Uppgjöf

Í minni sveit gilti sú meginregla að þegar dómari kvað upp dóm í ágreiningsmáli þá gilti sú niðurstaða dómarans. Bæði fyrir þann sem vann málið og fyrir þann sem því tapaði. Sá sem krafinn var um greiðslu fjármuna, greiddi þá. Sá sem hlaut fangelsisdóm fór í tugthús.

Þessi regla gilti ekki bara í minni sveit, heldur í öðrum sveitum líka. Reyndar er það svo að í öllum réttarríkjum hins vestræna heims er viðurkennt að komist dómstóll að niðurstöðu þá gildi sú niðurstaða fyrir deiluaðilana. Þannig er það á Íslandi og þannig er það hjá öðrum siðuðum þjóðum. Þess vegna geta þær kallað sig réttarríki. Í réttarríkjum eru hvorki lög, né réttur, fótum troðin og niðurstöður dómstóla í deilumálum gilda samkvæmt efni sínu.

Ríkisstjórn Íslands hefur nú undirritað nýtt Icesave-samkomulag við Breta og Hollendinga. Í því felst nýmæli. Það nýmæli er sannarlega ekki eftirsóknarvert og hefur hefur líklega aldrei áður sést í samningi milli tveggja frjálsra og fullvalda ríkja. Það mælir fyrir um að löndin heimili Íslendingum að höfða mál fyrir dómstólum til þess að láta á það reyna hvort íslenska ríkinu beri lagaskylda til þess að ábyrgjast skuldir Landsbanka Íslands gagnvart breskum og hollenskum innistæðueigendum. Vinni Ísland sigur í málinu kveður samkomulagið, sem ríkisstjórn Íslands ætlar að berjast fyrir, á um að niðurstaða dómstólsins hafi enga þýðingu sem máli skiptir. Íslenskur almenningur skuli engu að síður borga Bretum og Hollendingum þá hundruði milljarða sem þeir krefjast. Sigur færir ríkisstjórn Íslands einungis leyfi til viðræðna við Hollendinga og Breta sem engin trygging er fyrir að leiði til eins eða neins.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði á Alþingi í vikunni að Íslendingar gætu hrósað sigri með þessa niðurstöðu. Réttarstaða Íslands væri nú sterkari en áður! Öfugmæli og rangfærslur ráðherrans eiga sér líklega ekki hliðstæðu í stjórnmálasögunni. Réttarstaða þjóðar sem gefist hefur upp og gefið frá sér allan sinn rétt, án þess að fá nokkuð í staðinn, er ekki sterk. Hún er veik og getur í raun ekki verið veikari.

Með hinu nýja Icesave-samkomulagi hefur ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur í raun afsalað íslensku þjóðinni þeim sjálfsagða rétti sínum að fá úr því skorið hvort íslenska ríkinu beri einhver lagaskylda til að ábyrgjast skuldir Landsbanka Íslands. Afsalið felst í því verði slíkt mál höfðað og vinni Ísland sigur, hefur ríkisstjórnin búið svo um hnútana að niðurstaðan hafi enga þýðingu sem máli skiptir fyrir þjóðina.

Slíkt réttarafsal fyrir hönd heillar þjóðar hlýtur að vera einsdæmi. Það hlýtur að vera einsdæmi að nokkur ríkisstjórn frjáls og fullvalda ríkis skuli vera reiðubúin að kyngja slíkum afarkostum og kasta frá sér þeim sjálfsagða rétti að niðurstaða hlutlauss úrlausnaraðila í lagaþrætu gildi samkvæmt efni sínu.

Með algerri uppgjöf niðurlægir ríkisstjórn Íslands ekki einungis sjálfa sig, heldur einnig og ekki síður sína eigin þjóð.

Alþingismenn þjóðarinnar þurfa nú að gera það upp við sig hvort þeir eru reiðubúnir til þess að láta slíka niðurlægingu yfir sig og þjóð sína ganga. Á sama tíma ættu þeir að velta því fyrir sér hvort þeim sé að lögum heimilt að svipta ríkið og framtíðarkynslóðir þessa lands svo mikilvægum og sjálfsögðum rétti sem ríkisstjórnin leggur nú til að verði gert.

Höfundur er lögfræðingur og aðstoðarmaður formanns Sjálfstæðisflokksins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband