Það eru engar töggur í stjórnarandstöðunni

myndAlþingi Íslendinga hefur verið sett.  Setning Alþingis var að þessu sinni með nokkuð óvenjulegu sniði, því í fyrsta skipti var flutt tónlist við setninguna þegar þingmenn gengu í húsið.  Að mínu mati setti þessi tónlistarflutningur hátíðlegan blæ á setningarathöfnina.

Að venju flutti forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, ávarp og forseti Alþingsins, Sturla Böðvarsson, kynnti nýjungar sem hann hyggst beita sér fyrir á starfsháttum þingsins.

Í gærkvöldi flutti Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, stefnuræðu sína og að henni lokinni fóru fram umræður um hana.

Af ræðum gærkvöldsins að dæma kemur stjórnarandstaðan ekki beinskeitt  til þessa þings, enda var gagnrýni hennar á ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar máttlítil.  Auðvitað áttu einstakir ræðumenn stjórnarandstöðuflokkanna sína spretti, eins og Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, og Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, en einkum þegar þeir sögðu brandara og slógu á létta strengi.  Efnislega voru ræður þeirra máttlausar.  Það duldist engum þeim sem á horfði.

Vandi stjórnarandstöðunnar er sá að það eru engar töggur í henni og hana skortir allan trúverðugleika.  Þá er stjórnarandstaðan ósamstíga og sundruð og mun eiga í miklum erfiðleikum með að koma sér saman um nokkurn skapaðan hlut.  Vissulega hefur stjórnarandstaðan minni þingstyrk nú en oft áður.  En smæð hennar segir ekki alla söguna.  Allir sem til þekkja vita að það andar ísköldu milli framsóknarmanna og vinstri grænna.  Það er auðvitað misskilningur að halda að forysta framsóknarflokksins, með Guðna Ágústsson, formann, og Valgerði Sverrisdóttur, varaformann, sé búin að gleyma, hvað þá fyrirgefa, forystumönnum vinstri grænna það einelti sem þeir hafa lagt Framsóknarflokkinn í á síðustu árum.

Þuríður Backmann, þingmaður vinstri grænna, viðurkenndi í viðtali við Morgunblaðið í gær að samstarf stjórnarandstöðuflokkanna væri "óskrifað blað".  Það er ekki gæfuleg yfirlýsing í upphafi þings.

Í mínum huga er ljóst að stjórnarandstaða með þessa tvo flokka sem burðarása er ekki líkleg til mikilla afreka.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

hvers vegna ættu nú að vera karamellur í stjórnarandstöðunni?

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 4.10.2007 kl. 09:36

2 Smámynd: Fríða Eyland

Fríða Eyland, 4.10.2007 kl. 10:09

3 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Segir maður ekki: enginn töggur

María Kristjánsdóttir, 4.10.2007 kl. 15:13

4 Smámynd: Sigurður Kári Kristjánsson

Jú, það er rétt hjá þér.  Maður segir:  enginn töggur.  Ég fæ hins vegar ekki betur séð en að samkvæmt Orðabók Eddu útgáfu þá gangi hin útgáfan líka, þ.e. kvk., ft.

Sigurður Kári Kristjánsson, 4.10.2007 kl. 16:02

5 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Jæja, ég verð víst að kaupa mér Orðabók Eddu svo ég sé ekki að ónáða þig að óþörfu. Annars var ég að horfa á Svandísi Svavars í sjónvarpinu það var aldeilis töggur í henni þótti mér.

María Kristjánsdóttir, 4.10.2007 kl. 20:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband