Þreyttur valdaflokkur?

is%7DindÍ morgun fór ég í viðtal á Útvarpi Sögu hjá Jóni Magnússyni, þingmanni Frjálslynda flokksins, en hann leysir Jóhann Hauksson, Morgunhana, af þessa vikuna. 

Viðtalið var langt og ítarlegt og að mínu mati ljómandi skemmtilegt.  Við Jón fórum um víðan völl og ræddum um hin ýmsu viðfangsefni stjórnmálanna milli þess sem við hlýddum á tónlist meistaranna Roy Orbison og Johnny Cash.

Þegar talið barst að Sjálfstæðisflokknum lýsti Jón flokknum ítrekað sem þreyttum valdaflokki.  Ekki taldi ég hversu oft Jón lýsti flokknum mínum með þessum hætti, en óhætt er að segja að hann gerði það alloft.

Í því sambandi er rétt að vekja athygli á því að á þriðjudaginn síðastliðinn birti Gallup skoðanakönnun um fylgi stjórnmálaflokkanna.  Samkvæmt könnuninni bætir Sjálfstæðisflokkurinn við sig fylgi og nýtur nú stuðnings 45% þjóðarinnar.

Það er einsdæmi og sérstakt afrek að stjórnmálaflokkur sem átt hefur aðild að ríkisstjórn í rúm 16 ár og leitt hana mestan þann tíma skuli njóta svo mikils fylgis meðal þjóðarinnar.

Í ljósi niðurstöðu skoðanakönnunar er kannski rétt að velta því fyrir sér hvort lýsing Jóns Magnússonar á Sjálfstæðisflokknum sem ,,þreyttum valdaflokki" standist?  Af niðurstöðum skoðanakönnunar Gallup um fylgi stjórnmálaflokkanna gerir hún það alls ekki.

Þvert á móti sýnir niðurstaða könnunarinnar hversu mikla samleið verk og stefna Sjálfstæðisflokksins á meðal þjóðarinnar.

Kannski er kominn tími til að stjórnmálamenn í öðrum stjórnmálaflokkum fari að viðurkenna þá staðreynd.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband