Opið bréf til Ögmundar Jónassonar

Í dag birti Morgunblaðið opið bréf mitt til Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra.  Þar skora ég á Ögmund að leysa mál ungs drengs sem Alþingi veitti íslenskan ríkisborgararétt en situr fastur við ömurlegar aðstæður á Indlandi ásamt foreldrum sínum þar sem íslensk stjórnvöld hafa ekki gefið út vegabréf fyrir hann.
Ég ræddi mál þessa drengs í Kastljósi Sjónvarpsins í gær við Vigdísi Hauksdóttur, þingmann Framsóknarflokksins.  Vigdís er mér ósammála mér um það hvernig leysa eigi málið.
Í mínum huga er óskiljanlegt að ekki sé gefið út vegabréf fyrir drenginn og að ráðherrann skuli ekki beita sér af fullum þunga fyrir því að það skuli gert.
Vandi þeirra sem ekki vilja gefa út vegabréf fyrir drenginn svo hann geti komið heim til Íslands er sá að þeir hinir sömu geta ekki svarað því hvernig eigi að leysa þetta mál.
Því verður hins vegar ekki breytt að drengurinn er fæddur.  Hann er íslenskur ríkisborgari og mál hans gufar ekki upp af sjálfu sér.
Bréfið er eftirfarandi: 
,,Ágæti ráðherra.
Hinn 18. desember síðastliðinn veitti Alþingi Íslendinga Jóel Færseth Einarssyni, ungum dreng sem fæddist 13. nóvember á Indlandi, íslenskan ríkisborgararétt sem ekki verður af honum tekinn. Drengurinn er því lögum samkvæmt íslenskur ríkisborgari og ætti því að njóta lagalegra réttinda sem slíkur, eins og aðrir íslenskir ríkisborgarar.
Þrátt fyrir það hefur ráðuneyti þitt og undirstofnanir þess ekki séð ástæðu til þess að heimila útgáfu vegabréfs fyrir drenginn. Á meðan svo er er drengnum gert ómögulegt að komast frá Indlandi til Íslands þar sem hann er með ríkisfang. Þess í stað býr hann nú ásamt foreldrum sínum, sem einnig eru íslenskir ríkisborgarar, við ömurlegar aðstæður í borginni Mumbai á Indlandi í algjörri óvissu um stöðu sína og framtíð.

Foreldrar drengsins hafa afhent ráðuneyti þínu öll tiltæk gögn, staðfest af þar til bærum indverskum yfirvöldum, sem staðfesta að þau fari með umráð hans. Þrátt fyrir það er dregið að heimila útgáfu vegabréfsins, án þess að fyrir þeirri ákvörðun séu færðar viðhlítandi skýringar. Í raun er ekki hægt að segja annað en að sinnuleysi íslenskra stjórnvalda í máli þessa litla drengs sé óskiljanlegt.

Ég fæ ekki betur séð en að tregðu ráðuneytis þíns við að heimila útgáfu vegabréfs handa drengnum sé aðeins hægt að skýra með því að það var staðgöngumóðir á Indlandi sem fæddi hann. Þó staðgöngumæðrun sé enn ekki heimil á Íslandi er hún það á Indlandi. Í ljósi þess viðurkenna indversk stjórnvöld drenginn sem barn hinna íslensku foreldra. Fæðingarvottorð drengsins staðfestir það. Þá liggur fyrir að hvorki indverska staðgöngumóðirin né eiginmaður hennar gera tilkall til barnsins. Raunar er það svo að enginn á Indlandi hefur áhuga á að drengurinn verði þar áfram.

Senn líður að því að dvalarleyfi foreldra barnsins á Indlandi renni út. Verði staða drengsins og foreldra hans enn sú sama þegar að því kemur munu þau þurfa að yfirgefa landið. Geri þau það ekki eiga þau yfir höfði sér fangelsisvist. Verði þeim gert að yfirgefa Indland án þess að gefið hafi verið út vegabréf fyrir drenginn er óvíst um afdrif hans og velferð.

Samkvæmt þeirri lögfræði sem ég lærði eiga íslenskir ríkisborgarar rétt á því að fá útgefið íslenskt vegabréf sér til handa. Þá gildir sú meginregla í íslenskum barnarétti að þegar stjórnvöld taka ákvarðanir sem varða börn á ætíð að hafa að leiðarljósi það sem barninu er fyrir bestu. Hagsmunir þessa drengs felast ekki í því að vera áfram við ömurlegar aðstæður og í óvissu á Indlandi. Hans hagsmunir eru þeir að komast til Íslands ásamt foreldrum sínum. Vandséð er, miðað við stöðu mála, hvernig máli þessu getur lyktað með öðrum hætti en þeim að drengurinn komi heim með foreldrum sínum. Hvers vegna þarf að draga dvöl hans og foreldranna á Indlandi á langinn með þeim hætti sem fyrir liggur? Í hverra þágu er sá tími sem foreldrum drengsins og honum er af íslenskum stjórnvöldum gert að dvelja á Indlandi?

Undanfarna daga hefur þú og kollegi þinn í ríkisstjórn, Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, farið mikinn í hagsmunagæslu fyrir íslenskan ríkisborgara og alþingismann sem nú á í útistöðum við dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna. Í því máli hafið þið sýnt tennurnar og ekkert dregið af ykkur. Þið hafið kallað sendiherra Bandaríkjanna á teppið og gert allt sem í ykkar valdi stendur til þess að gæta hagsmuna þess ríkisborgara sem þar á í hlut.

Ég ætlast til þess að ungi drengurinn sem bíður þess á Indlandi að komast til Íslands fái sambærilegt liðsinni frá íslenskum stjórnvöldum og aðrir ríkisborgarar sem þið gætið hagsmuna fyrir þessa dagana. Því skora ég á þig og ráðuneyti þitt að virða sjálfsagðan rétt þessa unga drengs að fá útgefið íslenskt vegabréf nú þegar svo hann geti ferðast til Íslands eins og aðrir íslenskir ríkisborgarar. Verði það ekki gert er ljóst að mannúðarsjónarmið, mannréttindi og réttlæti eiga bara stundum upp á pallborðið hjá núverandi stjórnvöldum sem þó vilja kenna sig við velferð.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og situr í allsherjarnefnd Alþingis."

Bréfið birtist í Morgunblaðinu í dag.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband