Konum í þingflokki sjálfstæðismanna fjölgar um helming

wp-Að loknum alþingiskosningum er ljóst að miklar breytingar munu eiga sér stað í þingflokki okkar sjálfstæðismanna.  Mikil endurnýjun átti sér stað og fjöldi nýliða taka sæti á Alþingi undir merkjum Sjálfstæðisflokkinn.  Ég vil nota tækifærið hér og óska þeim sem nú taka sæti í fyrsta skipti í þingflokki okkar til hamingju og býð þau hjartanlega velkomin til leiks.

Það sem helst vekur athygli þegar maður rennir yfir nöfn þeirra einstaklinga sem skipa munu þingflokkinn er sú gríðarlega fjölgun kvenna sem verða mun í honum.

Í síðustu Alþingiskosningum hlutu 22 sjálfstæðismenn kosningu.  Þar af voru einungis fjórar konur, þær Drífa Hjartardóttir, Sigríður Anna Þórðardóttir, Sólveig Pétursdóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.  Þorgerður Katrín mun ein eiga sæti í þingflokknum á nýju kjörtímabili.  Vegna mannabreytinga fjölgaði konum þó í þingflokknum þegar líða tók á kjörtímabilið.  Þannig tóku þar sæti Ásta Möller, Arnbjörg Sveinsdóttir og Sigurrós Þorgrímsdóttir, allt varaþingmenn sem ekki höfðu náð kjöri á þing í kosningunum sjálfum.

Í kjölfar nýafstaðinna kosninga er ljóst að konum í þingflokki sjálfstæðismanna fjölgar um hvorki meira né minna en helming, en átta konur úr okkar röðum hlutu kosningu, þær Arnbjörg Sveinsdóttir, Ásta Möller, Björk Guðjónsdóttir, Guðfinna Bjarnadóttir, Ólöf Nordal, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Þetta eru merkileg tíðindi og sýnir sterka stöðu kvenna innan Sjálfstæðisflokksins.

Sigurður Kári.


Glæsilegur sigur Sjálfstæðisflokksins!

Þá er kosningunum lokið og úrslitin liggja fyrir.  Sjálfstæðisflokkurinn vann glæsilegan kosningasigur.  Við jukum fylgi okkar um 3% og bættum við okkur þremur nýjum þingmönnum.  Merkilegt er að Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig fylgi í öllum kjördæmum.  Það er afrek, ekki síst þegar litið er til þess að flokkurinn hefur nú verið samfellt í ríkisstjórn í 16 ár.  Niðurstaðan er því persónulegur sigur fyrir forystu Sjálfstæðisflokksins.

Skilaboðin sem þjóðin sendi í kosningunum eru skýr.  Sjálfstæðisflokkurinn á að leiða næstu ríkisstjórn undir forystu Geirs H. Haarde.

Við sjálfstæðismenn erum auðvitað himinlifandi og þakklátir kjósendum fyrir að sýna okkur það mikla traust sem niðurstöður kosninganna gefa til kynna.  Við þingmennirnir erum líka afar þakklátir því fjölmarga fólki sem lagði á sig ómælda vinnu fyrir okkur í kosningabaráttunni til þess að tryggja þessa glæsilegu niðurstöðu.  Það er ótrúlegt hversu margir eru reiðubúnir að leggja mikið á sig til þess að tryggja okkur þingmönnunum og Sjálfstæðisflokknum góða kosningu.  Sigur Sjálfstæðisflokksins í kosningunum í gær er sigur þessa fólks.

Vonbrigði Vinstri grænna þó sigur hafi unnist

Vinstri grænir unnu, eins og Sjálfstæðisflokkurinn, góðan sigur í kosningunum í gær og bættu við sig fjórum þingmönnum.  Það er góður árangur sem Steingrímur J. og Ögmundur geta verið ánægðir með.

Það fór hins vegar ekki framhjá neinum sem fylgdist með framgöngu Vinstri grænna í kosningavökum sjónvarpsstöðvanna í gær að Vinstri grænir urðu fyrir miklum vonbrigðum með niðurstöður kosninganna.  Flokkurinn hafði ítrekað mælst stærri en Samfylkingin í skoðanakönnunum með allt að 28% fylgi.  Niðurstöður skoðanakannanna juku því á væntingar og bjartsýni Vinstri grænna sem leiddi til þess að þeir urðu fyrir vonbrigðum með 14,3% fylgi.

Slæm útkoma Framsóknarflokksins.

Útkoma Framsóknarflokksins í þessum kosningum var slæm.  Raunar sú versta í sögunni.  Niðurstaðan er áfall fyrir flokkinn, sem missir 5 þingmenn.  Formaður flokksins, Jón Sigurðsson, nær ekki kjöri og umhverfisráðherrann, Jónína Bjartmarz,  er einnig fallinn fyrir borð.  Framsóknarflokkurinn á einungis einn þingmann á Stór-Reykjavíkursvæðinu.  Þetta er erfið staða sem vandi verður að vinna úr.

Eins og ég hef áður sagt á þessum vettvangi getur Framsóknarflokkurinn ekki kennt Sjálfstæðisflokknum um ófarir sínar í kosningunum.  Ástæður þeirra eru aðrar.  Þess vegna fannst mér drengilegt og skynsamlegt af Birni Inga Hrafnssyni að lýsa því yfir í Silfri Egils í dag að Framsóknarflokkurinn gæti kennt einhverjum öðrum um niðurstöður kosninganna.  Flokkurinn yrði að líta í eigin barm og skoða sína stöðu í stað þess að reyna að finna utanaðkomandi sökudólga.  Slíkt er ekki stórmannlegt og mér fannst Björn Ingi nálgast málið á hárréttan hátt í þættinum.

Ósigur Ingibjargar og Samfylkingarinnar.

Niðurstaða kosninganna í gær er ósigur fyrir Ingibjörgu Sólrúnu og Samfylkingarinnar.  Flokkurinn tapar tveimur þingmönnum.  Fylgið dalar og það sem er merkilegt er að Samfylkingin virðist tapa fylgi í öllum kjördæmum landsins.

Þó svo að Ingibjörg Sólrún reyni eftir bestu getu að sannfæra fólk um að Samfylkingin hafi unnið varnarsigur þá dugar slíkt tal ekki.  Samfylkingin tapar mönnum og fylgi og er nú veikari en áður.  Það er sama hvað formaðurinn og fótgönguliðar hennar reyna.  Slík niðurstaða hefur aldrei og verður aldrei túlkuð sem sigur.

Frjálslyndir skipta um lið

Frjálslyndi flokkurinn náði betri árangri í þessum kosningum en búist hafði verið við.  7,3% fylgi er meira fylgi en flestar eða allar skoðanakannanir höfðu sýnt og fá frjálslyndir fjóra menn kjörna.  Guðjón A. Kristjánsson getur því verið nokkur sáttur við útkomuna, þó svo að það hljóti að þykja saga til næsta bæjar að varaformaður flokksins skyldi ekki hafa náð kjöri.

Það hlýtur hins vegar að verða einkenniegt fyrir Guðjón að koma á næsta þingflokksfund Frjálslynda flokksins.  Hann er einn eftir úr upphaflegum þingflokki, því Magnús Þór Hafsteinsson og Sigurjón Þórðarson náðu ekki endurkjöri.  Í stað þeirra mæta til leiks þeir Grétar Mar Jónsson, Kristinn H. Gunnarsson og Jón Magnússon.  Ég held að það sé ekki á neinn hallað þegar sagt er að þingflokkur Frjálslynda flokksins er einn sá athyglisverðasti á Alþingi, fyrir margra hluta sakir.

Íslandshreyfingin var andvana fædd.

Íslandshreyfingin átti aldrei möguleika á því að ná neinum árangri í þessum kosningum.  Það var ljóst alla kosningabaráttuna. 

Þó svo að fólki þyki vænt um Ómar Ragnarson og beri fyrir honum virðingu fyrir að berjast svo hart fyrir hugsjónum sínum þá sá það Ómar ekki fyrir sér sem forystumann í stjórnmálum.  Margrét Sverrisdóttir hafði síðan ákaflega lítið fram að færa þegar hún loksins kom fram í sviðsljósið eftir að hafa fabrikerað eftirspurn eftir sjálfri sér í nokkrar vikur.  Henni mistóskt að sýna fram á að hún ætti erindi í stjórnmálin og var því Íslandshreyfingunni ekki eins verðmæt og talið var að hún yrði.

Sigurður Kári


Þeim er ekki treystandi!

264-220 Í dag ganga Íslendingar að kjörborðinu og taka afstöðu til þess hverjir skuli stjórna landinu næstu fjögur árin.  Skoðanakannanir sýna að raunhæf hætta er á því að mynduð verði vinstri stjórn að loknum kosningum.

Saga vinstristjórna á Íslandi er sorgarsaga.  Sem betur fer þó hafa slíkar stjórnir aldrei verið langlífar, en þær hafa verið fólkinu í landinu dýrkeyptar.

Forystumenn Samfylkingar og Vinstri grænna hafa lýst því yfir að þeir muni mynda ríkisstjórn að loknum kosningum fái þeir til þess styrk.  Það væru vond tíðindi ef sú yrði raunin.

Það kjörtímabil sem nú er senn á enda hefur verið kjörtímabil framfara, velmegunar og bættra lífskjara.  Fólk verður vart við þessar framfarir allt í kringum sig.

Vinstri flokkarnir hafa ekki viljað taka þátt í að hrinda þessum framförum í framkvæmd.  Þeir hafa barist gegn þeim hvort sem er í tengslum við lækkun skatta, uppbyggingu menntakerfisins eða annarra málaflokka.

557-220Við eigum að halda áfram sókn á öllum stigum.  Sú sókn verður stöðvuð verði mynduð vinstri stjórn eftir kosningar.  Vinstriflokkarnir hafa boðað hækkun skatta og stórhækkun útgjalda og aukin ríkisafskipti.  Forsvarsmaður annars flokksins hefur gengið svo langt að segja að stjórnendur, starfsmenn og eigendur fjármálafyrirtækja, sem staðið hafa fyrir gríðarlegri uppbyggingu hér á síðustu árum sem skapað hefur þúsundir starfa og gríðarlegar tekjur, séu ekki lengur velkomnir á landinu.  Verði hér mynduð vinstri stjórn sem lætur verkin tala mun það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir atvinnulífið, gjaldmiðilinn og efnahag ríksins.

Það er ekki lengra síðan en í nóvember sl. að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði:  ,,Vandi Samfylkingarinnar liggur í því að kjósendur þora ekki að treysta þingflokknum."  Ég er sammála formanni Samfylkingarinnar um að þingflokki hennar er ekki treystandi fyrir stjórn landsins.  Og ég ber þá von í brjósti að kjósendur séu sammála okkur Ingibjörgu og að sú afstaða breytist ekki í þessum kosningum.

Eina leiðin til að tryggja áframhaldandi uppbyggingu, velmegun og bætt lífskjör undir öflugri og traustri stjórn er sú að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í dag.

Sigurður Kári.

Greinin birtist í Morgunblaðinu.


Falleinkunn Samfylkingar í menntamálum

647-220 Samfylkingin virðist vera trú þeirri sannfæringu sinni í kosningabaráttunni að ef rangvísandi upplýsingar eru endurteknar nógu oft þá fari fólk að trúa þeim. Á þriðjudag birtist í Fréttablaðinu svargrein við grein minni um menntamál eftir tvo þingmenn Samfylkingarinnar, Ágúst Ólaf Ágústsson og Katrínu Júlíusdóttur.  Yfirskrift greinarinnar er ,,Falleinkunn í menntamálum". Þar reyna þingmennirnir enn og aftur að sýna fram á að á Íslandi sé allt á vonarvöl á sviði menntamála á meðan allar staðreyndir sýna glöggt að aldrei hefur sóknin á þessu sviði verið meiri en síðasta áratuginn.

Aldrei hafa fleiri stundað nám við framhaldsskóla og háskóla landsins. Aldrei hafa námsleiðir þeirra sem hefja nám í framhaldsskólum og háskólum verið fleiri og framtíð ungs fólks bjartari.  Um þetta verður ekki deilt.

Gamlar tölur

Þingmennirnir bera ætíð fyrir sig upplýsingar úr ritinu Education at a Glance sem er viðamikið tölfræðirit sem OECD gefur út árlega en þar sem finna má upplýsingar um flesta þætti menntamála í aðildarríkjum OECD. Sá galli er hins vegar á gjöf Njarðar að söfnun jafnmikils magns upplýsinga er mjög tímafrek og því eru upplýsingarnar í ritinu ætíð nokkuð til áranna komnar þegar þær loks birtast. Þær segja til dæmis nákvæmlega ekkert um það hvað hefur verið að gerast í menntamálum á þessu kjörtímabili. Til að komast að því verður að líta til talna Hagstofunnar enda eru það tölur frá Hagstofu Íslands sem að lokum eru birtar í tölfræði OECD.

Ég hef ekki reynt að "véfengja" þær tölur sem Ágúst Ólafur og Katrín nota, heldur einungis bent kurteislega á að þær séu gamlar og settar fram með villandi hætti og segi því ekkert um það hvað hefur gerst á þessu kjörtímabili.

Fjárframlög til háskóla hafa vaxið stórkostlega

Í fyrsta lagi eru upplýsingarnar sem vitnað er í frá 2003 en ekki 2004 líkt og Samfylkingartvíeykið heldur fram þótt vissulega sé í sumum töflum að finna tölur frá árinu 2004. Í öðru lagi eru talnanotkun þeirra með ólíkindum.  Gott dæmi um það er að í grein minni benti ég á að tölur um heildarframlög (total public expenditure) til háskólastigsins sýndu að það hlutfall hefði verið 1,4% á Íslandi árið 2003 en þetta er tafla B4.1. á bls. 228 fyrir þá sem vilja sannreyna þetta. Samkvæmt töflunni vorum við í 10. sæti af 30 þjóðum við upphaf kjörtímabilsins. Samfylkingarþingmennirnir nota hins vegar áfram töflu sem sýnir einungis hluta útgjalda til menntamála, væntanlega vegna þess að þau telja að það þjóni málstað sínum betur.

Þrátt fyrir að hafa verið bent á tölur Hagstofunnar um útgjaldaþróunina frá árinu 2003, þ.e. í tíð núverandi ríkisstjórnar, er ekki vikið að því einu orði í grein þingmannanna. Enda vita þau sem er að útgjöldin hafa verið aukin stórkostlega á síðustu fjórum árum. Árið 2005 var til að mynda hlutfallið komið í um 1,6% af þjóðarframleiðslu á sama tíma og þjóðarframleiðslan jókst hröðum skrefum vegna hagvaxtar.

Ég geri ráð fyrir að hagfræðingurinn Ágúst Ólafur þekki hugtakið hagvöxtur. Hann var 7,7%% árið 2004 og 7,5% árið 2005. Samt halda framlög til háskólastigsins að vaxa sem hlutfall af þjóðarframleiðslu.  Þessu hefðu Ágúst Ólafur og Katrín átt að fagna.

Fjárframlög til framhaldsskóla einnig

Hvað furðulegastar eru hins vegar staðhæfingar þingmannanna um útgjöld til framhaldsskólans, að þau hafi lækkað á milli áranna 2003 og 2004 og að framlög til framhaldsskólans hafi verið skorin niður árið 2007. Þessu til áréttingar vísa þau í lið í tölum Hagstofu Íslands þar sem margs konar útgjöldum - ekki einungis framlögum ríkisins - er slegið saman, m.a. er undir þessum lið að finna útgjöld sveitarfélaga til tónlistarskóla á framhaldsskólastigi.

Hér er á ferðinni einkennileg talnanotkun.

Ég geri ráð fyrir að þingmennirnir kunni að fletta upp í fjárlögum og fjáraukalögum en þar má sjá svart á hvítu hver framlög ríkisins eru til framhaldsskóla og bera þau saman á milli ára. Um það hljótum við þó að vera sammála.

Sé þetta skoðað kemur í ljós að milli áranna 2003 og 2004 hækkuðu framlög úr 10.764 milljónum í 11.557 milljónir. Þetta er hækkun um 793 milljónir króna. Á milli árana 2006 og 2007 hækkuðu framlög úr 14.460 krónur í 15.951 krónur eða um 1.491 milljónr króna.

Er hækkun lækkun?

Samkvæmt kenningum Samfylkingarinnar er hækkun milli ára upp á einn og hálfan milljarð króna lækkun! Ég geri ráð fyrir að sú heildarhækkun á kjörtímabilinu til framhaldsskólans upp á rúma fimm milljarða á ársgrundvelli sem blasir við þegar þessar fjárlagatölur eru skoðaðar séu sömuleiðis "lækkun" í huga Samfylkingarþingmannanna. Maður er nú orðin ýmsu vanur í þessum efnnum frá Samfylkingunni en er þetta ekki að bera í bakkafullann lækinn?

Brautskráningarhlutfall á Íslandi

Maður veltir því eðlilega fyrir sér hvort það sé minnimáttarkennd gagnvart menntasókn ríkisstjórnarinnar eða metnaðarleysi sem rekur þingmenn Samfylkingarinnar út í þessa talnaleikfimi.

Það er kannski ekki nema von að stefna Samfylkingarinnar í menntamálum sé því marki brennd að bera vott um lítinn metnað. Þar er m.a. sagt að fjölga verði þeim sem útskrifast úr framhaldsskólum úr 60% í 80%.

Samkvæmt OECD-tölunum í Education at a Glance sem þau Ágúst Ólafur og Katrín vitna í var brautskráningarhlutfallið á Íslandi 84% í byrjun kjörtímabilsins.

,,Fjárfestingarátak" Samfylkingarinnar

"Fjárfestingarátak" Samfylkingarinnar á samkvæmt stefnu þeirra að leiða til þess að útgjöld til menntamála verði aukin á tveimur kjörtímabilum þannig að við lok síðara kjörtímabilsins verði búið að auka framlögin um 12 milljarða á ársgrundvelli.

Á þessu kjörtímabili hefur ríkisstjórnin staðið þannig að málum að útgjöld til menntamála hafa vaxið úr 24,2 milljörðum í 36,6 milljarða, eða um rúma 12 milljarða á einu kjörtímabili.

Svokallað ,,fjárfestingarátak" Samfylkingarinnar er ekkert átak, heldur áform um samdrátt.

Af ofangreindu má sjá að einkunnargjöf þingmanna Samfylkingarinnar stenst enga skoðun.  Málflutningur þeirra verðskuldar hins vegar falleinkunn.

Sigurður Kári.


Menntun er arðbær fjárfesting

 

264-220Morgunblaðið birti í gær grein eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.  Greinin ber yfirskriftina ,,Menntun er arðbær fjárfesting".  Aðgerðir Sjálfstæðisflokksins í menntamálum á síðustu árum hafa borið þess glögg merki að flokkurinn taki undir þá fullyrðingu að menntun sé arðbær fjárfesting og að menntakerfið skuli styrkja og efla.

Villandi talnabrellur

Hins vegar hefur verið dapurlegt að sjá hvernig Ingibjörg Sólrún og aðrir frambjóðendur Samfylkingarinnar hafa reynt að gera lítið úr þeirri menntabyltingu sem átt hefur sér stað í menntamálum á Íslandi á undanförnum árum með villandi talnabrellum og hreinum rangfærslum.  Samfylkingin virðist vera trú þeirri sannfæringu sinni í kosningabaráttunni að ef rangvísandi upplýsingar eru endurteknar nógu oft þá fari fólk að trúa þeim.

Rangar fullyrðingar Ingibjargar Sólrúnar

Ástæða er til að gera athugasemdir við nokkrar fullyrðingar sem fram koma í grein Ingibjargar Sólrúnar og hafa reyndar áður komið fram í greinum annarra frambjóðenda Samfylkingarinnar um menntamál, þar á meðal Ágústs Ólafs Ágústssonar og Katrínar Júlíusdóttur.

Í greininni segir Ingibjörg:  ,,Að mati okkar fremstu sérfræðinga er skortur á fjölbreytni ein helsta skýring þess að rúm 30% af hverjum árgangi lýkur ekki formlegu prófi frá framhaldsskóla.  Ísland er þar eftirbátur annarra ríkja eða í 23. sæti af 30 OECD-ríkjum."

Þessi fullyrðing er röng.  Staðreyndin er sú að um 97% þeirra sem ljúka grunnskóla hefja nám í framhaldsskóla.  Brottskráningarhlutfall úr framhaldskóla árið 2004 var 84% samkvæmt tölum OECD og hefur farið hækkandi síðan þá.  Við erum nú í fremstu röð á þessu sviði.

Á öðrum stað í greininni segir Ingibjörg:  ,,Á íslenskum vinnumarkaði eru 40 þúsund manns á aldreinum 25-64 ára sem ekki hafa lokið formlegu framhaldsnámi.  Þetta er allt að helmingi hærra hlutfall en á hinum Norðurlöndum."

Þessi fullyrðing er líka röng og framsetningin villandi, enda er þar miðað við þá sem luku framhaldsskólanámi á árabilinu 1989-1999.  Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar.   Talnaleikfimi Ingibjargar segir því litla sögu um það hvernig staðan er í dag.

Við erum í fremstu röð í menntamálum

Staðreyndin er sú að aldrei hafa fleiri stundað nám við framhaldsskóla og háskóla landsins og nú.  Háskólar hafa aldrei verið fleiri.  Aldrei hafa námsleiðir verið jafn margar, tækifærin fleiri og framtíð ungs fólks bjartari.  Ekkert ríki ver eins háu hlutfalli vergrar landsframleiðslu til menntamála og Íslendingar samkvæmt tölum frá OECD.  Um þetta verður ekki deilt.  Íslendingar eru í fremstu röð í menntamálum.

,,Fjárfestingarátak" Samfylkingarinnar

Samfylkingin kynnti á dögunum svokallað ,,Fjárfestingarátak" flokksins í menntamálum.  Samkvæmt ,,átakinu" Samfylkingarinnar er stefnt að því að útgjöld til menntamála verði aukin á tveimur kjörtímabilum þannig að við lok síðara kjörtímabilsins verði búið að auka framlög til málaflokksins um 12 milljarða á ársgrundvelli.

Á þessu kjörtímabili hefur ríkisstjórnin staðið þannig að málum að útgjöld til menntamála hafa vaxið úr 24,2 milljörðum í 36,6 milljarða, eða um rúma 12 milljarða á einu kjörtímabili.

Svokallað ,,fjárfestingarátak" Samfylkingarinnar og Ingibjargar Sólrúnar er því ekkert átak, heldur áform um samdrátt.

Í aðdraganda þessara kosninga hefur Samfylkingin valið að tala íslenska menntakerfið niður og reynt að gera lítið úr því.  Slíkur málflutningur er hvorki Samfylkingunni né menntakerfinu til framdráttar.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og formaður menntamálanefndar Alþingis.

Greinin birtist í Morgunblaðinu.


Samsæri kostaði okkur sæti í úrslitum

421433AÉg get ekki annað en verið afar ánægður með framgöngu Eiríks Haukssonar á sviðinu í Helsinki í kvöld.  Flutningur Eiríks á laginu var hnökralaus, þéttur og góður og laus við alla vitleysuna sem sumir þátttakendur buðu upp á í keppninni sem ekkert á skilið við söngvakeppni.  Okkar maður stóð því fullkomlega undir væntingum, enda ekki von á öðru þegar slíkur flauelsbarki er annars vegar.

 Ég get hins vegar ekki annað en lýst vonbrigðum mínum með að okkar maður skyldi ekki komast áfram í úrslitin því svo sannarlega stóð lagið og sérstaklega flutningurinn undir því að Eiríkur kæmist áfram.  En því miður gerðist það ekki, heldur urðu Hvíta-Rússland, Makedonía, Slóvenía, Ungverjaland, Georgía, Lettland, Serbía, Búlgaría, Tyrkland og Moldóvía hlutskarpari, að mati kjósenda.

Eins og upptalningin á þeim löndum sem áfram komust í úrslit sýnir er niðurstaða kvöldsins ekkert annað en fyndin.  Ég skyldi Eirík rauða bara býsna vel þegar hann sagðist vera svekktur og að úrslitin einkenndust af austurevrópsku mafíusamsæri.  Það þarf ekki annað en að renna yfir lista þeirra landa sem komust áfram til þess að sjá að okkar maður hefur rétt fyrir sér.  Og ekki eflist maður í trúnni á einlægan heiðarleika manna í þessari keppni þegar maður rifjar upp lögin og framgöngu þeirra þjóða sem áfram komust.

Ég hjó eftir því í viðtali við Eirík í Ríkissjónvarpinu að sá rauði vonaðist til þess að Íslendingar væru ánægðir með framgang sinn í keppninni í kvöld.  Eiríkur þarf að mínu mati ekki að hafa áhyggjur af því að frammistaða hans hafi valdið vonbrigðum.  Frammistaða hans var honum til mikils sóma og raunar alveg fantagóð.

Sigurður Kári.


Eiríkur okkar rauði

wallp2_240Klukkan sjö í kvöld er líklegt að það hægist nokkuð á kosningabaráttunni fyrir Alþingiskosningarnar.  Því þá mun Eiríkur okkar Hauksson eða "Eiríkur Rauði", eins og hann mun vera kallaður þessa dagana, stíga á svið í Finlandia-höllinn í Helsinki sem fulltrúi okkar Íslendinga í Eurovision-söngvakeppninni þetta árið.

Eiríkur er eini rauði maðurinn sem ég treysti mér til að lýsa yfir stuðningi við á þessum lokaspretti kosningabaráttunnar og vona svo sannarlega að hann muni syngja sig inn í úrslitin.  Vonandi gengur Eiríki betur að sjarmera kjósendur um alla Evrópu en rauðu stjórnmálaflokkunum hér á landi, Samfylkingu og Vinstri grænum, sem nú sverma fyrir íslenskum kjósendum sem vonandi munu ekki kalla yfir sig vinstristjórn í landinu.

Eiríkur hefur um langa hríð verið einn ástsælasti söngvari þjóðarinnar, allt frá því hann kenndi grasafræði í Seljaskólanum í Breiðholti og söng sig inn í hjörtu þjóðarinnar með smellunum "Gaggó-Vest" og "Gull", sem gefin voru út í tilefni 200 ára afmælis Reykjavíkurborgar árið 1986.  Eins og alþjóð veit hefur sá rauði einnig marga fjöruna sopið sem Eurovisionfari og keppti fyrir hönd Íslands og Noreg á árum áður.

Við sjálfstæðismenn munum að sjálfsögðu standa þétt að baki Eiríki, en ungir sjálfstæðismenn hafa ákveðið að blása til mikillar Eiríksgleði í kosningamiðstöð Sjálfstæðisflokksins í Húsi verslunarinnar.  Kynnir kvöldsins verður hinn geðþekki Eurovision-spekingur Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Að sjálfsögðu eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Sigurður Kári.


Sjálfstæðisflokkurinn vill bæta hag eldri borgara

xd_malefni_eldri_smallestFrá því að Sjálfstæðisflokkurinn tók við stjórn landsins árið 1991 hefur orðið bylting á Íslandi.  Fyrir þeirri byltingu finna allir þjóðfélagshópar í þeim tækifærum sem þeim standa til boða hvort sem er í efnahags- og atvinnumálum, menntamálum eða velferðarmálum.  Fólk finnur líka fyrir því í buddum sínum því á þessu tímabili hefur hagsæld aukist samkvæmt öllum mælikvörðum, skattar hafa lækkað og laun á sama tíma hækkað.  Við höfum gripið til aðgerða til þess að lækka matarverð og svo lengi mætti telja.
En þó svo að sá árangur sem náðst hefur sé í senn glæsilegur og ánægjulegur er ekki þar með sagt að Sjálfstæðisflokkurinn vilji láta staðar numið og vilji ekki gera betur.  Þvert á móti viljum við halda áfram og höfum því sett fram metnaðarfull markmið á öllum sviðum.

Eldri borgarar og afnám eignaskatts

Um fátt hefur verið meira rætt í aðdraganda þessara kosninga en um málefni aldraðra.  Það er sama við hvern ég hef talað, allir leggja þunga áherslu á að bæta þurfi kjör hinna eldri, einkum þess hóps eldri borgara sem lakast eru settir.  Þessar áherslur koma ekki eingöngu fram hjá eldri borgurum, heldur ekki síður hjá fólki á mínum aldri, enda á það að vera sérstakt markmið hinna yngri að vinna að velferð þeirra eldri.  Þeir eiga það skilið enda hafa þeir skilað sínu framlagi til þjóðfélagins með glæsilegum hætti og við af yngri kynslóðinni njótum nú ávaxta þeirrar vinnu.

Hagur eldri borgara vænkaðist verulega á síðsta kjörtímabili þegar elsti skattur Íslandssögunnar, eignaskatturinn, var afnuminn.  Eignaskatturinn, sem átti rætur sínar að rekja til tíundarinnar gömlu, var ósanngjarn og óréttmætur skattur, en hann var jafnframt einstaklega þungbær eldri borgurum, enda voru eldri borgarar þeir sem helst urðu fyrir þeirri skattheimtu.  Afnám eignaskattsins var því mikill sigur fyrir eldri borgara.

Sigur fyrir eldri borgara


Enn stærri sigur vannst í kjarabaráttu eldri borgara þegar Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti því yfir á landsfundi flokksins nýverið að á næsta kjörtímabili myndi Sjálfstæðisflokkurinn leggja sérstaka áherslu á bæta kjör eldri borgara, það er að segja að grípa til sérstakra aðgerða til þess að auka ráðstöfunarfé þessa hóps.  Og hvað er það sem Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að gera til þess að ná þessum markmiðum?

Hvað ætlum við að gera?

Í fyrsta lagi ætlum við að minnka skerðingar á lífeyrisgreiðslum frá almannatryggingakerfinu.  Slíkt er nauðsynlegt til þess að ná fram kjarabótum fyrir eldri borgara.  Í annan stað viljum við tryggja öllum lágmarkslífeyri úr lífeyrissjóði til viðbótar þeim greiðslum sem koma úr almannatryggingakerfinu, enda státa því miður ekki allir eldri borgarar af digrum lífeyrissjóðum sem þeir geta leitað í að lokinni starfsævi sinni.  Hefur formaður Sjálfstæðisflokksins nefnt að slíkar viðbótargreiðslur gætu numið 25.000 krónum á mánuði.  Í þriðja lagi viljum við sjálfstæðismenn beita okkur fyrir því að fólk sem er komið yfir sjötugt geti unnið launaða vinnu án þess að það skerði lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins eins og nú er.  Slík breyting er mikið réttlætismál.  Í stað þess að vera sjálfkrafa dæmdir út af vinnumarkaði myndi slík breyting hvetja eldri borgara til áframhaldandi þátttöku í atvinnulífinu og til þess að gera sig áfram gildandi í samfélaginu með okkur sem yngri erum.

Kjósum Sjálfstæðisflokkinn!

Sjálfstæðisflokkurinn hefur búið svo um hnútana að efnahagslegar forsendur eru til þess að ráðast í þessar aðgerðir.  Þær eru metnaðarfullar og ábyrgar.  Þær sýna að Sjálfstæðisflokkurinn og eldri borgarar eiga samleið.  Við munum standa við þessi loforð verði okkur áfram treyst fyrir forystuhlutverki í landsstjórninni.  Eina leiðin til að tryggja að markmiðin náist er sú að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í komandi kosningum.

Sigurður Kári Kristjánsson,
þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Greinin birtist í Vesturbæjarblaðinu.


Samfylkingin og skólagjöld - þeirra eigin orð

653-220Í aðdraganda þessara kosninga hefur nokkuð verið rætt um skólagjöld á háskólastigi.  Það hefur vakið athygli mína að á þeim fundum sem haldnir hafa verið um menntamál og einnig í umræðum í fjölmiðlum hefur Samfylkingin hafnað því alfarið að skólagjöld verði tekin upp í Háskóla Íslands.  Hafa fulltrúar Samfylkingarinnar hafnað því alfarið að stefna flokksins heimili slíka gjaldtöku.

Björgvin G. Sigurðsson heitir þingmaður Samfylkingarinnar sem nú leiðir lista flokksins í Suðurkjördæmi.  Við Björgvin G. höfum átt sæti í menntamálanefnd Alþingis á þessu kjörtímabili og segja má að Björgvin hafi verið ,,skuggaráðherra" Samfylkingarinnar í menntamálum og talsmaður flokksins í málaflokknum.

Því var ekki óeðlilegt að Björgvin G. skyldi hafa verið fulltrúi Samfylkingarinnar í umræðuþætti Sjónvarpsins á dögunum þar sem fjallað var um menntamál.  Í þættinum taldi Björgvin G. það ekki koma til greina að taka upp skólagjöld í framhaldsnámi í háskólum.

Þessi afstaða Björgvins G. til skólagjalda er í nokkru ósamræmi við þá afstöðu sem fram kom í ræðu hans sjálfs á Alþingi í nóvember í umræðum um háskólamál.  Þá sagði Björgvin G.:

,,En það kemur að sjálfsögðu til greina að veita heimildir til skólagjaldstöku á einhverjar tilteknar námsgreinar eða framhaldsnám að því uppfylltu að það sé lánað fyrir náminu og jafnræis til náms þannig að fullu framfylgt."

Í þessu sambandi er ástæða til að rifja upp að afstaða Björgvins G. í nóvember til skólagjalda á háskólastigi var í samræmi við afstöðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, til slíkrar gjaldtöku, en þann 15. október 2004 birtist viðhafnarviðtal við hana í Viðskiptablaðinu í aðdraganda formannskjörs Samfylkingarinnar þar sem hún felldi Össur Skarphéðinsson, þáverandi formann af stalli.  Í viðtalinu sagði Ingibjörg Sólrún:

,,Mér finnst skólagjöld á háskólastigi alveg geta komið til álita ... .  ...en ég sé engin sanngirnisrök fyrir því að fólk borgi verulegar fjárhæðir fyrir fullorðinsfræðslu og fyrir börn á leikskólum en ekkert fyrir aðgang að háskólum."

Það er merkilegt að sjá hvernig Samfylkingin er nú á harðahlaupum undan sínum eigin orðum nú skömmu fyrir kosningar.

Með framgöngu sinni eru frambjóðendur Samfylkingarinnar ekki að gera neitt annað en að beita blekkingum sem auðvelt er að sjá í gegnum.

Sigurður Kári.


Falleinkunn Samfylkingarinnar!

647-220Í síðustu viku skrifaði ég grein í Fréttablaðið undir fyrirsögninni ,,Við erum í fremstu röð í menntamálum."  Greinina má lesa á þessari heimasíðu, en í henni leiðrétti ég ýmsar rangfærslur sem frambjóðendur Samfylkingarinnar hafa haldið á lofti í kosningabaráttunni.  Hafa þar farið fremst í flokki sjálfur varaformaður Samfylkingarinnar, Ágúst Ólafur Ágústsson, og Katrín Júlíusdóttir, alþingiskona, sem bæði hafa tekið upp á því nýverið að ræða og skrifa um menntamál.

Allt frá því að ég tók sæti á Alþingi árið 2003 hef ég átt sæti í menntamálanefnd Alþingis og er formaður nefndarinnar.  Af þeirri ástæðu hef ég fengið tækifæri til þess að kynna mér þennan málaflokk vel og tekið virkan þátt í umræðu um hann innan þings sem utan.

Þess vegna fagna ég því þegar nýtt fólk blandar sér í umræður um menntamál.  Ég verð þó að gera þá játningu að gjarnan hefði ég viljað sjá þetta ágæta fólk blanda sér í umræður um menntamál fyrr á þessu kjörtímabili, en mér hefur þótt heldur lítið fara fyrir þeim Ágústi Ólafi og Katrínu á þessu sviði þar til nú skömmu fyrir kosningar.

Fram til þessa hefur málflutningur frambjóðenda Samfylkingarinnar verið mjög á einn veg, þann að íslenska menntakerfið sé aftarlega á merinni og að í raun sé allt í kalda koli í menntamálum.  Af þeim ástæðum sagði ég í niðurlagi greinar minnar:

,,Það er dapurlegt að sjá hvernig Samfylkingin reynir að gera lítið úr þeim stórmerkilega árangri sem hér hefur náðst í menntamálum á síðustu árum með villandi talnabrellum og hreinum rangfærslum.  Staðreyndirnar tala hins vegar sínu máli. Þær segja okkur svart á hvítu að við erum í fremstu röð í menntamálum. Hér hefur orðið bylting og hún blasir við öllum.  Það færi Samfylkingunni betur að viðurkenna að svo sé, frekar en að grípa til þeirra áróðursaðferða sem hér hefur verið líst.  Þær eru hvorki Samfylkingunni né menntakerfinu til framdráttar."

Það eru auðvitað ekki hægt að sitja undir þeim málflutningi Samfylkingarinnar að menntamál á Íslandi séu í ólestri og málaflokkurinn sé endalaust talaður niður af hálfu frambjóðenda hennar.  Slíkt er hvorki Samfylkingunni né menntakerfinu til framdráttar.

Í dag sýna þau Ágúst Ólafur og Katrín mér þann heiður að svara áðurnefndri grein minni í Fréttablaðinu.  Að sjálfsögðu mun ég svara þeim á sama vettvangi.  Hins vegar vekur athygli að Samfylkingin er enn við sama heygarðshornið.  Það þarf ekki nema að lesa fyrirsögn greinarinnar ,,Falleinkunn í menntamálum" til þess að átta sig á því á hvaða vegferð Samfylkingin er í þessum kosningum.  Það á að reyna með öllum tiltækum ráðum að sannfæra kjósendur um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi skilið eftir sig sviðna jörð þegar kemur að menntamálum.

Ekki trúi ég því að kjósendur kaupi þennan málflutning því allir sem hafa fylgst með þróun menntakerfisins og uppbyggingu þess sjá hvers konar bylting hefur átt sér stað á þeim vettvangi undir stjórn Sjálfstæðisflokksins.

Í því sambandi er ástæða til að minna á eftirfarandi:

- Aldrei hafa eins margir Íslendingar aflað sér menntunar og nú.

- Fjárframlög til menntamála hafa vaxið stórkostlega á síðustu árum.  Ekkert ríki ver eins háu hlutfalli vergrar landsframleiðslu til menntamála og Íslendingar samkvæmt tölum frá OECD.

-  Framlög til símenntunar og ýmissa annarra menntunarúrræða fyrir fullorðna hafa stóraukist.

-  Frá árinu 1995 hefur háskólanemum fjölgað úr 7.500 í um 17.000.  Þar af hefur fjöldi háskólanema í meistara- og doktorsnámi tuttugufaldast.

-  Árið 1995 voru háskólastofnanir 3, en eru nú 8.

-  Samkeppni milli háskóla hefur verið innleidd.

-  Fjárframlög til vísinda- og tækniþróunar á Íslandi hafa vaxið gríðarlega og eru nú með þeim hæstu sem þekkjast, nú síðast með samningi ríkisins og Háskóla Íslands.

-  Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur aldrei staðið betur og endurgreiðslubyrði námslána var lækkuð úr 4,75% í 3,75%.

-  Ný rammalöggjöf um háskóla hafa tekið gildi þar sem sérstök áhersla er lögð á gæðamat í háskólanámi.

-  Löggjöf um grunnskóla hefur verið breytt.  Fjármunir fylgja munu nú fylgja barni í öllum sveitarfélögum sem auka mun jafnræði barna og leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins í skólakerfinu í anda Hjallastefnu Margrétar Pálu.

-  Heildartími náms í grunnskóla hefur aukist.

-  97% nemenda sem nú ljúka grunnskólanámi hefja nám í framhaldsskóla.

-  Frelsi framhaldsskólans hefur aukist og sjálfstæði þeirra verið eflt.  Námsleiðum hefur fjölgað og skólarnir geta nú boðið upp á nám til stúdentsprófs frá tveimur árum til fjögurra.

Þessi listi gæti auðvitað verið miklu lengri.  Hann sýnir svo ekki verður um villst hvers konar grettistaki hefur verið lyft á undanförnum árum í menntakerfinu undir stjórn Sjálfstæðisflokksins.

Ég hef ekki trú á því að almenningur sé sammála frambjóðendum Samfylkingarinnar, þeim Ágústi Ólafi Ágústssyni og Katrínu Júlíusdóttur, sem nú riðjast allt í einu fram á ritvöllinn og gefa menntakerfinu sína falleinkunn.  Þeirra einkunnargjöf lýsir annað hvort vanþekkingu þeirra á þeirri miklu uppbyggingu sem átt hefur sér stað í menntakerfinu eða þau tala gegn betri vitund.  Mér finnst líklegra að almenningur gefi þeim sjálfum falleinkunn fyrir framgöngu sína í umræðum um menntamálum.

Málflutningur Samfylkingarinnar ber þess heldur ekki merki að þeirra frambjóðendur beri mikla virðingu fyrir því uppbyggingarstarfi sem þúsundir starfsmanna menntakerfisins hafa unnið að á síðustu árum hér á landi.

Þann 6. desember sl. sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, á fundi flokksins í Keflavík:

,,Vandi Samfylkingarinnar liggur í því að kjósendur þora ekki að treysta þingflokknum."

Ágúst Ólafur Ágústsson og Katrín Júlíusdóttir eru hluti af þeim þingflokki sem þarna var lýst.

Kjósendur ættu ekki að treysta þeim fullyrðingum sem frá þeim hafa komið á síðustu vikum.

Sigurður Kári.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband