Styrkir til stjórnmálaflokkanna

Þessa dagana birtast fréttir af því í fjölmiðlum hvaða fyrirtæki styrktu stjórnmálaflokkana með fjárframlagi á kosningaárinu 2007.

Umræður um styrki til stjórnmálaflokka hafa vakið upp ýmsar spurningar og stjórnmálaflokkar og fyrirtæki hafa sætt gagnrýni.

Einkum hefur verið gagnrýnt að félög og samtök sem annað hvort eru í eigu hins opinbera eða á fjárhagslegu framfæri hins opinbera hafi styrkt starfsemi stjórnmálaflokkanna.

x x x

Lögum samkvæmt fá stjórnmálaflokkarnir væn framlög úr ríkissjóði, en upphæð framlags úr ríkissjóði reiknast í hlutfalli við fjölda þingmanna hvers flokks. Samkvæmt upplýsingum úr samstæðureikningum stjórnmálaflokkanna sem eiga fulltrúa á Alþingi árið 2007 voru ríkisframlög til starfsemi þeirra eftirfarandi:

Framsóknarflokkur:       79.103.704.-.
Frjálslyndi flokkurinn:    33.620.529.-.
Samfylkingin:              128.976.529.-.
Sjálfstæðisflokkurinn: 140.101.471.-.
Vinstri grænir:              42.983.200.-.

Samkvæmt samstæðureikningum flokkanna námu fjárframlög ríkisins til þeirra árið 2007 alls kr. 424.767.466.-.

Ríkið leggur með öðrum orðum gríðarlegt fé til stjórnmálaflokkanna á ári hverju.

x x x

Í lögum um fjárframlög til stjórnmálaflokka kemur fram að stjórnmálaflokkar megi ekki taka við framlögum frá fyrirtækjum sem eru í meirihlutaeigu hins opinbera.

Engu að síður kemur fram í samstæðureikningum flokkanna að Framsóknarflokkur, Samfylking, Vinstri grænir og Sjálfstæðisflokkur fengu fjárstyrk frá Íslandspósti hf.

Ég fæ ekki séð að flokkunum fjórum sé stætt á öðru en að endurgreiða þessa styrki, enda virðast þeir ekki vera í samræmi við ákveði laganna.

x x x

Í umræðunni um styrki til stjórnmálaflokkanna hefur verið gagnrýnt að Sjálfstæðisflokkurinn hafi þegið fjárstyrk frá Neyðarlínunni ohf., en félagið styrkti flokkinn um 300.000 krónur árið 2007.

Ég hef ekki upplýsingar um hvernig rekstrarformi og eignarhaldi Neyðarlínunnar var háttað þegar styrkurinn var veittur.

Neyðarlínan er nú opinbert hlutafélag og í meirihlutaeigu íslenska ríkisins. 

Mín skoðun er sú að opinbert hlutafélag eins og Neyðarlínan eigi ekki að styðja stjórnmálaflokka og að stjórnamálaflokkar eigi ekki að taka við styrkjum frá félögum í eigu hins opinbera.

Ríkið styrkir starfsemi stjórnmálaflokkanna afar ríflega með beinum fjárframlögum, eins og hér hefur verið rakið. Viðbótarframlög frá félögum og stofnunum í eigu hins opinbera eiga ekki að viðgangast, enda koma þau úr sömu vösum og beinu ríkisframlögin, þ.e. úr vösum skattgreiðenda.

Í ljósi þess tel ég að Sjálfstæðisflokkurinn eigi að afþakka það framlag sem Neyðarlínan veitti flokknum árið 2007 og endurgreiða það og mér segir svo hugur að það verði gert.

x x x

Það sama gildir um Framsóknarflokkinn.

Upplýst hefur verið að utanríkisráðuneytið styrkti Framsóknarflokkinn um 90.000 krónur árið 2007. Valgerður Sverrisdóttir gegndi þá embætti utanríkisráðherra. Valgerður stóð með öðrum orðum að því að láta ráðuneyti sitt styrkja sinn eigin flokk fjárhagslega.

Valgerður hefur sjálf sagt að styrkurinn hafi verið veittur ungum framsóknarmönnum vegna farar þeirra á norræna ráðstefnu sem Samband ungra framsóknarmanna átti aðild að.

Vel má vera að svo sé.

Það breytir ekki því hins vegar ekki að ráðherra á ekki að hafa milligöngu um að ráðuneyti sitt styðji eigin stjórnmálaflokk fjárhagslega, hvort sem þiggjendurnir eru eldri flokksmenn eða yngri.

Slíkir fjárstyrkir eiga ekki að viðgangast og eðlilegt væri að Framsóknarflokkurinn endurgreiddi þennan fjárstyrk.

x x x

Ég tek eftir því að Skúli Helgason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar og núverandi frambjóðandi flokksins til Alþingis, kallar Sjálfstæðisflokkinn ,,Flokk auðmagnsins" á heimasíðu sinni. Þar býsnast Skúli yfir því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi fengið mun hærri fjárframlög frá einkaaðilum en aðrir flokkar.

Fyrir því eru auðvitað nokkrar ástæður.

Sú fyrsta er auðvitað sú að fleiri einkaaðilar studdu við bakið á Sjálfstæðisflokknum en öðrum flokkum.  Af þeirri ástæðu er heildarfjárhæð styrkja Sjálfstæðisflokksins hærri en annarra flokka.

Það er í öðru lagi ekkert óeðlilegt að stærsti stjórnmálaflokkur landsins til áratuga eigi auðveldara með að afla sér styrkja frá einkaaðilum en aðrir flokkar. Félagar í Sjálfstæðisflokknum skipta tugum þúsunda. Vilji þeir styðja fjárhagslega við bakið á flokknum sínum er ekkert athugavert við það og óþarfi að gera slík framlög tortryggileg.

Þá hefur það hefur aldrei verið leyndarmál að Sjálfstæðisflokkurinn hefur allt frá upphafi vega lagt áherslu á uppbyggingu íslensks atvinnulífs. Það þarf ekki að koma á óvart að forsvarsmenn í atvinnulífinu vilji styðja við bakið á þeim málsstað sem Sjálfstæðisflokkurinn berst fyrir.

Svo má auðvitað spyrja:

Af hverju ættu íslensk fyrirtæki að styðja stjórnmálaflokka, eins og vinstriflokkana, sem hafa það beinlínis á stefnuskrá sinni að skattleggja þau sem mest og takmarka svigrúm þeirra?

x x x

Þegar skoðaðir eru styrktaraðilar Samfylkingarinnar vekur hins vegar að minnsta kosti tvennt athygli.

Annars vegar vekur athygli að fjárframlög Baugs og tengdra félaga eru að minnsta kosti 100% hærri til Samfylkingarinnar en annarra stjórnmálaflokka.

Hitt sem vekur athygli er að fjögur verkalýðsfélög styrkja Samfylkinguna fjárhagslega. Styrkir verkalýðsfélaga til Samfylkingarinnar eru eftirfarandi:

Efling 25.000.-.
Samiðn 25.000.-.
Rafiðnaðarsambandið 25.000.-.
Starfsgreinasambandið 25.000.-.

Samtals styrktu verkalýðsfélögin Samfylkinguna um 100.000 krónur árið 2007, að því er mér virðist einan stjórnmálaflokka.

Það er athyglisvert, ekki síst í ljósi þess að félagsmenn í verkalýðsfélögunum koma úr öllum stjórnmálaflokkum.


Ég trúi ekki öðru en að félagsmenn í ofangreindum verkalýðsfélögum hljóti að gera athugasemdir við að forsvarsmenn þeirra skuli verja fjármunum félagsmanna til þess að styðja við bakið á einum stjórnmálaflokki. Það ættu að minnsta kosti þeir félagsmenn í þessum verkalýðsfélögum að gera sem ekki styðja Samfylkinguna.

x x x

Sjálfur hef ég margoft varað við því að verkalýðsfélögin í landinu tengist einstökum stjórnmálaflokkum of sterkum böndum.

Ég hef til dæmis gagnrýnt Ögmund Jónasson, formann B.S.R.B. og núverandi heimbrigðisráðherra, fyrir að nota bandalagið í þágu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og gagnrýnt hann harðlega fyrir að líta á BSRB sem deild í Vinsti grænum.

Sú gagnrýni hefur meðal annars byggst á því sjónarmiði að félagsmenn í verkalýðsfélögum eru flestir eða allir skyldaðir með lögum til aðildar við félögin og til þess að greiða til þeirra félagsgjöld. Af þeim ástæðum hef ég talið óeðlilegt að verkalýðsfélöginum sé beitt á flokkspólitískum forsendum í stjórnmálabaráttunni.

Mér finnst býsna langt seilst þegar forsvarsmenn verkalýðfélaganna eru farnir að nota fé úr sjóðum félagsmanna sinna til þess að styrkja einstaka stjórnmálaflokka.

x x x

Í tilefni af umræðunni nú um fjárframlög og styrki til stjórnmálaflokka er full ástæða til að rifja það upp sérstaklega að þegar löggjöf um fjárframlög til stjórnmálaflokkanna var til umræðu síðast lagði þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddsson, það til að fjárframlög fyrirtækja til flokkanna yrðu bönnuð.

Á það tilboð gátu Framsóknarflokkur og Vinstri grænir ekki fallist og allra síst Samfylkingin.

Fram til þessa hafa vinstriflokkarnir ekki séð ástæðu til að útskýra þá afstöðu sína.

Sigurður Kári.


Línurnar farnar að skýrast

Nú eru línurnar farnar í skýrast í íslenskum stjórnmálum.

 

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, lýsir því yfir í Fréttablaðinu í dag að hann vilji áframhaldandi samstarf ríkisstjórnarflokkanna eftir alþingiskosningarnar í vor.  Vinstristjórn sé það sem koma skal á Íslandi.

 

Í svipaðan streng tók Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og verðandi formaður Samfylkingarinnar.  Þar kom fram að hún vildi áframhaldandi stjórnarsamstarf með Steingrími og útilokaði ekki að flokkarnir tveir, Samfylking og Vinstri grænir, gengju bundnir til kosninga.

 

Björgvin G. Sigurðsson, fyrrum viðskiptaráðherra og oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, gengur í pistli á vefsíðu Björns Inga Hrafnssonar, pressan.is.  Þar lýsir Björgvin þeim draumi sínum vinstri flokkarnir á Íslandi bjóði saman fram og myndi kosningabandalag.

 

Ég held að viðhorf Björgvins lýsi ágætlega þeim draumi Samfylkingarfólks að taka Vinstrihreyfinguna grænt framboð yfir með tíð og tíma.  Þó sameining íslenskra vinstrimanna hafi mistekist þegar Steingrímur J. neitaði að verða hluti af samfylkingu þeirra sýnist mér að Björgvin og félagar séu ekki að baki dottnir í þeirri viðleitni sinni.

 

Einkennilegust er hins vegar staða Framsóknarflokksins í öllum þessum bollaleggingum. Það vekur auðvitað athygli að þegar forystumenn Samfylkingar og Vinstri grænna tala um áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf sjá þeir enga ástæðu til að minnast á Framsóknarflokkinn.  Raunar láta þeir eins og Framsóknarflokkurinn skipti engu máli við myndun nýrrar ríkisstjórnar, ekki frekar en þeir taka á honum minnsta mark um þessar mundir.

 

Það er athyglisvert að á sama tíma og Framsóknarflokkurinn ver minnihlutastjórn vinstriflokkanna vantrausti, lýsir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, því yfir að hann hafi orðið fyrir vonbrigðum með ríkisstjórnina.

 

Hann hefur líka lýst Samfylkingunni sem „loftbólustjórnmálaflokki“.  Hvað í því hugtaki felst, veit ég ekki.  En þó þykist ég vita að þar er ekki hrós á ferðinni í garð Samfylkingarinnar sem stjórnmálaflokks.

 

Engu að síður ver Sigmundur Davíð og flokkur hans minnihlutastjórn, Samfylkingar og Vinstri grænna vantrausti, og hefur auk þess lýst því yfir að hann vilji að mynduð verði vinstristjórn að loknum alþingiskosningum með aðild Framsóknarflokksins.

 

Ég held að það væri verðugt verkefni fyrir lesendur þessarar síðu að reyna að átta sig á því hversu margar mótsagnir hafa komið fram í málflutningi forystumanna Framsóknarflokksins á síðustu vikum um þessi mál.

 

Ég ætla að minnsta kosti ekki að leggja það á mig að reyna að botna í framgöngu framsóknarmanna, enda er hún í mínum huga allt að því óskiljanleg.

 

Hvað sem öllu þessu líður er ljóst línurnar virðast vera að skýrast í íslenskum stjórnmálum nú í aðdraganda alþingiskosninga.

 

Það bendir allt til þess að kjósendur fái að velja á milli nokkuð skýrra kosta í kosningunum.

 

Annars vegar vinstri-sósíalíska ríkisstjórn sem leggja mun áherslu á umfangsmikil ríkisumsvif, mikla skattheimtu og útgjaldapólitík, og hins vegar ríkisstjórn frjálslyndra og borgaralegra afla.

 

Valið ætti ekki að verða erfitt.

 

Sigurður Kári.


Spillingin er víða

Út er komið nýtt tölublað tímaritsins Þjóðmál í ritstjórn Jakobs F. Ásgeirssonar sagnfræðings.

Eins og áður eru Þjóðmál stútfull af áhugaverðum greinum um stjórnmál og menningu.

Ein þessara greina fjallar um spillingu innan Evrópusambandsins, en um hana er lítið fjallað í hérlendum fjölmiðlum.  Umræður í íslenskum fjölmiðlum um Evrópusambandið er á öðrum nótum.

Höfundur greinarinnar er Hjörtur J. Guðmundsson, sagnfræðinemi, en hún ber yfirskriftina ,,Spillt skriffinnskubákn."

Hjörtur er augsýnilega ekki hrifinn af Evrópusambandinu en grein hans er fyrir margra hluta sakir athyglisverð, en þar gerir hann meðal annars að umfjöllunarefni fjármál og bókhald Evrópusambandsins, sem hafa verið í miklum ólestri um margra ára skeið.

Í greininni segir m.a.:

,,En Evrópusambandið er ekki aðeins skriffinnskubákn heldur er það sömuleiðis gerspillt.  Fjöldi alvarlegra spillingarmála hefur komið upp í stjórnkerfi sambandsins á liðnum árum og virðist sem þeim hafi frekar farið fjölgandi en hitt.  Alvarlegasta málið er vafalaust sú staðreynd að endurskoðendur Evrópusambandsins hafa ekki treyst sér til þess að samþykkja bókhald sambandsins samfellt í 14 ár eða frá árinu 1994.  Ástæðan hefur iðulega verið sú sama, ekki er vitað með neinni vissu í hvað meirihluti útgjalda þess fer, eftir að þeim fjármunum hefur verið úthlutað til ríkja sambandsins.  Um hefur verið að ræða allt að 90% útgjaldanna og í sumum tilfellum rúmlega það."

Í greininni kemur fram að málið hafi fyrst orðið opinbert í byrjun árs þegar þáverandi yfirmaður endurskoðunarstofnunar Evrópusambandsins, Marta Andreasen, hafi vakið athygli fjölmiðla á því.

Jafnframt kemur fra að aðeins ein mannsekja hafi verið látin taka pokann sinn vegna málsins, en það er Marta Andreasen, sú sama og vakti á því athygli.

Ég er hræddur um að það myndi heyrast hljóð úr horni ef Ríkisendurskoðun neitaði að skrifa upp á bókhald íslenska ríkisins.  Hvað þá 14 ár í röð!

Þá má ekki gleyma því að fyrirtækjum, hér á landi og í Evrópu, er skylt að skila ársreikningum sínum á ári hverju, undirrituðum af löggiltum endurskoðendum.  Sé það ekki gert kann það að hafa í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir viðkomandi fyrirtæki.

Margar af þeim reglum sem gilda um ársreikninga og fjármál fyrirtækja eiga rót sína að rekja til Evrópusambandsins.

Það skýtur auðvitað skökku við að ríkjasamband sem setur slíkar reglur og fylgir því fast eftir að þeim sé framfylgt skuli ekki sjá sóma sinn í því að framfylgja þeim sjálft.

Sigurður Kári.


Áskorun: Endurskoðið stýrivaxtalækkun

Hin nýja peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tilkynnti fyrir stundu að lækka ætti stýrivexti um 1%.

Það þýðir að peningastefnunefnd ætlar að lækka stýrivexti úr 18% í 17%.

1% stýrivaxtalækkun er blaut tuska framan í heimili og fyrirtæki þessa lands.  Nefndin hefði að mínu mati átt að leggja til mun meiri lækkun stýrivaxta.

Það verður fróðlegt að sjá hver viðbrögð forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar við þessari vaxtalækkun verða.

Ég er viss um að heimilin í landinu og forsvarsmenn atvinnulífsins munu lýsa yfir sömu vonbrigðum með þessa ákvörðun nefndarinnar og ég hef hér gert.

Vilji stjórnvöld, ríkisstjórn og Seðlabanki Íslands, beita sér fyrir því að bæta kjör almennings og fyrirtækja er nauðsynlegt og skynsamlegt að grípa nú þegar til þess ráðs að lækka stýrivexti verulega og grípa til róttækra aðgerða til treysta rekstur fyrirtækjanna og létta undir með þeim.
 
Lækkun stýrivaxta um 1% er einungis hænuskref í þá átt.
 
Undir venjulegum kringumstæðum veikir lækkun stýrivaxta gengi gjaldmiðla.  Á Íslandi eru aðstæður nú hins vegar ekki venjulegar og hafa raunar ekki verið lengi.  Háir stýrivextir þjóna við núverandi aðstæður ekki þeim tilgangi að verja gengi krónunnar.  Það ætti öllum að vera orðið ljóst.  Þeir koma afar illa niður á almenningi og atvinnufyrirtækjum og halda þeim í rekstrarlegri herkví.
 
Heimilin í landinu þola ekki þessi vaxtakjör. Það gera fyrirtækin ekki heldur. Með gildandi gjaldeyrishöftum voru gríðarlegar hömlur settar á flutning fjármagns úr landi. Að sama skapi var þeim sem afla sér tekna erlendis gert skylt að flytja fjármuni sína til Íslands að viðlagðri refsiábyrgð. Við slíkar aðstæður er allt að því ómögulegt að rökstyðja hvers vegna stýrivextir eru svo háir. Rökréttara væri að þeir væru afar lágir.

Veruleg lækkun stýrivaxta nú kæmi sér afar vel fyrir fólk og fyrirtæki í landinu, sem því miður hafa ekki fengið margar jákvæðar fréttir á síðustu dögum.  Skynsamlegra hefði verið að taka stórt skref og lækka vexti duglega.  Það er ekki síður nauðsynlegt að gera allt til að bjarga því sem bjargað verður í íslensku atvinnulífi.
 
Flestir virðast vera sammála um mikilvægi slíkra aðgerða og það er ekki eftir neinu að bíða.  Nú verða stjórnvöld og seðlabanki að setja hag almennings og rekstur fyrirtækja í forgang og reyna að tryggja að hann geti borið sig þrátt fyrir afleitar aðstæður á fjármálamarkaði.  Þeim er nú beinlínis lífsnauðsynlegt að geta fjármagnað sig á viðunandi kjörum, sem ekki hafa verið í boði lengi.
 
Með því að lækka vexti með myndarlegum hætti nú hefðu stjórnvöld og Seðlabankinn treyst grundvöll atvinnulífsins og enduruppbyggingu þess og dregið úr hættu á frekara atvinnuleysi.
 
Ég skora á peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands að endurskoða ákvörðun sína og lækka stýrivexti verulega nú þegar til hagsbóta fyrir almenning og fyrirtækin í landinu.

Sigurður Kári.


Stjórnlagaþingið

Í síðasta pistli mínum um frumvarp ríkisstjórnarflokkanna og Framsóknarflokksins um breytingar á stjórnarskránni lýsti ég vonbrigðum okkar sjálfstæðismanna yfir því að slíkar tillögur væru lagðar fram án alls samráðs við stærsta stjórnmálaflokk landsins, Sjálfstæðisflokkinn.

Sá skortur á samningsvilja sem ríkisstjórnin þjáist af í stjórnarskrármálinu er nánast einsdæmi í stjórnmálasögunni, en þó má finna honum fordæmi leiti menn aftur til fjórða áratugs síðustu aldar, þegar gerðar voru breytingar á stjórnarskránni í andstöðu við vilja Framsóknarflokksins.

Það sama á við um annan tillöguflutning sem mikið fer fyrir um þessar mundir, en það er hugmynd Framsóknarflokksins um að stofnað verði til stjórnlagaþings á Íslandi.

Tryggvi Gíslason, fyrrum skólameistari á Akureyri, og einn helsti áhugamaður á Íslandi um að hér verði stofnað til stjórnlagaþings sendi okkur alþingismönnum opið bréf í tölvupósti í dag.  Þar segir m.a.:

,,Illt var að ekki skyldi reynt til þrautar að fá Sjálfstæðisflokkinn til þess að standa að frumvarpi um stjórnlagaþing, flokk sem hefur flesta fulltrúa á Alþingi og hefur verið stærsti stjórnmálaflokkur landsins frá stofnun lýðveldisins.“

Tryggvi lýsir hér viðhorfi sem ég hef hér reifað, það er mikilvægi þess að reynt sé að ná samkomulagi milli allra stjórnmálaflokka á Alþingi um grundvallarbreytingar á stjórnarskránni og þeim meginreglum sem stjórnskipan okkar byggir á.

Því miður deilir núverandi ríkisstjórn því viðhorfi ekki með okkur Tryggva Gíslasyni.

En þá að stjórnlagaþinginu.

Ég hef lýst yfir efasemdum um skynsemi þess að stofnað verði til stjórnlagaþings með þeim hætti sem ríkisstjórnin hefur lagt til að frumkvæði Framsóknarflokksins.

Nú liggur fyrir hvað stjórnlagaþing Framsóknarflokksins mun kosta fólkið í landinu.  1.700 til 2.100 milljónir króna segir fjármálaráðuneytið í kostnaðarmati sem lagt hefur verið fram.  Kostnaðurinn er með öðrum orðum gríðarlegur og mun meiri en framsóknarmenn lögðu upp með í upphafi, en þá var því haldið fram að kostnaður við stjórnlagaþing myndi nema 200 til 300 milljónum króna.

Talsmenn stjórnlagaþings hljóta nú að endurskoða hug sinn og að minnsta kosti velta því fyrir sér hvort verjanlegt sé að verja svo miklum fjármunum til stofnunar stjórnlagaþings.

Þeir hljóta að velta því fyrir sér hvort það sé ekki eitthvað bogið við það að vilja eyða 1,7 til 2,1 milljarði til þessa verkefnis miðað við ástand efnahagsmála.

Ríkissjóður er nú rekinn með 150 milljarða halla.  Við slíkar aðstæður þarf að forgangsraða fjármunum eftir mikilvægi mála.

Maður hlýtur að spyrja sig hvort ekki sé skynsamlegra að nota þessa miklu fjármuni í önnur og brýnni verkefni.  Í mínum huga er ljóst að verði stjórnlagaþingið að veruleika þá sé nauðsynlegt að skera niður fjárframlög til annarra málaflokka.  Og hvar á að skera niður?  Í öldrunarþjónustunni eða almannatryggingakerfinu?  Væri þessum fjármunum ekki betur varið til mennta- eða heilbrigðismála?

Þessum spurningum verða Framsóknarmenn og forystumenn ríkisstjórnarinnar að svara.

Hugmynd Framsóknarflokksins um stjórnlagaþing verður svo enn furðulegri þegar haft er í huga að nú þegar er starfrækt stjórnlagaþing á Íslandi.  Alþingi Íslendinga er stjórnlagaþing í þeim skilningi að þar eru stjórnlög sett.  Á Alþingi eru frumvörp til breytinga á stjórnarskrá lögð fram, flutt og samþykkt og svo borin undir þjóðaratkvæði.

Finnst fólki það virkilega skynsamlegt að stofna nýtt þing til hliðar við það þing sem þegar er til staðar?

Ég hef ekki orðið var við annað en að þeir sem hafa látið sig þessi mál varða hafi talað fyrir því að þingmönnum á Alþingi verði fækkað.

Hugmyndin um stjórnlagaþing gengur hins vegar út á að þingmönnum verði fjölgað um 41.  Er einhver glóra í því?

Ég tel að við núverandi aðstæður í efnahagslífinu ætti ríkisstjórnin og Framsóknarflokkurinn frekar að einbeita sér að því að finna leiðir til þess að koma heimilum landsins og atvinnulífinu til bjargar en að eyða orku sinni og fjármunum skattgreiðenda í að stofna nýtt þing til hliðar við það sem fyrir er.

Ég get vel skilið að stjórnmálaflokkar vilji slá sér upp skömmu fyrir kosningar í þeirri von að auka fylgi sitt.

Það er hins vegar ekki verjandi að eyða þúsundum milljóna króna af skattfé í stjórnlagaþing a.m.k. ekki í þeirri mynd sem lagt er til.

Við höfum ekki efni á því.

Sigurður Kári


Breytingar á stjórnarskránni

Sá orðrómur hefur verið nokkuð þrálátur í kjölfar þess að minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, sem Framsóknarflokkurinn ver vantrausti, kynnti frumvarp sitt til breytinga á stjórnarskrá Íslands að Sjálfstæðisflokkurinn sé mótfallinn því að gera breytingar á stjórnarskránni og reyni nú að tefja að þær nái fram að ganga.

Þessi orðrómur á ekki við rök að styðjast og er beinlínis rangur.

Sjálfstæðisflokkurinn og þingmenn hans hafa ítrekað lýst vilja sínum til þess að breyta stjórnarskránni.  Stjórnarskráin er að mörgu leyti úr sér gengin og þarfnast endurskoðunar.  Að slíkri endurskoðun hafa sjálfstæðismenn unnið og lagt fram tillögur um breytingar á henni.  Það er heldur ekki hægt að sitja undir því að Sjálfstæðisflokkurinn og þingmenn hans hafi með einhverjum hætti reynt að tefja framgang málsins innan Alþingis.  Það sjá allir sem kynna sér málið.

Hins vegar teljum við að það skipti máli með hvaða hætti stjórnarskránni er breytt.

Stjórnarskráin hefur að geyma grundvallarlög lýðveldisins.  Hún geymir meginreglur okkar þjóðskipulags sem önnur lög mega ekki brjóta í bága við.

Af þeim ástæðum er mikilvægt að löggjafinn umgangist stjórnarskránna af þeirri ábyrgð og virðingu sem hún á skilið og ætlast er til.  Nauðsynlegt er að vandað sé til verka þegar gerðar eru breytingar á þessum mikilvægasta lagabálki þjóðarinnar.  Um það hafa allir helstu stjórnlagasérfræðingar þjóðarinnar verið sammála síðan hún var upphaflega sett.

Þess vegna höfum við sjálfstæðismenn varað við því að beitt verði fljótaskrift og handahófskenndum vinnubrögðum varðandi grundvallarbreytingar á mikilvægum ákvæðum stjórnarskrárinnar, líkt og ríkisstjórnin, með stuðningi Framsóknarflokksins, leggur nú til að gert verði.  Á slík vinnubrögð mun Sjálfstæðisflokkurinn ekki fallast þegar stjórnarskráin er annars vegar.

Við sjálfstæðismenn höfum einnig lýst vonbrigðum okkar með að gerðar séu tillögur um breytingar á stjórnarskránni án alls samráðs við stærsta stjórnmálaflokk landsins.  Síðustu áratugi hafa allar þær breytingar sem gerðar hafa verið á stjórnarskránni verið gerðar með samkomulegi allra stjórnmálaflokka á Alþingi.  Um fordæmi fyrir öðru þarf að leita allt til fjórða áratugs síðustu aldar, þegar gerðar voru breytingar á stjórnarskránni í andstöðu við vilja Framsóknarflokksins.  Frá þeim tíma hafa stjórnmálaflokkarnir komið sér saman um breytingar á stjórnarskrá, þar til nú.

Vonandi munu stjórnarflokkarnir sjá að sér og ná samkomulagi við Sjálfstæðisflokkinn um breytingar á stjórnarskránni.  Slíkt samkomulag ætti að geta náðst því nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa sett fram tillögur um efni slíks samkomulags, sem lýtur að því að auðvelda breytingar á stjórnarskránni í framtíðinni með þjóðaratkvæðagreiðslum.

,,Stjórnarskráin er grunnlög lýðveldisins og þar er mikilvægt að um þau sé fjallað af mikilli ábyrgð og það sé reynt að ná sem breiðastri og víðtækastri samstöðu um þau mál."

Þetta sagði Össur Skarphéðinsson, núverandi utanríkis- og iðnaðarráðherra, í ræðu sem hann hélt á Alþingi þann 9. Mars 2007, þá sem stjórnarandstæðingur.

Í sömu umræðu sama dag sagði Ögmundur Jónasson, þá formaður þingflokks Vinstri grænna, nú heilbrigðisráðherra:

,,Stjórnarskránni á ekki að breyta í þeim tilgangi að afla kjörfylgis í aðdraganda kosninga, en framganga Framsóknarflokksins, sérstaklega í þessu máli, ber öll þess merki."

Ég er sammála þeim Ögmundi og Össuri.

Vonandi muna þeir félagar eftir því hvað þeir sjálfir sögðu fyrir tveimur árum síðan.

Og vonandi tekst þeim að sannfæra félaga sína í ríkisstjórninni um að þeir séu á rangri leið.

Sigurður Kári.


Þakkir!

Ég vil nota tækifærið og þakka innilega fyrir þann mikla og breiða stuðning sem ég hlaut í prófkjöri okkar sjálfstæðismanna í Reykjavík sem haldið var nú um helgina.

 

Niðurstaða prófkjörsins liggur nú fyrir og ég endaði í 5. sæti, sem þýðir að ég mun skipa 3. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í öðru Reykjavíkurkjördæminu fyrir komandi alþingiskosningar.  Keppnin milli mín og Ólafar Nordal, alþingismanns, um 4. sætið í prófkjörinu var æsispennandi og á endanum munaði einungis 60 atkvæðum á okkur tveimur.

 

Ég er afar þakklátur fyrir þá niðurstöðu sem ég hlaut og ekki síður með það hversu margir sjálfstæðismenn greiddu mér atkvæði sitt eða alls 4.676.

 

Ég vil líka nota tækifærið og þakka fyrir þá miklu velvild sem ég fann í minn garð í þessu prófkjöri.  Það var ótrúlegt að fylgjast með því hversu margir einstaklingar voru reiðubúnir að leggja lóð sitt á vogarskálarnar og vinna fyrir mig í prófkjörinu.  Fyrir það er ég afskaplega þakklátur og þakka öllum þeim sem veitt mér aðstoð í þessari baráttu.

 

Að mínu mati fór þetta prófkjör okkar sjálfstæðismanna í Reykjavík ákaflega vel fram.  Auglýsingum var stillt í hóf og kosningabaráttan byggðist fyrst og fremst á málefnalegum grunni.  Það er sérstakt ánægjuefni enda eiga kosningabarátta að snúast um innihald fremur en umbúðir.

 

Ég er stoltur af minni kosningabaráttu.  Ég tel að hún hafi verið málefnaleg, jákvæð og uppbyggileg frá upphafi til enda.  Sjálfur ritaði ég fjölmargar greinar í blöð og setti fram hugmyndir á heimasíðu minni og á fundum með frambjóðendum um lausn þeirra vandamála sem við samfélaginu okkar blasa.  Á þeim sömu nótum störfuðu stuðningsmenn mínir.  Sjálfur vona ég að þau málefni sem ég beitti mér fyrir verði veganesti fyrir Sjálfstæðisflokkinn í komandi alþingiskosningum.

 

Ég hef tekið eftir því að ýmsir álitsgjafar hafa verið að túlka niðurstöður í prófkjörum okkar Sjálfstæðismanna um allt land með þeim hætti að niðurstaða þeirra feli ekki í sér neina endurnýjun.

 

Ég er ósammála slíkum sjónarmiðum.

 

Úrslit þeirra prófkjara sem fram hafa farið á vegum Sjálfstæðisflokksins fela í sér kynslóðaskipti í forystu flokksins bæði með tilliti til aldurs og lengdar þingsetu.  Í raun eru kynslóðaskiptin í Sjálfstæðisflokknum miklu skýrari en hjá vinstri flokkunum.  Hjá Samfylkingu og Vinstri grænum munu sömu aðilar vera í lykilhlutverkum og verið hafa á síðustu árum og áratugum.

 

Innan Sjálfstæðisflokksins er hins vegar ljóst að nýtt fólk mun verða í forystu fyrir flokkinn í komandi alþingiskosningum.  Í því sambandi er ástæða til að minna á að mjög margir burðarásar úr forystusveit Sjálfstæðisflokksins hverfa af vettvangi stjórnmálanna eftir næstu alþingiskosningar eða eru nýhættir stjórnmálaafskiptum.

 

Nægir þar að nefna að formaður Sjálfstæðisflokksins, Geir H. Haarde, stígur nú til hliðar og verður ekki í framboði í fyrsta skipti síðan árið 1987.  Jafnframt hverfa af vettvangi þeir Björn Bjarnason, Árni M. Matthiesen, Sturla Böðvarsson, auk Guðfinnu S. Bjarnadóttur, en stutt er síðan Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og Halldór Blöndal, fyrrverandi forseti Alþingis, hurfu af vettvangi.

 

Þessar staðreyndir sýna að mikil endurnýjun hefur átt sér stað í forystusveit Sjálfstæðisflokksins.

 

Þá verður ekki annað séð en að staða kvenna í Sjálfstæðisflokknum hafi styrkst frá síðustu kosningum.  Munar þar mestu um niðurstöðu prófkjara í Suðurkjördæmi og í Kraganum, en í Reykjavík er staða kvenna sambærileg frá því sem var fyrir síðustu alþingiskosningar.

 

Nokkuð hefur verið rætt um að kjörsókn í prófkjöri okkar sjálfstæðismanna í Reykjavík hafi verið dræm.  Það er rétt að kjörsókn minnkaði nokkuð sé miðað við síðasta prófkjör okkar árið 2006.  Á hinn bóginn má benda á að nokkur hunduð fleiri sjálfstæðismenn tóku þátt í prófkjörinu nú en árið 2002.  Í ljósi þess má segja að þátttaka í prófkjörinu nú hafi verið býsna ásættanleg.

 

Að lokum vil ég þakka keppinautum mínum í prófkjörinu fyrir drengilega kosningabaráttu og óska þeim öllum til hamingju með árangur sinn.

 

Sigurður Kári.


Kæru sjálfstæðismenn

Í prófkjöri okkar sem fram fer í dag og á morgun legg ég verk mín sem alþingismaður í dóm samherja minna.  Ég óska eftir stuðningi í 2.-3. sæti í prófkjörinu.

Þegar ég tók sæti á Alþingi árið 2003 hét ég því að vinna ötullega að málefnum sem snerta allan þorra almennings sem er umhugað um að bæta kjör sín.  Vera talsmaður almannahagsmuna en ekki sérhagsmuna og vinna í þágu sjálfstæðisstefnunnar.  Á þessum forsendum hef ég unnið.

Við stjórnmálamönnum blasa nú risavaxin verkefni við endurreisn samfélagsins.  Við höfum verk að vinna og ég er reiðubúinn að axla þá miklu ábyrgð sem í þeirri vinnu felst.  Á síðustu vikum og mánuðum hef ég sett fram þau áherslumál og hugmyndir sem ég vil beita mér fyrir við þá endurreisn.

Ég tók alvarlega það traust sem mér var sýnt í síðasta prófkjöri.  Ég hef barist af krafti fyrir því að sjónarmið mín og Sjálfstæðisflokksins næðu fram að ganga, bæði í stjórn og ekki síður nú, í stjórnarandstöðu.  Sjálfur hef ég átt frumkvæði að fjölda þingmála.  Er þar skemmst að minnast frumvarps sem ég samdi og samþykkt var sem lög frá Alþingi sem greiða fyrir og hvetja til málsókna á hendur Bretum vegna beitingar hryðjuverkalaga.

Á Alþingi hefur mér verið falin mikil ábyrgð m.a. með formennsku í menntamálanefnd, þar sem ég hef m.a. unnið að heildarendurskoðun löggjafar um skólamál.  Ég tel að á síðustu 6 árum hafi ég aflað mér mikilvægrar reynslu og þekkingar til að takast á við þau brýnu verkefni sem nú bíða úrlausnar.

Ég hef fundið fyrir miklum stuðningi í minn garð og ekki síður við þau áherslumál sem vil beita mér fyrir við endurreisn samfélagsins.

Sá stuðningur er mér afar mikilvægur.  Samband mitt við sjálfstæðismenn, ekki síst fjölmarga ósérhlífna þátttakendur í starfi flokksins í Reykjavík, er mér ómetanlegt.
Í þessu prófkjöri sæki ég fram.  Ég sækist eftir því að vera í forystu Sjálfstæðisflokksins við það mikla endurreisnarstarf sem framundan er.  Þess vegna fer ég þess á leit við sjálfstæðismenn að þeir veiti mér atkvæði sitt í 2.-3. sæti í komandi prófkjöri.

Höfundur er alþingismaður og óskar eftir stuðningi í 2.-3. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.

www.sigurdurkari.is


Icesave

Í dag tók ég þátt í utandagskrárumræðu á Alþingi um Icesave-málið, viðbrögð ríkisstjórnarinnar og þá hagsmuni sem í húfi eru fyrir þjóðarbúið og framtíðarkynslóðir þjóðarinnar vegna þess. 

Icesave-málið er líklega stærsta og mikilvægasta hagsmunamál sem íslenska þjóðin hefur staðið frammi fyrir á síðari tímum.

Að mínu mati verður ríkisstjórnin að taka sig saman í andlitinu.  Því miður er lítið að gerast í málinu þó hagsmunirnir séu gríðarlegir.

Ég hef margoft sagt að ríkisstjórnin þurfi að endurskoða frá grunni stefnumörkun og aðgerðir vegna deilunnar við bresk stjórnvöld um uppgjör vegna Icesave-reikninganna. Í því máli verður að verjast af fullri hörku og ég hef verið harður talsmaður þess að farið verði í mál við Breta vegna Icesave málsins og beitingar hryðjuverkalaga gegn Íslendingum.

Ég hef sagt að til þess sé nauðsynlegt að leitað verði liðsinnis færustu sérfræðinga og samningamanna sem hafa reynslu af samningaviðræðum sem þessum.  Því miður hefur það ekki verið gert.

Slíkt er ekki ásættanlegt og þess vegna gagnrýndi ég ríkisstjórnina harðlega fyrir viðbrögð sín í Icesave-málinu.

Undir þá gagnrýni hafa tveir valinkunnir lögfræðingar tekið, þeir Stefán Már Stefánsson, prófessor í Evrópurétti, og Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður, í blaðagreinum í Morgunblaðinu, og furðað sig á því hvers vegna ríkisstjórnin hefur ekki haldið fram lagalegum rétti Íslendinga í málinu gagnvart Bretum í máli sem varðar okkur Íslendinga hagsmuni upp á 650 milljarða og leynt þingið lögfræðilegum álitsgerðum sem unnar hafa verið vegna málsins.

Maður hlýtur í ljósi sjónarmiða lögfræðinganna tveggja hvers vegna  ríkisstjórnin hafi ekki leitað til þeirra til þess að gæta hagsmuna okkar gagnvart Bretunum?  Það er óskiljanlegt hvers vegna það hefur ekki verið gert.

Eitt það versta við framgöngu ríkisstjórnarinnar í Icesave málinu er það pukur og sú leynd sem hvílt hefur yfir málinu.

Við þingmenn þurftum til dæmis að sætta okkur við að sjá í viðtali á sjónvarpsstöðinni Skjá einum að fyrrverandi utanríkikisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefði átt einkafund um Icesave-málið við utanríkisráðherra Breta, David Miliband.  Hvorki þingið né þjóðin, sem þarf hugsanlega að greiða þessi ósköp, fær neitt að vita hvað fór fram á þeim fundi.  Ríkisstjórninni skuldar að mínu mati  þinginu og þjóðinni skýringar á því hvað þar fór fram.

Eins og ég hef áður sagt þá er það er ekki valkostur að skuldbinda íslenska ríkið og kynslóðir framtíðarinnar um allt að 650 milljarða króna.

Undir slíkri skuldsetningu geta kynslóðir framtíðarinnar ekki staðið. Ég tel að íslenskum stjórnvöldum sé ekki stætt á því að skuldsetja framtíð barna okkar og barnabarna með þeim hætti.

Það verður að koma í veg fyrir að það verði gert.

Ríkisstjórnin verður að fara að taka sig saman í andlitinu!

Sigurður Kári.


Ríkisstjórnin er klofin

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, lagði á dögunum fram frumvarp til laga sem varða fjárfestingarsamning vegna álvers í Helguvík.  Frumvarpið er stjórnarfrumvarp, lagt fram af ríkisstjórn Íslands, en með framlagningu þess vill Össur Skarphéðinsson greiða fyrir framkvæmdum við álver í Helguvík.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa líst því yfir að þeir séu fylgjandi málinu og muni að óbreyttu styðja það, enda skiptir samþykkt frumvarpsins miklu um nauðsynlega atvinnuuppbyggingu í landinu.

Nú ber hins vegar svo við Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, hefur líst því yfir að sinn flokkur muni ekki styðja frumvarp iðnaðarráðherrans.  Í sama streng hefur Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar tekið.  Hann mun nú standa fyrir miklum liðssöfnuði innan þingflokks Samfylkingar þar sem hann freistar þess að fá sem flesta þingmenn flokksins til þess að fella frumvarpið, sem flutt er eins og áður segir af ráðherra Samfylkingarinnar.

Öll þessi atburðarrás er auðvitað með miklum ólíkindum.

Í umræðum á Alþingi í vikunni spurði ég forseta Alþingis að því hvort hægt væri að líta svo á að frumvarp Össurar Skarphéðinssonar væri í raun ríkisstjórnarfrumvarp.

Ástæðan fyrir fyrirspurn minni var auðvitað sú að fyrir liggur að helmingur ríkisstjórnarinnar styður ekki frumvarp sem hún sjálf leggur fram.

Ég hygg að það sé einsdæmi í þingsögunni að lagt sé fram stjórnarfrumvarp á Alþingi sem einungis helmingur ríkisstjórnarinnar styður.  Ljóst er að Össur Skarphéðinsson ætlar að freista þess að fá okkur þingmenn Sjálfstæðisflokksins og þingmenn Framsóknarflokks og Frjálslynda flokksins til þess að draga sig að landi, á sama tíma og samráðherrar hans í ríkisstjórn úr röðum Vinstri grænna munu berjast gráir fyrir járnum gegn samþykkt þess, með liðsinni Marðar Árnasonar og fótgönguliða hans.

Sú staðreynd hvernig á þessum máli, sem varðar nauðsynlega atvinnuuppbyggingu á Íslandi, er haldið af hálfu ríkisstjórnar segir meira en mörg orð um ástandið innan ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna, minnihlutastjórn sem Framsóknarflokkurinn ver falli.

Þetta mál endurspeglar með skýrum hætti þann klofning sem er innan ríkisstjórnarinnar um atvinnuuppbyggingu á Íslandi.  Það ætti engum að dyljast að ríkisstjórnin er klofin í herðar niður.

Við núverandi aðstæður í efnahags- og atvinnulífinu er slíkur klofningur ekki í boði.

Sigurður Kári.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband