Sunnudagur, 1. apríl 2007
Kosningarnar í Hafnarfirði
Í gær gengu Hafnfirðingar að kjörborðinu og sögðu skoðun sína á því hvort heimila ætti stækkun álversins í Straumsvík eða ekki. 12.747 Hafnfirðingar tóku þátt í kosningunni eða tæplega 77% þeirra sem voru á kjörskrá. Niðurstaðan varð sú að 6382, eða 50,06%, höfnuðu stækkun álversins en 6294, eða 49,37%, voru henni fylgjandi. Einungis 88 atkvæði skyldu á milli fylgismanna stækkunnar og þeirra sem voru henni mótfallinir, eða innan við 1% atkvæða.
Í kosningunum í Hafnarfirði var tekist á um hagsmuni sem varða bæjarbúa og jafnvel landsmenn miklu. Þessir hagsmunir varða framtíðartekjur bæjarins af starfsemi álversins sem nýttir hafa verið á síðustu áratugum til að byggja upp innviði þess og þá þjónustu sem bæjarbúum stendur til boða. Þeir varða jafnframt atvinnuhagsmuni þeirra fjölmörgu bæjarbúa sem starfa hjá Alcan og fjölskyldna þeirra. Ennfremur varða þeir umhverfismál innan bæjarfélagsins. Óhætt er að fullyrða að sjaldan á síðustu árum hafi niðurstaða kosninga í Hafnarfirði varðað hagsmuni bæjarbúa jafn miklu og í þessum kosningum.
Í ljósi þess þótti mér merkilegt hversu lítið fór fyrir Lúðvíki Geirssyni, bæjarstjóra Hafnarfjarðar, og bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar í tengslum við þessar kosningar. Í hvert skipti sem bæjarstjórinn kom fram forðaðist hann eins og heitan eldinn að taka efnislega afstöðu til þess hvort hann teldi að heimila ætti stækkun álversins eða ekki. Þess í stað talaði Lúðvík einvörðungu um formsatriði, það er að segja um mikilvægi kosninganna fyrir lýðræðið í bænum, framkvæmd þeirra og svo framvegis. Hins vegar upplýsti sjálfur bæjarstjórinn aldrei um afstöðu sína til þess málefnis sem kosið var um.
Einhversstaðar heyrði ég eftir Lúðvíki haft að honum þætti ekki viðeigandi að hann reyndi að hafa pólitísk áhrif á niðurstöður kosninganna. Þessi afstaða bæjarstjórans er furðuleg. Það er í hæsta máta óeðlilegt að bæjarstjórinn í Hafnarfirði komist upp með það að hafa enga opinbera skoðun á því hvort það þjónaði hagsmunum bæjarbúa að álverið í Straumsvík yrði stækkað eða ekki, ekki síst þegar tekist er á um svo mikla hagsmuni eins og hér hefur verið líst. Það er einmitt við slíkar aðstæður sem fulltrúar almennings sem kjörnir hafa verið til þess að gæta hagsmuna þeirra eiga að láta til sín taka.
Framganga Lúðvíks Geirssonar í aðdraganda kosninganna í Hafnarfirði er lýsandi fyrir þann vanda sem Samfylkingin og fulltrúa þeirra eiga við að etja um þessar mundir. Samfylkingin er stefnulaus stjórnmálaflokkur og hafi fulltrúar flokksins skoðanir á mikilvægum málum virðast þeir ekki hafa bein í nefinu til þess að lýsa þeim.
Það verður fróðlegt að sjá hver langtímaáhrif niðurstöður kosninganna í Hafnarfirði munu verða. Ljóst er að Alcan þarf að breyta sínum varðandi rekstur álversins og raunar er ekki hægt að skilja ummæli forsvarsmanna fyrirtækisins öðruvísi en svo að framtíð þeirrar starfsemi sem það hefur starfrækt í Hafnarfirði sé óljós. Þá er ljóst að virkjunaráform Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur verða endurskoðuð í ljósi niðurstöðu kosninganna. Þá má nefna að í fréttum dagsins hefur komið fram að vera kunni að minnkandi orkusala til stóriðju kunni að leiða til hækkunar orkuverðs vegna heimilisnota þar sem orkusala til stóriðju hafi fram til þess að verið nýtt til að niðurgreiða orkukostnað almennings.
Það verður því athyglisvert að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér í þessum efnum.
Sigurður KáriFöstudagur, 30. mars 2007
Vændi á Íslandi í ljósi breytinga á almennum hegningarlögum
Í dag flutti ég ræðu og sat svo fyrir svörum á málþingi sem Lögrétta, félag laganema við Háskólann í Reykjavík, stóð fyrir. Yfirskrift fundarins var ,,Vændi á Íslandi í ljósi breytinga á almennum hegningarlögum. Ræðumenn á fundinum ásamt mér voru Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, og Jón H. B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri.
Í ræðu minni á fundinum lýsti ég því hversu vandað frumvarp dómsmálaráðherra, Björns Bjarnasonar, um endurskoðun á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga var, en frumvarpið var samið af Ragnheiði Bragadóttur, prófessor í refsirétti við Háskóla Íslands.
Endurskoðun á kynferðisbrotakaflanum var vandasamt verk og því var mikilvægt að vandað væri til verka. Grundvallarreglur réttarríkisins krefjast þess að stöðugleiki ríki í réttarframkvæmd, ekki síst þegar refsiheimildir eru annars vegar. Tel ég, eins og áður segir, að vel hafi tekist til og eiga þeir sem að málinu standa að mínu mati hrós skilið fyrir.
xxxxx
Á fundinum lýsti ég því yfir að ég hefði orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með þá umfjöllun sem þetta frumvarp, sem nú er orðið að lögum, hefði hlotið á síðustu vikum, einkum í fjölmiðlum, en í því fólgst heildarendurskoðun á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga.
Fyrir þá sem ekki fylgjast með störfum Alþingis frá degi til dags mætti ætla, miðað við fréttaflutning af málinu, að með samþykkt frumvarpsins hafi Alþingi fyrst og fremst verið að lögleiða vændi á Íslandi. Hafa sumir stjórnmálamenn, einkum Atli Gíslason frambjóðandi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs á Suðurlandi, reynt að einskorða hina pólitísku umræðu við vændisþátt frumvarpsins með því að setja fram þá spádóma að innan tíðar muni spretta upp svokölluð rauð hverfi í kjölfar samþykktar þess. Slíkur málflutningur er að mínu mati villandi og ómálefnalegur.
Sú endurskoðun á kynferðisbrotakaflanum sem ráðist var í fjallar nefnilega ekki nema að litlum hluta um vændi. Þvert á móti var um að ræða heildarendurskoðun á kynferðisbrotakafla hegningarlaganna sem hafði það að meginmarkmiði að auka mjög réttarvernd þolenda allra kynferðisbrota, ekki síst barna.
Í ljósi þess er ástæða til að rifja upp hvaða nýmæli lögin mæla fyrir um en þau eru eftirfarandi:
1. Að hugtakið nauðgun sé rýmkað mjög frá því sem nú er og að refsing verði þyngd verulega frá því sem nú er, þ.e. fangelsi frá 1 ári og allt að 16 árum, í stað fangelsis allt að 6 árum.
2. Að lögfesta ákvæði um nokkur atriði sem verka skuli til þyngingar við ákvörðun refsingar fyrir nauðgun. Eitt þeirra er ungur aldur þolenda.
3. Að lögfesta almennt ákvæði um refsiábyrgð vegna kynferðislegrar áreitni.
4. Að lögfesta ákvæði um ítrekunaráhrif þannig að ítrekunartengsl verði á milli allra kynferðisbrotanna. Fyrri dómur fyrir kynferðisbrot getur þá leitt til refsihækkunar ef dómþoli gerist sekur um kynferðisbrot á ný.
5. Að mæla fyrir um að refsing fyrir samræði og önnur kynferðismök við barn yngra en 14 ára verði þyngd og að refsimörkin verði hin sömu og fyrir nauðgun, þ.e. fangelsi frá 1 ári og allt að 16 árum.
6. Að lögfesta yrði ákvæði um heimild til refsilækkunar eða refsibrottfalls þegar sá sem gerist sekur um samræði eða önnur kynferðismök gagnvart barni yngra en 14 ára er sjálfur á svipuðum aldri og þroskastigi og barnið.
7. Að upphaf fyrningarfrests kynferðisbrota miðist við 18 ára aldur brotaþola, en ekki 14 ár eins og nú er. Refsihámark fyrir kynferðislega áreitni gegn börnum verði hækkað þannig að brot gegn yngstu börnunum fyrnist á lengri tíma en samkvæmt núgildandi lögum og að alvarlegustu kynferðisbrot gegn börnum verði ófyrnanleg.
8. Að ákvæði um niðurfellingu refsingar fyrir tiltekin kynferðisbrot ef aðilar sem mökin hafa gerst á milli halda áfram sambúð, taka upp óvígða sambúð eða ganga í hjónaband falli niður.
9. Að ákvæði 1. mgr. 206. gr. um refsingu fyrir að stunda vændi sér til framfærslu falli niður. Þess í stað verði lögfest ákvæði um refsinæmi þess að bjóða fram, miðla eða óska eftir kynmökum við annan mann í opinberum auglýsingum.
Eins og sjá má af þessari upptalningu þá fela hin nýju lög í sér verulegar réttarbætur fyrir þolendur kynferðisbrota frá því sem nú er og varða miklu fleiri þætti en einungis vændi. Í ljósi hennar geta menn síðan velt því fyrir sér með sjálfum sér hvort þeir telji að fókusinn í umfjöllun um þetta mál hafi verið rétt stilltur.
xxxxx
Ef einungis er horft til þeirrar breytingar sem gerð var á vændisákvæðinu þá var því breytt á þann veg að það að stunda vændi sér til framfærslu var gert refsilaust.
Eftir stendur hins vegar áskilnaður um að sá sem hefur atvinnu eða viðurværi sitt af vændi annarra skuli sæta fangelsi allt að 4 árum.
Með öðrum orðum gerir breytingin ráð fyrir því að vændi til framfærslu sé gert refsilaust, en að áfram sé lögð refsing við milligöngu. Melludólgum er því eftir sem áður ekki sýnd nein vægð.
Til þess að setja þetta í samhengi er nauðsynlegt að rifja það upp að samkvæmt eldra vændisákvæði almennra hegningarlaga, þ.e. 1. mgr. 206. gr., varðaði það fangelsi allt að 2 árum að stunda vændi sér til framfærslu.
Samkvæmt ákvæðinu var vændi ekki refsivert nema gerandinn stundaði það sér til framfærslu. Það var því ekki nægilegt til refsinæmis að hafa kynmök gegn borgun í eitt eða nokkur skipti. Þessi háttsemi þurfti að hafa verið stunduð í það ríkum mæli að endurgjald fyrir hana væri verulegur hluti af framfærslu viðkomandi, hvort sem það var eina tekjulind hans eða aðaltekjulind eða a.m.k. það umfangsmikil tekjulind að það munaði verulega um það endurgjald sem fékkst fyrir vændið í framfærslu þess sem það stundaði. Vændið var því ólögleg og refsiverð leið til framfærslu.
Það mátti því leiða þá reglu út af vændisákvæðinu eins og það var í almennum hegningarlögum að vændi hafi verið löglegt, að minnsta kosti upp að vissu marki. Af þeirri ástæðu er hæpið að tala um að Alþingi hafi með breytingunni á almennum hegningarlögum nú verið að lögleiða vændi
Rökin sem færð eru fyrir því í frumvarpinu að gera það refsilaust að stunda vændi eru ekki flókin.
Fyrir það fyrsta má nefna að fram að samþykkt frumvarpsins var Ísland eina Norðurlandaþjóðin sem hafði ákvæði í sinni löggjöf sem kvað á um refsinæmi vændis.
Meginröksemdin fyrir breytingunni var hins vegar sú að þeir sem hafa viðurværi sitt af sölu kynlífs eru í flestum tilvikum illa settir andlega, líkamlega og félagslega. Þeir séu yfirleitt þolendur sjálfir, t.d. vegna fátæktar, fíkniefnaneyslu eða kynferðislegrar misnotkunar, en samkvæmt upplýsingum frá Stígamóta hafa 65-85% kvenna sem stunda vændi orðið fyrir einhvers konar kynferðislegu ofbeldi. Þessi afstaða byggist á því sjónarmiði að vændi tengist í lang flestum tilvikum neyð og því sé nær að veita seljandanum félagslega, læknisfræðilega og jafnframt fjárhagslega aðstoð í stað þess að refsa honum.
Í skýrslu nefndar dómsmálaráðherra, sem falið var að gera tillögur um úrbætur vegna kláms og vændis, frá 16. apríl 2002, kom fram að nefndin teldi að afnema ætti þágildandi ákvæði 1. mgr. 206. gr., þannig að sala á kynlífi væri refsilaus. Markmiðið með slíkri breytingu var ekki að hvetja til vændis eða að leggja til lögleiðingu þess.
Þvert á móti var markmiðið það að hjálpa einstaklingum sem hefðu mátt þola erfiðar aðstæður í stað þess að refsa þeim. Þeir þyrftu þá ekki að óttast málshöfðun ef þeir tækju ákvörðun um að kæra ofbeldisverk sem að þeim hefði beinst, þeir yrðu líklegri til að bera vitni í málum gegn milliliðunum og viljugri til þess að leita sér aðstoðar bæði hjá félagsþjónustu og heilbrigðiskerfinu.
Þetta er kjarninn í þeim röksemdum sem búa að baki nýsamþykktum breytingum á vændisákvæðinu.
xxxxx
Á síðustu misserum hefur farið fram mikil umræða um það hvort lögfesta ætti á Íslandi vændisákvæði sambærilegt því sem finna má í sænskum lögum, sem mælir fyrir um það að kaup á vændi skuli gerð refsiverð, en salan skuli vera refsilaus.
Í nefndaráliti okkar sem sæti eigum í allsherjarnefnd útskýrðum við afstöðu okkar til ,,sænsku leiðarinnar. Í nefndarálitinu segir:
,,Sú leið hefur þó þá ótvíræðu annmarka að hún færir vændið af götunum niður í undirheimana og að einhverju leyti inn á veraldarvefinn og gerir það þannig ósýnilegra. Um leið verður erfiðara að ná til þeirra sem hafa milligöngu um það. Slíkt mundi hafa í för með sér aukningu á eftirliti lögreglu með brotum sem engir kærendur væru að. Nefndir bendir á að vændi er félagslegt vandamál og efast verður um að það verði leyst með refsingum. Niðurstaða nefndarinnar varð því sú að leggja þá breytingu að gera kaup á vændi refsinæm ekki til að svo komnu máli.
Nágrannaþjóðir okkar í Skandinavíu, Danmörk, Noregur og Finnland hafa ásamt mörgum þjóðum á meginlandi Evrópu, um nokkurt skeið fjallað um það hvort rétt sé að lögfesta ákvæði sambærilegt því sem Svíar lögfestu árið 1999. Af einhverjum ástæðum hefur ekkert þessara landa ákveðið að fara þá leið, frekar en við Íslendingar, þrátt fyrir miklar umræður og nákvæmar úttektir sérfræðinga á kostum hennar og göllum.
xxxxx
Þrátt fyrir áhyggjur Atla Gíslasonar verð ég að segja að ég hef ekki áhyggjur af því að nýleg breyting á vændisákvæði almennra hegningarlaga leiði til þess að vændi aukist á Íslandi eða að hér spretti upp rauð hverfi, eins og haldið hefur verið fram.
Þvert á móti tel ég að sú leið sem farin var, að afnema refsinæmi vændis, sé til þess fallin að rétta þeim leiðst hafa af einhverjum ástæðum út í vændi og eiga við þau vandamál að stríða sem ég hef hér lýst, hjálparhönd.
Sú leið er mannúðlegri en sá kostur að refsa þeim sem stunda slíka starfsemi. Hún er frekar til þess fallin að fjölga kærum vegna kynferðisofbeldisverka og sakfellingum gagnvart þeim sem reyna að hagnast á líkama og bágri stöðu annarra.
Sigurður Kári.Fimmtudagur, 29. mars 2007
Kastljósið og baráttan gegn fíkniefnasölum
Í þessari viku hafa áhorfendur Kastljóssins fengið tækifæri til þess að sjá einstakar myndir af aðgerðum lögreglu gegn grunuðum fíkniefnasölum. Umfjöllun Kastljóssins sýnir hversu erfitt og hættulegt starf lögreglumanna getur á köflum verið. En hún sýnir einnig hversu árangursríkar slíkar aðgerðir geta verið þegar einstakar deildir lögreglunnar leggja saman krafta sína.
Í umfjölluninni hefur komið fram að aðgerðir lögreglunnar byggi á miklu samstarfi lögregluyfirvalda einstakra umdæma, fíkniefnalögreglunnar, sérsveitar lögreglunnar og greiningardeildar ríkislögreglustjóra. Óhætt er að segja að þær svipmyndir sem birst hafa landsmönnum í umfjöllun Kastjóssins séu áhrifaríkar og sýni mikilvægi þessara deilda fyrir starsemi löggæslu í landinu sem ætlað er að tryggja öryggi borgaranna.
Þegar ég horfði á þessa umfjöllun Kastjóssins rifjaðist upp fyrir mér framganga þingmanna stjórnarandstöðunnar fyrir um það bil einu ári síðan. Þá var til umfjöllunar frumvarp Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, til breytinga á lögreglulögum. Frumvarpið mælti meðal annars fyrir um það að heimila embætti ríkislögreglustjóra að starfrækja lögreglurannsóknardeild og greiningardeild sem hefði það að markmiði að rannsaka landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og að leggja mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi.
Þessi áform dómsmálaráðherra mættu mikilli andstöðu þingmanna stjórnarandstöðunnar, einkum þingmanna Samfylkingarinnar, og raunar ýmissa annarra aðila í þjóðfélaginu, sem reyndu eftir fremsta megni að gera tillögur ráðherrans tortryggilegar með alls kyns útúrsnúningum og uppnefnum. Er þar skemmst að minnast þess að þingmenn á borð við Össur Skarphéðinsson, Ágúst Ólaf Ágústsson og Björgvin G. Sigurðsson, tóku varla þátt í umræðunni án þess að tala um njósnadeildir, leyniþjónustu eða leynilögreglu Björns Bjarnasonar.
Eftir umfjöllun Kastjóssins hafa þessir kappar látið lítið fyrir sér fara, enda ekki nema von. Umfjöllun Kastljóssins sýnir fram á mikilvægi samstarfs þessara deilda lögreglunnar og mikilvægi þess að lögreglan hafi þau úrræði sem nauðsynleg eru til þess að meta og greina þá hættu sem stafar af skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi svo hana megi uppræta, eins og tillögur Björns Bjarnasonar höfðu að markmiði.
Úr því sem komið er geri ég ekki ráð fyrir að áðurnefndir þingmenn hafi mikinn áhuga á því að ræður þeirra á Alþingi og í fjölmiðlum um þessi mál verði rifjuð upp. En það vakna auðvitað upp spurningar um hvort þeir og félagar þeirra í Samfylkingunni, þingmennirnir Anna Kristín Gunnarsdóttir, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jón Gunnarsson, Katrín Júlíusdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Margrét Frímannsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir og Valdimar Leó Friðriksson, sem nú er reyndar fallinn fyrir borð og genginn til liðs við Frjálslyndaflokkinn, hefðu greitt þessum tillögum atkvæði sitt hefðu þeir gert sér grein fyrir mikilvægi þessara úrræða í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi.
Það þarf kannski ekki að taka það sérstaklega fram, en allir þessir þingmenn greiddu atkvæði á móti því að veita lögreglunni þau úrræði sem upplýst er um í umfjöllun Kastljóssins. Hver og einn verður síðan að meta hver hafði málstaðinn með sér í málinu og hver ekki.
Sigurður Kári.
Fimmtudagur, 22. mars 2007
Upphafið að þjóðareign á auðlindum
Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrverandi þingmaður Alþýðubandalagsins, ritar grein í Morgunblaðið í dag sem ber yfirskriftina ,,Upphafið að þjóðareign á auðlindum. Tilefni greinarskrifanna eru fullyrðingar fyrrum flokksbróður hans, Össurar Skarphéðinssonar, þingflokksformanns Samfylkingarinnar, í viðtali í morgunútvarpi Ríkisútvarpsins þar sem Össur mun hafa haldið því fram að Alþýðuflokkurinn sálugi hafi fyrstur lagt fram tillögur um að lögfesta ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum sjávar.
Í greininni kemur skýrt fram að Hjörleifur er ekki sáttur við söguskýringar Össurar og telur þær rangar. Þeirri fullyrðingu sinni til stuðnings rekur Hjörleifur umræðu sem átti sér stað á Alþingi fyrir nær aldarfjórðungi og segir að fyrsta tillaga þessa efnis hafi komið frá þingmönnum Alþýðubandalagsins í desember 1983 þegar til umræðu var stjórnarfrumvarp Halldórs Ásgrímssonar, þáverandi sjávarútvegsráðherra, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands sem lagði grunninn að núverandi stjórnkerfi fiskveiða.
Í grein Hjörleifs kemur fram að þingmenn Alþýðubandalagsins hafi á þeim tíma lagt fram breytingatillögu við frumvarp Halldórs Ásgrímssonar. Flutningsmenn tillögunnar voru Steingrímur J. Sigfússon, núverandi formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, Geir Gunnarsson og Hjörleifur Guttormsson. Fyrsti málsliður tillögunnar hljóðaði svo:
,,Fiskveiðilandhelgi Íslands og auðlindir innan hennar eru þjóðareign, sameign allra Íslendingar.
Skemmst er frá því að segja að tillaga þeirra félaga var felld, en ástæðan fyrir þessari upprifjun Hjörleifs virðist vera sú að reyna að sýna fram á að gamla Alþýðubandalagið hafi frá upphafi verið í fararbroddi stefnumörkunar sem hafði það að markmiði að þjóðnýta auðlindir hafsins, en ekki Alþýðuflokkurinn eða jafnaðarmenn. Kemur þetta raunar skýrt fram í niðurlagi greinarinnar, en þar segir:
,,Lengra verður þessi saga ekki rakin. Hún tekur af tvímæli um hverjir það voru sem höfðu frumkvæði að því að ákvæðið um þjóðareign á sjávarauðlindum var tekið inn í íslenska löggjöf. Þeir hinir sömu hafa lengi barist fyrir því að slík ákvæði verði sett í stjórnarskrá lýðveldisins og það sjónarmið hefur átt vaxandi skilningi að mæta. Þegar það gerist verður að tryggja að slíkt ákvæði hafi merkingu en með því sé ekki verið að innsigla þá einkavæðingu auðlindarinnar sem reynt hefur verið leynt og ljóst að festa í sessi undanfarna tvo áratugi.
Ekki ætla ég að fara að blanda mér í deilur þeirra Össurar og Hjörleifs um það hvort fulltrúar Alþýðuflokksins eða Alþýðubandalagsins eigi ,,heiðurinn af því að hafa fyrst sett fram hugmyndir um svokallaða þjóðareign á náttúruauðlindum. Þeir verða að gera þann ágreining upp sín á milli.
Hins vegar er vert að rifja upp nokkrar staðreyndir málsins vegna greinar Hjörleifs Guttormssonar í Morgunblaðinu í dag.
Ákvæði um sameign þjóðar eða þjóðareign á auðlindum voru fyrst lögfestar í stjórnarskrá Sovétríkjanna sálugu. Í kjölfar þess að eignarréttur var afnuminn í ráðstjórnarríkinu voru allar auðlindir færðar til ríkisins með þeim hörmulegu afleiðingum sem allir þekkja og óþarft er að rekja hér frekar. Sambærileg ákvæði hafa hins vegar ratað inn í stjórnarskrár ýmissa fyrrum leppríkja Sovétríkjanna, s.s. Búlgaríu, Rúmeníu og Eistlands, svo nokkur dæmi séu tekin.
Hins vegar er rétt að benda á að það er sannleikskorn í því hjá Össuri Skarphéðinssyni að Alþýðuflokkurinn hafi fyrstur flokki sett fram hugmyndir um sameign eða þjóðareign á náttúruauðlindum. Í stefnuskrá Alþýðuflokksins sem samþykkt var á 37. flokksþingi flokksins í október 1976 gat meðal annars að líta þá stefnu flokksins að Ísland allt yrði þjóðareign. Forsendum að baki hugmyndinni um þjóðnýtingu alls lands var lýst þannig:
,,Skilgreining eignarréttarins í íslenskum lögum er sprottin úr þjóðfélagi og hugmyndaheimi liðins tíma, og er um margt í andstöðu við þjóðarhag og hugsjónir jafnaðarstefnunnar. Tilfinnanlegast er þetta hvað varðar eignarrétt á landi og landgæðum. [...] Það er gagnstætt öllu réttlæti að einstakir landeigendur geti hirt stórgróða vegna þess eins að alþjóðarþörf hafi gert lönd þeirra verðmæt án nokkurs tilverknaðar þeirra sjálfra.
Í stefnuskrá Alþýðuflokksins var ekki gerður greinarmunur á þjóðnýtingu lands annars vegar og auðlinda sjávar hins vegar. Lögð var áhersla á að þessar hugmyndir yrðu lögfestar í stjórnarskrá með svohljóðandi ákvæði:
,,Íslenska þjóðin öll, einn fyrir alla og allir fyrir einn, á Ísland allt, gögn þess og gæði og miðin umhverfis það. Alþingi fer með umráðarétt yfir þessari eign, en getur með lögum veitt einstaklingum, fyrirtækjum og félagsheildum, til dæmis sveitarfélögum, tiltekinn rétt til þessara gæða.
Í stefnuskrá Alþýðuflokksins var ríkinu ætlar stórt hlutverk í atvinnurekstri, en þar sagði:
,,Áætlunarbúskapur er lykillinn að þjóðhollri nýtingu fiskimiðanna.
Mikilvægustu útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki eiga að vera almenningseign.
[...] Fiskimið eru auðlind af því tagi, sem ekki verður nýtt skynsamlega nema með víðtækum áætlunarbúskap.
[...]
Vegna þess hve mikið veltur á útgerð og fiskvinnslu bæði fyrir þjóðarheildina og fyrir einstök byggðarlög, eiga mikilvægustu fyrirtæki fyrirtæki í þessum greinum að vera almenningseign með einum eða öðrum hætti og yfirráð yfir þeim jafnan í höndum heimamanna á hverjum stað.
Ekki ætla ég eigna Össuri Skarphéðinssyni þessar róttæku og sósíalísku þjóðnýtingar- og miðstýringarhugmyndir Alþýðuflokksins frá árinu 1976, enda var Össur þá líklega flokksbundinn Alþýðubandalagsmaður. Þær skýra hins vegar hugsanlega þá áherslu sem Samfylkingin hefur lagt á að tekin verði upp svokölluð fyrningarleið í sjávarútvegi sem mælir fyrir um að ríkið geri aflaheimildir upptækar bótalaust, enda er sú hugmyndafræði sem fyrningarleiðin byggir á er samkynja þeirri sem Alþýðuflokkurinn setti fram árið 1976.
Deilur hafa staðið um núverandi stjórnkerfi fiskveiða um margra ára skeið. Hvað sem þeim deilum líður verður ekki framhjá því litið að sjávarútvegurinn, sem fyrir tíma núverandi kerfis var rekin á gengisfellingum og öðrum sértækum úrræðum, er nú blómleg atvinnugrein sem stendur á traustum fótum. Sjávarútvegurinn er sú atvinnugrein sem hefur átt mikinn þátt í því að skapa þá velsæld og framfarir sem hafa átt sér stað á síðustu áratugum. Sem betur fer var hugmyndafræði Alþýðuflokksins, Hjörleifs Guttormssonar, Steingríms J. Sigfússonar og annarra róttækra vinstri manna ekki hrint í framkvæmd. Óhætt er að fullyrða að staða þessarar undirstöðuatvinnugreinar væri önnur í dag ef sú hefði orðið raunin.
Sigurður Kári.
Miðvikudagur, 21. mars 2007
Forpokuð forræðishyggja og afturhald
Frá upphafi þessa kjörtímabils hefur verið lagt fram frumvarp sem heimilar sölu á léttvíni og bjór í verslunum og þar með afnám einkasölu ríkisins á þessum neysluvörum. Að þessu frumvarpi hef ég staðið ásamt félögum nokkrum félögum mínum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, þeim Guðlaugi Þór Þórðarsyni, Birgi Ármannssyni, Bjarna Benediktssyni, Guðjóni Hjörleifssyni, Arnbjörgu Sveinsdóttur, Sigurrósu Þorgrímsdóttur, Pétri H. Blöndal og Gunnari Örlygssyni. Jafnframt hafa þingmenn allra stjórnmálaflokka, utan þingmanna Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, staðið að og stutt frumvarpið.
Þingmenn Vinstri grænna hafa frá því að mál þetta var lagt fram fyrir fjórum árum barist eins og ljón gegn því að það yrði að lögum. Þegar við nefndarmenn í allsherjarnefnd afgreiddum málið út úr nefndinni tilkynnti fulltrúi Vinstri grænna að málið þyrfti að ræða vel á Alþingi, sem á mannamáli þýðir að þingmenn flokksins myndu kæfa það í málþófi. Á lokadögum þingsins varð niðurstaðan sú að þetta frumvarp var notað sem skiptimynt í samningaviðræðum milli formanna þingflokkanna og það samið út af dagskrá þingsins. Þeirri niðurstöðu fagna Vinstri grænir. Við sjálfstæðismenn hörmum hins vegar þá niðurstöðu.
Ég hef aldrei skilið hvers vegna Vinstri grænir leggja svona gríðarlega mikið upp úr því að koma í veg fyrir að almenningur geti keypt sér léttvín og bjór í verslunum. Hvers vegna treysta Vinstri grænir ekki einkaaðilum til þess að versla með þessar vörur? Af hverju telja þeir að ríkinu einu sé treystandi til þess? Hvaða hvatir reka menn áfram til þess að koma í veg fyrir að viðskiptavinir Ostabúðarinnar og Melabúðarinnar, svo dæmi séu tekin, geti keypt sér þessar neysluvörur ásamt öðrum vörum sem þar eru á boðstólnum? Slíkt myndi vafalaust hafa í för með sér mikla hagræðingu fyrir neytendur og að öllum líkindum efla og styrkja starfsumhverfi smærri verslana. Ég hef ekki svör við þessum spurningum og hef aldrei fengið efnisleg svör við þeim hjá þingmönnum Vinstri grænna.
Í gær mætti ég Ögmundi Jónassyni, þingflokksformanni Vinstri grænna, í þættinum Ísland í dag á Stöð 2. Í þættinum forðaðist Ögmundur eins og heitan eldinn að ræða málið efnislega og færa fyrir því rök af hverju einkaaðilum væri ekki treystandi fyrir þessari verslun eins og annarri. Þeim spurningum sem hér er varpað fram svaraði Ögmundur ekki frekar en öðrum sem réttlætt gætu afstöðu hans í málinu.
Afstaða Vinstri grænna til þessa máls þarf kannski ekki að koma á óvart. Þingmenn þeirra hafa alla tíð verið á móti frjálsræði en talað fyrir höftum, boðum og bönnum. Formaður flokksins, Steingrímur J. Sigfússon, var til dæmis á móti því að leyfa bjórinn, hann var á móti frjálsu útvarpi, hann var á móti einkavæðingu bankanna, á móti skattalækkunum til einstaklinga og fyrirtækja og svo mætti lengi telja. Afstaða Vinstri grænna í þessu máli er að mínu mati enn eitt dæmi um þá forpokuðu forsjárhyggju og afturhald sem einkennir stefnu Vinstri grænna.
Sigurður Kári.
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
allib
-
almaogfreyja
-
andrigeir
-
audbergur
-
audunnh
-
abg
-
axelaxelsson
-
arniarna
-
aslaugfridriks
-
astamoller
-
baldher
-
baldvinjonsson
-
benediktae
-
bergrun
-
kaffi
-
bergurben
-
bjarnihardar
-
bjarnimax
-
bjorgvinr
-
sveifla
-
binnag
-
bryndisharalds
-
skordalsbrynja
-
brandarar
-
charliekart
-
dansige
-
doj
-
deiglan
-
doggpals
-
egillg
-
erla
-
erlendurorn
-
skotta1980
-
ea
-
fsfi
-
vidhorf
-
hressandi
-
gammurinn
-
gerdurpalma112
-
gisliivars
-
gisliblondal
-
gillimann
-
grettir
-
gudni-is
-
gummibraga
-
phoenix
-
gunnarbjorn
-
gussi
-
laugardalur
-
habbakriss
-
smali
-
haddi9001
-
hhbe
-
handsprengja
-
730bolungarvik
-
heimssyn
-
herdis
-
hildurhelgas
-
drum
-
hjaltisig
-
hlekkur
-
kolgrimur
-
hlodver
-
don
-
hvitiriddarinn
-
ingabesta
-
golli
-
ibb
-
bestiheimi
-
jakobk
-
fun
-
stjornun
-
skallinn
-
jonasegils
-
forsetinn
-
jonmagnusson
-
bassinn
-
jonsnae
-
julli
-
komment
-
karisol
-
kje
-
kjarrip
-
kjartanvido
-
kolbrunb
-
kristinrichter
-
kristjanb
-
kristjangudm
-
liljabolla
-
altice
-
maggaelin
-
gummiarnar
-
martasmarta
-
mal214
-
nielsfinsen
-
ottoe
-
olibjossi
-
obv
-
nielsen
-
skari
-
pkristbjornsson
-
jabbi
-
pbj
-
storibjor
-
iceland
-
pjeturstefans
-
raggibjarna
-
raggiraf
-
raggipalli
-
ragnar73
-
schmidt
-
bullarinn
-
salvor
-
fjola
-
sigbragason
-
vitaminid
-
joklamus
-
sv11
-
sjonsson
-
siggikaiser
-
sisi
-
siggisig
-
sigurgeirorri
-
mogga
-
sigurjonb
-
sms
-
sjalfstaedi
-
hvala
-
hvirfilbylur
-
stebbifr
-
eyverjar
-
styrmirh
-
summi
-
brv
-
sveinn-refur
-
stormsker
-
saethorhelgi
-
tidarandinn
-
daystar
-
valdimarjohannesson
-
valgerdurhalldorsdottir
-
vefritid
-
nytthugarfar
-
vibba
-
villagunn
-
va
-
villithor
-
xenon
-
thorbjorghelga
-
steinig
-
thorsteinnhelgi
-
thorasig
-
doddidoddi
-
thorolfursfinnsson
-
toddi
-
hugsun
-
ornsh