Siðareglur fyrir stjórnmálamenn?

Nú er mikið rætt um nauðsyn þess að settar verði siðareglur fyrir stjórnmálamenn.

Af fréttum að dæma virðast slíkar reglur vera rétt handan við hornið fyrir borgarfulltrúa í Reykjavík, en Hanna Birna Kristjánsdóttir, nýr borgarstjóri í Reykjavík, mun nýverið hafa lagt tillögur að slíkum reglum fyrir borgarráð.

Þá skilst mér að unnið sé að tillögum að slíkum reglum fyrir ráðherra í ríkisstjórn Íslands, en siðareglur fyrir embættismenn í stjórnsýslunni munu vera til.

x x x

Almennt hef ég verið þeirrar skoðunar að ekki sé nein sérstök þörf á því að setja þingmönnum sérstakar siðareglur til að fylgja í störfum sínum.  Ég hef hingað til talið að þingmenn sinni störfum sínum eftir bestu samvisku og hef ekki orðið var við að spilling sé til staðar meðal íslenskra stjórnmálamanna sem kalli á að slíkar siðareglur verði settar.

Sú tilfinning mín er í samræmi við niðurstöður erlendra rannsókna sem gerðar hafa verið á spillingu í íslenskum stjórnmálum.  Þær úttektir hafa leitt í ljós að íslenska stjórnkerfið og íslenskir stjórnmálamenn séu lausir við spillingu og við stöndum flestum ef ekki öllum þjóðum framar í þeim efnum.

x x x

Það er hins vegar ófært að almenningur hafi það á tilfinningunni, einhverra hluta vegna, að stjórnmálamenn þjóðarinnar séu spilltir og láti gerðir sínar stjórnast af annarlegum hvötum.

Það er ekki síður óþolandi fyrir okkur sem störfum í stjórnmálum að liggja undir grun um að við séum að ganga annarra erinda í störfum okkar en að fylgja sannfæringu okkar og þeirri stefnu sem við höfum fært fram.

Ef siðareglur fyrir stjórnmálamenn eru til þess fallnar að eyða slíkum vafa eða grun kann að vera rétt að setja slíkar reglur.

x x x

Hitt er annað mál að það getur verið þrautinni þyngri að útfæra slíkar reglur.

Í umræðu um innihald slíkra siðareglna hefur því gjarnan verið haldið fram að eðlilegt sé að stjórnmálamenn upplýsi um hagsmunatengsl sín við hagsmunaaðila í þjóðfélaginu, svo sem í viðskiptalífinu og á vinnumarkaði.  Og fleiri dæmi mætti nefna.

Þá hefur gjarnan verið nefnt að æskilegt sé að stjórnmálamenn upplýsi um hlutabréfaeign sína eða aðra fjárhagslega hagsmuni sína.

Ennfremur hefur verið eftir því kallað að settar verði skýrar reglur um það hvort stjórnmálamönnum eigi að vera heimilt að þiggja gjafir frá utanaðkomandi aðilum.

x x x

Almennt er ég þeirrar skoðunar að stjórnmálamenn eigi að forðast eins og heitan eldinn að þiggja slíkar gjafir og það held ég að þeir hafi fram til þessa gert.

Að minnsta kosti er mikilvægt að stjórnmálamenn, hvar sem er í heiminum, haldi sjálfstæði sínu í störfum sínum og verði ekki það á að þiggja gjafir eða greiða sem ætlast má til að verði endurgoldnar með einum eða öðrum hætti.

Hins vegar getur verið erfitt að skilgreina hvaða gjafir eða greiða stjórnmálamenn mega þiggja.

Stundum kann að vera erfitt að festa hönd á hvort slíkur greiði eða gjöf er veitt stjórnmálamanninum eða persónunni sem í hlut á, ekki síst þegar um vini þeirra sem í hlut eiga er að ræða.  Slíkt verður að minnst kosti erfitt að útfæra með reglusetningu, þó svo að því verði ekki haldið fram hér að það sé ómögulegt.

x x x

Í umræðunni um siðareglur fyrir stjórnmálamenn vaknar síðan auðvitað sú spurning hvort æskilegt væri að slíkar siðareglur næðu út fyrir raðir stjórnmálamanna, til dæmis til maka þeirra, og hvort slík reglusetning geti talist eðlileg.

Ég hef ekki mótað mér skoðun á því álitaefni, en ljóst má vera að tengsl maka við stjórnmálamenn eru slík að vera kann að einhverjir séu þeirrar skoðunar að um þá eigi að gilda sömu reglur og um stjórnmálamennina sjálfa.

x x x

Eitt álitaefni kemur þó sjaldan til umfjöllunar í umræðunni um "siðvæðingu stjórnmálanna" og um það hvort rétt sé að setja stjórnmálamönnum siðareglur til þess að tryggja að þeir gangi ekki annarra hagsmuna í störfum sínum en þeirra sem þeir eru kosnir til.

Vilji menn setja reglur sem tryggja hlutleysi stjórnmálamanna þá hlýtur að koma til skoðunar að skylda þá til þess að veita upplýsingar um skuldastöðu sína og þá lánardrottna sem eiga inni hjá sér.

Það er gömul saga og ný að borgararnir eru engum jafn háðir og þeim sem þeir skulda.

Það gildir jafnt um stjórnmálamenn eins og alla aðra.

x x x

Það verður fróðlegt að sjá hvort þverpólitísk samstaða muni nást um að setja slíkar reglur.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Tryggvason

Gaman að vera sammála þér um flestar ályktanir þínar; ég hef hins vegar lengi haft efasemdir um athuganir sem sýna að Ísland sé meðal óspilltustu landa.

Gísli Tryggvason, 29.8.2008 kl. 21:01

2 identicon

Ég er sammála þér um að það ætti ekki að þurfa að setja sérstakar reglur um þessi mál enda á þetta að vera “common sense” fyrir allt hugsandi fólk. Það er engu að síður staðreynd að alltof oft hafa opinberir aðilar orðið uppvísir af spillingu án þess að axla nokkra ábyrgð. Þó að erlendar rannsóknir bendi til þess að hér sé um litla sem enga spillingu að ræða þá vitum við öll að sú niðurstaða er einfaldlega skökk, enda þarf maður ekki annað en að lesa brot af dagbókarfærslum Matthíasar Johannessen til að sannfærast um það.

Matthias skrifar t.d.:
“Hef verið að hugsa um Landsbankamálið og viðskipti Ólafs Ragnars Grímssonar við Björgvin á sínum tíma. Ekki vildi ég hafa skilið eftir mig slíkan slóða. Þetta hefur auðvitað ekki verið neitt annað en pólitísk misnotkun á bankanum. En hún er svo sannarlega ekkert einsdæmi. Það er raunar með ólíkindum hvers konar sukkarar íslenzkir pólitíkusar hafa verið og hvernig þeir hafa umgengizt opinbera sjóði.”


Þarna skrifar maður sem var um áratugaskeið í innsta hring þjóðmálanna og hafði í raun margt um það að segja hvaða sannleika við fengum að heyra og lesa.  Þess vegna er ég hugsi yfir þeim orðum þinum að ráðamenn þjóðarinnar starfi eftir bestu samvisku og að þú hafir ekki orðið var við neina spillingu. Þú getur gert betur en þetta Sigurður Kári.

Ég fæ það stundum á tilfinninguna að stjórnmálamenn tali og skrifi í trausti þess að fólk sé fífl, og gott ef ég er ekki farinn að halda það sjálfur.

Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 29.8.2008 kl. 22:46

3 Smámynd: Geir Guðjónsson

Sæll Sigurður.

'Eg verð að segja að það lítur einkennilega út þegar stjórnmálamaður (t.d. Hanna Birna ) setur hópi manna það verkefni að "skrá siðareglur fyrir stjórnmálamenn" Er hér um að ræða lagasetningu á vegum borgarinnar? Verður ákveðinn refsirammi vegna brots komi til þess ? Hefur þetta blessaða fólk ekki nóg að gera ? Það er nefnilega búið að skrásetja siðareglur sem meðal annars eru grundvöllur æskulýðsuppfræðslu hér í landi og ríkistrúar 'Islendinga þ.e. í Biblíunni.  Hengjum upp boðorðin 10 í sölum Alþingis og borgar/sveitastjórna, það ætti að nægja flestum að viðbættum landslögum. Eða þekkir Hanna Birna sitt heimafólk betur en svo að hún telji það nægja ???? Gerist eitthvað það sem veikir siðferðisvitund manna þá þeir veljast til opinberra embætta, umfram annað fólk sem ræðst til allmennra starfa á vinnumarkaði ? ´'Eg held að hér séu á ferð tilraunir aðila til að undirstrika eigið vammleysi, og bjóðast til að leiðbeina þeim sem ekki hafa yfir að ráða þeim siðferðilega styrk sem nauðsynlegur er til að komast hjá gildrum sem lagðar eru fyrir kjörna fulltrúa í formi kostaðra veiðiferða eða umdeilanlegrar en löglegrar sjálftöku í ´ymsum myndum. En samúð mína alla eiga þeir sem fara með annara fé alla daga, það er erfitt og vanþakklátt starf að mér skilst.

Kveðja,    

Geir Guðjónsson  

Geir Guðjónsson, 30.8.2008 kl. 15:37

4 Smámynd: Jens Sigurjónsson

Þetta er nokkuð fyndin grein hjá þér Sigurður Kári.

Auðvitað á ekki að þurfa að setja einhverjar siðareglur, fólk á að vita munin á hvað er rétt og hvað er rangt. En því miður eru ekki allir sjá munin þar á milli, þannig að það veitir svo sannarlega ekki af því að koma á einhverjum siðareglum.

Góður brandari hjá þér, þar sem þú talar um að engin spilling sé hjá íslenskum stjórmálamönnum.

Jens Sigurjónsson, 2.9.2008 kl. 02:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband