Öryggi sjómanna stefnt í hættu

Í dag sendi ég frá mér fréttatilkynningu til fjölmiðla:

Tilefni hennar eru uppsagnir innan Landhelgisgæslunnar og afleiðingar þeirra fyrir öryggi sæfarenda.

Fréttatilkynningin er svohljóðandi:

"Öryggi sjómanna stefnt í hættu

Að gæta að öryggi borgaranna og löggæslu er ein af meginstarfsemi hins opinbera, bæði á landi og sjó. Þess vegna veldur það miklum vonbrigðum að heyra af uppsögnum innan Landhelgisgæslunnar en stofnunin er ein af meginstoðum í öryggisneti þjóðarinnar, sérstaklega þegar hugað er að öryggi sjómanna.

Hætta er á því, að með uppsögnum þyrluflugmanna skerðist björgunargeta Landhelgisgæslunnar.  Sé ekki haldið úti tvöfaldri vakt þyrluáhafna, kann þyrluflugmaður í útkalli að hugsa sig tvisvar um, áður en lagt er í leiðangur af ótta um öryggi eigin áhafnar. Í tíð Bandaríkjahers hér á landi voru þyrlur hans í raun alltaf á bakvakt í þágu þyrlna Landhelgisgæslunnar. Frá hausti 2006 hefur íslenska ríkið séð til þess, að bakvaktarþyrlur í þjónustu þess kæmu í stað hinna bandarísku. Nú kann sá tími að vera á enda runninn.

Það er með öllu óásættanlegt að öryggi sjómanna sé teflt í hættu með þessu móti. Þá þarf einnig að hafa í huga að þyrlusveit Landhelgisgæslunnar sinnir einnig öðrum bráðnauðsynlegum verkefnum, til að mynda löggæslu og eftirliti á hafi úti svo og sjúkraflutningum á landi svo dæmi séu tekin.

Ég efast ekki um að yfirmenn Landhelgisgæslunnar muni leita allra leiða við að skipuleggja rekstur stofnunarinnar þannig að viðbragðsstaða þyrlusveitarinnar verði óbreytt en það kann engu að síður reynast erfitt vegna fjárskorts.

Fjárskorturinn á að meginhluta rætur að rekja til þeirrar staðreyndar, að gengi krónunnar hefur lækkað og leigugreiðslur til erlendra eigenda þyrlna hafa hækkað í samræmi við það. Gengisbreytingar valda um 500 milljón króna hækkun útgjalda hjá Landhelgisgæslunnar og innlendar vísitölubreytingar um 100 milljón króna hækkun eða samtals um 600 milljónir króna.

Ég hef ekki legið á þeirri skoðun minni að hið opinbera þarf að taka til í sínum rekstri.  Þegar um öryggismál er að ræða er auðvelt að forgangsraða í þágu þeirra öryggismála, sem Landhelgsigæslan sinnir með því að fela henni þau verkefni, sem Varnarmálastofnun sinnir og kosta hátt á annan milljarð hjá þeirri stofnun. Ég er sannfærður um, að unnt er að nýta þessa miklu fjármuni betur og þar með styrkja innviði Landhelgisgæslunnar. Það er í raun fráleitt, að fyrstu uppsagnir hjá íslenskri stofnun, sem sinnir öryggismálum skuli vera hjá Landhelgisgæslu Íslands.  Það sýnir, að ríkisstjórnin hefur á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum misst sjónar á því, hvað skiptir mestu og hvað má bíða.

Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður."


Sameiginlegur fundur með frambjóðendum í Iðnó

Sameiginlegur fundur með frambjóðendum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fór fram í Iðnó í gærkvöldi.

Flestir frambjóðendur mættu til fundarins, þar á meðal Sigurður Kári Kristjánsson, og spjölluðu við gesti um framboð sín og áherslumál.  Kári Sölmundarson, formaður félags sjálfstæðismanna í Austurbæ og Norðurmýri, stýrði fundinum af mikilli röggsemi, en að fundinum stóðu hverfafélög sjálfstæðismanna í Hlíða- og Holtahverfi, Vesturbæ og Miðbæ og Nes- og Melahverfi. 

Fundarformið var óhefðbundið þar sem frambjóðendur gengu á milli borða þar sem þeir voru teknir tali.

Fundurinn heppnaðist vel en næsti fundur verður haldinn á næstkomandi fimmtudagskvöld kl. 20.00 í Árbæjarskóla, þar sem frambjóðendur munu hitta fyrir sjálfstæðismenn í hverfafélögum í austurborginni.

Sjá:  www.sigurdurkari.is

 


Troðfullt út úr dyrum við opnun kosningaskrifstofu Sigurðar Kára

Picture 087Troðfullt var út úr dyrum við opnun kosningaskrifstofu Sigurðar Kára Kristjánssonar, alþingismanns, í dag.  Mörg hundruð manns mættu til opnunar skrifstofunnar til þess að sýna Sigurði Kára stuðning sinn.

Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir, kosningastjóri Sigurðar Kára, bauð gesti velkomna og tveir góðir vinir og samstarfsmenn Sigurðar Kára héldu ræður honum til stuðnings.

 

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, tók fyrstur til máls.  Í máli hans kom meðal annars fram hversu mikinn dugnað og frumkvæði Sigurður Kári hefði sýnt í störfum sínum á Alþingi, bæði sem formaður menntamálanefndar Alþingis en ekki síður á öðrum sviðum.  Vilhjálmur sagði Sigurð Kára hreinan og beinan stjórnmálamann sem léti skoðanir sínar í ljós og lýsti honum sem öflugum talsmanni Sjálfstæðisflokksins.  Ennfremur lýsti Vilhjálmur ánægju sinni með hversu mikinn þátt Sigurður Kári hefði tekið í þeirri miklu málefnavinnu sem lögð hefði verið af mörkum í grasrót Sjálfstæðisflokksins, nú síðast með Endurreisnarnefnd Sjálfstæðisflokksins, sem Vilhjálmur stýrir af miklum myndarskap.

Á eftir Vilhjálmi tók Bjarni Benediktsson, alþingismaður, til máls, en Bjarni og Sigurður Kári tóku saman sæti á Alþingi árið 2003 eftir að hafa verið samstarfsmenn á lögfræðiskrifstofu árin þar á undan.  Í ræðu sinni lýsti Bjarni góðu og farsælu samstarfi þeirra tveggja á undanförnum árum og mikilvægi þess að sjálfstæðismenn í Reykjavík tryggðu Sigurði Kára það forystusæti sem hann sækist eftir í prófkjörinu.

Að lokum tók Sigurður Kári til máls og rakti helstu áherslur sínar í prófkjörinu, sem hægt er að kynna sér á www.sigurdurkari.is , og óskaði eftir stuðningi í 2. eða 3. sæti í prófkjörinu.

Það er óhætt að segja að formlegt upphaf kosningabaráttu Sigurðar Kára hafi hafist með miklum glæsibrag og ljóst að sá mikli og víðtæki stuðningur og hlýhugur sem hann fann fyrir eru mikið og gott veganesti í prófkjörsbaráttunni sem framundan er og gefur afar góð fyrirheit um að settu marki verði náð.

Myndir frá opnun kosningaskrifstofu Sigurðar Kára má sjá á vefsíðunni www.sigurdurkari.is


Opnun kosningaskrifstofu Sigurðar Kára, Skeifunni 17, sunnudag kl. 15.00

Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður, mun opna kosningaskrifstofu sína næsta sunnudag, 1. mars.

Kosningaskrifstofan verður til húsa í Skeifunni 17 og opnar klukkan 15.00.

Sigurður Kári óskar eftir stuðningi í 2. - 3. sætið í prófkjörinu.

Allir velkomnir.

Sjá einnig:  www.sigurdurkari.is

Sigurður Kári.


Ekki benda á mig

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, sagði í Kastljóssþætti Sjónvarpsins í gær að nokkur hundruð einkahlutafélög hefðu fengið sérstaka þjónustu í bankakerfinu.  Sú mynd sem Davíð dró upp af þessari sérmeðferð var ekki björt.

Í viðtalinu sagði Davíð orðrétt:

,,Það eru nokkur hundruð einkahlutafélög sem menn hafa ekkert verið að skoða.  Þessir menn fengu sérstaka þjónustu í bankakerfinu, væru menn sem eru þekktir í þjóðlífinu og stjórnmálalífinu og öðrum slíkum hlutum."

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti því síðan yfir í dag að hann vildi að upplýst yrði um hvaða einkahlutafélög væri þarna um að ræða.

Ég er sammála um nauðsyn þess að þessi mál verði upplýst, ekki síst í ljósi þess að í viðtalinu nefnir Davíð sérstaklega að menn í stjórnmálalífinu hefðu notið sérmeðferðar í bankakerfinu umfram aðra.

Verði ekki upplýst hverjir í hlut eiga liggjum við öll, sem tökum þátt í stjórnmálalífinu, undir grun.

Vegna þess sem fram kom í viðtalinu við Davíð Oddsson vil ég ítreka það sem ég sagði í minni framboðstilkynningu.

Ég er hvorki hluthafi í né sit í stjórnum neinna fyrirtækja.  Það þýðir að ég er ekki hluthafi í einkahlutafélögum og hef þar að auki ekki hlotið neina sérmeðferð umfram aðra í bankakerfinu.

Ég er því með hreinan skjöld.

Mér finnst mikilvægt að það komi fram í ljósi þess sem fram kom í viðtalinu við seðlabankastjórann.

Sigurður Kári.


Að hverju eiga stjórnmálamenn að einbeita sér?

Á síðustu vikum hef ég þurft að svara gagnrýni fólks um að frumvarp sem ég og 14 aðrir þingmenn á Alþingi sem mælir fyrir um að heimila sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum hafi verið á dagskrá Alþingis á fyrsta degi eftir að þingið kom saman eftir jólafrí.

Fólk hefur velt því fyrir sér hvers vegna það mál hafi verið sett á dagskrá þingfundar á fyrsta degi þingsins í miðri fjármálakreppunni og hvort þeir sem sæti eiga á Alþingi hafi ekki um önnur og brýnni viðfangsefni að ræða við þær aðstæður sem uppi eru í þjóðfélaginu.

Mér finnst þessar athugasemdir eiga rétt á sér en ég vil þó koma ákveðnum athugasemdum á framfæri.

Þetta frumvarp sem um ræðir var lagt fram í fyrsta degi þingsins og áður en fjármálakerfið hrundi.  Um endurflutning þess var að ræða en frumvarpið hefur verið lagt fram fimm sinnum á liðnum árum fyrir minn tilvernað og annarra.  Því krafðist framlagning þess afar lítils undirbúnings.

Sjálfur hafði ég ekki frumkvæði af því að málið yrði sett á dagskrá og setti engan þrýsting á að það yrði rætt, enda hef ég ekkert með skipulagningu þingstarfa að gera.
Þegar það hafði verið sett á dagskrá sætti sú ákvörðun gagnrýni á Alþingi.

Vegna þeirrar gagnrýni hafði ég sjálfur frumkvæði að því að málið yrði tekið af dagskrá Alþingis svo önnur brýnni viðfangsefni kæmust á dagskrá og óskaði eftir því við forseta Alþingis að það yrði gert.  Þessari ósk minni kom ég á framfæri í ræðustól Alþingis á fyrsta fundardegi þingsins eftir jólafrí, en þar sagði ég eftirfarandi:

"Herra forseti. Ég hef tekið eftir því að alvarlegar athugasemdir hafa verið gerðar við dagskrána sem liggur fyrir fundinum og þá kannski sérstaklega við mál nr. 4 á dagskránni, frumvarp sem ég flyt ásamt 14 öðrum þingmönnum á hinu háa Alþingi og varðar sölu áfengis og tóbaks. Kvartað hefur verið yfir því að óeðlilegt sé að þetta mál sé rætt miðað við aðstæðurnar sem uppi eru.

Þetta mál var lagt fram á fyrsta degi þingsins, áður en fjármálakerfið hrundi. Ég get fallist á að það er ekki brýnasta viðfangsefni stjórnmálanna í dag, ekki frekar en ýmis önnur mál sem eru á dagskránni, eins og mál nr. 7 um tóbaksvarnir eða mál nr. 10 um skipafriðunarsjóð. Ég viðurkenni það og hygg að aðrir hv. þingmenn sem flytja málið með mér telji að hér þurfi að ræða önnur og brýnni viðfangsefni og ég get lýst því yfir sem 1. flutningsmaður málsins að mér finnst sjálfsagt að fresta umræðu um þingmálið og taka það fyrir síðar. Ef það verður til að greiða fyrir þingstörfum og skapa ekki úlfúð á þinginu, (Forseti hringir.) þá er það mér algerlega að meinalausu að við frestum umræðu um málið og ég geri ráð fyrir að hæstv. forseti taki beiðni mína til góðfúslegrar skoðunar. „

Sigurður Kári Kristjánsson, ræða á Alþingi 20. janúar 2009.

Þáverandi forseti Alþingis tók þessari beiðni minni vel og málið var tekið af dagskrá.

Ég tel mikilvægt að þessar upplýsingar komi fram.  Ég vil að fólk viti að það frumvarp sem ég ræði hér var ekki sett á dagskrá Alþingis að mínu frumkvæði, heldur átti ég sjálfur allt frumkvæði að því að það yrði tekið af dagskránni og látið víkja fyrir öðrum málum sem brýnni eru.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar að við þær aðstæður sem uppi eru í þjóðfélaginu eigi stjórnmálamenn að einbeita sér að þeim verkefnum sem brýnust eru og þarfnast úrlausnar.

Sjálfur hef ég lagt áherslu á að það verði gert, m.a. í grein sem ég skrifaði í Morgunblaðið hinn 4. febrúar sl. , undir fyrirsögninni ,,Þetta eru verkefnin" og birt er hér á síðunni.

Þar lagði ég áherslu á 8 verkefni sem stjórnvöld þurfa og eiga að einbeita sér að því að leysa, en þau eru eftirfarandi:

1.  Endurreisn bankanna.
2. Icesave og skuldir komandi kynslóða.
3. Framtíðarskipan gjaldmiðilsmála.
4. Ríkisfjármál og stjórn efnahagsmála.
5. Atvinnusköpun og barátta gegn atvinnuleysi.
6. Vernd heimilanna.
7. Lækkun vaxta.
8. Endurheimt trausts í samfélaginu.

Þar við bætist að stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar þurfa að marka sér framtíðaráætlun um með hvaða hætti við viljum endurreisa samfélagið okkar á næstu 5 til 10 árum.

Þetta eru þau viðfangsefni sem ég hef rætt um á Alþingi á þessu ári, enda tel ég að þetta séu þau verkefni sem stjórnmálamenn eigi að einbeita sér að.

Sigurður Kári.


Endurbætur

Mér telst svo til að ég hafi byrjað að skrifa á þessa heimasíðu hér á vefsvæði Morgunblaðsins í marsmánuði árið 2007.  Fram að þeim tíma hafði ég haldið úti annarri heimasíðu, http://www.sigurdurkari.is/

Framan af uppfærði ég efni á báðum heimasíðunum.  En fljótlega ákvað ég að setja http://www.sigurdurkari.is/ á ís og skrifa þess í stað eingöngu inn á þessa heimasíðu.  Það hef ég gert síðan í maí 2007

Í gær tók ég mig til og endurvakti gömlu góðu heimasíðuna mína aftur til lífsins.  Það gerði ég með því að færa þá pistla sem ég hef skrifað síðan ég gerðist þátttakandi á bloggsvæði Morgunblaðsins yfir á http://www.sigurdurkari.is/.

Ég verð að játa að ég hafði ekki gert mér grein fyrir því fyrirfram hversu marga pistla og greinar ég hafði skrifað á þessa síðu frá því að mér var fundinn hér staður með sjónarmið mín og hugleiðingar.

Það kom mér því skemmtilega á óvart að komast að frá því að ég hóf hér greinaskrif eru pistlarnir orðnir hvorki fleiri en færri en 173, sem ég tel býsna vel að sér vikið.

Ég mun halda áfram að skrifa hér á síðuna.  Jafnframt mun ég skrifa um pólitíkina á mína gömlu heimasíðu www.sigurdurkari.is, sem ég er um þessar mundir að breyta og bæta.

Sigurður Kári.


Tilkynning um framboð í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík

Síðdegis sendi ég frá mér eftirfarandi fréttatilkynningu:

Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður, hefur ákveðið að bjóða sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem haldið verður dagana 13. og 14. mars næstkomandi vegna komandi Alþingiskosninga.  Sigurður Kári sækist eftir forustusæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og óskar eftir stuðningi í 2.-3. sæti í prófkjörinu.

Sigurður Kári Kristjánsson er fæddur 9. maí 1973 og er því 35 ára gamall.  Hann er lögfræðingur að mennt og útskrifaðist frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1998.  Hann stundaði jafnframt nám í lögfræði, einkum Evrópurétti, við Kaþólska háskólann í Leuven í Belgíu veturinn 1997.  Frá útskrift starfaði Sigurður Kári sem lögmaður á lögmannsstofunni Lex þar til hann tók sæti á Alþingi auk þess sem hann var stundakennari við Iðnskólann í Reykjavík 2001-2002.  Sigurður Kári aflaði sér málflutningsréttinda fyrir héraðsdómi árið 1999.

Sigurður Kári var kjörinn á Alþingi sem þingmaður Reykvíkinga árið 2003.  Sigurður Kári hefur átt sæti í menntamálanefnd Alþingis frá árinu 2003 og verið formaður menntamálanefndar frá 2005-2009.  Þá hefur Sigurður Kári átt sæti í allsherjarnefnd Alþingis frá 2003.  Jafnframt sat Sigurður Kári í iðnaðarnefnd Alþingis á tímabilinu 2003-2007 og átti sæti í sérnefnd Alþingis um stjórnarskrármál 2004-2007 og frá árinu 2009.

Með framboði sínu vill Sigurður Kári taka með kröftugum hætti þátt í enduruppbyggingu íslensks samfélags á öllum sviðum.  Við þá uppbyggingu telur Sigurður Kári mestu skipta að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar verði til framtíðar og að hagsmunir heimilanna verði hafðir að leiðarljósi í þeirri uppbyggingu, ekki síst þannig að sköttum og álögum á fólkið í landinu verði haldið í algjöru lágmarki.  Þá leggur Sigurður Kári afar mikla áherslu á uppbyggingu atvinnulífsins og fjármálakerfisins.  Kraftmikil atvinnusköpun, hvort sem er á þeim grunni sem fyrir er eða á grundvelli nýsköpunar, er forsenda þess að hægt verði að berjast gegn atvinnuleysi í landinu.  Endurreisn bankakerfisins gegnir þar einnig lykilhlutverki.  Ennfremur leggur Sigurður Kári áherslu á ábyrga stjórn efnahagsmála og að mörkuð verði framtíðarstefna í peninga- og gjaldmiðilsmálum á Íslandi.

Sigurður Kári telur að reynsla sín, þekking og hugmyndir muni reynast vel við þá enduruppbyggingu.

Í störfum sínum á Alþingi hefur Sigurður Kári sem formaður menntamálanefndar lagt mikla áherslu á menntamál, en einnig og ekki síður á atvinnumál, efnahags- og skattamál og gjaldmiðilsmál, auðlindamál og auðlindanýtingu, réttarfars- og stjórnskipunarmál auk Evrópu- og utanríkismála. Á þessi mál og önnur mun Sigurður Kári áfram leggja mikla áherslu í störfum sínum.

Sigurður Kári hefur lagt fram fjölmörg frumvörp á Alþingi, þar á meðal frumvarp um fjárhagslegan stuðning íslenska ríkisins við málsókn gegn breskum stjórnvöldum vegna beitingar hryðjuverkalaga, sem samþykkt var sem lög frá Alþingi í desember 2008.  Sigurður Kári hefur jafnframt ritað fjölda greina og pistla í blöð, tímarit og á heimasíður sínar, http://www.sigurdurkari.is/ og http://www.sigurdurkari.blog.is/.

Meðfram störfum sínum á Alþingi hefur Sigurður Kári átt sæti í nefnd iðnaðarráðherra um endurskoðun vatnalaga, í starfshópi menntamálaráðherra um eflingu Hólaskóla, Háskólans á Hólum, og starfshópi menntamálaráðherra um starfsumhverfi fjölmiðla frá 2008.

Á alþjóðavettvangi hefur Sigurður Kári verið formaður Íslandsdeildar þingmannaráðstefnunnar um Norðurskautsmál frá árinu 2005, en átti sæti í Íslandsdeild Norðurlandaráðs árin 2003-2005

Sigurður Kári hefur gengt fjölmörgum forystustörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn.  Hann átti sæti í stjórn Heimdallar 1995-1997 og í stjórn Sambands ungra Sjálfstæðismanna 1997-1999.  Sigurður Kári var formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna frá 1999 til 2001 og sat í miðstjórn og framkvæmdastjórn Sjálfstæðisflokksins árin 1999-2001.

Þá hefur Sigurður Kári gengt fjölmörgum trúnaðarstörfum á vettvangi félagsmála.  Hann var forseti Nemendafélags Verzlunarskóla Íslands 1992-1992 og formaður Orators, félags laganema, 1995-1996.  Hann var framkvæmdastjóri lögfræðiaðstoðar Orators veturinn 1997-1998 og var fulltrúi stúdenta í háskólaráði Háskóla Íslands fyrir Vöku, félag lýðræðissinnaðra stúdenta 1995-1997.  Sigurður Kári hefur átt sæti í stjórn Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum, frá stofnun 2002 og verið varaformaður frá árinu 2007.  Þá situr Sigurður Kári í foreldraráði leikskólans Hagaborgar.

Eiginkona Sigurðar Kára er Birna Bragadóttir, BA í félagsfræði, verkefnastjóri hjá Icelandair og MBA-nemi við Háskólann í Reykjavík. Fósturbörn hans eru tvö, Sindri 13 ára og Salka 5 ára.

Sigurður Kári er hvorki hluthafi í né situr í stjórnum neinna fyrirtækja.

Virðingarfyllst,

Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður.


Ráð fyrir ríkisstjórn

Forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa gefið í skyn að til standi að hækka skatta á Íslandi.  Það gerði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, í Kastljósi  2. febrúar sl. og í svipaðan streng hefur Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, tekið.  Hann hefur boðað skattahækkanir, hátekjuskatt og breytingar í skattkerfinu.  Því miður er ólíklegt að nýr ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, Indriði H. Þorláksson, muni tala um fyrir Steingrími, enda hefur hann um árabil verið annálaður talsmaður ,,hressilegrar" skattheimtu.  Það er því óhætt að segja að framtíð íslenskra skattgreiðenda hafi verið bjartari en einmitt nú.

Mín ráð til ríkisstjórnarinnar eru þau að hún leggi öll sín skattahækkunaráform til hliðar.  Aðstæður í efnahagslífinu eru þannig að fólkið í landinu og fyrirtækin mega ekki við frekari áföllum.  Stýrivextir eru himinháir.  Verðbólgan líka.  Krónan er hrunin.  Margir hafa misst atvinnu sína en aðrir lækkað í launum.  Kaupmáttur hefur dregist saman og greiðslugeta fólks minnkað.  Fjöldi fyrirtækja er kominn í þrot.  Önnur eiga í alvarlegum vanda.

Við slíkar aðstæður eru skattahækkanir ekki beinlínis sú aðgerð sem almenningur í landinu þarf á að halda.   Þvert á móti ríður nú á slegið verði skjaldborg um almenning og fyrirtækin í landinu.  Það væri einfaldlega aðför að þeim ef ríkið ætlaði sér að taka í sínar vörslur hærra hlutfall tekna þeirra en nú er gert.

Sjálfur tók ég beinan þátt í því að afnema hátekjuskattinn.  Ég sé ekki eftir því.  En nú vill Steingrímur J. vekja hann aftur til lífsins.  Í hvaða formi veit ég ekki.  Hitt veit ég þó að hátekjuskattur er skaðlegur að því leyti að hann dregur úr hvata fólks til að afla sér aukinna tekna.  Á slíkum hvötum þarf hagkerfið að halda nú þegar kreppir að.

Þegar hátekjuskattur var við líði var hann lagður á tekjur sem námu rúmlega 300.000 kr. á mánuði.  Yrði hátekjuskatturinn endurvakinn í þeirri mynd myndi hann koma sér verst fyrir ungt og skuldsett barnafólk með millitekjur sem nú á fullt í fangi með að greiða af lánum sínum.  Það gefur augaleið að þetta fólk hefur margt annað og betra að gera við tekjur sínar en að afhenda þær stjórnmálamönnum til ráðstöfunar.

Það sama má segja um fyrirtækin okkar.  Flest þeirra berjast nú í bökkum og eru að sligast undan háum fjármagnskostnaði og slæmum aðgangi að lánsfé.  Með aukinni skattheimtu aukast líkur á að þau gefi upp öndina.  Í kjölfarið eykst atvinnuleysi.  Gegn því þarf að berjast.  Þá dregur hún úr líkum á áhuga erlendra fjárfesta á að koma með fjármagn til landsins.  Áhugi þeirra er lítill um þessar mundir, en hann mun snarminnka með auknum álögum.

Við tekjusamdrætti ríkisins verður að bregðast með öðru en aukinni skattheimtu.  Þegar tekjur dragast saman þarf að draga úr útgjöldum. Það lögmál gildir alveg jafnt um rekstur ríkisins eins og annan rekstur. Skera þarf burt alla fitu í ríkisrekstrinum. Sumar stofnanir þarf að leggja niður eða sameina og verkefnum þarf að slá á frest. Slíkar niðurskurðaraðgerðir eru sársaukafullar, en nauðsynlegar. Verði ekki í þær ráðist mun hallarekstur okkar kynslóða skella á komandi kynslóðum. Slíkt er óverjandi.

Vonandi tekur ríkisstjórnin þessum ráðum mínum vel.

Málið er nú í þeirra höndum.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu í dag.

Sigurður Kári.


Ný eftirlaunalög

Ríkisstjórnin hefur nú lagt fram á Alþingi nýtt frumvarp til laga um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

Af frumvarpinu að dæma virðist tilgangur þess vera sá að breyta núgildandi lögum þannig að almenner reglur um lífeyriskjör opinberra starfsmanna gildi um alþingismenn, ráðherra, hæstaréttardómara og markmiðið sé því að koma á samræmi í lífeyrismálum ráðamanna og almennings.

Annað meginbreyting sem fram kemur í frumvarpinu er sú að laun fyrrverandi alþingismanna, ráðherra og hæstaréttardómara, sem þeir vinna sér inn fyrir önnur störf á vegum ríkisins, stofnana þess eða félaga í meirihlutaeigu þess, að stjórnmálaferli þeirra loknum, verði dregin frá eftirlaunum þeirra.

Eins og ég sagði í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag sé ég enga ástæðu til annars en að taka þessum tillögum vel og með opnum huga.  Þær eru í samræmi við þær tillögur sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði áherslu á í tíð síðustu ríkisstjórnar.

Ég hef verið þeirrar skoðunar að sjálfsagt sé að breyta eftirlaunalögunum á þann veg að lífeyrisréttindi alþingsmanna, ráðherra, hæstaréttardómara og forseta Íslands verði þau sömu og lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna.  Að sama skapi hef ég lýst mig reiðubúinn til að ræða hugmyndir um að jafna lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna og starfsmanna á almenna vinnumarkaðnum.

Ég hlýt því að taka þessum tillögum með opnum huga.

Í umræðu um eftirlaun alþingismanna, ráðherra, hæstaréttardómara og forseta Íslands, gleymist yfirleitt að halda því til haga að sú regla núgildandi laga, sem ætlunin er að breyta með nýja frumvarpinu, um heimildir þessara aðila til þess að taka að sér önnur störf á vegum ríkisins án þess að áunnin eftirlaunaréttindi þeirra skerðist var lögfest árið 1965, en ekki með hinum umdeildu eftirlaunalögum frá árinu 2003. 

Við sjálfstæðismenn lögðum til að þessari reglu yrði breytt nú fyrir áramót og í ljósi þess fæ ég ekki séð að ástæða sé til þess að standa henni í vegi.  Þvert á móti tel ég að um þessa breytingu ætti að geta náðst nokkuð góð sátt, að því gefnu að hún standist ákvæði annarra laga sem um þessi mál gilda.

En hið nýja eftirlaunafrumvarp má bæta.

Ég held að þær miklu deilur sem uppi hafa verið um eftirlaun alþingismanna, ráðherra, hæstaréttardómara og forseta Íslands séu ekki síst tilkomnar vegna þess að samkvæmt núgildandi lögum eru það þingmenn og ráðherrar sjálfir sem eru að taka ákvarðanir um lífeyrisréttindi sín og hafa sjaldan komist að sameiginlegri niðurstöðu um það með hvaða hætti þessum málum skuli hagað.

Mér finnst ófært að kjörnir fulltrúar á Alþingis séu að taka ákvarðanir um kaup sitt og kjör með lagasetningu.  Það er ekki heppilegt að menn séu dómarar í eigin sök og það er í raun óþolandi að þurfa að standa í stappi um eigin kjör einkum þegar önnur og brýnni viðfangsefni bíða úrlausnar.

Samkvæmt núgildandi lögum tekur kjararáð ákvarðanir um laun alþingismanna, ráðherra, hæstaréttardómara og forseta Íslands.  Hins vegar setja alþingismenn lög um lífeyrisréttindi þessara hópa.

Mér þætti mun eðlilegra og til mikilla bóta ef í hinu nýja frumvarpi yrði í eitt skipti fyrir öll kveðið á um það að ákvarðanir um kaup og kjör þessara hópa yrðu færð í frá alþingismönnum og til kjararáðs.

Með því yrði tryggt að kjararáð tæki ákvarðanir um þingfarakaup, laun, lífeyrisréttindi og önnur réttindi þessara hópa, án þess að þeir hefðu nokkuð um það að segja.

Þannig gæti löggjafinn frekar eytt kröftum sínum í önnur og brýnni verkefni en að karpa um sín eigin kjör.

Slíkt fyrirkomulag væri að mínu mati til mikilla bóta.

Sigurður Kári.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband