Föstudagur, 17. apríl 2009
Listamannalaun
Ný lög um listamannalaun voru samþykkt á Alþingi í gær.
Með þessum nýju lögum fjölgar listamönnum á launaskrá ríkisins. Listamönnum sem þiggja laun frá ríkinu verður fjölgað á þriggja ára tímabili um 400 sem þýðir að á árinu 2012 verði samtals 1.600 mánaðarlaun til ráðstöfunar til starfslauna og styrkja í stað 1.200 mánaðarlauna nú.
Ég greiddi atkvæði gegn frumvarpinu.
Afstaða mín til frumvarpsins helgast ekki af andúð minni á listamönnum. Síður en svo. Hins vegar þarf varla að fara mörgum orðum um að nýju lögin um listamannalaun hafa í för með sér veruleg útgjöld fyrir ríkissjóð og skattgreiðendur.
Eins og ég benti á í umræðum á Alþingi þá hefur ríkissjóður ekki efni á því að fjölga listamönnum á launaskrá ríkisins. Það sjá allir. Og frumvarpið sem samþykkt var á Alþingi staðfestir þá skoðun, því ætlun ríkisstjórnarinnar er sú að fjármagna þessar auknu launagreiðslur með lántökum.
Ég velti því fyrir mér í umræðum um þetta mál hvort fjármálaráðherrann, Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, hyggðist fjármagna þetta verkefni með því að lækka laun opinberra starfsmanna og með hækkun skatta á heimilin í landinu, eins og hann, Katrín Jakobsdóttir og aðrir forystumenn Vinstri grænna hafa boðað.
Þeirri spurningu er ósvarað.
Hitt er ljóst að einhversstaðar þarf að finna þessa peninga og háttur vinstrimanna er sá að taka þá úr vösum fólksins í landinu.
Sigurður Kári.
Mánudagur, 6. apríl 2009
Málþóf?
Ég mótmæli því harðlega að Sjálfstæðisflokkurinn beiti málþófi í umræðum um breytingar á stjórnarskránni og því að hafa verið þátttakandi í því.
Þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna kasta hins vegar steinum úr glerhúsi þegar þeir saka okkur um málþóf.
Þessir sömu þingmenn sem hafa nú uppi slíkar athugasemdir eru þeir þingmenn sem lengst hafa gengið í málþófi um léttvægari mál en stjórnarskránna.
Mér er til dæmis minnisstætt þegar Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar ákvað að lesa bókin ,,Frelsið", eftir John Stuart Mill í umræðum um fjölmiðlafrumvarpið. Mér líður líka seint úr minni sú nótt sem ég þurfti að eyða í þingsalnum þar sem ég hlustaði á rúmlega 6 klukkustunda ræðu Ögmundar Jónassonar um Ríkisútvarpið.
Til samanburðar hef ég rætt um stjórnarskrárfrumvarpið samtals í eina klukkustund í þeirri umræðu sem nú stendur yfir.
Á þetta benti ég í umræðum um hádegisbil á Alþingi í dag, en ég lét taka saman athyglisverða tölfræði um ræðulengd á síðustu árum á Alþingi, en þar kemur eftirfarandi fram hversu langan tíma umræður um ýmis mál hafa tekið:
- Vatnalög 57 klukkustundir og 40 mínútur.
- Fjölmiðlafrumvarp 92 klukkustundir og 59 mínútur.
- EES-samningurinn 100 klukkustundir og 37 mínútur.
- Ríkisútvarpið 119 klukkustundir og 46 mínútur.
Þegar ég vakti athygli á þessari tölfræði hafði umræða um stjórnarskránna staðið í 34 klukkustundir og 30 mínútur.
Það er auðvitað dálítið merkilegt að þingmenn, einkum þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, sem sjálfir hafa séð ástæðu til að eyða tíma Alþingis í á annað hundrað klukkustundir um málefni eins fjölmiðlafyrirtæki skuli telja sig umkomna þess að saka aðra um málþóf í umræðum á Alþingi, ekki síst þegar til umræðu eru breytingatillögur á grundvallarlögum íslenska lýðveldisins.
Það er líka merkilegt að fjölmiðlar skuli ekki rifja upp framgöngu þeirra sjálfra á Alþingi á síðustu árum.
,,Stjórnarskráin er grunnlög lýðveldisins og þar er mikilvægt að um þau sé fjallað af mikilli ábyrgð og það sé reynt að ná sem breiðastri og víðtækastri samstöðu um þau mál."
Þetta sagði Össur Skarphéðinsson, núverandi utanríkis- og iðnaðarráðherra, í ræðu sem hann hélt á Alþingi hinn 9. mars 2007, þá sem stjórnarandstæðingur.
Þó Össur virðist vera búinn að gleyma sínum eigin orðum nú, aðeins tveimur árum eftir að þau voru látin falla, þá er ég sammála Össuri.
Það á að fjalla um breytingar á stjórnarskrá af ábyrgð og það er nákvæmlega það sem við Sjálfstæðismenn höfum verið að gera á Alþingi.
Við sættum okkur ekki við að minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, með stuðningi Framsóknarflokksins, þröngvi í gegn breytingum á stjórnarskrá sem þingflokkur okkar og nánast allir þeir fræðimenn og hagsmunaaðilar sem veitt hafa umsagnir um framvarpið vara við.
Við teljum það skyldu okkar að berjast gegn öllum slíkum tilburðum.
,,Stjórnarskránni á ekki að breyta í þeim tilgangi að afla kjörfylgis í aðdraganda kosninga, en framganga Framsóknarflokksins, sérstaklega í þessu máli, ber öll þess merki."
Sagði Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, hinn 9. mars 2007.
Það sætir furðu að nú aðeins tveimur árum seinna sé Ögmundur Jónasson ekki sammála sjálfum sér.
Breytingar á stjórnarskránni munu ekki koma heimilunum og fyrirtækjunum til hjálpar. Það vita allir.
Þess vegna eiga Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Guðbjartur Hannesson, forseti Alþingis, að sjá sóma sinn í því að setja mál sem varða heimilin og fyrirtækin í landinu á dagskrá þingsins.
Það vald er í þeirra höndum.
Ekki okkar sjálfstæðismanna.
Sigurður Kári.
Laugardagur, 4. apríl 2009
Darling tekinn á beinið
Í skýrslunni kemur fram að Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, hafi rangtúlkað orð Árna M. Matthiesen, fyrrum fjármálaráðherra Íslands, í frægu símtali sem þeir áttu þann 7. október sl., daginn eftir að neyðarlögin svokölluðu voru sett og bankakerfið á Íslandi hrundi.
Í skýrslunni segir m.a.:
,,Útskrift af samtali fjármálaráðherrans við íslenska fjármálaráðherrann staðfestir ekki að íslenska ríkisstjórnin hafi haldið því fram að hún myndi ekki virða skuldbindingar sínar."
Rangtúlkun Alistair Darling á orðum Árna Mathiesen og beiting hryðjuverkalaganna reyndist íslensku þjóðinni dýrkeypt. Þó staða íslensku fjármálafyrirtækjanna hafi verið erfið á þeim tíma sem Bretar beittu okkur hryðjuverkalögum er ljóst að framganga Breta í garð íslensku þjóðarinnar gerði það að verkum að landið sökk dýpra ofan í þá efnahagskreppu sem fyrir var og skaðaði orðstýr þjóðarinnar með stórkostlegum hætti á alþjóðavettvangi.
Í skýrslunni kemur fram að fjárlaganefndin breska telji augljóst að beiting hryðjuverkalaganna hafi haft mikil áhrif á tilraunir íslenskra stjórnvalda til að verja íslenska bankakerfið falli. Sú yfirlýsing er auðvitað mikilvæg í ljósi þess að mikil orka fer í það þessa dagana hjá andstæðingum Sjálfstæðisflokksins að kenna honum einum um það sem aflaga fór í aðdraganda og kjölfar bankahrunsins.
Það er auðvitað stórmál að bresk þingnefnd komist að niðurstöðu sem felur í sér svo afgerandi gagnrýni á störf eins af hæst settu ráðherrum landsins. Ég á erfitt með að trúa öðru en að þess verði krafist að Alistair Darling verði krafinn afsagnar úr ráðherraembætti nú þegar leitt hefur verið í ljós hvers konar offorsi sá maður hefur beitt í embættisfærslum sínum með þeim afleiðingum sem öllum eru kunn.
Að minnsta kosti er ljóst að íslenska þjóðin mun senda þeim þingmanni á breska þinginu sem krefst afsagnar ráðherrans hlýjar kveðjur.
Niðurstaða bresku fjárlaganefndarinnar í sér mikinn sigur fyrir okkur Íslendinga. Hún styrkir óneitanlega réttarstöðu þeirra íslensku fyrirtækja sem leita vilja réttar síns fyrir breskum dómstólum, en hún gerir samningstöðu íslenskra stjórnvalda gagnvart þeim bresku mun sterkari en áður.
Það varðar því miklum þjóðarhagsmunum að íslensk stjórnvöld nýti sér niðurstöðu bresku fjárlaganefndarinnar til fulls í komandi samningaviðræðum.
Ég tók þátt í stuttum umræðum um skýrslu bresku fjárlaganefndarinnar á Alþingi í dag.
Þar óskaði ég eftir því við forseta Alþingis að efni skýrslunnar og fyrirhuguð viðbrögð ríkisstjórnarinnar við henni yrðu rædd á Alþingi strax á mánudag, enda tel ég málið varði svo mikla þjóðarhagsmuni að Alþingi Íslendinga geti ekki og megi ekki láta hjá líða að ræða málið.
Alþingi Íslendinga hefur þegar líst með formlegum hætti andúð sinni á framferði breskra stjórnvalda þegar þeir beittu okkur Íslendinga hryðjuverkalögum.
Þegar Alþingi samþykkti frumvarp mitt um fjárhagslega fyrirgreiðslu vegna málsókna gegn breskum stjórnvöldum fyrir áramót sendi Alþingi frá sér þau pólitísku skilaboð til breskra stjórnvalda um að við Íslendingar hefðum fullkomna skömm á framferði þeirra gegn okkur, Íslendingar væru ekki hryðjuverkamenn og sættu sig ekki við að vera meðhöldlaðir sem slíkir.
Nú stígum við næsta skref í þessu máli.
Vonandi mun ríkisstjórn Íslands hafa burði til þess að sinna því hlutverki sínu og gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar með vinunandi hætti.
Henni veitir ekki af.
Sigurður Kári.
Laugardagur, 4. apríl 2009
Eigum við ekki að staldra aðeins við?
Allar þessar umsagnir bera það með sér að stjórnarskrárfrumvarpið er gríðarlega umdeilt og allir þeir aðilar sem ég hef hér vitnað til taka undir með okkur sjálfstæðismönnum á Alþingi og vara við þeim tilraunum sem flutningsmenn frumvarpsins reyna nú að keyra í gegnum þingið.
Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag er vikið að þessum alvarlegu athugasemdum umsagnaraðilanna, en þar segir:
,,Erum við á réttri braut?
Hvað eiga Landsvirkjun, RARIK, Samorka, Samtök atvinnulífsins, Landssamband smábátaeigenda, Viðskiptaráð, Félag umhverfisfræðinga, Orkustofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, LÍÚ og Samtök um lýðræði og almannahag, Reykjavíkurakademían og laganefnd Lögmannafélags Íslands sameiginlegt?
Jú, öll gagnrýna þau hvernig er verið að keyra í gegnum Alþingi breytingar á stjórnarskránni, án þess að nægilegur tími gefist til skoðunar á því, hvaða afleiðingar þær hefur.
Það er sláandi að lesa þessar umsagnir fræðimanna og hagsmunaaðila til sérnefndar um stjórnarskrármál.
Sigurður Líndal telur að skoða þyrfti 1. grein frumvarpsins betur ,,vegna óljósrar merkingar orða og hugtaka sem þar eru notuð." Davíð Þorláksson lögfræðingur tekur undir það og segir ,,verulega misráðið af stjórnarskrárgjafanum að binda 1. gr. frumvarpsins í stjórnarskrána".
Ragnhildur Helgadóttir, prófessor í stjórnskipunarrétti, segir ,,að með því að naumur meirihluti á þingi samþykki stjórnarskrárbreytingarnar í andstöðu við stóran stjórnmálaflokk sé stjórnarskráin færð inn í hringiðu stjórnmálanna."
Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, segir: ,,Veittur var frestur til 20. mars til að skila inn umsögn. Þennan frest verður að telja mjög skamman þegar umfang málsins er haft í huga."
Eigum við að staldra aðeins við"
Við sjálfstæðismenn teljum fulla ástæðu til að staldra við. Það er alvarlegt mál af hálfu þeirra sem að þessum tillöguflutningi standa að ætla sér að breyta sjálfum grundvallarlögum lýðveldisins sem stjórnarskráin er í bullandi ágreiningi við flesta þá fræðimenn og hagsmunasamtök sem um málið hafa fjallað.
Ég tel og hef lagt það til við forseta Alþingis og forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar að umræðu um stjórnarskrárfrumvarpið á Alþingi verði frestað og að Alþingi Íslendinga hefji þess í stað umræðu og vinnu við að fjalla um aðgerðir sem varða heimilin og fyrirtækin í landinu.
Þær breytingar á stjórnarskránni sem Samfylkingin, Vinstri grænir og Framsóknarmenn leggja nú til og reyna að keyra í gegnum þingið munu ekki skipta neinu um skuldastöðu heimilanna. Stjórnarskrárbreytingar munu heldur ekki færa þeim 17.944 Íslendingum sem nú eru á atvinnuleysisskrá atvinnu eða þeim þúsunda námsmanna sem nú horfa fram á atvinnuleysi í sumar. Þær munu heldur ekki gagnast atvinnulífinu eða stuðla að endurreisn bankanna.
Þær hafa með öðrum orðum ekkert með þann vanda sem nú steðjar að fólkinu og fyrirtækjunum í landinu að gera.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekkert með dagskrá Alþingis að gera. Hún er á ábyrgð forseta Alþingis og ríkisstjórnarinnar.
Það er í höndum þessara aðila að taka málefni heimilanna og fyrirtækjanna í landinu til umræðu á Alþingi.
Einhverra hluta vegna virðast þeir hins vegar ekki hafa áhuga á slíku.
Sigurður Kári.
Föstudagur, 3. apríl 2009
Sjálftaka?
Sjálfstæðisflokkurinn og sjálfstæðismenn eru ekki þeir einu sem orðið hafa fyrir árásum Álfheiðar á síðustu vikum eða mánuðum.
Það var kannski kaldhæðni örlaganna að á sama tíma og árásir Álfheiðar stóðu yfir var skipt um stjórnarformann hjá Landsvirkjun.
Nýr stjórnarformaður Landsvirkjunar er Bryndís Hlöðversdóttir, aðstoðarrektor Háskólans á Bifröst og fyrrum þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Sigurður Kári.
Fimmtudagur, 2. apríl 2009
Ummæli fræðimanna og hagsmunaaðila um stjórnarskrárfrumvarpið
Í dag og í kvöld hefur stjórnarskrárfrumvarpið ríkisstjórnarinnar og meðreiðarsveina hennar í Framsóknarflokknum verið rætt á Alþingi.
Ég hef áður velt því fyrir mér og líst furðu minni á því hvers vegna Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Ögmundur Jónasson og allir hinir ráðherrarnir, sem á tyllidögum lýsa áhyggjum sínum af stöðu heimilanna og atvinnulífsins, leggja nú ofuráherslu á að stjórnarskránni sé breytt og eru reiðubúin til þess að leggja allt undir til þess af því verði.
Ég trúi því ekki að nokkurt þeirra haldi að breytingar á stjórnarskránni séu til þess fallnar að draga úr atvinnuleysi í landinu eða koma heimilunum í landinu til bjargar. Ekki einu sinni stjórnlagaþingið margumrædda, sem Framsóknarflokkurinn leggur ofuráherslu á að komið verði á fót. Það á ekki að kalla saman fyrr en 17. júní 2010!
Framganga ríkisstjórnarinnar og framsóknarmanna minnir óneitanlega á atburði sem áttu sér stað í Róm í fyrndinni. Á meðan Róm brann, lék Neró Rómarkeisari á fiðlu.
Nú brenna heimilin og fyrirtækin á Íslandi og ráðherrarnir hafa tekið sér fiðlu í hönd, og framsóknarmenn spila undir, í stað þess að leysa þau brýnu viðfangsefni sem að steðja.
Það hefur verið magnað að hlusta á ræður þingmanna stjórnarflokkanna mæra sjálfa sig og þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð í tengslum við þessar stjórnarskrárbreytingar. Einn þeirra er Atli Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, sem jafnframt er hæstaréttarlögmaður.
Atli Gíslason fór mikinn þegar hann var þingmaður í stjórnarandstöðu. Þá lagði hann mikla áherslu á faglega verkferla í lagasetningu, lýðræðisleg, gagnsæ og opin vinnubrögð og að hlustað yrði eftir sjónarmiðum sérfræðinga og hagsmunaaðila í tengslum við lagasetningu á Alþingi.
Nú er það svo að umsagna var leitað hjá fræðimönnum og hagsmunaaðilum við meðferð málsins á Alþingi. Reyndar var þeim gefinn afar skammur tími til þess að fara yfir frumvarpið og skila athugasemdum til þingsins.
Langflestir þeirra aðila sem leitað var umsagna hjá eiga það sameiginlegt að hafa gert alvarlegar athugasemdir við þetta frumvarp.
Á þá hafa hvorki hinn faglegi Atli Gíslason, né ráðherrar ríkisstjórnarinnar eða þingmenn framsóknarmanna hlustað.
Svo lesendur þessarar heimasíðu geti glöggvað sig á því hvað utanaðkomandi umsagnaraðilar hafa um þetta stjórnarskrárfrumvarp að segja ætla ég að birta hér hluta úr umsögnum þeirra:
Það er skoðun mín, að með því að naumur meirihluti á þingi samþykki stjórnarskrárbreytingar í andstöðu við stóran stjórnmálaflokk sé stjórnarskráin færð inn í hringiðu stjórnmálanna. Þess má vænta að næsti meirihluti geri þær breytingar sem honum hugnast án þess að takmarka sig við það sem næst almenn sátt um á þingi og þannig koll af kolli. Þannig getur stjórnarskráin orðið óstöðugri og pólitískari en verið hefur, sem er óæskileg þróun."
Ragnhildur Helgadóttir, prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskólann í Reykjavík.
...tel ég það verulega misráðið af stjórnarskrárgjafanum að binda 1. gr. frumvarpsins í stjórnarskrána."
Davíð Þorláksson, lögfræðingur.
"Veittur var frestur til 20 mars til að skila inn umsögn. Þennan frest verður að telja mjög skamman þegar umfang málsins er haft í huga."
... æskilegt að nákvæm skoðun fari fram á þessu atriði [1. gr. frumvarpsins] og mögulegum afleiðingum ákvæðisins að þessu leyti."
Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Mannréttindadómstól Evrópu.
Ég tel að skoða þyrfti 1. gr. frumvarpsins betur vegna óljósrar merkingar orða og hugtaka sem þar eru notuð. [...] ...tel rétt að fella burt 1. gr. þannig að betra tóm gefist til að huga að því hvernig slíkum yfirlýsingum verði fyrir komið ef á annað borð þykir rétt að hafa slíkt í stjórnarskrá."
Annars get ég ekki dulið þá skoðun mína að ólíklegt sé að þing skipað 41 manni valdi þessu verkefni. Líklegast er að þingið þróist yfir í eins konar umræðufund og þrætusamkomu sem sökkvi niður í deilur sem engu skili."
Sigurður Líndal, prófessor emeritus í lögfræði.
...teljum við að með samþykkt ákvæðisins væri verið að veikja efnahag þjóðarinnar enn frekar."
Ragnar Árnason og Birgir Þór Runólfsson, prófessorar í hagfræði við Háskóla Íslands.
Ekki verður hjá því komist hjá því að benda á að sá tími sem veittur er af hálfu Alþingis til umfjöllunar og umsagnar um svo viðamikið mál er afar stuttur."
Landsvirkjun telur að nauðsynlegt sé að slík umræða og skoðanaskipti fari fram með faglegum og vönduðum hætti áður en ákvæði af þessu toga er tekið upp í íslensku stjórnarskrána. Það gerist ekki á nokkrum dögum. Þar til slík opin og hreinskiptin umræða hefur farið fram leggur Landsvirkjun til að frestað verði að taka inn í íslensku stjórnarskrána efnisákvæði 3. mgr. 1. frumvarpsins."
Landsvirkjun.
...telur Norðurál að bæta mætti skýrleiki í lagatexta frumvarpsins."
Norðurál.
Jafnframt vill RARIK leggja sérstaka áherslu á gagnrýni á þau vinnubrögð sem í þetta skiptið eru viðhöfð við breytingu á stjórnarskránni."
Rarik.
...efnisatriði frumvarpsins hafa ekki fengið þá almennu umfjöllun í samfélaginu sem eðlilegt hlýtur að teljast við breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins..."
Leggur Samorka til að frestað verði að taka inn í stjórnarskrána efnisatriði 1. gr. frumvarpsins."
Samorka.
Tíminn alltof naumur til að taka saman vandaðar efnislegar athugasemdir með þeim kröfum um vinnubrögð sem viðhöfð eru hér innanhúss."
RA hefur verulegar athugasemdir um þau frumvarpsdrög um stjórnlagaþing sem fylgja frumvarpinu..."
Reykjavíkurakademían.
Samtök atvinnulífsins leggja því höfuðáherslu á að þess sé vandlega gætt að fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskrá ýti ekki undir óstöðugleika, vegi að ofangreindum gildi eða leiði til óæskilegra hindrana."
Eitt brýnasta verkefni okkar er að endurvekja traust umheimsins. Hringlandaháttur í lagasetningu er ekki skref í þá átt."
Samtök atvinnulífsins.
LS finnst mjög miður hversu knappan tíma það hefur til umsagnar um þetta mikilvæga mál."
Það vefst fyrir LS hver hugmyndafræðin er að baki 1. gr. frumvarpsins og hvað hún þýðir í raun og framkvæmd."
Landssamband smábátaeigenda.
Fyrir það fyrsta gerir Viðskiptaráð talsverðar athugasemdir við þá ætlan löggjafans að afgreiða þetta frumvarp með þeim hraða sem raun ber vitni. Frumvarpið felur í sér breytingar á grundvallarlögum lýðveldisins og við slíkar breytingar ber að gæta vandaðra vinnubragða, sérstaklega hvað snertir samráð við atvinnulíf, fræðimenn og aðra hagsmunaaðila."
Viðskiptaráð Íslands.
FUMÍ telur að fyrir þurfi að liggja skilgreining á því hvað felst í að láta náttúruauðlindir í þjóðareign varanlega af hendi..."
Félag umhverfisfræðinga.
Um auðlindahugtakið: Hvor skilningurinn sem er lagður til grundvallar þá er þetta óskiljanlegt." (vísað til 1. gr.)
Ljóst er að með umorðun á því sem fram kemur í niðurstöðum auðlindanefndar þeirrar, sem kosin var á Alþingi í kjölfar samþykktar á þingsályktun í júní 1998, hefur eitthvað misfarist af hálfu stjórnarskrárgjafans". (Hér er átt við frumvarpshöfunda).
Orkustofnun leggur til að hinu nýja þjóðareignarhugtaki verði sleppt..."
Orkustofnun.
Stjórnarskrá lýðveldisins er grundvallarlöggjöf þessa lands sem öllum ber að virða. Þannig er stjórnarskránni ætlað að vera hafin yfir dægurþras og sveiflur í stjórnmálum. Vegna mikilvægis stjórnarskrárinnar er nauðsynlegt að stjórnskipunarlög séu sett að vel ígrunduðu máli og í sem mestri sátt."
Tilgangur ákvæðisins er fremur óljós og sömuleiðis hvaða áhrif ákvæðinu er ætlað að hafa" (um 1. gr.)
Samband íslenskra sveitarfélaga.
Breyting á stjórnarskránni krefst vandaðs undirbúnings og því teljum við rétt að lengri tími verði tekinn til að undirbúa þær en hér er gert ráð fyrir."
Við leggjumst eindregið gegn því að þær breytingar sem lagðar eru til í 1. gr. frumvarpsins nái fram að ganga. Það er mikilvægt fyrir íslenskan sjávarútveg að búa við stöðugt laga- og rekstrarumhverfi en þetta frumvarp gengur þvert þar á."
Landssamband íslenskra útvegsmanna.
Samtök um lýðræði og almannahag telja að mest allt frumvarpið sé ólýðræðislegt og þarfnist gagngerrar endurskoðunar við."
Samtök um lýðræði og almannahag.
,,Því miður gildir hið sama í báðum tilfellum að tími til umsagnar um svo viðamikið mál er of skammur til að forsvaranlegt sé að senda skriflega umsögn um málið."
Ágúst Þór Árnason, aðjúnkt við hug- og félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri.
HS Orka hf. vill þó nota tækifærið til að árétta sérstaklega að sá frestur sem gefinn er til svo veigamikilla breytinga er ekki boðlegur. Þá er skilgreiningu hugtaka mjög ábótavant og loks tekur HS Orka hf. undir kröfu Samorku um að frestað verði að taka inn í stjórnarskrána efnisatriði 1. gr. frumvarpsins."
HS ORKA hf.
Að mati laganefndar eru þær breytingar á stjórnarskránni sem boðaðar eru með frumvarpinu í raun grundvallarbreytingar. Laganefnd áréttar mikilvægi þess að allar breytingar á stjórnarskránni séu gerðar að vel athuguðu máli og í mikilli sátt allra aðila, ekki síst þegar um grundvallarbreytingar er að ræða. Er það afstaða laganefndar að framangreindar breytingar þurfi frekari athugunar við og leggst nefndin af þeim sökum gegn samþykkt frumvarpsins eins og það er lagt fyrir."
Laganefnd Lögmannafélags Íslands.
Ég vona að þeir sem lesa þessar tilvitnanir skilji hvers vegna við sjálfstæðismenn höfum miklar efasemdir um það stjórnarskrárfrumvarp sem nú er til umræðu á Alþingi.
Sigurður Kári.
Fimmtudagur, 2. apríl 2009
Sjálfstæðisflokkurinn og stjórnarskráin
Nú fer fram umræða á Alþingi um frumvarp til breytinga á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.
Fyrir utan hversu dæmalaus sum efnisatriði þessa frumvarps eru og meðferð málsins öll hér á Alþingi hefur verið er ekkert annað en ótrúlegt að ríkisstjórnin, með stuðningi Framsóknarflokksins, skuli nú leggja ofuráherslu á að gerðar séu breytingar á stjórnarskrá, á sama tíma og um 17.700 manns eru á atvinnuleysisskrá og allt stefni í að þúsundir stúdenta verði án vinnu í sumar.
Breytingar á stjórnarskrá hafa ekkert með það að gera að slá skjaldborg um heimilin í landinu og koma atvinnulífinu til bjargar, en það eru þau verkefni sem minnihlutastjórnin ætlaði sér að vinna að þegar til stjórnarsamstarfsins var stofnað.
Framsóknarflokkurinn ákvað að verja minnihlutastjórnina vantrausti til þess að hún gæti unnið að málefnum heimilanna og fyrirtækjanna í landinu og lýsti því yfir að þeim verkefnum skyldi lokið þann 12. mars.
Í dag er 2. apríl og ríkisstjórninni hefur ekki tekist að koma þeim málum í framkvæmd sem lagt var upp með í upphafi, heldur er tíma þingsins nú sóað í að fjalla um stjórnarskrárbreytingar sem hafa ekkert með atvinnumál að gera frekar en málefni heimilanna í landinu.
Og þingmenn Framsóknarflokksins hafa farið hamförum í gagnrýni sinni á verkleysi ríkisstjórnarinnar hér á Alþingi á síðustu dögum og lengst hefur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, gengið í gagnrýni sinni á ríkisstjórnina fyrir verkleysi.
Samt sem áður stendur þingflokkur Framsóknarflokksins að þessum stjórnarskrárbreytingum og satt best að segja er ómögulegt að skilja framgöngu flokksins í þessu máli, ekki síst í ljósi yfirlýsinga formanns flokksins.
Líklegasta skýringin er sú að formaður Framsóknarflokksins ræður ekkert við þingflokk sinn.
Við sjálfstæðismenn tökum ekki þátt í þeim pólitíska hráskinnaleik sem nú fer fram á Alþingi af hálfu Samfylkingar, Vinstri grænna og Frjálslynda flokksins.
Við viljum einbeita okkur að því að ræða og afgreiða mál sem lúta að því að endurreisa bankakerfið, koma hjólum atvinnulífins í gang á nýjan leik, berjast gegn atvinnuleysi og koma heimilunum í landinu til bjargar á þeim erfiðu tímum sem við nú lifum.
Í morgun héldu Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður, blaðamannafund um stjórnarskrármálið þar sem þau skýrðu út sjónarmið okkar sjálfstæðismanna í málinu. Í kjölfarið sendi Sjálfstæðisflokkurinn frá sér fréttatilkynningu vegna málsins, en þar segir eftirfarandi:
,,Gagnrýni á óvandaða málsmeðferðStjórnarskráin er grundvöllur stjórnskipulags íslenska lýðveldisins. Hún mælir annarsvegar fyrir um reglur er fjalla um vald handhafa ríkisvalds, þ.e. löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds, og hinsvegar um mannréttindi borgaranna og þær takmarkanir og skyldur sem hvíla á handhöfum ríkisvalds gagnvart almenningi í landinu.
Til stendur að keyra í gegnum Alþingi breytingar á grundvallarlögum lýðveldisins á fáeinum dögum. Sérfræðingar og samtök sem leitað hefur verið umsagnar hjá í meðförum málsins á Alþingi eru nánast allir á einu máli um það, að málið sé ekki fullunnið, og að tíminn sem gefinn hafi verið til umsagnar og umræðu sé of naumur.
Þá blasir við, að ekki hefur farið fram málefnaleg og vönduð umræða um málið í þjóðfélaginu á þeim skamma tíma sem liðinn er frá því frumvarpið var lagt fram.
Sjálfstæðismenn vilja breytingar á 79. gr. stjórnarskrárinnar
Sjálfstæðisflokkurinn telur engu að síður þörf á að breyta stjórnarskránni með ígrunduðum hætti og hefur lagt fram tillögu í þeim efnum. Til þess að liðka fyrir slíkum breytingum og skapa svigrúm fyrir vandað verklag, telja sjálfstæðismenn eðlilegt að breyta 79. grein stjórnarskrárinnar, þannig að ekki þurfi að rjúfa þing og fá endurnýjað samþykki Alþingis til þess að stjórnarskrárbreytingar taki gildi.
Tillaga Sjálfstæðisflokksins kveður á um, að breytingar á stjórnarskrá eigi að leggja fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef farin verður sú leið á yfirstandandi þingi, og endurnýjað samþykki Alþingis fæst eftir kosningar, þá verður hægt að setja hugmyndir um breytingar á stjórnarskrá í vandaðan farveg og leggja þær svo í dóm þjóðarinnar, án þess að rjúfa þing.
Endurskoðun sett í farveg ágreinings og átaka
Sjálfstæðisflokkurinn er andvígur því að ráðist verði í umfangsmiklar breytingar á stjórnarskránni án þess að tími gefist til vandaðrar málsmeðferðar. Þá gagnrýna sjálfstæðismenn harðlega að ekki hefur verið tekið tillit til sjónarmiða þeirra við endurskoðun stjórnarskrárinnar, heldur þess í stað valinn farvegur ágreinings. Allt stefnir í að rofin verði 50 ára hefð um að leita samstöðu á Alþingi um breytingar á stjórnarskránni.
Stjórnarskrárbreytingar hjálpa hvorki heimilum né atvinnulífi
Vakin er sérstök athygli á því, að breytingar á stjórnarskrá hafa enga þýðingu fyrir bráðavandann í efnahagslífinu. Fyrirtækin falla hvert af öðru og heimilin hrópa á aðgerðir. Mikilvægt er að setja mál sem varða risavaxinn vanda fyrirtækja og heimila í forgang og sjálfstæðismenn munu hér eftir sem hingað til greiða fyrir þjóðhagslega brýnum þingmálum.
Grundvallarreglur mikilvægar á umrótatímum
Stjórnarskráin endurspeglar á hverjum tíma grundvallarreglur réttarríkisins. Þær eru mikilvægar á tímum góðæris og hagsældar, en enn mikilvægari á umrótatímum. Það að hreyfa við þessum grundvallarstoðum lagasetningar í landinu eykur enn á óvissuna í íslensku þjóðfélagi, sem leggst þá ofan á óvissuna um efnahagslega velferð þjóðarinnar.
Það er hlutverk og skylda stjórnarandstöðu á Alþingi að koma í veg fyrir að í tímaþröng verði ráðist í vanhugsaðar breytingar á stjórnarskránni.
Sigurður Kári
Fimmtudagur, 2. apríl 2009
Nýir tímar í Sjálfstæðisflokknum
Á fundinum kusum við sjálfstæðismenn okkur nýja og glæsilega forystu.
Óhætt er að segja að á Landsfundinum hafi sjálfstæðismenn gert upp þá atburðarás sem leiddi til hruns bankakerfisins, en jafnframt birtist í ályktunum fundarins sú framtíðarsýn og stefnumörkun sem við sjálfstæðismenn munum leggja áherslu á í komandi alþingiskosningum.
Í kjölfar þeirra atburða sem átt hafa sér stað í íslensku efnahagslífi er það að sjálfsögðu mikilvægt að allir stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn líti yfir farinn veg og horfist í augu við það sem betur hefði mátt fara. Það höfum við sjálfstæðismenn nú gert.
En það er ekki síður mikilvægt að flokkarnir marki stefnu sína til framtíðar og segi kjósendum hvernig þeir hyggist standa að endurreisn efnahagslífsins.
Eins og fram kemur í stjórnmálaályktun Landsfundar Sjálfstæðisflokksins þá mun Sjálfstæðisflokkurinn leggja alla áherslu á endurreisn bankakerfisins, tryggja að hjól atvinnulífsins komist af stað á nýjan leik svo tryggja megi atvinnu fyrir fólkið í landinu, en auk þess og ekki síður ætlum við að styðja og vernda heimilin í landinu.
Á þessum grunni mun Sjálfstæðisflokkurinn byggja kosningabaráttu sína.
Bjarni Benediktsson, alþingismaður, var kjörinn nýr formaður Sjálfstæðisflokksins á Landsfundinum og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var endurkjörin varaformaður.
Sjálfur lýsti ég strax yfir stuðningi við Bjarna Benediktsson þegar hann lýsti yfir framboði til formanns. Ástæðan er sú að ég veit að Bjarni hefur allt sem til þarf til þess að leiða Sjálfstæðisflokkinn á komandi árum og afla honum fylgis á grundvelli þeirrar stefnu sem flokkurinn er byggður á og þeirra sjónarmiða sem hann hefur sett fram og vill berjast fyrir við það endurreisnarstarf sem framundan er í íslensku samfélagi.
Við Bjarni höfum verið nánir samstarfsmenn á Alþingi og í þingflokki okkar sjálfstæðismanna síðan við tókum saman sæti á Alþingi árið 2003, en áður höfðum við verið samstarfsmenn í okkar lögfræðistörfum.
Ég þekki því vel til Bjarna Benediktssonar, hans starfa og þeirra sjónarmiða sem hann mun leggja til grundvallar í formennskutíð sinni í Sjálfstæðisflokknum. Ég er sannfærður um að Bjarni á eftir að verða öflugur, traustur og vinsæll formaður Sjálfstæðisflokksins.
Með kjöri Bjarna Benediktssonar eiga sér stað kynslóðaskipti í forystu Sjálfstæðisflokksins auk þess sem kjör hans markar upphaf nýrra tíma í Sjálfstæðisflokknum.
Um leið og ég óska honum til hamingju þakka ég Geir H. Haarde fyrir hans miklu og góðu störf í þágu þjóðarinnar og Sjálfstæðisflokksins.
Sigurður Kári.
Þriðjudagur, 24. mars 2009
Ekki gera ekki neitt
Niðurstaðan liggur nú fyrir. Seðlabanki Íslands og peningastefnunefnd hans tilkynntu á fimmtudag að stýrivextir yrðu lækkaðir um 1%. Það er allt og sumt.
Það þýðir að peningastefnunefnd ætlar að lækka stýrivexti úr 18% í 17%.
1% stýrivaxtalækkun er blaut tuska framan í heimili og fyrirtæki þessa lands. Ákvörðun Seðlabankans og peningastefnunefndarinnar er í raun ákvörðun um að gera ekki neitt. Rekstrarumhverfi fyrirtækja og heimila er alveg jafnslæmt hvort sem stýrivextir eru 17% eða 18%.
Ríkisstjórn Íslands, sem segist ætla að slá skjaldborg um heimilin og fyrirtækin í landinu, getur ekki sætt sig við svo litla lækkun. Hún verður að grípa til tafarlausra aðgerða.
Vilji stjórnvöld, ríkisstjórn og Seðlabanki Íslands beita sér fyrir því að bæta kjör almennings og fyrirtækja er nauðsynlegt og skynsamlegt að grípa nú þegar til þess ráðs að lækka stýrivexti verulega og grópa til róttækra aðgerða til að treysta rekstur fyrirtækjanna og létta undir með þeim. 1% lækkun stýrivaxta er ekki aðgerð af því tagi.
Undir venjulegum kringumstæðum veikir lækkun stýrivaxta gengi gjaldmiðla. Á Íslandi eru aðstæður nú hins vegar ekki venjulegar og hafa raunar ekki verið lengi. Háir stýrivextir þjóna við núverandi aðstæður ekki þeim tilgangi að verja gengi krónunnar.
Með gildandi gjaldeyrishöftum voru gríðarlegar hömlur settar á flutning fjármagns úr landi. Að sama skapi var þeim sem afla sér tekna erlendis gert skylt að flytja fjármuni sína til Íslands að viðlagðri refsiábyrgð. Við slíkar aðstæður er allt að því ómögulegt að rökstyðja hvers vegna stýrivextir eru svona háir. Rökréttara væri að þeir væru afar lágir.
Heimilin í landinu þola ekki þessi vaxtakjör. Það gera fyrirtækin ekki heldur. Það ætti öllum að vera orðið ljóst. Þeir koma afar illa niður á almenningi og atvinnufyrirtækjum og halda þeim í rekstrarlegri herkví. Það verður tafarlaust að lækka vextina og það verulega.
Flestir virðast sammála um mikilvægi slíkra aðgerða og það er ekki eftir neinu að bíða. Nú verða stjórnvöld að fara að einbeita sér að því sem máli skiptir og setja hag almennings og rekstur fyrirtækja í forgang og reyna að tryggja að hann geti borið sig þrátt fyrir afleitar aðstæður á fjármálamarkaði. Þeim er nú beinlínis lífsnauðsynlegt að geta fjármagnað sig á viðunandi kjörum, sem ekki hafa verið í boði lengi.
Með því að lækka vexti með myndarlegum hætti nú hefðu stjórnvöld og Seðlabankinn treyst grundvöll atvinnulífsins og enduruppbyggingu þess og dregið úr hættu á frekara atvinnuleysi.
Nú verða stjórnvöld, seðlabanki og peningastefnunefnd að sýna í verki að þau beri eitthvað skynbragð á þann vanda sem heimilin og fyrirtækin í landinu eiga við að etja. 1% stýrivaxtalækkun á fimmtudag bar þess ekki merki.
Ég skora á Seðlabanka Íslands og peningastefnunefndina að endurskoða ákvörðun sína og lækka vexti verulega nú þegar til hagsbóta fyrir almenning og fyrirtækin í landinu.
Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Greinin birtist í Morgunblaðinu hinn 24. mars 2009.
Þriðjudagur, 24. mars 2009
Endurreisn á grundvelli samkeppni
Á föstudaginn skilaði endurreisnarnefnd Sjálfstæðisflokksins niðurstöðum sínum á fundi í Valhöll. Vilhjálmur Egilsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, kynnti meginefni skýrslunnar en um 200 sjálfstæðismenn víðsvegar af landinu unnu að henni.
Sjálfur skrifaði ég kafla í skýrsluna. Hann fjallar um endurreisn á grundvelli samkeppninnar.
Kaflinn sem ég skrifaði er svohljóðandi:
"Inngangur
Í kjölfar hruns fjármálakerfisins er mikilvægara en nokkru sinni að vandað sé til verka við endurreisn íslensks samfélags. Við þá endurreisn þurfa stjórnvöld að taka ákvarðanir um á hvaða grundvelli slík endurreisn skuli fara fram og marka skýra stefnu á framtíðarsýn íslensks samfélags.
Reynslan hefur sýnt að markaðshagkerfi og samkeppni hefur mikla yfirburði umfram að þá kosti sem í boði eru. Óumdeilt er að samkeppnin stuðlar að skilvirkni í rekstri, aukinni framleiðni og bættum árangri og þar með hagvexti og lífskjarabótum fyrir fólk og fyrirtæki. Forsenda þess að lífskjör batni er aukin framleiðni. Án hennar geta lífskjör ekki batnað. Það hefur sýnt sig að samkeppnin er drifkraftur nýrra hugmynda og atvinnusköpunar, uppfinninga og aðferða og hún skapar ný tækifæri. Á þeim þarf íslenskt samfélag nauðsynlega á að halda við þær aðstæður sem nú eru uppi.
Samkeppni - ekki boð og höft
Við hrun fjármálakerfisins hafa komið fram efasemdir um markaðshagkerfið og gildri frjálsrar samkeppni. Því er haldið fram að samkeppnin hafi burgðist, reynst þjóðinni skaðleg, spillt verðmætum og leitt til sóunar, jafnvel ójöfnuðar. Það er eðlilegt að slíkar efasemdir komi fram þegar jafn alvarleg efnahagsleg áföll hafa dunið yfir og hér hefur gerst.
Þrátt fyrir þessar efasemdir telur Sjálfstæðisflokkurinn það ekki líklegt til árangurs að standa að endurreisn íslensks samfélags til framtíðar á grundvelli lokaðs hagkerfis, hafta, boða og banna. Þau lönd sem hafa orðið fyrir efnahagslegum áföllum hafa dregið þann lærdóm að verndarstefna er ekki til þess fallin að stuðla að endurreisn. Þvert á móti sýnir reynslan að hún stigmagnar þann vanda sem henni er ætlað að leysa. Jafnframt sýna þær hagfræðirannsóknir sem fyrir liggja að aðgerðir til þess að viðhalda og efla samkeppni stuðla að hraðari endurreisn atvinnulífs. Á henni verður endurreisnin byggð, þó þannig að vanda verði mjög til þess regluverks sem um hana á að gilda. Þannig getur Ísland aftur fest sig í sessi í fremstu röð meðal þeirra reíkja varðandi lífskjör og atvinnulíf.
Hrun fjármálakerfisins og þau áföll sem orðið hafa í íslensku atvinnulífi verða ekki skrifuð á reikning samkeppninnar. Þó er ljóst rekja má orsakir fjármálakreppunnar sem nú geisar til ákveðinna markaðsbresta sem fólust í því að nýjar fjármálaafurðir urðu til, svo sem afleiður og vafningar, sem núverandi regluverk tók ekki tillit til. Nánast takmarkalaus aðgangur að ódýru lánsfé leiddi til óhóflegrar skuldsetningar sem atvinnulífið átti erfitt með að standa undir. Gjaldmiðillinn og peningamálastefnan reyndust atvinnulífinu fjötur um fót, ásamt því sem þrengingar á erlendum fjármálamarkaði leiddu til lánsfjárþurrðar um allan heim. Allar þessar ástæður og fleiri leiddu til þess ástands sem nú hefur skapast hér á landi.
Samkeppnin hefur skilað árangri
Engu að síður verður ekki framhjá því litið að á síðustu árum hefur íslenskt atvinnulíf sýnt hversu mikill kraftur býr í okkar mannauði og fyrirtækjum. Í því samkeppnisumhverfi sem hér hefur ríkt hafa íslensk fyrirtæki haslað sér völl á nýjum mörkuðum og skapað grundvöll fyrir aukinni verðmætasköpun fyrir samfélagið auk þess að hafa skapað tækifæri fyrir okkar vel menntuðu einstaklinga. En samkeppnin hefur ekki síður stuðlað að grósku á öðrum sviðum en í hinu hefðbundna viðskiptalífi. Samkeppni í menntakerfinu hefur, svo dæmi sé tekið, umbylt því kerfi sem við áður þekktum. Nýjar menntastofnanir hafa sprottið upp. Námsframboð hefur aukist. Nýjar greinar á sviði þekkingarsköpunar, rannsókna og menntunar hafa orðið til og svo mætti lengi telja. Þannig hefur samkeppnin stuðlað að aukinni þekkingu og færni í samfélaginu og búið til ný tækifæri fyrir komandi kynslóðir. Á þessum grunni þarf áfram að byggja.
Hrun fjármálakerfisins hefur haft það í för með sér að samkeppnisumhverfi íslensks atvinnulífs er gjörbreytt. Ríkisafskipti hafa aukist stórkostlega frá því sem áður var. Meirihluti fjármálastarfsemi landsins er nú komin í hendur ríkisins. Með því hefur ríkið fengið í hendur víðtækt ákvörðunarvald um framtíð atvinnulífsins og fyrirtækjanna í landinu. Hætt er við að yfirvofandi rekstrarerfiðleikar fyrirtækja geri það að verkum að þeim muni fækka og samþjöppun aukast. Slíkt verður að varast í íslensku þjóðfélagi.
Helstu verkefni:
- Eitt mikilvægasta verkefni stjórnvalda nú er að leggja grunninn að því með markvissum hætti að eignir ríkisins í atvinnureksti verði á ný færðar með skilvirkum og gegnsæjum hætti í hendur einkaaðila. Umfangsmikill ríkisrekstur á öllum sviðum atvinnulífsins er ekki til þess fallinn að stuðla að endurreisn samfélagsins.
- Samkeppni einkaaðila við ríkið getur aldrei eðli málsins samkvæmt verið sanngjörn eða eðlileg. Því er nauðsynlegt að skapa hér á ný samkeppnisumhverfi í atvinnulífinu þar sem jafnræði ríkir meðal þeirra sem á markaðinu starfa. Foraðst ber að þar myndist umhverfi sem einkennist af fákeppni.
- Tryggja þarf að samkeppnishömlum sé rutt úr vegi og koma í veg fyrir að aðgangshindranir myndist á mikilvægum samkeppnismörkuðum. Slíkar hömlur og hindranir tefja fyrir og koma í veg fyrir þá mikilvægu endurreisn sem framundan er, þær daga úr sköpunarmætti og framþróun íslensks atvinnulífs.
Endurmat - Endurreisn
Frá því að samkeppnislög tóku gildi árið 1993 hefur mikil þróun átt sér stað í íslenskum samkeppnisrétti. Markmið samkeppnislaga, sem mæla fyrir um að efla virka samkeppni í viðskiptum og vinna þar með að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagisins, eru atvinnulífinu mikilvæg. Það sama má segja um það markmið þeirra að vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri, skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum ásamt því að auðvelda aðgang nýrra aðila að markaðnum. Engu að síður er óhjákvæmilegt eftir þau áföll sem orðið hafa í íslensku efnahags- og atvinnulífi að taka til skoðunar hvort bæta megi regluverk samkeppnismála.
Verkefni næstu missera og ára er að endurreisa efnahagslífið á ný, hefja nýja sókn til framtíðar. Til þess að það takist þarf skýra framtíðarsýn, áræðni og hugmyndaauðgi. Leita þarf allra leiða til þess að skapa grundvöll fyrir atvinnuuppbyggingu á öllum sviðum. Það verður gert með því að stuðla að aukinni nýsköpun í atvinnulífinu, rannsóknum og samkeppni á öllum sviðum.
Til þess að íslenska þjóðin nái sér upp úr þeirri kreppu sem nú geisar þarf að skapa störf og verðmæti. Þar verður einkageirinn að vera drifkraftur. Ríkið á ekki að vera leiðandi í atvinnulífinu og fólkið í landinu í vinnu hjá því.
Það er mikivægara en nokkru sinni fyrr að skapa umhverfi og hvata fyrir einstaklinga og fyrirtæki til að fjárfesta, taka áhættu og skapa. Það verður ekki gert með umfangsmiklum ríkisrekstri sem kæfir alla samkeppni, nýsköpun, framþróun og aukna verðmætasköpun.
Á þessum grunni ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að standa að endurreisn efnahagslífsins."
Sigurður Kári.
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 203711
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- allib
- almaogfreyja
- andrigeir
- audbergur
- audunnh
- abg
- axelaxelsson
- arniarna
- aslaugfridriks
- astamoller
- baldher
- baldvinjonsson
- benediktae
- bergrun
- kaffi
- bergurben
- bjarnihardar
- bjarnimax
- bjorgvinr
- sveifla
- binnag
- bryndisharalds
- skordalsbrynja
- brandarar
- charliekart
- dansige
- doj
- deiglan
- doggpals
- egillg
- erla
- erlendurorn
- skotta1980
- ea
- fsfi
- vidhorf
- hressandi
- gammurinn
- gerdurpalma112
- gisliivars
- gisliblondal
- gillimann
- grettir
- gudni-is
- gummibraga
- phoenix
- gunnarbjorn
- gussi
- laugardalur
- habbakriss
- smali
- haddi9001
- hhbe
- handsprengja
- 730bolungarvik
- heimssyn
- herdis
- hildurhelgas
- drum
- hjaltisig
- hlekkur
- kolgrimur
- hlodver
- don
- hvitiriddarinn
- ingabesta
- golli
- ibb
- bestiheimi
- jakobk
- fun
- stjornun
- skallinn
- jonasegils
- forsetinn
- jonmagnusson
- bassinn
- jonsnae
- julli
- komment
- karisol
- kje
- kjarrip
- kjartanvido
- kolbrunb
- kristinrichter
- kristjanb
- kristjangudm
- liljabolla
- altice
- maggaelin
- gummiarnar
- martasmarta
- mal214
- nielsfinsen
- ottoe
- olibjossi
- obv
- nielsen
- skari
- pkristbjornsson
- jabbi
- pbj
- storibjor
- iceland
- pjeturstefans
- raggibjarna
- raggiraf
- raggipalli
- ragnar73
- schmidt
- bullarinn
- salvor
- fjola
- sigbragason
- vitaminid
- joklamus
- sv11
- sjonsson
- siggikaiser
- sisi
- siggisig
- sigurgeirorri
- mogga
- sigurjonb
- sms
- sjalfstaedi
- hvala
- hvirfilbylur
- stebbifr
- eyverjar
- styrmirh
- summi
- brv
- sveinn-refur
- stormsker
- saethorhelgi
- tidarandinn
- daystar
- valdimarjohannesson
- valgerdurhalldorsdottir
- vefritid
- nytthugarfar
- vibba
- villagunn
- va
- villithor
- xenon
- thorbjorghelga
- steinig
- thorsteinnhelgi
- thorasig
- doddidoddi
- thorolfursfinnsson
- toddi
- hugsun
- ornsh