Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ögmundur þjófstartar

Ögmundur Jónasson, dómsmála- og mannréttindaráðherra, var gestur morgunútvarps Rásar 2 í morgun.

Í þættinum lýsti Ögmundur því yfir að hann reiknaði með því að greiða atkvæði með því að greiða atkvæði með tillögu um ákæru á hendur fjórum fyrrverandi ráðherrum, þeim Geir H. Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Árna M. Mathiesen og Björgvini G. Sigurðssyni.

Þessi afstaða dómsmála- og mannréttindaráðherrans kemur nokkuð á óvart í ljósi þess hversu umhugað ráðherranum var um áfrýjunarrétt sakborninga til æðra dómstigs í grein sem hann ritaði hinn 17. febrúar 2002, og ég vísaði til í síðasta pistli á þessari síðu.

Enn einkennilegri eru þær röksemdir sem Ögmundur færði fyrir þessari niðurstöðu sinni í viðtalinu á Rás 2 í morgun, en þar sagði ráðherrann m.a.:

 „Mér fannst málflutningur formanns þingmannanefndarinnar vera mjög sannfærandi þegar hann talaði fyrir áliti meirihluta nefndarinnar. Það kemur reyndar ekki til atkvæðagreiðslu fyrr en eftir helgina, en það þarf eitthvað mikið að gerast til að sannfæra mig um annað."

Þessi yfirlýsing ráðherrans er einkennileg vegna þess að hann var ekki í þingsalnum þegar formaður þingmannanefndarinnar, Atli Gíslason, mælti fyrir ,,áliti meirihluta nefndarinnar".

Þar við bætist að Atli Gíslason hefur enn ekki mælt fyrir áliti þess meirihluta þingmannanefndarinnar sem ákæra vill fjóra fyrrverandi ráðherra og færa þá fyrir Landsdóm.

Þvert á móti hefur Atli einungis gert Alþingi grein fyrir skýrslu þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, en sú skýrsla fjallar ekki um ákærurnar á hendur ráðherrunum fyrrverandi, líkt og Atli sjálfur gat um í ræðu sinni.

Raunar óskaði Atli Gíslason sérstaklega eftir því sjálfur að við þingmenn ræddum ekki um ákærurnar fyrr en að umræðu um skýrsluna lokinni.

Umræðum um skýrsluna lýkur væntanlega á næstu dögum.

Þá fyrst mun Atli Gíslason fá tækifæri til þess að mæla fyrir ákærunum og það mun hann að öllum líkindum gera næstkomandi föstudag.

Fyrr en Atli hefur gert það er eiginlega tæknilega ómögulegt fyrir Ögmund að lýsa því yfir fyrir alþjóð að málflutningur hans sé mjög sannfærandi!

Sigurður Kári.


Hefur Ögmundur skipt um skoðun?

Nýskipaður dóms- og mannréttindaráðherra, Ögmundur Jónasson, skrifaði merka grein hinn 22. febrúar 2002.  Greinin ber yfirskriftina:  ,,Hæstiréttur, áfrýjunarheimildir og mannréttindi.", en hana má nálgast á heimasíðu ráðherrans.

Í greininni segir Ögmundur meðal annars: 

„Í fyrrnefndu frumvarpi er lagt til að felldar verði niður takamarkanir við því að maður sem hefur verið sakfelldur í opinberu máli geti áfrýjað niðurstöðunni til Hæstaréttar. Ákvörðun handhafa ríkisvaldsins um að ákæra einstakling fyrir refsiverðan verknað er að sjálfsögðu stór ákvörðun. Leiði ákæran til sakfellingar getur slíkt verið mikið áfall fyrir þann sem fyrir verður. Þau rök eru ekki til og þeir þjóðfélagslegu hagsmunir ekki heldur sem réttlæta lagareglu sem takmarkar rétt sakfellds manns til þess að bera sakfellinguna undir dómara á æðra dómstigi. Að mínu mati eru rökin fyrir óheftum áfrýjunarrétti sakfelldra manna í opinberum málum svo sterk að önnur rök verða að víkja."

Nú liggja fyrir Alþingi tillögur sem mæla fyrir um það að ákæra skuli fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Íslands, draga þá fyrir Landsdóm og krefjast refsingar yfir þeim.

Nú vaknar upp sú spurning hvort dóms- og mannréttindaráðherrann sé enn sömu skoðunar og hann var þegar hann skrifaði ofangreinda grein.

Sú spurning hlýtur að brenna á þjóðinni nú þegar það liggur fyrir honum að taka ákvörðun um hvort ákæra skuli ráðherrana fyrrverandi og draga þá fyrir Landsdóm, en eins og alþjóð veit verður niðurstöðum þess dómstóls ekki áfrýjað til æðra dómstigs.

Það verður fróðlegt að sjá hvort dóms- og mannréttindaráðherranum sé jafn umhugað um áfrýjunarréttinn nú og honum var í febrúarmánuði árið 2002.

Sigurður Kári.


Ákærurnar: Viðsnúningur í Icesave-málinu?

Skýrsla þingmannanefndar undir forystu Atla Gíslasonar, þingmanns Vinstri grænna, er nú til umfjöllunar á Alþingi.

Að þeirri umræðu lokinni munum við ræða framkomnar tillögur um hvort höfða skuli sakamál á hendur fyrrverandi ráðherrum ríkisstjórnar Íslands fyrir Landsdómi þar sem krafist verður refsingar yfir þeim.

Um þessar ákærur mun ég fjalla á Alþingi þegar þar að kemur og einnig á þessari síðu.

En ég ætla að láta mér nægja að benda á eitt athyglisvert atriði í þeim ákæruskjölum sem lögð hafa verið fram og varða Icesave-málið.

x x x

Helsta röksemd Íslendinga gegn kröfum breskra og hollenskra stjórnvalda á hendur íslenska ríkinu í Icesave-málinu hefur frá upphafi verið sú að íslenska ríkið beri lögum samkvæmt hvorki ábyrgð á Icesave-reikningunum sjálfum, né á skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

Sú afstaða hefur ekki síst byggt á túlkun á ákvæðum tilskipunar Evrópusambandsins um innstæðutryggingar nr. 19/94/EB og 24. gr. aðfararorða tilskipunarinnar, en einnig á því að Tryggingarsjóðurinn sé sjálfseignarstofnun sem beri sjálfur ábyrgð á skuldbindingum sínum samkvæmt lögum sem um slíkar stofnanir gilda.

Undir þessi sjónarmið íslenskra stjórnvalda er tekið í 17. kafla skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, sem ber yfirskriftina ,,Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta og ábyrgð á innlánum almennt."

Sá kafli í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis er í raun samfelldur og kerfisbundinn lögfræðilegur rökstuðningur fyrir því að samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins um innstæðutryggingar beri íslenska ríkinu og þar með íslenskum skattgreiðendum, engin lagaleg skylda til þess að ábyrgjast skuldbindingar tryggingarsjóðsins og þar með fallast á kröfur breskra og hollenskra stjórnvalda á hendur honum og íslenska ríkinu í Icesave-málinu.

Sú niðurstaða byggir á lögskýringum á þeim ákvæðum sem um þetta álitamál fjalla, en ekki síður á skrifum og niðurstöðum erlendra fræðimanna varðandi viðfangsefnið.

Í skýrslu þingmannanefndar Atla Gíslasonar kemur fram að nefndin taki undir niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis, sem er fagnaðarefni að mínu mati.

x x x

Í ljósi þessa vekur einn ákæruliður í þeim ákærum sem nú hafa verið lagðar fram á Alþingi gegn Geir H. Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Árna M. Mathiesen og Björgvini G. Sigurðssyni sérstaka athygli mína.

Samkvæmt ákærunum er lagt til að ráðherrarnir fyrrverandi verði allir dæmdir til refsingar:

,,Fyrir að hafa ekki fylgt því eftir og fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga Landsbanka Íslands í Bretlandi í dótturfélag og síðan leitað leiða til að stuðla að framgangi þessa með virkri aðkomu ríkisvaldsins."

Þessi hluti ákærunnar er afar sérstakur, svo ekki sé fastar að orði kveðið, í ljósi þeirrar þungu áherslu sem íslensk stjórnvöld hafa lagt á að íslenska ríkið beri lögum samkvæmt hvorki ábyrgð á Icesave-reikningunum sem slíkum né á skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfestinga.

Ég fæ ekki betur séð en að með því að leggja það til að ráðherrarnir fyrrverandi verði ákærðir, og þeim gerð refsing, vegna aðgerðarleysis í Icesave-málinu séu þeir þingmenn sem að ákærunni standa að lýsa því yfir að íslenska ríkið beri eftir allt saman ábyrgð á Icesave-reikningunum og að ráðherrarnir fyrrverandi hafi brugðist skyldum sínum vegna þeirra.

Sömu skyldum og íslensk stjórnvöld hafa allar götur haldið fram að hvíli ekki á íslenska ríkinu lögum samkvæmt!

x x x

Af þessum ástæðum virðist blasa við að í ákærum þingmannanna Atla Gíslasonar, Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, Sigurðar Inga Jóhannssonar, Eyglóar Harðardóttur, Birgittu Jónsdóttur, Magnúsar Orra Schram og Oddnýjar G. Harðardóttur, á hendur ráðherrunum fyrrverandi felist grundvallarbreyting og í raun algjör viðsnúningur á afstöðu þeirra, og eftir atvikum íslenskra stjórnvalda, til grundvallaratriða í Icesave-málinu.

Það verður að minnsta kosti ekki annað séð.

Það verður fróðlegt að sjá hvort þingmennirnir átti sig sjálfir á þeim þversögnum sem felst í málatilbúnaði þeirra.

Þeir fá að minnsta kosti tækifæri til þess að skýra út mál sitt á næstu dögum.

En það er vandséð að framganga þeirra að þessu leyti hafi styrkt málstað íslenska ríkisins í samskiptum þess við bresk og hollensk stjórnvöld um lyktir Icesave-málsins.

Sigurður Kári.


Kærkomið tækifæri?

Fæstir þeirra sem þurfa að sæta því að vera ákærðir fyrir refsiverð brot líta á ákæru sem kærkomið tækifæri fyrir sig til þess að hreinsa nafn sitt.

Þvert á móti er þessu venjulega öfugt farið.  Flestu fólki er það mjög þungbært að þurfa að sæta því að vera ákært. Raunar er það  flestum mikið áfall vera dreginn fyrir dóm og gefið það að sök að hafa brotið af sér svo það varði refsingu.

Ég leyfi mér að fullyrða að þeir sem ákærðir eru líta frekar á það sem neyðarbrauð að þurfa bera hönd yfir höfuð sér og taka til varna fyrir dómi, en ekki sem kærkomið tækifæri til þess að sanna sakleysi sitt eða til þess að hreinsa nafn sitt.

Nú ber svo við að Morgunblaðið segist í dag hafa fyrir því öruggar heimildir að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, hafi beitt samflokksmann sinn, Björgvin G. Sigurðsson, fyrrv. viðskiptaráðherra, þrýstingi og hvatt hann til þess að fagna því sérstaklega ef Alþingi tæki ákvörðun um að ákæra hann og þar með krefjast þess að hann yrði látinn sæta refsingu.

Þá segir Morgunblaðið að Jóhanna hafi ekki einungis hvatt Björgvin til jákvæðni, heldur jafnframt líst þeirri skoðun sinni að með því að vera dreginn fyrir landsdóm með ákæru frá Alþingi gæfist Björgvini kærkomið tækifæri til þess að hreinsa nafn sitt í sambandi við sína ábyrgð á bankahruninu haustið 2008.

Ég þekki engin dæmi þess í réttarkerfi nokkurs ríkis að ákæruvald fari þess á leit við sakborning fyrirfram að hann fagni því að vera ákærður og þess krafist að honum verði gerð refsing, annað hvort í formi sektar eða fangelsisdóms.  Hvað þá að hann líti svo á að útgáfa slíkrar ákæru skapi honum ný tækifæri!

Ákæruvald sem þannig gengur fram hefur ekki djúpa sannfæringu fyrir því að gefa eigi út ákæru.  Og raunar er það svo að samkvæmt grundvallarreglum sakamálaréttarfars, hérlendis og erlendis, og þeim mannréttindareglum sem í gildi eru ber ákæruvaldi að ákæra ekki ef það telur minni líkur á sakfellingu en meiri.

Það er ábyrgðarhluti að ákæra fólk, draga það fyrir dóm og krefjast þess að því verði refsað.  Slík ákvörðun verður ekki tekin nema að vel yfirlögðu ráði.  Það verður hins vegar hvorki gert í tilraunaskyni, né að kröfu sakbornings, hvað þá vegna þess að hann fagni útgáfu ákæru og líti á hana sem tækifæri fyrir sig.

Jóhanna Sigurðardóttir fer með ákæruvald gagnvart samráðherrum sínum í ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.

Hún deilir því ákæruvaldi með 62 öðrum alþingismönnum.

Þessu valdi ber Jóhönnu Sigurðardóttur og öðrum að beita af ábyrgð og í samræmi við þær lagareglur sem um það gilda.

Lýsing Morgunblaðsins á framgöngu Jóhönnu Sigurðardóttur gagnvart Björgvin G. Sigurðssyni ber þess hins vegar merki að forsætisráðherrann kunni ekki að umgangast það vald sem henni er treyst fyrir enda er hún líklega dæmalaus.

Jóhanna Sigurðardóttir verður að svara því afdráttarlaust hvort sú atburðarás sem fram kemur í Morgunblaðinu í dag sé rétt og hvort hún hafi beitt fyrrverandi viðskiptaráðherra þeim þrýstingi sem þar er lýst.

Fyrr liggur ekki fyrir hvort Jóhanna Sigurðardóttir er hæf til þess að taka ákvörðun um það hvort gefa skuli út ákærur eða ekki.

Sigurður Kári.


Landsdómur: Verður ríkið skaðabótaskylt?

Mikil leynd hefur hvílt yfir störfum þingmannanefndarinnar sem undir forystu Atla Gíslasonar, þingmanns Vinstri grænna, er ætlað að gera tillögur um viðbrögð Alþingis við því sem fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.

Á forsíðu Morgunblaðsins í dag er hins vegar sagt frá að líklegt sé að lagt verði til að gefin verði út ákæra á hendur fyrrverandi ráðherrum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og þeir dregnir fyrir landsdóm.

Verði niðurstaðan sú að höfða skuli slík sakamál mun landsdómur fá það hlutverk að skera úr um það hvort þeir sem ákærðir verða skuli sæta refsingu, þ.e. sektum eða fangelsi, vegna embættisfærslna sinna og þeirrar vanrækslu sem Rannsóknarnefnd Alþingis taldi að þeir hefðu sýnt af sér.

Þetta mál er að mörgu leyti flókið og erfitt og ekki síður persónulegt.

Þó svo að afar margir taki undir þá niðurstöðu Rannsóknarnefndar Alþingis að forystumönnum þessarar ríkisstjórnar hafi orðið á í messunni og þeir gerst sekir um vanrækslu í störfum sínum, þá eru mjög skiptar skoðanir meðal fólks úr öllum flokkum um það hvort sú vanræksla réttlæti að með ráðherrana fyrrverandi skuli farið sem sakamenn og þeir dæmdir til refsingar, þ.e. greiðslu fjársektar eða fangelsisvistar, eða ekki.

Ákvörðun um að ákæra getur ekki lögum samkvæmt falið neitt annað í sér.

Verkefni þeirra Alþingismanna sem sæti eiga nefndinni er því ekki öfundsvert, ekki frekar en þeirra alþingismanna sem taka þurfa afstöðu til niðurstöðu hennar.

En það eru fleiri hliðar á þessu máli sem hafa fengið minni athygli í opinberri umræðu en þær verðskulda.

Ákvörðun Alþingis um að ákæra ráðherrana fyrrverandi, svo ekki sé talað um ef  þeir verða dæmdir, kann að leiða til þess að íslenska ríkið baki sér skaðabótaskyldu gagnvart erlendum kröfuhöfum sem töpuðu stórkostlegum fjármunum í hruninu.

Það blasir við að réttarstaða þeirra erlendu kröfuhafa, sem vilja krefja íslenska ríkið um skaðabætur vegna vanrækslu æðstu ráðamanna í aðdraganda hrunsins, verður ógnarsterk ef sjálft Alþingi Íslendinga ákveður að ákæra ráðherrana fyrrverandi, svo ekki sé talað um ef ákæran leiðir til sakfellingar.

Viðbúið er að slíkar skaðabótakröfur yrðu stjarnfræðilega háar.

Þingmannanefndin hlýtur að taka slík álitamál og fleiri til alvarlegrar skoðunar áður en hún tekur ákvörðun um hvort leggja skuli til við Alþingi að ákæra verði gefin út.

Sigurður Kári.


Órólega deildin

Ögmundur Jónasson tók sæti í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur í gær, í óþökk þingmanna Samfylkingarinnar.  Skipan Ögmundar í embætti ráðherra er mikill búhnykkur fyrir Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem einnig situr í ríkisstjórninni í óþökk þingmanna Samfylkingarinnar.

Ögmundur var gestur Kastljóss Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi þar sem m.a. var fjallað um órólegu deildina í þingflokki Vinstri grænna, en þar fer Ögmundur fremstur í flokki.

Ég hjó eftir því að Ögmundur sagði að þeir þingmenn sem skipuðu órólegu deildina ættu það sameiginlegt að vera miklir hæglætismenn.

Það má vel vera að mikið sé til í því hjá Ögmundi.

Það eru hins vegar aðrir mannkostir og mikilvægari sem ég tel að sameini liðsmenn órólegu deildarinnar.

Liðsmenn órólegu deildarinnar hjá Vinstri grænum eiga það nefnilega sameiginlegt að mínu mati að þeirra ásetningur er í grunninn sá að vilja fylgja samþykktri stefnu eigin flokks og að standa við þau kosningaloforð sem flokkur þeirra gaf fyrir síðustu Alþingiskosningar.

Það sama verður ekki sagt um hinn arminn innan þingflokks Vinstri grænna, sem ekki hefur enn fengið formlegt nafn, en er leiddur af Steingrími J. Sigfússyni, formanni flokksins.

Liðsmenn þess arms eiga það sameiginlegt að vera orðnir uppiskroppa með kosningaloforð sem hægt er að svíkja.

Fyrir þessa staðfestu sína þurfa Ögmundur, Jón og hinir liðsmenn órólegu deildarinnar nú að gjalda með uppnefningum.

Sigurður Kári.


Alþýðubandalagið tekur völdin

Það fór eins og hér var spáð.

Ögmundur Jónasson og Guðbjartur Hannesson tóku í dag sæti í ríkisstjórninni á kostnað Kristjáns Möller, Álfheiðar Ingadóttur, Rögnu Árnadóttur og Gylfa Magnússonar.

Þessar breytingar þýða að hin hreina vinstristjórn er nú orðin enn vinstrisinnaðari en hún var fyrir breytingar.

Raunar má fullyrða að sú ríkisstjórn sem tók við völdum í dag sé róttækasta vinstristjórn Íslandssögunnar og líklega sú vinstrisinnaðasta í sögu Norðurlandanna.

Allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar eiga sér rætur í harðlínukjarna Alþýðubandalagsins, að Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra undanskilinni, sem klauf Alþýðuflokkinn á sínum tíma eins og frægt varð.

En þó Jóhanna hafi aldrei verið félagi í Alþýðubandalaginu verður henni seint skipað á stall með leiftrandi hægrikrötum.

Það  liggur því fyrir að nú er það gamla Alþýðubandalagið sem stýrir landinu.

Slíkt hefði þótt óhugsandi á árum áður en er nú því miður staðreynd.

Með brotthvarfi Kristjáns Möller úr ríkisstjórninni hefur krötunum í stjórnarráðinu verið úthýst.

Kratar eru nú landlausir og orðnir að hækju Alþýðubandalagsins sem stýrir landinu í þeirra skjóli.

x x x

Ríkisstjórnin snéri aftur til þings í dag eftir sumarfrí.  Stór orð hafa fallið af vörum ráðherra ríkisstjórnarinnar um að mikilvæg mál bíði úrlausnar á Alþingi.

Ekkert þessara mála var á dagskrá Alþingis í dag eins og við í stjórnarandstöðunni höfðum gert ráð fyrir.

Ríkisstjórnin virðist ekki hafa getað komið sér saman um það hvaða mál ætti að ráðast í.

Eina málið á dagskrá þingsins var munnleg skýrsla forsætisráðherra um störf og stefnu ríkisstjórnarinnar.

x x x

Skýrsla forsætisráðherra um störf og stefnu ríkisstjórnarinnar var ekki rismikil.  Forsætisráðherranum er reyndar vorkunn því það er lítið hægt að segja um eitthvað sem ekkert er.

Sannleikurinn er sá að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur verið verklaus frá því hún tók við og verður það áfram.

Forsætisráðherrann flutti reyndar skýrslu sem bendir til þess að hvorki hún né ríkisstjórnin séu í nokkrum tengslum við umhverfi sitt.

Hún sagði eigin árangur og ríkisstjórnarinnar svo gríðarlega góðan að eftir honum væri tekið um allan heim.  Raunar mátti skilja forsætisráðherrann svo að útlendingar dauðöfunduðu okkur Íslendinga hreinlega af því hversu ljómandi vel allt gengi hér.  Kreppunni væri lokið, allir væru bjartsýnir og í raun væri allt í himnalagi á Íslandi.

Ég er ekki viss um að þær fjölskyldur sem nú eiga um sárt að binda, svo sem vegna fjárskorts og atvinnuleysis, víðs vegar um landið taki undir þessa lýsingu forsætisráðherrans.  Það sama á segja um forsvarsmenn íslenskra fyrirtækja sem berjast í bökkum og þurfa að grípa til örþrifaráða til þess að forða sér frá gjaldþroti.

Vel má vera að Jóhanna Sigurðardóttir hafi á fyrri stigum síns pólitíska lífs verið í góðum tengslum við fólkið í landinu.

Ég leyfi mér hins vegar að halda því fram að þau tengsl séu nú að engu orðin, enda boðaði hún engar aðgerðir um það sem máli skiptir, þ.e. endurreisn efnahagslífsins, atvinnusköpun, lausn á skuldavanda almennings og lífskjarasókn.

Segja má að Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hafi komist nær kjarna málsins en forsætisráðherrann í fyrri hluta ræðu sinnar í dag.  Sá hluti ræðunnar fjallaði um sérsvið ráðherrans, jarðfræði.

x x x

Það er ekkert skrýtið að almenningur hafi síðustu daga fylgst í forundran með forystumönnum ríkisstjórnarinnar verja öllum sínum tíma og kröftum í að reyna að bjarga því sem eftir er af þessu stjórnarsamstarfi með því að skipta út ráðherrum.

Atburðir síðustu daga endurspegla að helsta markmið ríkisstjórnarinnar er að bjarga eigin lífi, en ekki að leysa þau brýnu vandamál sem geysa um allt samfélagið.

Það kemur því ekkert á óvart að heimilin og fyrirtækin í landinu telji sig nú vera búin að fá endanlega staðfestingu á því að ráðherrar þessarar ríkisstjórnar hugsa fyrst og fremst um það að vinna í eigin þágu, en ekki í þágu fjölskyldnanna, heimilanna og atvinnulífsins.

x x x

Við sem vorum viðstödd þingsetninguna í dag var ljós sú mikla spenna sem ríkir innan Samfylkingarinnar í kjölfar ráðherraskiptanna.

Það logar greinilega allt í illdeilum innan Samfylkingarinnar og milli stjórnarflokkanna.

Ákvörðun Kristjáns Möller, fráfarandi samgönguráðherra, um að heimila skráningu herþotna hollenska fyrirtækisins ECA-program á Keflavíkurflugvelli, að því er virðist í fullkominni andstöðu og án samráðs við samstarfsflokkinn ber þess skýrt merki.

Það sama má segja um yfirlýsingar Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, í dag, en þingmaðurinn var afar hreinskilin þegar hún upplýsti hlustendur Ríkisútvarpsins um að hún og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar hafi beinlínis verið andsnúnir því að Ögmundur Jónasson yrði ráðherra á ný.

Því er ljóst að Ögmundur Jónasson situr nú í ríkisstjórn í óþökk þingmanna Samfylkingarinnar.

x x x

Steingrímur J. Sigfússon hefur á undanförnum misserum haft mikla þörf fyrir að ræða hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins.

Nú held ég að það sé kominn tími til þess að við sjálfstæðismenn setjumst niður með Steingrími og ræðum um hugmyndafræði Alþýðubandalagsins.

Það stefnir að minnsta kosti í athyglisverðan vetur í íslenskum stjórnmálum.

Sigurður Kári.


Spádómur

Því skal hér spáð að Árni Páll Árnason, nýskipaður efnahags- og viðskiptaráðherra, skipi Ingva Örn Kristinsson ráðuneytisstjóra í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, takist ráðherranum ekki það ætlunarverk sitt að gera Ingva Örn að forstjóra Íbúðarlánasjóðs.

Við sjáum hvað setur.

Sigurður Kári.


Lokatilraun til að bjarga ríkisstjórninni

Nú er verið að gera lokatilraun til þess að berja í bresti stjórnarsamstarfsins.  Það á að þétta raðirnar og reyna að bjarga því sem eftir er af stjórnarsamstarfinu.

Björgunaraðgerðirnar felast í því að stokkað verður upp í ríkisstjórninni.

Leiðtogum hennar voru hins vegar mislagðar hendur í dag.

Þeim mistókst augljóslega það ætlunarverk sitt að ganga frá málinu og kynna nýja ráðherra til leiks eins og til stóð.

Það er til merkis um að deilur eru innan stjórnarflokkanna um breytingarnar og þeir ráðherrar sem fyrir eru á fleti eru tregir til að láta stóla sína eftir.

x x x

Það hefur blasað við um nokkurt skeið að Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, væri á leiðinni út úr ríkisstjórninni.

Lengi hefur verið vitað að Vinstri grænir vildu losna við hina faglega skipuðu ráðherra úr ríkisstjórninni og skipa í þeirra stað ráðherra úr eigin röðum.

Sú ákvörðun Gylfa síðan að upplýsa hvorki þing né þjóð í heilt ár um lögfræðiálit þar sem því var haldið fram með rökstuddum hætti að gengistryggð lán væru ólögmæt batt svo endahnútinn á ráðherraferil hans.

Traustsyfirlýsingar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar í garð Gylfa eftir að upp komst um málið voru hvorki sannfærandi né traustvekjandi, enda verður því vart trúað að forsætisráðherra og fjármálaráðherra landsins hafi ekki haft vitneskju um tilvist álitanna, efni þeirra og niðurstöður.

x x x

Því miður fyrir Rögnu Árnadóttur, dóms- og mannréttindaráðherra, tekur Gylfi hana með sér í fallinu.

Ragna Árnadóttir hefur að mínu mati að mörgu leyti staðið sig ágætlega og vaxið í embætti sínu, þó ekki hafi ég alltaf verið henni sammála.  Með brotthvarfi hennar hverfur úr ríkisstjórninni vinsælasti ráðherra ríkisstjórnar sem einmitt skortir það sem Ragna hafði, vinsældir.

Ragna Árnadóttir var skipuð ráðherra á faglegum forsendum.

Brottvikning hennar nú á hins vegar ekkert skylt við fagmennsku.

x x x

Við blasir að Ögmundur Jónasson muni taka sæti í ríkisstjórninni á ný á kostnað Álfheiðar Ingadóttur, heilbrigðisráðherra.

Vitað var fyrir að Álfheiður væri umdeild.  En henni hefur á undraskömmum tíma tekist að afla sér einstakra óvinsælda meðal starfsfólks heilbrigðiskerfisins.  Fylgisspekt hennar við formann flokksins, Steingrím J. Sigfússon, hefur fram að þessu tryggt henni sæti í ríkisstjórninni.  Á því verður nú breyting og í hennar stað tekur fyrirliði órólegu deildarinnar í VG sæti í stjórninni.

Líklega munu dómsmála- og mannréttindaráðuneytið og samgöngu- og sveitastjórnaráðuneytið falla í  skaut Ögmundar. 

Sú ákvörðun að bjóða Ögmundi ráðherraembætti á ný er augljóslega örvæntingarfull tilraun Jóhönnu og Steingríms J. til að koma á starfsfriði innan ríkisstjórnarinnar

Það verður fróðlegt að sjá hvort Ögmundi muni þykja ráðherrastóllinn svo þægilegur að hann falli frá einarðri afstöðu sinni í grundvallarhagsmunamálum þjóðarinnar.

Og það sama má segja um Jón Bjarnason.

Þó Steingrími muni eflaust takast að leiða ráðherraskiptin þegjandi og hljóðalaust til lykta innan VG er vitað að innan Samfylkingarinnar er megn óánægja með að Ögmundur taki sæti í ríkisstjórninni við hlið Jóns Bjarnasonar.

Samfylkingarfólk segir að með því fjölgi andstæðingum ríkisstjórnarinnar í ríkisstjórn um helming.

x x x

Það logar augljóslega allt stafnanna á milli innan Samfylkingarinnar vegna þeirrar uppstokkunar sem nú á sér stað.

Kristján Möller ætlar greinilega ekki að gefa ráðherrastólinn eftir baráttulaust og grasrót flokksins á landsbyggðinni hefur mótmælt brotthvarfi hans kröftuglega og nýtur liðsinnis Samtaka Iðnaðarins.

Engu að síður virðist Kristján þurfa að láta í minni pokann fyrir öðrum að þessu sinni.

Ég hef enga trú á því að nýliðinn í þingflokki Samfylkingarinnar, Oddný Harðardóttir, taki sæti Kristjáns í ríkisstjórn eins og haldið hefur verið fram.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, Helgi Hjörvar og Guðbjartur Hannesson myndu aldrei sætta sig við að vera sniðgengin með þeim hætti.

x x x

Líklegast er að Guðbjartur Hannesson verði fyrir valinu og taki við sameinuðum ráðuneytum heilbrigðis- og félagsmála.

Ástæður þess að Guðbjartur er líklegastur til að verða fyrir valinu hjá Jóhönnu eru þrjár.

Í fyrsta lagi er hann sá eini þeirra þingmanna Samfylkingarinnar sem til greina koma sem er leiðtogi í eigin kjördæmi.

Í öðru lagi eiga þau Jóhanna og Steingrímur Guðbjarti mikið að þakka vegna framgöngu hans, sem formanns fjárlaganefndar, í Icesave-málinu.  Þá setti Guðbjartur sjálfan sig í höggstokkinn og varði með kjafti og klóm Icesave-samning sem Steingrímur og Jóhanna báru alla ábyrgð á og 98% þátttakenda síðan höfnuðu í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í þriðja lagi er sagt að Jóhanna sjái Guðbjart fyrir sér sem arftaka sinn sem formaður Samfylkingarinnar.  Augljóst er að formennska Jóhönnu er einungis tímabundin og hún þarf að koma sér upp arftaka innan tíðar.  Sagt er að Jóhanna geti hvorki hugsað sér Dag B. Eggertsson, varaformann, né Árna Pál Árnason, sem eftirmann, þar sem þeir séu báðir mjög laskaðir um þessar mundir.

Dagur vegna slakrar útkomu Samfylkingarinnar í borgarstjórnarkosningunum síðustu.

Árni Páll vegna umdeildra mannaráðninga, annars vegar, og vegna misheppnaðrar framgöngu sinnar við að leysa skuldavanda heimilanna, hins vegar.

Skólastjórinn af Skaganum sé betri kostur.

Með því að gera Guðbjart að ráðherra í risastóru ráðuneyti styrki hún stöðu hans gríðarlega í þeirri hörðu valdabaráttu sem framundan er innan Samfylkingarinnar.

x x x

Hvað sem öllu þessu valdabrölti líður mun ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna ekkert breytast við þessar hrókeringar.

Verkleysið og stjórnleysið verður áfram það sama.

Kostnaðurinn af því fellur á heimilin og fyrirtækin í landinu.

Því miður!

Sigurður Kári.


Sammála

Þorsteinn Pálsson sagði í Fréttablaðinu í gær að Alþingi ætti að afgreiða sem fyrst þingsályktunartillögu um að hætta aðildarviðræðum við Evrópusambandið sem lögð hefur verið fram á þinginu.

,,Sammála" segir Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, í pistli á heimasíðu sinni og vill helst að tillagan verði afgreidd fyrir lok septemberþings.

Ég er sammála Merði og Þorsteini.

Það á að ganga til atkvæða um þingsályktunartillöguna fyrir lok septemberþingsins og það er ekkert því til fyrirstöðu að það verði gert.

Ég geri mér litlar vonir um að formaður Samfylkingarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir, geri skoðanir okkar Þorsteins að sínum og beiti sér fyrir því að atkvæðagreiðslan fari fram.

En ég bind miklar vonir við að Jóhanna taki flokksbróður sinn Mörð Árnason á orðinu og láti slag standa.

Sigurður Kári.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband