Ekkert miðjumoð

180px-Leaning_Tower_of_PisaVið upphaf þingfundar í gær ræddum við á Alþingi um niðurstöður Písa-könnunarinnar um námsárangur grunnskólanemenda.  Ég tók þátt í þeirri umræðu.

Það er engin ástæða til að draga fjöður yfir það að niðurstaða Písa-könnunarinnar eru vonbrigði.  Það er ekki ásættanlegt að lesskilningur íslenskra skólabarna hafi hrakað á síðustu árum og lakari árangur þeirra í náttúrufræði og stærðfræði veldur einnig áhyggjum.

En þó svo að niðurstöður könnunarinnar hafi ekki verið nægilega góðar fyrir okkur Íslendinga ættu þeir sem um hana fjalla að varast að nota þær til þess að tala íslenskt menntakerfi niður, eins og nokkuð hefur borið á.  Slíkt er hvorki skólunum, þeim sem þar starfa eða nemendum til framdráttar.

Eitt vekur sérstaka athygli í könnuninni, en það er sú staðreynd að fjármagn og árangur nemenda í grunnskólum helst ekki endilega í hendur.  Norðmenn verja til að mynda mestu fjármagni til sinna grunnskóla en eru engu að síður aftarlega á merinni þegar kemur að árangri norskra nemenda.  Við Íslendingar fylgjum Norðmönnum fast á eftir þegar kemur að fjárveitingum til grunnskólans, en samt sem áður náum við ekki þeim árangri í könnuninni sem við hefðum viljað sjá.

Þetta er vert að hafa í huga, því á síðustu árum hefur sú gagnrýni sem beint hefur verið að stjórnvöldum varðandi menntamál einkum snúist um það að aukna fjármuni þurfi til skólakerfisins.  Písa-könnunin virðist leiða í ljós að það séu svo aðrir þættir skipti meira máli.

Þó svo að niðurstöður Písa-könnunarinnar séu ekki endilega yfir allan vafa hafnar tel ég að við Íslendingar eigum engu að síður að taka þær alvarlega.  Við eigum að nýta þær með uppbyggilegum hætti til þess að styrkja og efla skólana okkar og bæta þá menntun sem við veitum grunnskólanemum.

Við þurfum að setja undir okkur hausinn og hefjast strax handa við að lagfæra þá hluti sem betur mega fara í skólakerfinu.  Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, hefur nú sýnt frumkvæði í þeim efnum og tekið af skarið með því að leggja fram fjögur efnismikil lagafrumvörp á Alþingi um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, og menntunarskilyrði kennara.  Það er lofsvert.

Það er mikilvægt að allir sem að skólamálum koma taki þessar niðurstöður til athugunar og leggi sitt af mörkum í umræðunni.  Á það meðal annars við um alþingismenn, sveitastjórnarmenn, kennara, foreldra, háskólafólk og aðila í viðskiptalífinu.

Við þurfum að taka þær aðferðir sem beitt er innan grunnskólans til skoðunar.  Það þarf meðal annars að meta hvort of mikil áhersla er lögð á uppeldisþættina í skólakerfinu og hvort það sé gert á kostnað faggreinakennslu.  Við þurfum að endurmeta þau námsgögn sem nemendum er boðið upp á og velta því fyrir okkur hvort ekki sé ástæða til þess að auka samkeppni milli skóla, svo fátt eitt sé nefnt.

Í þessa vinnu þarf að ráðast með það að markmiði að bæta árangur íslenskra grunnskólanemenda því við eigum ekki að sætta okkur við að þeir séu eftirbátar jafnaldra sinna í öðrum löndum.  Við eigum ekki að sætta okkur við neitt miðjumoð í þessum efnum.

Í þeirri umræðu megum við þó ekki gleyma því að við höfum byggt upp frábært skólakerfi.  Kennararnir okkar eru góður og krakkanir okkar bráðefnilegir.

Við þurfum hins vegar að finna leiðir til þess að draga það besta fram í þeim.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

Að sjálfsögðu ber að hafa margt í huga þegar rædd eru mál sem snúa að börnunum og námi þeirra. Það er á mörgu að taka þar.

Ég hef bæði hugsað um það hversu margir foreldrar geta gefið sér góðan tíma í að sinna námi barna sinna með þeim. Eru margir foreldrar sem setjast niður afslappaðir með börnum sínum og sýna þolinmæði við að aðstoða þau við námið ? Þegar foreldrar koma þreyttir heim úr vinnu, jafnvel að vinna lengur en gengur og gerist því að við viljum fá meiri laun og hafa það betra, hver er þá tími okkar og þrek okkar til að sinna börnunum eins og okkur ber skylda til að gera ?

Svo er það með kennarana... en þeir verða að fá hærri laun. Þeir taka við börnum okkar, eyða með þeim stórum hluta af deginum, kenna þeim hvað er rétt og hvað sé rangt, þjálfa þau út í lífið.... mér finnst að kennarar eigi að fá aðeins betur borgað fyrir það  

En svo eru kennarar líka misjafnir, má ekki gleyma því....

En það er að mörgu að huga, það er ekki bara eitthvað eitt atriði, það væri gaman að sjá þessa þætti sem Þorgerður Katrín ætlar að koma með og sjá að hverjum þeir snúa og við þyrftum öll að taka höndum saman með þetta.

Kveðja til þín,

Inga Lára Helgadóttir 

Inga Lára Helgadóttir, 8.12.2007 kl. 18:14

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

"Við þurfum að endurmeta þau námsgögn sem nemendum er boðið upp á og velta því fyrir okkur hvort ekki sé ástæða til þess að auka samkeppni milli skóla, svo fátt eitt sé nefnt."

Blessaður Sigurður Kári. Ágæt grein og áhugavert væri að sjá frumvörpin til betra menntakerfis, en í augnablikinu hef ég á tilfinningunni að framhaldsskólar séu að breytast í grunnskóla og háskólar í menntaskóla, og er hræddur um að sífellt sé að slakna á kröfum til nemenda þar sem að endastöðin virðist skipta meira máli en námsferlið sjálft. Það er mikil samkeppni milli skóla á ýmsum sviðum. Væri kannski gæfuríkara að stinga upp á meiri samvinnu?

Af hverju er rökfræði og heimspeki ekki kennd í grunnskólum og framhaldsskólum af meiri krafti en gert er, þar sem margsannað er að slík fög eru vel til þess fallin að hækka einkunnir nemenda. Sjálfstæð, gagnrýnin, skapandi og krefjandi hugsun gerir nemendur að öflugri lýðræðisþegnum. 

Stærðfræði eða íslenska eru ekki það sama og rökfræði. Ég og fleiri Íslendingar höfum menntað okkur sérstaklega í þessu fagi, sem snýr að því að þjálfa börn og unglinga til skýrari og betri hugsunar, en störfum flest við eitthvað annað þar sem að launin í íslensku skólakerfi duga ekki til að halda uppi fjölskyldu. 

Þegar metnaðarfullir einstaklingar ná ekki að koma slíkri menntun á framfæri í íslensku menntakerfi er ekki von á öðru en að við drögumst aftur úr.

Hrannar Baldursson, 8.12.2007 kl. 18:32

3 identicon

Mönnum verður tíðrætt um fjármagnið sem veit er í íslenskt skólakerfi og sambandsleysið við árangurinn samkvæmt PISA.  Eitt er það sem samt er aldrei rætt í þessu samhengi og það er hvaða tölur liggja að baki þessum fjármunum.  Hér á Íslandi höfum við í fjölmörg ár lagt gríðarlega mikið upp úr skólabyggingum, bæði nýbyggingum og viðbyggingum við eldri skóla.  Þegar borin er saman aðstaða íslenskra skóla og skóla í nágrannalöndum okkar er munurinn sláandi Íslandi í vil, einfaldlega vegna þess að hér hefur mun meiri fjármunum verið varið í þessa ytri umgjörð.  Það að við skulum vera svo hátt á fjármagnslista PISA er því ekki endilega neitt samanburðarviðmið sem takandi er mark á varðandi innra starf skólakerfisins.

AUk þessa er ýmislegt varhugavert varðandi samanburð milli ára í PISA könnunum.  Þeir sem vinna í grunnskólum þekkja að árangur einstakra árganga er ærið misjafn og ákaflega erfitt að setja fingur á ástæður þess.  Sá heildarsamanburður milli landa sem pólitíkusar ræða mikið um er einnig varhugaverður þar sem aðstæður eru gríðarlega ólíkar í þeim löndum sem mæld eru.  T.d. má nefna að Íslendingar þurfa að senda 80-90% allra nemenda í hverjum árgangi í könnunina til að lágmarksfjölda sá náð.  Hins vegar eru gerð úrtök í flestum öðrum ríkjum sem könnunin tekur til.  Því vakna spurningar um hvort þetta tvennt er samanburðarhæft að öllu leyti.

Allt þetta og fleiri atriði hafa forsvarsmenn námsmatsstofnunnar bent á.  Það væri óskandi að stjórnmálamenn kynntu sér þessar forsendur eilítið betur en þeir virðast gera margir hverjir áður en þeir tjá sig um skólakerfið á grundvelli PISA niðurstaðna.  Það hefur til dæmis verið hálf nöturlegt að hlusta á málflutning menntamálaráðherra um málefnið undanfarna daga.    

Jóhannes Þ. Skúlason (IP-tala skráð) 8.12.2007 kl. 22:51

4 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Frá því að sveitarfélögin tóku við rekstri grunnskólans fyrir rúmum tíu árum þá hafa þau verið að setja meira fé í skólana á ári hverju. En í hvað hafa þeir fjármunir farið?

Í skólabyggingar í kjölfar einsetningar skólanna.

Í eldhús og mötuneyti í kjölfar kröfu foreldra um heitan mat í hádeginu.

Vegna fjölgunar starfsmanna annarra en kennara í kjölfar "skóla án aðgreiningar".

Er ekki kominn tími til að setja núna meira fé til að styrkja menntunina? 

Sigurður Haukur Gíslason, 8.12.2007 kl. 23:51

5 Smámynd: Auðbergur Daníel Gíslason

Sæll Sigurður

Það var gaman að sjá þig niðri í þingi.

Ég skrifaði nú um þessa PISA könnun á síðuna mína og ég hvet þig, sem og aðra lesendur þessarar síðu að lýta á hana.
Slóðin er: http://audbergur.blog.is/blog/audbergur/entry/382882/

Auðbergur D. Gíslason
14 ára Sjálfstæðismaður

Auðbergur Daníel Gíslason, 10.12.2007 kl. 15:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband