Ákærurnar: Viðsnúningur í Icesave-málinu?

Skýrsla þingmannanefndar undir forystu Atla Gíslasonar, þingmanns Vinstri grænna, er nú til umfjöllunar á Alþingi.

Að þeirri umræðu lokinni munum við ræða framkomnar tillögur um hvort höfða skuli sakamál á hendur fyrrverandi ráðherrum ríkisstjórnar Íslands fyrir Landsdómi þar sem krafist verður refsingar yfir þeim.

Um þessar ákærur mun ég fjalla á Alþingi þegar þar að kemur og einnig á þessari síðu.

En ég ætla að láta mér nægja að benda á eitt athyglisvert atriði í þeim ákæruskjölum sem lögð hafa verið fram og varða Icesave-málið.

x x x

Helsta röksemd Íslendinga gegn kröfum breskra og hollenskra stjórnvalda á hendur íslenska ríkinu í Icesave-málinu hefur frá upphafi verið sú að íslenska ríkið beri lögum samkvæmt hvorki ábyrgð á Icesave-reikningunum sjálfum, né á skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

Sú afstaða hefur ekki síst byggt á túlkun á ákvæðum tilskipunar Evrópusambandsins um innstæðutryggingar nr. 19/94/EB og 24. gr. aðfararorða tilskipunarinnar, en einnig á því að Tryggingarsjóðurinn sé sjálfseignarstofnun sem beri sjálfur ábyrgð á skuldbindingum sínum samkvæmt lögum sem um slíkar stofnanir gilda.

Undir þessi sjónarmið íslenskra stjórnvalda er tekið í 17. kafla skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, sem ber yfirskriftina ,,Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta og ábyrgð á innlánum almennt."

Sá kafli í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis er í raun samfelldur og kerfisbundinn lögfræðilegur rökstuðningur fyrir því að samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins um innstæðutryggingar beri íslenska ríkinu og þar með íslenskum skattgreiðendum, engin lagaleg skylda til þess að ábyrgjast skuldbindingar tryggingarsjóðsins og þar með fallast á kröfur breskra og hollenskra stjórnvalda á hendur honum og íslenska ríkinu í Icesave-málinu.

Sú niðurstaða byggir á lögskýringum á þeim ákvæðum sem um þetta álitamál fjalla, en ekki síður á skrifum og niðurstöðum erlendra fræðimanna varðandi viðfangsefnið.

Í skýrslu þingmannanefndar Atla Gíslasonar kemur fram að nefndin taki undir niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis, sem er fagnaðarefni að mínu mati.

x x x

Í ljósi þessa vekur einn ákæruliður í þeim ákærum sem nú hafa verið lagðar fram á Alþingi gegn Geir H. Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Árna M. Mathiesen og Björgvini G. Sigurðssyni sérstaka athygli mína.

Samkvæmt ákærunum er lagt til að ráðherrarnir fyrrverandi verði allir dæmdir til refsingar:

,,Fyrir að hafa ekki fylgt því eftir og fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga Landsbanka Íslands í Bretlandi í dótturfélag og síðan leitað leiða til að stuðla að framgangi þessa með virkri aðkomu ríkisvaldsins."

Þessi hluti ákærunnar er afar sérstakur, svo ekki sé fastar að orði kveðið, í ljósi þeirrar þungu áherslu sem íslensk stjórnvöld hafa lagt á að íslenska ríkið beri lögum samkvæmt hvorki ábyrgð á Icesave-reikningunum sem slíkum né á skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfestinga.

Ég fæ ekki betur séð en að með því að leggja það til að ráðherrarnir fyrrverandi verði ákærðir, og þeim gerð refsing, vegna aðgerðarleysis í Icesave-málinu séu þeir þingmenn sem að ákærunni standa að lýsa því yfir að íslenska ríkið beri eftir allt saman ábyrgð á Icesave-reikningunum og að ráðherrarnir fyrrverandi hafi brugðist skyldum sínum vegna þeirra.

Sömu skyldum og íslensk stjórnvöld hafa allar götur haldið fram að hvíli ekki á íslenska ríkinu lögum samkvæmt!

x x x

Af þessum ástæðum virðist blasa við að í ákærum þingmannanna Atla Gíslasonar, Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, Sigurðar Inga Jóhannssonar, Eyglóar Harðardóttur, Birgittu Jónsdóttur, Magnúsar Orra Schram og Oddnýjar G. Harðardóttur, á hendur ráðherrunum fyrrverandi felist grundvallarbreyting og í raun algjör viðsnúningur á afstöðu þeirra, og eftir atvikum íslenskra stjórnvalda, til grundvallaratriða í Icesave-málinu.

Það verður að minnsta kosti ekki annað séð.

Það verður fróðlegt að sjá hvort þingmennirnir átti sig sjálfir á þeim þversögnum sem felst í málatilbúnaði þeirra.

Þeir fá að minnsta kosti tækifæri til þess að skýra út mál sitt á næstu dögum.

En það er vandséð að framganga þeirra að þessu leyti hafi styrkt málstað íslenska ríkisins í samskiptum þess við bresk og hollensk stjórnvöld um lyktir Icesave-málsins.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband