Hver hótaði forsetanum?

Á fimmtudaginn spurði ég Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, á Alþingi að því hvort hún hefði hótað Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, afsögn sinni eða að ríkisstjórnin færi frá staðfesti forsetinn ekki Icesave-lög ríkisstjórnarinnar.

Svar Jóhönnu var nei.

Hún aftók með öllu að hafa haft í slíkum hótunum við forsetann.

Tilefni þessarar fyrirspurnar minnar til forsætisráðherrann voru ummæli sem Ólafur Ragnar lét falla í viðtali í Silfri Egils, sunnudaginn 13. febrúar sl., viku áður en hann synjaði Icesave-lögunum staðfestingar.  Þar sagði forsetinn m.a.:

,,Ég tel auðvitað æskilegast að við finnum eitthvert form þá þar sem þessi ákvörðun hvílir ekki bara á einum manni.  Þetta er ekkert létt byrði að bera, að láta öll spjót standa á sér, láta ráðherra hóta sér að segja af sér, eða ríkisstjórnin fari frá, og svo framvegis og ég veit ekki hvað og hvað, og stefna þjóðinni í efnahagslegar ógöngur og allt þetta sem sagt er við forsetann ef hann taki þessa ákvörðun."

Ég trúi því ekki að forseti Íslands hafi látið þessi orð falla að tilefnislausu.  Slíkt er einfaldlega óhugsandi.

Við blasir að einhver ráðherranna hótaði forsetanum afsögn sinni og/eða því að stjórnin færi frá synjaði forsetinn Icesave-lögum ríkisstjórnarinnar staðfestingar.

Vandinn er hins vegar sá að nú vill enginn  gangast við þeim hótunum.

Allir sem fylgjast með stjórnmálum vita að slíkar hótanir setja ekki aðrir fram en forystumenn stjórnarflokkanna.

Það gera einstakir fagráðherrar ekki.  Ég sé að minnsta kosti ekki Jón Bjarnason eða Guðbjart Hannesson fyrir mér ganga til Bessastaða með slíkar hótanir í farteskinu.

En Jóhanna kannast ekkert við slíkt og ekki heldur Steingrímur J. Sigfússon.

Það blasir við að öll saga þessa máls hefur enn ekki verið sögð.

Ég tók eftir því að svar Jóhönnu við fyrirspurn minni við fyrirspurn minni var borið undir forseta Íslands á fimmtudaginn.

Hann neitaði að tjá sig.

Þau viðbrögð eru út af fyrir sig athyglisverð.  Ólafi Ragnari hefði verið í lófa lagið að staðfesta að svar Jóhönnu við fyrirspurn minni væri rétt hefði hann séð ástæðu til þess.

En það gerði hann ekki, sem vekur upp spurningar.

Það er auðvitað nauðsynlegt að upplýst verði í eitt skipti fyrir öll hver það var sem hafði í hótunum við forsetann með þeim hætti sem hann sjálfur hefur líst.

Og á meðan það hefur verið upplýst búum við Íslendingar ekki einungis við ríkisstjórn sem stendur ekki við loforð sín, heldur læðist að manni sá grunur að þjóðin sitji nú uppi með svo auma ríkisstjórn að hún getur ekki einu sinni staðið við hótanir um eigin afsögn!

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband