Frábær Grettir

Á sunnudagskvöldið fór ég á frumsýningu söngleiksins Grettir, eftir þá Þórarinn Eldjárn, Ólaf Hauk Símonarson og Egil Ólafsson, sem sýndur er í Borgarleikhúsinu.

Satt best að segja mætti ég blankur á sýninguna.  Blankur í þeim skilningi að ég þekkti hvorki verkið né tónlistina, enda var ég ekki meðal áhorfenda þegar verkið var sett upp árið 1980, þá í leikstjórn Stefáns Baldurssonar, fyrrverandi Þjóðleikhússtjóra.

Uppfærslan á Gretti nú í Borgarleikhúsinu er stórglæsileg og er engu til sparað til þess að skemmta áhorfendum.  Og það tekst svo sannarlega því Greittir er með skemmtilegri sýningum sem ég hef séð í langan tíma.  Bæði er verkið bráðfyndið og skemmtilegt og tónlistin þétt og góð og kemst vel til skila til áhorfenda.  Í heild sinni finnst mér sýningin frábær og á leikstjóri hennar, Rúnar Freyr Gíslason, æskuvinur minn, hrós skilið fyrir hvernig til hefur tekist.

Halldór Gylfason leikur Gretti og gerir það listavel.  Halldór er að mínu mati með allra fyndnustu leikurum landsins og sýnir allar sínar bestu hliðar í Gretti.  Bergur Þór Ingólfsson er líka óborganlega fyndinn sem Tarzan apabróðir.  Aðrir leikarar standa sig einstaklega vel, svo sem Nanna Kristín Magnúsdóttir, Jóhann Sigurðarson, Jóhanna Vigdís Arnardóttir , Magnús Jónsson og allir hinir leikararnir.

Það er ástæða til að óska öllu þessu fólki innilega til hamingju með sýninguna.  Ég hvet alla til þess að láta Gretti ekki framhjá sér fara því sýningin er frábær.

Sigurður Kári.


Vandræðalegt fyrir Ingibjörgu Sólrúnu

Á laugardaginn birtist í Morgunblaðinu grein eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar, undir yfirskriftinni ,,Það er hægt að tryggja konum réttlát laun."

Í grein Ingibjargar Sólrúnar segir meðal annars:

,,Á landsfundi okkar um síðustu helgi fengum við þrjá af framsæknustu stjórnendum þessa lands, þau Bjarna Ármannsson, Svöfu Grönfeldt og Þórólf Árnason, til að ræða um leiðir til að draga úr kynbundnu launamisrétti og lýstu þau öll yfir stuðningi við þessa aðferð."

Í kjölfar greinarinnar sá Háskólinn í Reykjavík sig knúinn til þess að senda frá sér yfirlýsingu vegna þessara ummæla formanns Samfylkingarinnar og birtist yfirlýsingin á vefsvæði Morgunblaðsins.  Yfirlýsingin er svohljóðandi:

"Mishermt er í grein Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um kynbundinn launamun í Morgunblaðinu í gær að Svafa Grönfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík, hafi lýst yfir stuðningi við þær aðferðir sem lýst er í stefnuskrá Samfylkingarinnar um afnám launaleyndar.

Hið rétta er að Háskólinn í Reykjavík mun verða eitt af fyrstu fyrirtækjum og stofnunum landsins til að sækja um vottun jafnra launa á vegum félagsmálaráðuneytisins eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum undanfarna daga.

Háskólinn í Reykjavík vill vera í fararbroddi í jafnréttismálum og hefur HR valið þessa leið sem heppilegasta til að tryggja jafnrétti starfsmanna sinna."

Yfirlýsing Háskólans í Reykjavík er vandræðaleg fyrir formann Samfylkingarinnar og sýnir hversu örvæntingarfull Ingibjörg Sólrún er orðin í aðdraganda alþingiskosninganna.  Það er ekki mikil reisn yfir því að lýsa yfir stuðningi annars fólks við stefnumál sín að því forspurðu.


Er slæm staða Framsóknarflokksins Sjálfstæðisflokknum að kenna?

Fréttavefur Morgunblaðsins birti á föstudag viðtal við Guðna Ágústsson, landbúnaðarráðherra og varaformann Framsóknarflokksins, í kjölfar þess að birtar voru niðurstöður Capacent Gallup um fylgi stjórnmálaflokkanna.  Samkvæmt könnuninni er Sjálfstæðisflokkurinn í mikilli sókn og nýtur stuðnings 40,8% kjósenda.  Framsóknarflokkurinn er hins vegar í afar erfiðri stöðu og nýtur einungis 7,9% fylgis og missir samkvæmt henni 7 af þeim 12 þingmönnum sem nú eiga sæti á Alþingi fyrir flokkinn.

Af viðbrögðum Guðna við niðurstöðum könnunarinnar að dæma virðist sem hann skýri slæma útkomu flokksins með því að Framsóknarflokkurinn þurfi að taka skellinn af óvinsælum málum, en að Sjálfstæðisflokkurinn sé stikkfrí í umræðum um þau.

Það er ekki nýtt að Sjálfstæðisflokknum sé kennt um dapurt gengi annarra stjórnmálaflokka í skoðanakönnunum.  Núverið gerði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, það og nú beinir Guðni Ágústsson spjótum sínum að Sjálfstæðisflokknum.

Það er ekki stórmannlegt að kenna öðrum um eigin ófarir.  Það er heldur ekki trúverðugt.  Að mínu mati geta framsóknarmenn ekki kvartað undan samstarfi sínu við Sjálfstæðisflokkinn.  Fram til þessa höfum við sjálfstæðismenn stutt við bakið á framsóknarmönnum í stjórnarsamstarfinu og öfugt.  Ég hef ekki orðið var við það að við í þingflokki sjálfstæðismanna höfum þvælst mikið fyrir Framsóknarflokknum á þessu kjörtímabili.  Þvert á móti höfum við staðið þétt við bakið á þeim í erfiðum málum.  Ég minnist þess til dæmis þegar Valgerður Sverrisdóttir, þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, var að reyna að koma í gegnum þingið svokölluðu vatnalagafrumvarpi gegn mikilli andstöðu stjórnarandstöðuflokkanna.  Þá studdu ekki margir framsóknarmenn málstað ráðherra síns, en við þingmenn Sjálfstæðisflokksins stóðum vaktina og börðum málið blóðugir upp að öxlum í gegnum þingið með ráðherranum.

Í tilefni af ummælum Guðna Ágústssonar um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið stikkfrí í erfiðum málum er nauðsynlegt að minna á eitt atriði í því sambandi.  Fyrir síðustu alþingiskosningar hlaut Framsóknarflokkurinn glæsilega kosningu í Norðaustur-kjördæmi og fékk fjóra menn kjörna, Valgerði Sverrisdóttur, Jón Kristjánsson, Dagnýju Jónsdóttur og Birki Jón Jónsson.  Í sömu kosningum náðu tveir sjálfstæðismenn kjöri í kjördæminu, Halldór Blöndal og Tómas Ingi Olrich, en Arnbjörg Sveinsdóttir tók síðar sæti hans.  Ástæðan fyrir hinni glæsilegu útkomu Framsóknarflokksins í kjördæminu var vafalaust sú að fyrir kosningarnar hafði ríkisstjórnin tekið ákvörðun um gríðarlega uppbyggingu á Austurlandi, sem var bygging Kárahnjúkavirkjunar og álvers á Reyðarfirði.  Framsóknarflokkurinn naut þess að ríkisstjórnin ákvað að ráðast í þessa uppbyggingu fyrir austan.  Sjálfstæðisflokkurinn naut ekki þeirra verka.

Frá því að síðustu alþingiskosningum lauk hefur orðið ákveðin viðhorfsbreyting meðal almennings þegar kemur að stóriðjuframkvæmdum.  Þær voru vinsælar en eru það ekki lengur í sama mæli.  Eins mikið og Framsóknarflokkurinn græddi á vinsældum framkvæmdanna fyrir austan fyrir síðustu kosningar er eðlilegt að flokkurinn tapi á óvinsældum sama máls nú.  Guðni Ágústsson og aðrir framsóknarmenn geta ekki ætlast til þess að njóta ríkulega ávaxtanna af framkvæmdunum fyrir austan en eftirlátið síðan Sjálfstæðisflokknum að taka út fylgistap vegna breyttra viðhorfa.  Slíkt væri ekki sanngjarnt og það veit Guðni.

Ég held að fylgistap Framsóknarflokksins eins og það birtist í skoðanakönnunum þessa dagana megi útskýra með öðrum hætti en þeim einum að Framsóknarflokkurinn þurfi að axla ábyrgð á óvinsælum og erfiðum málum sem ríkisstjórnin hefur talað fyrir.

Þetta kjörtímabil hefur verið Framsóknarflokknum erfitt.  Þeir erfiðleikar hafa ekki verið búnir til af Sjálfstæðisflokknum, heldur hafa þeir orðið til innan búðar í Framsóknarflokknum.  Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, náði ekki vopnum sínum þegar hann tók við sem forsætisráðherra.  Það duldist engum.  Fyrirvaralítið bortthvarf hans af vettvangi stjórnmálanna og úr forystu Framsóknarflokksins veikti flokkinn í þeim skilningi að tómarúm myndaðist og óvissa um forystu til framtíðar, enda hafði Árni Magnússon, sem margir töldu arftaka Halldórs í formannsstólnum, horfið skyndilega úr stól félagsmálaráðherra og til annarra starfa.  Brotthvarf Halldórs leiddi til átaka í Framsóknarflokknum.  Átök Jóns Sigurðssonar, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Sivjar Friðleifsdóttur, heilbrigðisráðherra, um formennsku í flokknum að Halldóri gengnum voru hörð og skiptu flokknum í fylkingar.  Það sama má segja um átök Jónínu Bjartmarz, umhverfisráðherra, og Guðna Ágústssonar um varaformannsstólinn.  Og Guðni þurfti síðan að sæta því að Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, skoraði hann á hólm í prófkjöri flokksins í Suðurkjördæmi.  Er þá ónefndur Kristins hlutur Gunnarssonar, sem vann pólitísk hryðjuverk í þingflokki Framsóknarflokksins meðan hann átti þar sæti og gerði flokknum erfitt fyrir í mörgum mikilvægum málum.

Þar við bætist að Framsóknarflokknum hefur ekki tekist að koma fram sem sameinað stjórnmálaafl í mikilvægum málum og á stundum hefur verið erfitt að átta sig á því hver stefna flokksins er í mikilvægum málum.  Nægir þar að nefna stefnu Framsóknarflokksins í Evrópumálum.  Halldór Ásgrímsson og fleiri hölluðust meira og meira að aðild Íslands að Evrópusambandinu á meðan aðrir málsmetandi menn í forystunni, svo sem Guðni Ágústsson varaformaður, voru og eru ákafir andstæðingar aðildar.

Ég held að þær þrautir sem hér er líst og Framsóknarflokkurinn hefur gengið í gegnum á þessu kjörtímabili skýri frekar út gengi flokksins í skoðanakönnunum en þau umdeildu mál sem Guðni Ágústsson vísaði til í viðtalinu við fréttavef Morgunblaðsins.  Og eitt er víst að Sjálfstæðisflokkurinn ber enga ábyrgð á þessum erfiðleikum framsóknarmanna.

Við sjálfstæðismenn börmum okkur ekki undan erfiðum málum.  Séu þau til staðar bendum við á lausnir til þess að leysa þau.  Við göngum til þessara kosninga stoltir af verkum okkar og forðumst að afsaka tilveru okkar eða þeirra verka og stefnumála sem við stöndum fyrir.  Þess vegna mun okkur vegna vel í komandi kosningum.

Sigurður Kári.


Hreppaflutningar stúdenta

Guðjón Ólafur Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins í Reykjavík, skrifaði grein í Morgunblaðið í gær undir fyrirsögninni ,,Hreppaflutningar stúdenta.” Tilefni skrifanna eru ummæli Kolbrúnar Halldórsdóttur, þingmanns Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs á fundi sem Stúdentaráð Háskóla Íslands hélt á dögunum þar sem frambjóðendur allra flokka ræddu við stúdenta um hagsmunamál þeirra, þar á meðal lausnir stjórnmálamanna á húsnæðisvanda stúdenta og uppbyggingu stúdentagarða á vegum Félagsstofnunar stúdenta.  Ég var fulltrúi Sjálfstæðisflokksins á fundinum.

Kolbrún Halldórsdóttir lýsti því yfir á fundinum að hún vildi leysa vandann með því að senda háskólastúdentana hreppaflutningum til Keflavíkur og koma þeim fyrir í fyrrverandi húsnæði bandaríska hersins á Miðnesheiði og byggja síðan raflest til þess að koma þeim daglega á til og frá skóla.  Ummælum Kolbrúnar lýsir Guðjón Ólafur með þessum hætti í ágætri grein sinni:

,,Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, taldi hins vegar bestu lausnina þá að stúdentum við Háskóla Íslands yrði komið fyrir í fyrrverandi húsnæði bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli, og þaðan gætu þeir ekið kvölds og morgna til náms í Reykjavík. Undir þessa hugmynd tók Jón Magnússon, frambjóðandi Frjálslynda flokksins.”

Seint verður sagt að Kolbrún hafi hrifið salinn með sér með þessum tillöguflutningi og hlotið rífandi undirtektir.  Fremur má lýsa viðbrögðunum með þeim hætti að stúdenta hafi sett hljóða.

Síðar í greininni segir Guðjón Ólafur:

,,Satt best að segja veldur það mér nokkrum vonbrigðum og áhyggjum að Vinstri grænir og Frjálslyndi flokkurinn skuli ekki hafa meiri metnað fyrir hönd Félagsstofnunar stúdenta og stúdenta við Háskóla Íslands en raun ber vitni.  Í raun er þetta skammarleg framkoma við stúdenta og stúdentaráð og mikil vanvirða við þá miklu uppbyggingu stúdentagarða sem átt hefur sér stað við Háskóla Íslands á undanförnum árum og áratugum.

Framsóknarflokkurinn mun ekki taka þátt í slíkum hreppaflutningum á stúdentum við Háskóla Íslands.  Á þess háttar vinstri gölnum hugmyndum verða aðrir að bera ábyrgð.”

Ég get tekið undir þessi orð Guðjóns Ólafs.  Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki leysa húsnæðisvanda háskólastúdenta með því að senda þá hreppaflutningum yfir í önnur sveitafélög heldur beita sér fyrir frekari uppbyggingu á stúdentagörðum í nágrenni Háskóla Íslands.

Í ágætri stefnuskrá sem Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur gefið út í aðdraganda alþingiskosninganna, ,,Gerum menntamál að kosningamáli”, benda stúdentar á ástæður þess að stúdentar búi við húsnæðisskort, en þar segir:

,,Mikill skortur er á stúdentaíbúðum og vegna skorts á byggingalóðum hefur uppbygging þeirra ekki haldið í við fjölgun stúdenta.”

Þetta er kjarni málsins.  Skortur á byggingalóðum í Reykjavík hefur gert það að verkum að uppbygging stúdentaíbúða hefur ekki verið í samræmi við þá þörf sem til staðar er meðal stúdenta eftir ódýru leiguhúsnæði.  Eins og ég benti á á fundinum þá er það ekki ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem ber ábyrgð á þessum lóðaskorti sem stúdentar lýsa réttilega í stefnuskrá sinni.  Þá ábyrgð bera forystumenn Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks sem mynduðu meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur frá árinu 1994, undir merkjum R-listans og forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar.

Nú er blessunarlega búið að skipta um meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur.  Á fundinum lýsti ég yfir vilja mínum til þess að ræða við forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn til þess að greiða fyrir lóðaúthlutun undir stúdentagarða svo hefja megi þá uppbyggingu sem nauðsynlegt er að ráðast í.

Sigurður Kári.

Kosningabaráttan - Ný heimasíða breidholtið.is - Grettir frumsýndur

Það er góður gangur í kosningabaráttunni hjá okkur sjálfstæðismönnum.  Hvar sem maður kemur finnum við fyrir miklum meðbyr og mér finnst eins og stemningin sé með okkur í þessum kosningum.  Ég leyfi mér að niðurstöður skoðanakannanna staðfesti þessa tilfinningu enda höfum við verið á uppleið í þeim og mælumst nú með ríflega 40% fylgi í hverri könnuninni á fætur annarri.

Ég held að ástæðan fyrir þessu góða gengi Sjálfstæðisflokksins sé sú að Íslendingar treysti sjálfstæðismönnum best til þess að stjórna landinu og séu tregir til þess að gera einhverjar tilraunir með landsstjórnina.  Slíkar tilraunir geta reynst fjölskyldunum í landinu og atvinnulífinu dýrkeyptar.  Fólk er búið að átta sig á því að góðærið er ekki náttúrulögmál og það þarf trausta og ábyrga efnahagsstjórnun til þess að halda því við.  Það getur nefnilega brugðið til beggja vona ef vinstriflokkanir komast til valda og reynsla Íslendinga af stjórn vinstrimanna er allt annað en góð.

Það er líka athyglisvert að sjá að á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn tekur flugið í skoðanakönnunum, eyðir flokkurinn minnstum fjármunum í auglýsingar í kosningabaráttunni.  Í nýlegri frétt kom fram að Sjálfstæðisflokkurinn hefur fram til þessa eytt minnstum fjármunum en Framsóknarflokkurinn trónir á toppnum.  Virðist því ekki vera samhengi milli mikilla auglýsinga og gengis í skoðanakönnunum.  Reynsla fólks af verkum stjórnmálaflokkanna, verk þeirra og málefni virðast skipta meiru, sem er vel að mínu mati.

Um helgina höfum við frambjóðendurnir verið á þönum út um allan bæ.  Á föstudag fór ég á vel heppnað karlakvöld KR þar sem ég samgladdist KR-ingum sem tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik á dögnum.  Við Sindri skelltum okkur á lokaleikinn, sem var ótrúlega spennandi og skemmtilegur og það er magnað hversu góða stemningu KR-ingar náðu að byggja upp í tengslum við leikinn.

Á laugardaginn mætti ég í “brunch” á kosningaskrifstofu okkar sjálfstæðismanna í Breiðholtinu, ásamt Guðfinnu S. Bjarnadóttur, Ástu Möller og Ragnhildi Guðjónsdóttur.  Það var afar vel mætt og mikil stemning, eins og gjarnan er í kosningastarfi flokksins í mínu gamla hverfi, Breiðholtinu.  Mér finnst rétt að vekja athygli á því að nýverið opnuðu sjálfstæðismenn í Breiðholti nýja og glæsilega heimasíðu sem komið var upp í tengslum við kosningarnar.  Slóðin á heimasíðuna er http://www.breidholtid.is.  Ég vil nota tækifærið og óska sjálfstæðismönnum í Breiðholti til hamingju með heimasíðuna, en framtakið sýnir hversu öflugt okkar fólk í hverfinu er.  Síðdegis á laugardaginn opnuðu sjálfstæðismenn í mínu nýja hverfi, Vesturbænum, glæsilega kosningaskrifstofu í JL-húsinu.  Margmenni var við opnunina sem tókst í alla staði mjög vel.

Í dag ætla ég að líta við í heimsókn í Breiðholtinu og klukkan 16.00 opnar kosningaskrifstofa okkar sjálfstæðismanna í Grafarvoginum.  Ætla má að mikill fjöldi sjálfstæðismanna muni leggja leið sína á opnunina enda er Grafaravogurinn orðinn eitt helsta vígi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Í kvöld ætla ég síðan að skella mér á frumsýningu söngleiksins Grettir í Borgarleikhúsinu.  Leikstjóri sýningarinnar er æskuvinur minn Rúnar Freyr Gíslason og ég hlakka mikið til að sjá afrakstur allrar hans vinnu síðustu mánuði.

Sigurður Kári.


74,1% landsmanna vill lækka tekjuskatt!

Morgunblaðið birtir á baksíðu í dag stórmerkilegar niðurstöður skoðanakönnunar sem Capacent Gallup gerði fyrir blaðið. 

Samkvæmt könnuninni telja 52,6% 10% fjármagnstekjuskatt vera hæfilegan.  27,9% töldu hann of lágan og 19,5% of háan.  Þegar spurt var um afstöðu fólks varðandi tekjuskatt fyrirtækja töldu 58,2% svarenda að 18% tekjuskattur væri hæfilegur.  22,7% töldu hann of lágan, en 19,1% of lágan.  Þessar niðurstöður fela í sér vísbendingu um að landsmenn séu ánægðir með þá stefnu sem við höfum framfylgt á síðustu árum hvað varðar tekjuskatt fyrirtækja og fjármagnstekjuskatt.

Stóra fréttin í könnuninni og það athyglisverðasta við hana er að samkvæmt henni telja hvorki meira né minna en 74,1% landsmanna 35,72% tekjuskatt einstaklinga of háan!  24,4% telja þetta skatthlutfall hæfilegt en einungis 1,5% telja tekjuskattinn of lágan og vilja því væntanlega hækka hann.  Það vekur athygli í niðurstöðum könnunarinnar að 69,8% karla telja tekjuskatt of háan, en hvorki meira né minna en 78,2% kvenna.

Á síðasta kjörtímabili réðist ríkisstjórnin, undir forystu Sjálfstæðisflokksins, í mestu skattalækkanir á lýðveldistíma.  Tekjuskattur einstaklinga var lækkaður um 3% og skattleysismörk hækkuð, hátekjuskattur afnuminn, virðisaukaskattur á nauðsynjavörur var lækkaður úr 24,5% og 14% í 7%, elsti skattur Íslandssögunnar, eignaskatturinn, var afnuminn og erfðafjárskattur lækkaður stórkostlega.  Áður hafði tekjuskattur fyrirtækja verið lækkaður, fyrst úr 50% í 30% og síðar úr 30% og niður í 18%.

Samfylkingin og Vinstri grænir börðust með oddi og egg gegn þessum skattalækkunum á fólkið í landinu.  Fyrir það geta þeir ekki þrætt.

Niðurstaða skoðanakönnunar Capacent Gallup er rothögg fyrir skattastefnu vinstriflokkanna.  Að minnst kosti hljóta talsmenn þeirra að hafa vankast hressilega þegar þeir lásu niðurstöður hennar á baksíðu Morgunblaðsins í morgun, enda sýna þær að skattastefna Samfylkingarinnar og Vinstri grænna hefur ekki átt upp á pallborðið hjá almenningi í landinu.

Niðurstöðurnar eru hins vegar ánægjulegar fyrir okkur Sjálfstæðismenn.  Við höfum verið í fararbroddi fyrir skattalækkunum á fólk og fyrirtæki í landinu og ætlum okkur að halda áfram á sömu braut á næsta kjörtímabili.  Stuðningur almennings í könnun Capacent Gallup styrkir okkur í þeirri trú að við séum á réttri leið í skattamálum.

Sigurður Kári.

Skynsöm hagstjórn Samfylkingar?

Það var beinlínis fyndið að lesa grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær, en höfundur hennar er enginn annar en Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður flokksins.  Greinin ber yfirskriftina ,,Skynsöm hagstjórn Samfylkingar”, en þar fjallar Ágúst Ólafur um nýtt rit sem Jón Sigurðsson, fyrrum iðnaðar- og viðskiptaráðherra og þingmaður Alþýðuflokksins, samdi fyrir Samfylkinguna.  Í niðurlagi greinarinnar segir Ágúst Ólafur:

,,Öllum sem glugga í þetta rit má vera ljóst að Samfylkingin er ábyrg í efnahagsmálum þar sem jafnvægi er meginmarkmið og kjör almennings eru sett í forgrunn, enda sýna kannanir að fyrirtæki eru almennt samkeppnishæfari í þeim löndum þar sem það er gert.  Við teljum okkur geta stjórnað efnahagsmálum betur en núverandi ríkisstjórn hefur gert og ég er sannfærður um að við munum gera það.”

Það trúir því auðvitað enginn að stjórnmálaflokkur sem ekki treystir sér til að semja eigin stefnu í efnahagsmálum, heldur þarf að kalla sér til aðstoðar gamlan ráðherra sem fyrir löngu yfirgaf stjórnmálin til þess að semja stefnuna fyrir sig, geti stjórnað efnahagsmálum á Íslandi, hvað þá betur en núverandi ríkisstjórn hefur gert, eins og Ágúst Ólafur heldur fram í greininni.  Í mínum huga er augljóst að forysta Samfylkingarinnar hafi annað hvort áttað sig á því að hún væri svo rúin trausti almennings þegar kemur að umræðum um efnahagsmál að líklegra væri að hún væri trúverðug að fá utanaðkomandi mann til þess að semja stefnuna fyrir sig eða að hún hefur ekki talið sig hafa neitt fram að færa í málaflokknum.

Ég verð að gera þá játningu að ég tók Ágúst Ólaf á orðinu og gluggaði í ritið sem Jón Sigurðsson skrifaði fyrir Samfylkinguna.  Þar er víða vikið að mikilvægi þess að auka þurfi aðhald í ríkisrekstri.  Ég er sammála Jóni um mikilvægi þess að ríkið gangi á undan með góðu fordæmi og sýni ráðdeild og sparnað í sínum rekstri.  Þessu sjónarmiði hef ég ítrekaði haldið fram á Alþingi.

Hins vegar virðist Jón Sigurðsson ekki hafa náð eyrum þeirra sem hann samdi skýrsluna fyrir, því daginn eftir að stefna hans var kynnt fór Samfylkingin að auglýsa áherslumál sín í aðdraganda kosninga og dæmi hver fyrir sig í hversu aðhaldssamar efnahagsaðgerðir flokkurinn hyggst hella sér í að þeim loknum.

Sem dæmi má nefna auglýsingu frá Samfylkingunni í Morgunblaðinu, en þar segja tveir frambjóðendur flokksins, þau Katrín Júlíusdóttir og Guðvarður Hannesson,,Við viljum ókeypis námsbækur fyrir framhaldsskólanema.”

Skömmu síðar birtist önnur auglýsing frá Samfylkingunni, nú í Fréttablaðinu.  Þar boða Anna Kristín Gunnarsdóttir og Kristján L. Möller nýjar lausnir í atvinnumálum á landsbyggðinni” og segja:  ,,Við viljum bjóða 1200 störf óháð staðsetningu á næsta kjörtímabili.” Væntanlega er samfylkingardúettinn að leggja áherslu á fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni, enda stendur hvorugt þeirra í atvinnurekstri, að minnsta kosti ekki svo vitað sé.  Í þessu sambandi má minna á að áætlaður kostnaður ríkisins vegna nýlegra tillagna nefndar um fjölgun starfa á Vestfjörðum um 80 til 120 er um 500 milljónir króna á ári.

Samfylkingin birti aftur auglýsingu í Fréttablaðinu, nú um tannlæknakosnað.  Þar segja Róbert Marshall og Steinunn Valdís Óskarsdóttir,,Við viljum tryggja ókeypis tannvernd fyrir börn - Foreldrar eiga ekki að borga svona mikið fyrir tannviðgerðir barna sinna.”

Á dögunum birtist síðan athyglisverð frétt á vefsíðu Morgunblaðsins þar sem fram koma áherslur Samfylkingarinnar í samgöngumálum, en þar sagði:
,,Kristján Möller, alþingismaður segir Samfylkinguna vilja að ríkið kosti gerð Vaðlaheiðarjarðganga svo ekki komi til veggjalds. Kostnaður við gerð ganganna er nær sex miljarðar. Þetta kemur fram á vefsíðu Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Fram kemur að Kristján telji að svigrúm til þessa hafi skapast eftir að stækkun álvers var fellt í Hafnafirði. Ennfremur segist hann vilja hann gera stórátak í samgöngumálum í stað stóriðju á höfuðborgarsvæðinu.”

Þá var eftirfarandi haft eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Össuri Skarpéðinssyni í auglýsingu í Morgunblaðinu,,Í vor getur þú kosið biðlistana burt - Við ætlum að byggja 400 hjúkrunarrými fyrir aldraða á næstu 18 mánuðum.”

Á umræðufundi á Ísafirði á mánudaginn var, sem sjónvarpað var frá í Ríkissjónvarpinu, var fjallað um sjávarútvegsmál.  Fulltrúi Samfylkingarinnar í umræðunni var Össur Skarphéðinsson.  Þó Össur hefði forðast eins og heitan eldinn að nefna að Samfylkingin vildi taka upp fyrningarleið í sjávarútvegi hélt hann fram öllum rökunum fyrir þeirri leið sem stefnu Samfylkingarinnar án þess að nefna hana á nafn.  Össur tók þó sérstaklega fram það nýmæli í stefnu Samfylkingarinnar að aflaheimildir yrðu ekki afturkallaðar nema fullar bætur kæmu fyrir.

Yfirlýsingu Össurar um bótarétt útgerða ber að fagna.  Hins vegar er rétt að minna á í þessu samhengi að varlega áætlað hafa íslenskar útgerðir fjárfest í aflaheimildum sínum fyrir um það bil 300 milljarða króna.  Eru þá vantaldar aðrar fjárfestingar í sjávarútvegi, svo sem í fiskiskipum, tækjum, veiðarfærum og öðrum búnaði.  Ætli Samfylkingin að afturkalla núverandi aflaheimildir og greiða bætur fyrir, er líklegt að kostnaður ríkissjóðs vegna bótagreiðslna verði ríkissjóði ofviða.  Deila má um hversu skynsamleg slík hagstjórn teldist.

Að lokum vil ég nefna að áðurnefndur Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, gerði mér þann greiða að draga samviskusamlega saman helstu stefnumál flokksins á heimasíðu sinni, http://www.agustolafur.blog.is, sem samþykkt voru á landsfundi flokksins.  Þau stefnumál sem hafa mesta þýðingu fyrir ríkissjóð og útgjöld hans eru eftirfarandi:

1. Fella niður tolla af matvælum í áföngum í samráði við hagsmunaaðila.

2. Afnema stimpilgjöld af lánum vegna húsnæðiskaupa.

3. Afnema vörugjöld af matvælum.

4. Lækka virðisaukaskatt af lyfjum úr 24,5% í 7%. Samfylkingin lagði þessa tillögu fram fyrir jól og bæði Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur kusu gegn þessari tillögu.

5. Fjórfalda framlag í Rannsóknarsjóð og Tækniþróunarsjóð á næstu 4 árum.

6. Byggja 300-400 ný hjúkrunarrými á næstu átján mánuðum.

7. Lækka skatta á lífeyrissjóðsgreiðslum úr 35,72% í 10%.

8. Hækka frítekjumark vegna tekna aldraðra í 100.000. kr. á mánuði. Það gildi jafnt um lífeyrissjóðs- og atvinnutekjur.

9. Bæta tannvernd barna m.a. með ókeypis eftirliti.

10. Lengja fæðingarorlofið í eitt ár og tryggja börnum einstæðra foreldra sama rétt og öðrum börnum til samvista við foreldra.

11. Tryggja að öll börn geti tekið þátt í íþrótta-, tómstunda- og félagsstarfi, sem og listnámi.

12. Bjóða upp á ókeypis námsbækur í framhaldsskólum.

13. Breyta 30% námslána í styrk að loknu námi.

Ég skal fúslega játa að ég er sammála ýmsu sem fram kemur á þessum lista.  Ég leyfi mér hins vegar að efast um að sú stefnumörkun sem hann felur í sér sé í miklu samræmi við varnaðarorð Jóns Sigurðssonar um aðhald í ríkisrekstri sem fram koma í skýrslunni sem hann samdi fyrir Samfylkinguna.

Í fullri vinsemd leyfi ég mér því að benda Jóni Sigurðssyni á það, hér á þessum vettvangi, að einbeita sér fyrst að því að þagga niðri í frambjóðendum og forystu Samfylkingarinnar, áður en hann beinir spjótum sínum að þeim sem undanfarið hafa farið með stjórn efnahagsmála á Íslandi.

Sigurður Kári.

Sorglegur bruni í miðborg Reykjavíkur

Það var sorglegt að horfa upp á gömlu húsin við Austurstræti 22 og Lækjargötu 2 í ljósum logum í gær.  Húsin sem brunnu mynda eina elstu og þekktustu götumynd Reykjavíkur, enda geyma húsin þýðingarmikla sögu borgarinnar.

Húsið við Austurstræti 22 var byggt árið 1801.  Það var Ísleifur Einarsson, dómari við Landsyfirréttinn, sem lét byggja húsið.  Ég minnist þess að minn gamli kennari í réttarsögu við lagadeild Háskóla Íslands, Sigurður Líndal, prófessor emeritus, sagði mér frá þessari merku sögu hússins fyrir mörgum árum þegar við gengum framhjá húsinu, en hann býsnaðist þá yfir því að það hefði á síðustu árum misst alla reisn eftir að það fór að hýsa skemmtanahald í miðborg Reykjavíkur.  Þar bjó einnig Trampe greifi, en á hans tíma þótti húsið eitt hið glæsilegasta í Reykjavík.  Eftir að Jörundur hundadagakonungur handtók greifann settist hann sjálfur þar að um stutta hríð.  Á 19. öldinni hýsti húsið einnig Landsyfirrétt auk þess sem Prestaskólinn hafði þar aðsetur þar til Háskóli Íslands var settur á stofn árið 1911.  Á 20. öldinni rak Haraldur Árnason þar Haraldarbúð og síðar á öldinni fór þar fram starfsemi tískuverzlunarinnar Karnabæjar.  Ætli ég hafi ekki fyrst komið inn í húsið að Austurstræti 22 þegar Karnabær var þar til húsa og móðir mín vildi klæða mig upp.  Á síðari árum hefur húsið verið vettvangur skemmtanahalds.

Húsið við Lækjargötu 2 á sér líka merka sögu.  Það var byggt árið 1852 en eigandi þess um langa hríð var Sigfús Eymundsson, ljósmyndari og bóksali.  Húsið er fyrsta hornhúsið sem reyst var í Reykjavík og mikilvægur hluti af götumynd Lækjargötu.  Þó svo að lengi hafi verið rekin bókaverslunin Eymundsson eftir daga Sigfúsar heitins hefur þar um margra ára skeið verið rekið eitt vinsælasta veitingahús bæjarins, Café Opera.  Af myndum að dæma virðist sem húsið við Lækjargötu 2 hafi ekki orðið jafn illa úti og húsið við Austurstræti 22 sem vekur von um að hægt verði að ráðast í endurbætur á því.  Lítið er hins vegar eftir af húsinu við Austurstæti 22 og verður það væntanlega rifið.  Það verður hins vegar að teljast mikil mildi að hús Hressingarskálans skyldi ekki hafa orðið eldinum að bráð.  Þó er ljóst að mikil menningarlegar og sögulegar minjar hafa glatast.

Nú tekur við tími uppbyggingar.  Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, hefur boðað að hann vilji beita sér fyrir því að hún gangi hratt fyrir sig.  Hins vegar er mikilvægt að vandað verði til verka og að ekki verði rasað um ráð fram við endurbyggingu eins sögufrægasta götuhorns Reykjavíkur.

Sigurður Kári.


Gleðilegt sumar!

Það verður ekki annað sagt en að sumarið hafi heilsað með stæl, að minnsta kosti hér á höfuðborgarsvæðinu.  Sumardagurinn fyrsti hefur ekki alltaf verið jafn veðursæll og í dag, a.m.k. minnist ég þess að veðrið hafi ekki alltaf verið í samræmi við tilefnið þennan dag, því gjarnan hefur sumarið hafist með roki, rigningu og jafnvel snjókomu.

En sumarið hefur haft fleira gott í för með sér, sérstaklega fyrir okkur sjálfstæðismenn.  Í dag birtir Morgunblaðið niðurstöður skoðanakönnunar Capacent Gallup sem gerð var dagana 10. - 16. apríl.  Könnunin sýnir að Sjálfstæðisflokkurinn bætir verulega við sig fylgi og fengi 40,8% atkvæða ef kosið væri nú og ber höfuð og herðar yfir aðra stjórnmálaflokka.  Það sem er ekki síst ánægjulegt við niðurstöður könnunarinnar er að Sjálfstæðiflokkurinn virðist vera í mikilli sókn hjá konum, en mun fleiri konur ætla að kjósa flokkinn nú en áður.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að vel heppnaður landsfundur Sjálfstæðisflokksins og sú stefna sem þar var mótuð eiga sinn þátt í þessari fylgisaukningu.  Ég held einnig að kjósendur séu farnir að sjá í gegnum loforðaflaum og gylliboð stjórnarandstöðuflokkanna og hafi áttað sig á því að Sjálfstæðisflokkurinn er líklegastur til þess að efla lífskjör fólksins í landinu.

Kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins hófst formlega við setningu landsfundarins.  Frá þeim tíma höfum við frambjóðendur flokksins verið víða á fundum og mannamótum og verið vel tekið, enda er meðbyrinn mikill. 

Sjálfur hef ég verið mikið á ferðinni í dag.  Ég fór í Skátamessu í Hallgrímskirkju í morgun með Sölku og þaðan lá leiðin á sumarhátíð ÍTR við Ingunnarskóla í Grafarholti.  Fjöldi fólks var á báðum stöðum þar sem upphafi sumars var fagnað.  Ég kíkti líka við á sumarhátíð í Grafarvogi og Vesturbæ, auk þess sem við sjálfstæðismenn opnuðum tvær glæsilegar kosningaskrifstofur í Reykjavík.  Þá fyrri opnuðum við í Húsi verzlunarinnar en þá síðari í Landsbankahúsinu við Langholtsveg.  Kosningaskrifstofurnar eru glæsilegar og fullt var út úr dyrum á báðum stöðum.  Áður höfðu verið opnaðar kosningaskrifstofur flokksins í Árbæ og í Breiðholti.  Á laugardag klukkan 14.00 verður síðan opnun kosningaskrifstofu okkar í JL-húsinu og á sunnudag klukkan 16.00 opnar kosningaskrifstofa okkar í Hverafold 5 í Grafarvogi.

Það dylst engum að grasrótarhreyfingin í Sjálfstæðisflokknum er gríðarlega fjölmenn og sterk.  Slíkt er gríðarlega mikilvægt og uppörvandi fyrir okkur sem erum í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Gleðilegt sumar!

Sigurður Kári.


Meirihluti vill bjór og léttvín í búðir

Allt frá því ég tók sæti á Alþingi hef ég ásamt nokkrum félögum mínum úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins, þar á meðal Guðlaugi Þór Þórðarsyni, Birgi Ármannssyni og Bjarna Benediktssyni, lagt fram frumvarp sem heimilar sölu á léttvíni og bjór í búðum.

Frumvarpið hefur mætt mikilli andúð ýmissa flokka og stjórnmálamanna á Alþingi, einkum vinstrimanna sem ekki aðhyllast viðskiptafrelsi.  Hafa andstæðingar frumvarpsins, með Ögmund Jónasson, þingflokksformann Vinstri grænna í fararbroddi, látið sem vind um eyru þjóta skoðanir almennings, en oftar en einu sinni hafa skoðanakannanir sýnt að meirihluti þjóðarinnar er hlynntur því að heimilað verði að selja þessar vörur í matvöruverslunum.

Í Fréttablaðinu í dag er birt skoðanakönnun sem sýnir að tæp 58% svarenda eru fylgjandi þessari breytingu.  62% karla eru henni hlynntir, en 53,2% karla.

Frumvarpið hefur fram til þessa ekki náð fram að ganga á Alþingi.  En við leggjum ekki árar í bát.  Við sem erum talsmenn þessarar sjálfsögðu breytingu munum leggja frumvarpið fram á Alþingi þar til að það verður samþykkt sem lög frá Alþingi.  Vonandi gerist það fyrr en síðar.

Um helgina lýsti landsfundur Sjálfstæðisflokksins yfir stuðningi sínum við þessum áformum okkar.  Í ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins um viðskipta- og neytendamál segir meðal annars:

,,Landsfundur leggur áherslu á að einkarétti ríkisins á verslun með áfengi verði aflétt. Eðlilegt er að hægt sé að kaupa bjór og léttvín utan sérstakra áfengisverslana, t.d. í matvöruverslunum.”

Á komandi kjörtímabili munum við flutningmenn frumvarpsins leggja frumvarpið fram á nýjan leik á grundvelli þess sterka umboðs sem landsfundurinn veitti okkur.  Skoðanakönnun Fréttablaðsins styrkir okkur í þeirri trú að meirihluti þjóðarinnar sé okkur einnig sammála.

Baráttan okkar gegn afturhaldsöflunum heldur því áfram.

Sigurður Kári.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband