Merkileg ,,frétt"

5fce5b92-9baa-4e34-9fe8-0230200b2c7bÉg rak upp stór augu í gærkvöldi þegar ég fylgdist með fréttatíma Stöðvar 2.  Þar var flutt ,,frétt" sem var nokkuð óvenjuleg og ólík þeim fréttum sem ég hef áður séð í íslenskum fjölmiðlum, og tel ég mig fylgjast býsna vel með fréttaflutningi hér á landi.

Í upphafi fréttarinnar las hin geðþekka fréttakona, Edda Andrésdóttir, upp eftirfarandi yfirlýsingu:

,,Nú eru 45 dagar eftir af vorþingi og jafn langur tími fyrir þingmenn til þess að breyta lögum um lífeyrisréttindi ráðamanna.  Við minnum nú í þriðja sinn á kosningaloforð Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar."

Í kjölfarið var síðan birtur bútur úr ræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, sem líklega var haldin á landsfundi flokksins, undir fyrirsögninni ,,45 dagar til þinghlés", þar sem hún lýsti afstöðu sinni til málsins.

Það er athyglisvert að fréttastofa sjái ástæðu til að minna með þeim hætti sem gert var á kosningaloforð eins stjórnmálaflokks og það ekki einu sinni, heldur þrisvar!  Og það án þess að rætt sé við neinn af forsvarsmönnum Samfylkingarinnar um málið.  Hugsanlega var óskað eftir viðbrögðum þeirra við fréttinni, án árangurs, en það kom að minnsta kosti ekki fram í fréttinni.

Að minnsta kosti veltir maður því fyrir sér hvað veldur því að fréttastofa Stöðvar 2 sýni þessu máli, umfram önnur, svo mikinn áhuga og reyni að setja þrýsting með þessum hætti á einn stjórnmálaflokk.

Ég man ekki eftir því að slíkt hafi verið gert áður.

x x x

Eins og kunnugt er liggur nú fyrir Alþingi frumvarp Valgerðar Bjarnadóttur, varaþingmanns Samfylkingarinnar, til breytinga á lögum um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að markmiðið með flutningi frumvarpsins sé að alþingismenn, ráðherrar og hæstaréttardómarar njóti sömu lífeyriskjara og ríkisstarfsmenn, en búi ekki við sérstök forréttindi og að lífeyriskjör þessara hópa verði færð til þess vegar sem nú gerist hjá starfsmönnum ríkisins.

Athygli vekur auðvitað að frumvarpið gerir ráð fyrir að lífeyriskjörum forseta Íslands verði ekki breytt og að sá einstaklingur sem því embætti gegnir búi við sérstök forréttindi í þessum efnum.

Í þessu sambandi er rétt að taka það fram að starfsmenn ríkisins njóta forréttinda umfram starfsmenn á almennum markaði þegar kemur að lífeyrisréttindum.  Almennt búa ríkisstarfsmenn við ríkari og betri lífeyrisréttindi en launþegar á almennum vinnumarkaði. 

Í umræðum um frumvarp Valgerðar Bjarnadóttur hef ég varpað fram eftirfarandi spurningum:

Vilji menn á annað borð breyta lífeyrisréttindum ríkisstarfsmanna með þeim hætti sem frumvarpið mælir fyrir um, jafna kjör og berjast gegn forréttindum hvers konar, er þá ekki ástæða til þess að láta slíkar breytingar ganga yfir alla ríkisstarfsmenn?

Er ástæða til þess að undanskilja forseta Íslands í þeim efnum?

Og væri ekki skynsamlegra, í ljósi þeirra markmiða sem að er stefnt með frumvarpinu, að mæla fyrir um að lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna yrðu færð til jafns við þau lífeyrisréttindi sem launþegum eru almennt tryggð á almennum vinnumarkaði þannig að allir myndu sitja við sama borð?

Þau svör sem ég hef fengið við þessum spurningum hafa fram til þessa verið vægast sagt afar loðin.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Heldurðu virkilega, Hrafnkell, að ómálefnalegur talsmáti sér þér og þínum málflutningi til framdráttar?

Hjörtur J. Guðmundsson, 15.4.2008 kl. 18:36

2 Smámynd: Pétur Kristinsson

Ég hefði verið spenntur að sjá einhvert svar um innihald þessarar fréttar. Þetta var svo sannarlega eitt af stóru kosningaloforðum samfylkingarinnar og kannski er "fréttinn" frétt þess vegna.

Annars eru þessi lög til þess fallinn að vekja úlfúð meðal almennings enda skilur fólk ekki af hverju þetta var sett á sama tíma og niðurskurður er til lögreglu, tollgæslu, læknar teknir af neyðarbílunum og svona má lengi upp telja.

Pétur Kristinsson, 15.4.2008 kl. 20:42

3 identicon

Ekki ætla ég mér að missa mig í leiðindartalsmáta en Siggi Kári, common.

Ekki þetta yfirlæti, þú manna best ættir að vita að téð frumvarp gengur út að , í það minnsta, að leiðrétta þann ósóma sem settu var í lög árið 2003, keyrt í gegn af þeim sama og hefur stjórn á efnahagsástandi þjóðarinnar í dag.

Þið stuttbuxnadrengir gætuð allavega látist sem að ykkur finnist sá glæpur, já sá sem Valgerður er að reyna að leiðrétta, var siðlaus.

Og til viðbótar, ekki koma með hvað Forseti vor kæmi til með að hafa það svo og svo gott ef e-ð væri tekið að ykkur þingmönnum, ég taldi þig meiri menn en það  að þurfa bera þig saman við Forseta Íslands.

Ef að þú sérð ekki að þetta er réttlætismál og siðferðislega rangt að hafa þetta tvöfalda kerfi við lýði, þá ert þú, þá sem háttvirtur þingmaður á rangri braut og ættir því að snúa þér að þinu fagi, því fer oft litíð fyrir siðferði.

Virðingafyllst.

Sigfús Ómar Höskuldsson (IP-tala skráð) 15.4.2008 kl. 23:14

4 Smámynd: Sigurður Kári Kristjánsson

Ágæti Sigfús.

Ég bið þig um að lesa pistil minn aðeins betur, því ég er að varpa fram þeirri spurningu hvort ekki sé rétt að allir sitji við sama borð.  Er eitthvað siðferðislega óeðlilegt við það?

Sigurður Kári Kristjánsson, 16.4.2008 kl. 00:16

5 Smámynd: Haukur Nikulásson

Sigurður Kári, ég skal svara þessu með forsetann: Að sjálfsögðu á hann að vera settur undir þessi sömu lög. Er þetta eina ástæðan fyrir því að þú vilt draga lappirnar með leiðréttingu á eftirlaunafrumvarpinu? Svaraðu nú því.

Ég fæ samt ekki séð að frumvarp Valgerðar leiðrétti neitt nema þá sem á eftir koma. Að því er virðist er ekki betur séð en að núverandi þingmenn og embættismenn sem féllu undir þetta eftirlaunafrumvarp haldi ránsfengnum til allrar frambúðar á þeirri undarlegu röksemd að hann falli nú undir eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og þess vegna sé ekki hægt að taka þetta til baka!

Þessi röksemd er jafn góð og þegar þið lýstuð því fyrir kosningar að innrásin í Írak hefði verið "rétt miðað við þær upplýsingar sem þá lágu fyrir". Þau bullrök hafa heldur aldrei verið dregin til baka og stuðningurinn við þetta ólánsstríð stendur óhaggaður.

Þó ég vilji ekki af prinsippástæðum fara í fúkyrðin skal ég upplýsa að ég er hreint æfur yfir þessari ósvífni þingmanna að láta greipar sópa um fé almennings með þessum hætti. Auk eftirlaunafrumvarpsins bættu þingmenn um betur og skömmtuðu sjálfum sér og flokkum sínum fé til að reka stjórnmálaflokkana og kosningabaráttu þeirra til frambúðar og þar tel ég að þeir hafi illa brotið á möguleikum annarra til að stofna til samtaka og hafa áhrif í þjóðfélaginu. Endalaust er svo hægt að bæta við: Nú þurfti að ráða þingmönnum sérstaka aðstoðarmenn til að þeir hefðu einhverja til að sendast eftir vínarbrauði í kaffinu og kaupa tækifærisgjafirnar handa makanum! Ráðherrar farnir að fljúga með einkaþotum á fundi sem þeir þurfa ekki að sækja  frekar en þeir vilja vegna betri samskiptabúnaðar, en gera það til að draga til  sín dagpeninga. Ég skil ekki hvernig þingmenn og ráðherrar hafa siðferði í allt þetta rugl og sjálftöku. Ég tel að græðgisvæðingin sé orðinn hvað mest þarna á Austurvellinum og í stjórnarráðinu. Því miður er bara allt of langt í að hægt sé að taka til í þessum ranni.

Sigurður Kári, það er mörg skömmin sem stjórnarþingmenn, og jafnvel stjórnarandstöðuþingmenn, eiga eftir að lagfæra í nafni siðferðis og réttlætis.

Mér til mikillar sorgar eru menn ekki lengur í stjórnmálum til að gera þjóðfélaginu gagn heldur skara eld að sinni köku.

Ég tel ofangreind mál meirihluta þingmanna til skammar og lít á flest þessara mála sem siðlausan þjófnað á almannafé. 

Haukur Nikulásson, 16.4.2008 kl. 06:33

6 identicon

Sigurður

Jú það er rétt, þú varpar fram þeirri spurningu hvort að allir eigi ekki að sitja við sama borð. Ég styð það heilshugar  eins og lög leyfa.

Því til stuðnings þá minni á umdeildar hækkanir sem forseti, þingmenn, ráðherrar og margir aðrir starfsmenn ríkisins hafa fengið frá kjaranefnd ríkisins.

Þær hækkanir hafa jú oft verið á skjön við það sem aðrir ríkisstarfsmenn hafa verið að fá á sama tíma.

Að minu mati er það líka siðlaust.

Svara þetta spurningu þinni ?

Sigfús Ómar Höskuldsson (IP-tala skráð) 16.4.2008 kl. 09:17

7 Smámynd: Jón Magnússon

Þú verður að fyrirgefa ágæti Sigurður en mér fannst þetta skemmtileg tilbreyting hjá Stöð 2. Fréttamiðlar mættu gera meira af því að minna á kosningaloforð stjórnmálamanna og kalla eftir efndum á þeim. Ég er sammála því að það á það sama yfir alla ríkisstarfsmenn að ganga hvort heldur hann hefur verið forseti, alþingismaður, kennari, læknir eða hvað svo sem er. Er ekki eðlilegt að við búum ríkisstarfsmönnum sambærileg kjör þegar þeir láta af störfum en búum ekki til forréttindahópa eins og núna fyrrverandi ráðherra sem margir eru í hálaunastörfum en fá síðan hátt í milljón á mánuði vegna eftirlaunalaga Davíðs. Er einhver glóra í því?

Jón Magnússon, 16.4.2008 kl. 11:08

8 Smámynd: Soffía Sigurðardóttir

Sigurður Kári.

Hefur þú, eða ætlar þú, að flytja breytingatillögu við þessa tillögu Valgerðar?

Eða ætlar þú að samþykkja hana eins og hún er?

Eða ætlar þú að hafna henni?

Hvernig ætlar þú að láta afgreiða þetta mál frá Allsherjarnefnd Alþingis, sem þú ert formaður fyrir? Málinu var vísað til nefndarinnar af þingfundi 2. nóvember s.l.

Soffía Sigurðardóttir, 16.4.2008 kl. 11:17

9 Smámynd: Halla Rut

Undur er hve maðurinn upplifir hlutina ólíkt.

Ég hugsaði einmitt "alvöru fréttamennska" þegar ég sá/heyrði þessa frétt. Um helmingur frétta í sjónvarpi eru keyptar og færðar til okkar hráar frá erlendum fréttastöðvum og hinn helmingurinn eru innlendar fréttir sem fjalla eingöngu um þá atburði sem blasa við. Hér var kafað, rannsakað og hugsað.

Góð tilbreyting og lifandi fréttamennska og kannski er þetta bara byrjunin og þú verður tekin fyrir næst....

Halla Rut , 16.4.2008 kl. 11:33

10 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ef flokkur A lofar "Verkefni X" fyrir kosningar og flokkur B lofar "verkefni Y" fyrir kosningar og eftir kosningar mynda þessir tveir flokkar samsteypustjórn með málamiðlun um "Verkefni Z" eru þá ekki báðir flokkar að svíkja kosningaloforð?

Á Íslandi eru nær undantekningalaust samsteypustjórnir. Þær búa til stjórnarsáttmála. Flokkarnir koma sínum áherslumálum að en verða að fórna öðrum til að ná samkomulagi, málamiðlun. Ef Samfylkingin er að svíkja kosningaloforð í stjórnarsamstarfinu þá er það annað hvort vegna viljaleysi flokksins eða mótbáru samstarfsflokksins. Er Samfylkingin þá að svíkja eða er Sjálfstæðisflokkurinn að stöðva kosningaloforð samstarfsflokksins?

Friðrik Þór Guðmundsson, 16.4.2008 kl. 11:57

11 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Ég hef svosem ekkert við aðferð Stöðvarinnar að athuga EF og AÐENS EF að klárlega er greint, um hvað er að ræða og hvað liggur til grundvallar lagasetningunni.

Það tekur ögn lengri tíma en er heiðarlegri aðferð.  ÞEtta birtingarform lyktar af pupulisma.

Mér er ekkert á móti skapi, að saumað sé að ,,kjörrnum fulltrúum" okkar í málum, sem eru klárlega sérstök hagsmunamál okkar, svo sem spurningar um samgöngubætur og forgangasröðun í þeim efnum og gefa EKKERT eftir þar.

Hitt er, að í svona lagasetningu sem auðvelt er að setja upp í ,,við og þið hin" kerfi, er svo auðvelt, að fara út af sporinu, eins og mér virðist þarna hafa verið gert.

ÞAð er nefnilega svo,a ð þingmannsstarfið er og að ekki sé nú talað um Ráðherraembættin , fælandi frá ráðningu í einkageiranum og því verða þingmenn á stundum frekar í erfiðari stöðu til að sjá sér farborða eftir setu á Alþingi en fyrir.

Þetta verður að skoða með opnum hug en ýta ekki sí og æ undir öfund, það er svo banalt og auvirðileg aðferð í málflutningi.

Það er svo þekkt, að litlu upphæðirnar skilur fólk en hinar stóru eru torskildari og því fljo´tafgreiddari.

Dæmi, stjórnir félags getur afgreitt samruna og eða kaup á felagi sem er milljarða fjárfesting á 5 mínútum en taki klukkutímana í að ákvarða um einkenisfatnað starfsmanna og hvað það megi kosta.

 Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 16.4.2008 kl. 12:25

12 identicon

Má skilja þig Sigurður K.K. þannig að þú styddir frumvarpið ef það tæki til forsetaembættisins líka?

Ef svo er, er þá ekki rétt að afgreiða málið með slíkum breytingum úr allsherjarnefndinni? Þér ætti að vera þér það í lófa lagið...

Kristinn (IP-tala skráð) 20.4.2008 kl. 14:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband