100 ár frá fæðingu Bjarna Benediktssonar

64-220Í dag var þess minnst með athöfn í Þjóðmenningarhúsinu að 100 ár eru liðin frá fæðingu Bjarna Benediktssonar.

Af sama tilefni fylgdi veglegt sérblað með Morgunblaðinu í dag, tileinkað minningu Bjarna.

Það þarf kunnara en frá þurfi að segja að Bjarni Benediktsson var einhver merkasti stjórnmálamaður síðustu aldar.  Glæsilegur stjórnmálaferill hans er besta sönnun þess, en á ferli sínum gengdi Bjarni Benediktsson embætti borgarstjóra í Reykjavík og gengdi embætti ráðherra í rúma tvo áratugi, lengst allra.  Kom Bjarni víða við og var til að mynda dómsmálaráðherra, menntamálaráðherra, utanríkisráðherra og forsætisráðherra, en því embætti gengdi hann til dauðadags, ásamt því að gegna formennsku í Sjálfstæðisflokknum.  Þar fyrir utan var Bjarni Benediktsson skipaður prófessor við lagadeild Háskóla Íslands árið 1932, einungis 24 ára að aldri, en aldrei hefur nokkur maður fyrr eða síðar verið skipaður í prófessorsembætti við lagadeild svo ungur að árum og er raunar óhætt að slá því föstu að met Bjarna Benediktssonar verði ekki slegið í komandi framtíð.

Þeir sem þekktu til Bjarna Benediktssonar eru sammála um að hann hafi verið afburðamaður.  Sjálfur hitti ég hann aldrei, enda var ég ekki fæddur þegar hann lést.  Hins vegar hef ég lesið og kynnt mér fræðirit í lögfræði eftir Bjarna, greinar sem hann skrifaði og ræður sem hann hélt á Alþingi og víðar.  Þær bera þess öll merki að Bjarni hafi borið af á sínu sviði.

Við athöfnina í Þjóðmenningarhúsinu í dag, sem Ragnhildur Helgadóttir, fyrrverandi ráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins stjórnaði að miklum myndarskap, voru veittir styrkir til fræðimanna úr rannsóknarsjóði kenndum við Bjarna Benediktsson, en jafnframt fluttu þau Jónas Haralz, fyrrverandi bankastjóri, dr. Þór Whitehead, prófessor í sagnfræði, og Ragna Árnadóttir, settur ráðuneytisstjóri dóms- og kirkjumálaráðuneytis, fróðleg erindi.

Ekki síst var erindi dr. Þórs Whitehead athyglisvert því í erindi sínu varpaði prófessorinn nýju ljósi á hernámsandstæðinginn Bjarna Benediktsson, þá borgarstjóra í Reykjavík, og baráttu hans gegn uppbyggingu breska hernámsliðsins á flugvelli í Vatnsmýrinni í Reykjavík.

Vonandi mun dr. Þór Whitehead birta erindi sitt opinberlega, enda er það sérlega fróðlegt fyrir þá sem láta sig málefni flugvallarins í Vatnsmýrinni varða.

Við athöfnina opnaði Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri Reykjavíkur, nýja vefsíðu, www.bjarnibenediktsson.is, sem tileinkuð er ævi og störfum Bjarna Benediktssonar.  Full ástæða er til að hvetja fólk til þess að heimsækja vefsíðuna enda hefur hún að geyma gríðarlega mikinn fróðleik um lífshlaup og ævistörf þessa merka stjórnmálamanns.

Það var vel til fundið hjá þeim sem að þessari minningarathöfn stóðu og við hæfi að minnast 100 ára fæðingarafmælis Bjarna Benediktssonar með þeim myndarskap sem gert var í Þjóðmenningarhúsinu í dag.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er orðinn það gamall að ég man vel eftir honum, hann var þannig, að maður treysti því að það sem hann sagði, væri rétt.  Enda stóðst það alltaf.  Blessuð sé minning hanns.  Hann og Ólafur Thors áttu enga sína líka. 

Ólafur B. Jónsson (IP-tala skráð) 30.4.2008 kl. 23:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband