt fyrir alla eftir kosningar, komist hann til áhrifa.

Sem dæmi um loforðin sem hellast yfir almenning má nefna að á föstudaginn var birtist auglýsing frá Samfylkingunni í Morgunblaðinu, en þar segja tveir frambjóðendur flokksins, þau Katrín Júlíusdóttir og Guðvarður Hannesson,,Við viljum ókeypis námsbækur fyrir framhaldsskólanema.”

Síðastliðinn sunnudag birtist síðan auglýsing frá Samfylkingunni í Fréttablaðinu.  Þar boða Anna Kristín Gunnarsdóttir og Kristján L. Möller nýjar lausnir í atvinnumálum á landsbyggðinni” og segja:  ,,Við viljum bjóða 1200 störf óháð staðsetningu á næsta kjörtímabili.” Væntanlega er samfylkingardúettinn að leggja áherslu á fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni, enda stendur hvorugt þeirra í atvinnurekstri, að minnsta kosti ekki svo vitað sé.

Á mánudaginn birti Samfylkingin aftur auglýsingu í Fréttablaðinu, nú um tannlæknakosnað.  Þar segja Róbert Marshall og Steinunn Valdís Óskarsdóttir,,Við viljum tryggja ókeypis tannvernd fyrir börn - Foreldrar eiga ekki að borga svona mikið fyrir tannviðgerðir barna sinna.”

Í gær birtist athyglisverð frétt á vefsíðu Morgunblaðsins þar sem fram koma áherslur Samfylkingarinnar í samgöngumálum, en þar segir:

,,Kristján Möller, alþingismaður segir Samfylkinguna vilja að ríkið kosti gerð Vaðlaheiðarjarðganga svo ekki komi til veggjalds. Kostnaður við gerð ganganna er nær sex miljarðar. Þetta kemur fram á vefsíðu Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Fram kemur að Kristján telji að svigrúm til þessa hafi skapast eftir að stækkun álvers var fellt í Hafnafirði. Ennfremur segist hann vilja hann gera stórátak í samgöngumálum í stað stóriðju á höfuðborgarsvæðinu.

Í morgun birtist síðan enn ein auglýsingin í Morgunblaðinu.  Þar er þetta haft eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Össuri Skarpéðinssyni,,Í vor getur þú kosið biðlistana burt - Við ætlum að byggja 400 hjúkrunarrými fyrir aldraða á næstu 18 mánuðum.”

Ekki þarf að efast um að loforðalisti Samfylkingarinnar á eftir að lengjast á næstu dögum og vikum.  Það er gamalt trix hjá stjórnmálaflokkum sem hafa glatað tiltrú og trausti almennings að lofa gulli og grænum skógum fyrir allt og alla í aðdraganda kosninga.

Gallinn við þessar tillögur Samfylkingarinnar er augljóslega sá að flokkurinn gerir ekki minnstu tilraun til að útskýra hversu mikill kostnaður fellur til vegna þessara loforða og ekki heldur hvernig á að fjármagna þau, því ekki eru þessar framkvæmdir ókeypis, svo mikið er víst.  Til að gæta allrar sanngirni viðurkennir Kristján L. Möller þó að skattgreiðendur þurfi að punga út 6000 milljónum vegna Vaðlaheiðargangna, en að öðru leyti er fjármögnun loforðanna óútskýrð.

Þar til annað kemur í ljós verður því hér haldið fram að skattgreiðendum sé ætlað að standa straum af loforðum Samfylkingarinnar.

Það verður fróðlegt að sjá hvort loforðum Samfylkingarinnar muni ekki örugglega fjölga á næstu dögum.

Sigurður Kári.


Auglýsingar stjórnarandstöðunnar

Stjórnarandstöðuflokkanir eru farnir að auglýsa grimmt fyrir kosningarnar í vor.  Á sunnudag fóru Frjálslyndir yfir strikið, eins og farið hefur verið yfir á þessum vettvangi, en í Fréttablaðinu í gær auglýsir Vinstri hreyfingin grænt framboð fund í Hafnarfirði.  Samfylkingin er engin eftirbátur Vinstri grænna og í málefnaauglýsingu í gær sögðu Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Róbert Marshall, frambjóðendur flokksins:  ,,Við viljum tryggja ókeypis tannvernd fyrir börn.” Reyndar kemur ekki fram í auglýsingunni hver eigi að borga kostnaðinn, en ljóst er að einhver verður að gera það því seint munu tannlæknar landsins lækna tennur barna í sjálfboðavinnu.

Auglýsing gærdagsins var hins vegar önnur auglýsing frá Samfylkingunni.  Fyrirsögn hennar var “Sterk saman” og í auglýsingunni er birt einskonar brúðkaupsmynd af skælbrosandi Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar, og býsna glaðhlakkalegum Össuri Skarphéðinssyni, þingflokksformanni, sem bárust á banaspjótum fyrir ekki svo löngu síðan þegar þau börðust um formannssætið í flokknum.  Í auglýsingunni er látið í það skína að allt sé í lukkunnar velstandi á Samfylkingarbænum og að forystan gangi í takt.

Athygli vekur hins vegar að Ágúst Ólafur Ágústsson, sem þó er varaformaður flokksins, er hvergi sjáanlegur og fær ekki að vera með í auglýsingunni, sem er einkennilegt þegar flokkurinn er á annað borð að auglýsa fundaherferð forystu flokksins.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skrifar ágætan pistil um auglýsinguna á heimasíðu sinni, http://www.birgir.is, sem ber yfirskriftina ,,Allt í sátt og samlyndi?”, en þar segir Birgir:

,, Flokkarnir þrír, sem stóðu saman að kaffibandalaginu sáluga, virðast sammála um eitt þessa dagana, en það er að nauðsynlegt sé að auglýsa duglega í Fréttablaðinu. Í dag er þar meðal annars að finna dálítið sérstaka auglýsingu frá Samfylkingunni þar sem birt er nokkurs konar brúðkaupsmynd af Ingibjörgu Sólrúnu og Össuri Skarphéðinssyni undir fyrirsögninni “Sterk saman”.

Það er auðvitað engin þörf að kafa djúpt í einhver Kremlarfræði til að átta sig á tilgangi svona auglýsingar. Hún á auðvitað að gefa þá mynd að í forystusveit Samfylkingarinnar sé allt í sóma, sátt og samlyndi og ekki sé um að ræða nein eftirmál í kjölfar óvenju hatrammrar formannskosningar á landsfundi flokksins vorið 2005. Þetta er í samræmi við margítrekaðar yfirlýsingar ýmissa talsmanna flokksins að undanförnu, sem notað hafa hvert tækifæri til að undirstrika hið nána og góða samband forystumanna sinna.

Nú má vel vera að það sé rétt - en af hverju þarf þá svona auglýsingar?”

Ég heyrði viðtal við Guðjón Arnar Kristjánsson, formann Frjálslynda flokksins, í síðdegisútvarpi Rásar 2 í gær.  Þar reyndi formaðurinn að halda því fram að auglýsingin tengdist með einhverjum hætti stóriðju og að með henni væri verið að benda á að þenslan í efnahagskerfinu væri á höfuðborgarsvæðinu en ekki á landsbyggðinni.

Ekki get ég lesið þessi skilaboð út úr auglýsingu Frjálslynda flokksins og ég efast um að nokkur annar en Guðjón Arnar, og hugsanlega Magnús Þór Hafsteinsson, hafi með góðum vilja náð þeim einstæða árangri að lesa þessi skilaboð út úr henni.

Annað athyglisvert atriði nefndi Guðjón A. Kristjánsson í sama viðtali.  Þar þvertók formaðurinn fyrir það að í auglýsingunni fælist neikvæð hugsun í garð útlendinga, eins og Guðjón sjálfur orðaði það.

Þetta er merkileg yfirlýsing og raunar alveg ótrúleg.  Það er nefnilega alveg sama með hvaða gleraugum auglýsingin er lesin.  Vonlaust er að koma auga á jákvæð skilaboð.  Þvert á móti er henni ætlað að koma þeim áróðri á framfæri að útlendingar séu fleiri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum, Íslendingum sé það um megn að kenna þeim sem hingað koma íslensku, kjaraskerðing til iðnaðarmanna og byggingaverkamanna á samdráttartímum sé erlendu vinnuafli að kenna og að lokum að innflytjendur muni íþyngja íslensku velferðarkerfi um of.

Felst ekki neikvæð hugsun í þessum skilaboðum?

Sigurður Kári.

Auglýsing Frjálslynda flokksins og sjálfshól Magnúsar Þórs Hafsteinssonar

Mér svelgdist á morgunkaffinu þegar ég opnaði Fréttablaðið í dag.  Við blasti auglýsing frá Frjálslynda flokknum þar sem spurt er:

,,Viljum við sitja uppi með sömu vandamál og aðrar þjóðir sem hafa leyft óhindraðan innflutning erlends vinnuafls?”

Í fyrstu hélt ég að um aprílgabb væri að ræða, enda er auglýsingin og sá boðskapur sem þar er komið á framfæri þess eðlis að erfitt er að trúa því að þeim sem að henni standa sé alvara.  Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður Frjálslynda flokksins, var síðan gestur Egils Helgasonar í þætti þess síðarnefnda Silfur Egils þar sem Magnús varði auglýsinguna og þann áróður sem þar er rekinn.

Þó svo að Frjálslyndi flokkurinn reyni að klæða áherslur sínar í málefnalegan búning í auglýsingunni, skín andúð þeirra á innflytjendum og erlendu vinnuafli í gegn þegar hún er lesin.  Skilaboðin sem Frjálslyndi flokkurinn vill koma á framfæri í auglýsingunni eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi að kaup og kjör íslenskra iðnaðarmanna og byggingaverkamanna muni versna þegar um hægist á vinnumarkaði þar sem í þeirri atvinnugrein sé hlutfall erlendra starfsmanna hæst.  Vísað er til upplýsinga frá Hagstofu Ísland um að meðaltalshækkun launa meðal iðnaðarmanna árið 2006 hafi verið minni en hjá öðrum stéttum.  Verði samdráttur í atvinnugreininni á komandi misserum með tilheyrandi launalækkunum geti innlendir starfsmenn skellt skuldinni á erlenda kollega sína sem hér starfa.

Í öðru lagi að með ótakmörkuðum innflutningi á erlendu vinnuafli séu of mikið lagt á íslenska velferðarkerfið og innviði þess.

Í þriðja lagi að geta íslenska menntakerfisins til þess að kenna því fólki sem hingað flyst íslensku.  Íslenska menntakerfið sé ekki í stakk búið til að uppfylla þá kröfu að erlendir ríkisborgarar sem hingað koma til starfa sæki grunnnám í íslensku.

Í fjórða lagi bendir Frjálslyndi flokkurinn á að árið 2006 haf erlendir ríkisborgarar verið um 9% af íslenska vinnumarkaðnum.  Um 11.000 erlendir starfsmenn hafi komið til Íslands á síðasta ári og að sambærilegar tölur fyrir hin Norðurlöndin sýni að straumur erlendra starfsmanna hingað til lands hafi verið gríðarlegur.  Lögð er sérstök áhersla á að hlutfallslega séu margfalt fleiri erlendir ríkisborgarar starfandi á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum.

Auglýsing Frjálslynda flokksins í Fréttablaðinu í dag er dæmalaus.  Ég minnist þess ekki að áður hafi íslenskur stjórnmálaflokkur gengið jafn hart fram í því að lýsa andúð sinni á fólki sem er af erlendu bergi brotið og hefur komið hingað til lands til starfa.

Þó svo að í auglýsingunni segi að Frjálslyndi flokkurinn meti ,,mikils vinnuframlag erlends fólks við uppbyggingastarf í íslensku samfélagi”, þá er grunnt á því þakklæti eða virðingu sem flokkurinn og frambjóðendur hans vilja sýna þessu fólki.  Með auglýsingunni er alið á ótta og fordómum í garð erlendra starfsmanna hér á landi og varað við því að vera þeirra hér á landi sé beinlínis til þess fallin rýra kjör tiltekinna starfsstétta, íþyngja velferðarkerfinu, tómt mál sé að tala um að reyna að kenna þeim íslensku og að í raun sé allt komið í óefni í þessum málum.  Slíkur málflutningur er ekki til þess fallinn að sameina og ná friði, heldur sundra og efna til ófriðar.

Auglýsing Frjálslynda flokksins er dapurlegt dæmi um örþrifaráð sem stjórnmálaflokkur í útrímingarhættu grípur til í þeim tilgangi að afla sér stundarfylgis.  Það er að mínu mati ekki mikil reisn yfir þeim mönnum sem reyna að afla sér vinsælda á kostnað einstaklinga sem hafa einungis það sér til sakar unnið að vera af öðru þjóðerni en Magnús Þór Hafsteinsson og félagar hans í Frjálslynda flokknum.  Og eitt er víst að afstaða Frjálslynda flokksins þegar kemur að málefnum útlendinga verður seint talin sérstaklega frjálslynd.

Ég sá í kvöld að Magnús Þór hrósar sjálfum sér óspart á heimasíðu sinni fyrir eigin frammistöðu í viðtali um málið í Silfri Egils frá því fyrr í dag.  Á heimasíðunni segir Magnús Þór m.a.:

,,Vegna þessarar auglýsingar var ég kallaður í viðtal í Silfri Egils til að tala um þessi mál. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Síminn hefur logað þar sem fólk hefur lýst ánægju sinni með málflutning minn.”

Ekki skal ég efast um að Magnús Þór Hafsteinsson sé sannfærður um sitt eigið ágæti.  En sé það rétt að sími hans hafi logað frá því að hann kom úr viðtalinu leyfi ég mér að efast um að viðmælendur Magnúsar Þórs, sem ekki virðast hafa átt orð fyrir snilld hans, séu þverskurður af íslensku þjóðinni og endurspegli viðhorf hennar í þessu máli.

Sigurður Kári.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband