Grafið undan Hæstarétti Íslands

Af þeim kostum sem í boði voru, eftir að Hæstiréttur dæmdi kosninguna til stjórnlagaþings ógilda, ákvað meirihluti samráðsnefndar um stjórnlagaþing að velja þann versta.

Með því að leggja til að skipað verði svokallað ,,stjórnlagaráð", skipað þeim 25 einstaklingum sem hlutskarpastir voru í kosningum til stjórnlagaþings, sem Hæstiréttur dæmdi ógildar, eru þeir alþingismenn sem að þeim tillöguflutningi standa að leggja það til að Alþingi fari á svig við ákvörðun æðsta dómstól Íslands og hafi hana að engu.

Undir þá skoðun taka lagaprófessorarnir Róbert R. Spanó og Ragnhildur Helgadóttir í fjölmiðlum í dag.

Tillaga þingmannanna um ,,stjórnlagaráð" er ekkert annað en fráleit.

Maður hlýtur auðvitað að velta því fyrir sér hvort þeir sem styðja tillöguna eða standa að henni telji yfir höfuð að það sé ástæða til þess að hér á landi sé Hæstiréttur?

Það fyrirfinnst að minnsta kosti fólk á Alþingi sem sér enga ástæðu til þess að eftir niðurstöðum hans sé farið.

Það eitt og sér er mjög alvarlegt, en afstaða þeirra hlýtur að benda til þess að það telji dómstólinn óþarfan, fyrst ekki sé ástæða til að fara að niðurstöðum hans.

Við skulum rifja það upp að hér var kosið til stjórnlagaþings.  Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að framkvæmd kosninganna bryti í bága við lög landsins.  Þess vegna var kosningin ógild og kjörbréf þeirra sem bestum árangri náðu ógilt.

Kosningin hafði því ekkert gildi, stjórnlagaþingið var ekki sett á stofn og þeir sem flest atkvæði fengu eru umboðslausir.

Samt sem áður eru til alþingismenn sem telja að þessi skýra niðurstaða skipti engu máli.  Það sé engin ástæða til þess að hlusta á æðsta dómstól landsins.  Úr því að niðurstaða Hæstaréttar var þeim ekki þóknanleg þá er lagt til að stjórnlagaþingið fái bara nýtt nafn og fulltrúarnir með ógildu kjörbréfin sín taki til við að skrifa nýja stjórnarskrá eins og ekkert hafi í skorist!

Hafi Ísland glatað trausti umheimsins af öðrum ástæðum er þessi tillöguflutningur ekki til þess fallinn að endurheimta það traust.

Sameiginlegir hagsmunir okkar Íslendinga felast að minnsta kosti í því að fréttir af þessum tillöguflutningi berist ekki langt út fyrir landsteinana.

Við þetta allt saman bætist svo að sú ætlan þingmannanna að fara á svig við niðurstöðu Hæstaréttar Íslands lýsir einstaklega mikilli skammsýni af þeirra hálfu.

Hvernig geta þessir alþingismenn ætlast til þess að almenningur í þessu landi hlíti niðurstöðum æðsta dómstóls landsins í öðrum málum ætli þeir sér ekki að gera það sjálfir í þessu?

Þessari spurningu verða þingmennirnir að svara.

Og hvað ætli að yrði sagt ef Hæstiréttur Íslands myndi ógilda kosningar til Alþingis, en engu að síður yrði ákveðið að þeir sem bestum árangri náðu í hinni ógildu kosningu myndu engu að síður taka sæti á Alþingi, sem gefið yrði nýtt nafn?

Það hljóta allir að sjá fáránleikan í þessum tillöguflutningi.

Það gerir að minnsta kosti Ögmundur Jónasson.  Það má hann eiga, enda er Ögmundur innanríkisráðherra og þar með æðsti yfirmaður dómsmála á Íslandi.

Ögmundur hefur líst því yfir að hann ætli ekki að styðja tillögu þingmannanna um að komið verði á ,,stjórnlagaráði".  Enda getur hann það ekki af þeirri einföldu ástæðu að dómsmálaráðherra landsins getur stöðu sinnar vegna ekki stutt tillögu sem hefur það að markmiði að hafa niðurstöður æðsta dómstóls landsins að engu.

Nú stendur upp á að þingmenn á Alþingi Íslendinga að svara þeirri spurningu hvort þeir ætla að taka þátt í því að grafa undan æðsta dómstóli landsins með þeim hætti sem nú lagt er til eða ekki.

Ég hef að minnsta kosti gert upp minn hug.

Ég mun standa vörð um Hæstarétt Íslands og réttarkerfið í landinu og gegn tillögunni.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband