Enn um Vinstri græna og B.S.R.B.

Ég var gestur í Silfri Egils Helgasonar í Ríkissjónvarpinu á sunnudaginn ásamt þeim Dögg Pálsdóttur, hæstaréttarlögmanni, Kristni H. Gunnarssyni, þingmanni Frjálslynda flokksins, og Ögmundi Jónassyni, þingmanni Vinstri grænna og formanni B.S.R.B.

Í þættinum gagnrýndi ég Ögmund harðlega fyrir að beita B.S.R.B. markvisst og ítrekað í þágu málstaðar Vinstri grænna á Alþingi, líkt og ég hef áður gert á þessum vettvangi.

x x x

Gagnrýni mín í garð Ögmundar hefur kallað fram viðbrögð hjá öðrum verkalýðsforingja, Guðmundi Gunnarssyni, formanni Rafiðnaðarsambands Íslands.  Í upphafi pistils sem Guðmundur birtir á heimasíðu sinni, og ber yfirskriftina ,,Barnaskapur Sigurðar Kára", segir:

,,Það er ótrúleg reyndar barnaleg einföldun hjá Sigurði Kára og skoðanabræðrum hans að samtök launamanna eigi ekki að skipta sér að neinu nema gerð kjarasamninga.  Þá virðist hann eiga að við að samtök launamanna eigi að fjalla um launaflokka og ekkert annað."

x x x

Ég skil ekki hvað Guðmundur Gunnarsson er að fara með þessum orðum sínum.

Hann má kalla þá þá afstöðu sem hann lýsir barnalega, en ég hef aldrei haldið því fram að samtök launamanna eigi ekki að skipta sér að neinu nema gerð kjarasamninga, eins og Guðmundur fullyrðir fyrirvaralaust í pistli sínum að ég hafi gert.

Ég hef heldur aldrei haldið því fram að samtök launamanna eigi einungis að fjalla um launaflokka og ekkert annað. 

x x x

Ég geri engar athugasemdir við að samtök launamanna eins og B.S.R.B. láti til sín taka í opinberri umræðu um hin ýmsu þjóðmál, einkum ef þau varða hagsmuni félagsmanna.

Mér finnst hins vegar mjög ámælisvert að samtökunum sé markvisst beitt þágu málstaðar Vinstri grænna í íslenskum stjórnmálum, stjórnmálaflokks sem formaður B.S.R.B. er einn helsti forystumaður fyrir.  Það er kjarninn í minni gagnrýni.

Eins og áður segir finnst mér sjálfsagt að B.S.R.B. láti til sín taka í opinberri umræðu um ýmis álitamál sem til umræðu eru hverju sinni.  Ég tel hins vegar að sú þátttaka B.S.R.B. eigi að vera á forsendum samtakanna sjálfra og félagsmanna þeirra.

Ekki einungis á forsendum þingflokks Vinstri grænna og formannsins.

x x x

Það er auðvitað athyglisvert að í hvert skipti sem Vinstri grænir beita sér af hörku gegn málum á Alþingi skuli B.S.R.B. alltaf taka fyrirvaralaust undir málstað Vinstri grænna og skiptir þar engu hvort það gerist á vettvangi þingnefnda Alþingis eða annarsstaðar.

Og það hefur heldur engu skipt hvort þau mál hafi haft nokkuð með málefni vinnumarkaðarins og launþega að gera eða ekki.

Það er einfaldlega staðreynd að B.S.R.B. bregst aldrei málstað Vinstri grænna.

Það er líka athyglisvert að B.S.R.B. skuli ítrekað sjá ástæðu til að flytja inn til landsins erlenda gesti gagngert til að styðja við bakið á málstað Vinstri grænna á Alþingi.

Það er líka athyglisvert að B.S.R.B. hafi staðið fyrir auglýsingaherferðum, ráðstefnum og bókaútgáfu, með tilheyrandi kostnaði, beinlínis í tengslum við áróður Vinstri grænna gegn málum sem lögð hafa verið fram á Alþingi.

Það skyldi þó ekki vera að formennska Ögmundar Jónassonar fyrir B.S.R.B. og þingflokk Vinstri grænna skiptir hér einhverju máli?

x x x

Ef B.S.R.B. eru þverpólitísk samtök launafólks, hvers vegna hefur það aldrei gerst hin síðari ár að málstaður samtakanna hefur aldrei verið í minnsta ósamræmi við málstað Vinstri grænna?

Og hvernig stendur á því að forystu B.S.R.B. hafi aldrei látið sér detta það í hug að flytja inn til landsins erlenda fræðimenn sem hafa önnur viðhorf til mála en þingflokkur Vinstri grænna?

Svörin við þessum spurningum liggja í augum uppi.

x x x

B.S.R.B. eru langstærstu samtök opinberra starfsmanna á Íslandi með rúmlega 19.000 félagsmenn innan sinna raða.  Þeir eru lögum samkvæmt skikkaðir til þess að greiða félagsgjöld til samtakanna óháð pólitískum skoðunum sínum.

Það gengur að mínu mati ekki að lögbundin félagsgjöld félaga í B.S.R.B. séu notuð til þess að fjármagna stjórnmálabaráttu formannsins og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs með þeim hætti sem gert hefur verið.

Það er einfaldlega ekki verjandi gagnvart þeim fjölmörgu félagsmönnum B.S.R.B. sem ekki fylgja Ögmundi og Vinstri grænum að málum.

x x x

Á síðasta kjörtímabili voru samþykkt á Alþingi lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.

Samkvæmt ákvæðum þeirra laga er stjórnmálasamtökum óheimilt að taka við hærri fjárframlögum frá einstaklingum og lögaðilum en sem nema 300.000 krónum á ári.

Markmiðið með setningu þeirra laga var ekki sá að stuðla að því að hagsmunasamtök sem tengjast forystumönnum einstakra stjórnmálaflokka fjármögnuðu stjórnmálastarfsemi og málefnabaráttu stjórnmálaflokkanna, í stað þess að flokkarnir geri það sjálfir.

Og þannig viljum við ekki að þessi lög séu sniðgengin.

Vinstri grænir ættu að hafa það í huga.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Sigurður Kári.

Í þessu máli er ég algjörlega sammála þér, og tel þetta mál sem sannarlega þarf að ræða í íslensku samfélagi, þótt fyrr hefði verið.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 16.9.2008 kl. 00:21

2 identicon

Sæll Sigurður Kári

 Þú skrifar :

"Mér finnst hins vegar mjög ámælisvert að samtökunum sé markvisst beitt þágu málstaðar Vinstri grænna í íslenskum stjórnmálum, stjórnmálaflokks sem formaður B.S.R.B. er einn helsti forystumaður fyrir.  Það er kjarninn í minni gagnrýni."

Ég held að þú gleymir einu mikilvægu í þessu máli. BSRB er að berjast fyrir sína félagsmenn, alla.  Þú og okkar flokkur hefur því miður verið að ráðast harkalega að kjörum félagsmanna BSRB undanfarið og ÞESS VEGNA hefur BSRB, ekki bara Ögmundur,  verið að berjast við Sjálfstæðisflokkinn.

Það eru ekki allir í flokknum okkar ánægðir með á hvaða leið flokkurinn er í þessum málum. Hafðu það hugfast þegar þú tjáir þig um svona mikilvæg mál

kveðja,

Páll Svavarsson, Stjórnarmaður í SFR, og félagsmaður BSRB, og félagi í Sjálfsstæðisflokknum.

Páll Svavarsson (IP-tala skráð) 16.9.2008 kl. 08:35

3 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Ef í setningu laga um fjármál stjórnmálaflokka hefur falist bann við því að félög og samtök gæti hagsmuna sinna, hafa orðið mistök við lagasetninguna.

Ég held reyndar að slíkt bann hafi ekki verið sett og er félögum og samtökum því frjálst að gæta hagsmuna sinna.

Svo er allt annað mál hvernig félögin og samtökin gera það. Það er mál sem aðilar að þeim félögum og samtökum eiga að ráða framúr á lýðræðislegan hátt í sínum hópi.

http://gesturgudjonsson.blog.is/blog/gesturgudjonsson/entry/642927/

Gestur Guðjónsson, 16.9.2008 kl. 10:02

4 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

BSRB er misnotað af hálfu formannsins. Svo er og um Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar þar sem ég var í fulltrúaráði og varð áþreifanlega var við pólitískan dilkadrátt.

Formenn og starfsmenn verja hagsmuni vinstri grænna fyrst og fremst og vinna beinlínis gegn hagsmunum t.d. Sjálfstæðismanna í St.Rv.

Ég hefi reynt það á eigin skinni og veit hverju þeir svara.

Það er löngu kominn tími til að hreinsa í spillingarbælunum að Grettisgötu 89.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 16.9.2008 kl. 17:54

5 Smámynd: Víðir Benediktsson

Er Ögmundur bara einn í stjórn BSRB?

Víðir Benediktsson, 16.9.2008 kl. 22:35

6 Smámynd: Pétur Kristinsson

Miðað við stöðu hins vinnandi manns að þá veitir ekkert af því að formaður BSRB misnoti aðeins aðstöðu sína. Það er ekki eins og hinn almenni þingmaður sé rödd verkamannsins á þingi þannig að ég segi go Ögmundur.

Og enn og aftur á að halda niður launum hins lægstlaunaða til þess að skrúfa niður verðbólguna, þ.e. með nýrri þjóðarsátt. Hvernig væri nú að taka til í launum þeirra sem nóg hafa milli handanna? Hvernig væri að nýja þjóðarsáttin taki til þeirra sem voru á topp 1500 í launum af lista viðskiptablaðsins? Væri eðlilegra ekki satt? En það er alltaf erfitt að eiga við þessa kalla sem að eru stærstu sponsorarnir í flokknum þannig að maður má reikna með að þar verði áfram óbreytt staða.

Það er talsvert síðan að ég hætti að kjósa D vegna þess að D er ekki lengur boðberi frjálshyggju heldur eiginhagsmunapots sem tröllríður okkar þjóðfélagi í dag. Á Íslandi ríkir fákeppni en lítil samkeppni og með D í áhrifastöðum er lítið gert í málunum frekar stuðlað að frekari fákeppni með sameiningum banka og verslana.

Farið að taka til í þessum málum og hættið að garfa í svona smáatriðum eins og hvort Ögmundur sé að misnota stöðu sína. Það er ekki eins og efnahagsástandið hérna hafi lagast á meðan.

Pétur Kristinsson, 16.9.2008 kl. 22:45

7 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Hallarbylting í BSRB verður erfið því Ögmundur hefur valið sér jábræður í stjórnir aðildarfélaganna.

Verðugt verkefni samt fyrir ungt dugnaðarfólk sem blöskrar kúgunin.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 17.9.2008 kl. 08:07

8 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Sýndu nú smá myndarbrag og svaraðu nú flokksbróður þínum sem tjáir sig hér að ofan, ef þú þá á annað borð getur!

En fyrst þú hefur svona miklar "áhyggjur" af því að nú sé verið að brjóta eða fara gegn lögum hvað Ögmund og BSRB varðar, þá er hægt að segja við þig líkt og leiðtogi þíns pólitíska lífs gerði fyrir eigi svo löngu við þáverandi þingmann í stjórnarandstöðu, Mörð Árnason, af hverju ferðu ekki bara fyrir dómstóla með þetta og lætur reyna á, til þess eru jú dómstólarnir!?Öðruvísi get ég ekki séð nema að gagnrýni þín sé innantóm dylgja í hinu daglega stjórnmálaþrasi og í raun ákaflega lítils virði eins og reyndar flest ef ekki öll þín upphlaup og gagnrýni!

Magnús Geir Guðmundsson, 18.9.2008 kl. 02:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband