Einkavæðing

Einkavaeding_LogoUndanfarið hefur lítið farið fyrir umræðum um einkavæðingu ríkisfyrirtækja.  Það er miður því ennþá stendur ríkið í atvinnurekstri sem einkaaðilar eru fullfærir um að sinna.

Það sem verra er, er að flest þessi ríkisfyrirtæki eru í samkeppni við einkaaðila á markaði, en það er kunnara en frá þurfi að segja að á slíkum samkeppnismörkuðum verður samkeppnisstaða fyrirtækjanna aldrei og getur aldrei orðið jöfn.

Síðan ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tók við völdum hefur ekkert ríkisfyrirtæki verið einkavætt.

Til þess að halda mönnum við efnið finnst mér full ástæða til að nefna nokkur ríkisfyrirtæki sem upplægt væri að einkavæða:

1.  Íslandspóstur.

2.  Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

3.  Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.

4.  Ríkisútvarpið.

Auðvitað væri upplagt að einkavæða fleiri ríkisfyrirtæki og stofnanir, en ég nefni þessi svona af handahófi enda eiga þau það sameiginlegt að henta vel til einkavæðingar.

Vilji menn draga úr ríkisafskiptum er hægt að grípa til ýmissa annarra ráðstafana en að einkavæða.

Þannig getur verið skynsamlegt að úthýsa verkefnum sem nú eru í höndum ríkisstofnana til einkaaðila, ýmist með það að markmiði að leggja stofnanirnar niður eða til þess að draga úr umsvifum þeirra.

Hér eru nokkur dæmi:

1.  Standi vilji til þess að ríkið sé þátttakandi á fasteignalánamarkaði, er alls ekki sjálfgefið að utan um þá starfsemi sé rekin heil stofnun, sem í dag ber nafnið Íbúðalánasjóður.  Vel má hugsa sér að í stað þess að reka þennan sjóð í núverandi mynd, leggi ríkið fram lánsfjármagn og feli einkaaðilum að umsýslu þess, í stað þess að halda heilli stofnun úti utanum þann sjóð.

2.  Eitt af hlutverkum Ríkisendurskoðunar er að endurskoða reikninga ríkisfyrirtækja og ríkisstofnana (þess ber raunar að geta að hlutverk Ríkisendurskoðunar er víðtækara).  Það má halda því fram með góðum rökum að óeðlilegt sé að ríkið endurskoði reikninga ríkisfyrirtækja.  Það má færa mjög góð rök fyrir því að slík endurskoðun ætti frekar að vera í höndum einkarekinna endurskoðunarfyrirtækja, sem eru algerlega óháð ríkinu.  Með því að færa þann þátt til einkaaðila mætti draga úr umsvifum stofnunarinnar.

3.  Ríkið heldur úti sjálfstæðri stofnun sem ber heitið Embætti ríkislögmanns.  Embætti ríkislögmanns er í raun ekkert annað en ríkisrekin lögmannsstofa sem hefur það hlutverk að gæta hagsmuna ríkisins í einkamálum sem höfðuð eru á hendur því, uppgjör bótakrafna o.fl.  (Til að forðast allan misskilning þá skal það tekið skýrt fram að Embætti ríkislögmanns hefur ekkert með meðferð sakamála að gera).  Fyrirtæki hér á landi reka ekki slíkar lögmannsstofur, heldur leita þau eftir þjónustu einkarekinna lögmannsstofa þegar á þarf að halda.  Það er ekkert sem mælir gegn því að það sama verði látið gilda um ríkið.  Með því myndi ríkisstofnunum fækka um eina.

Fleiri dæmi má að sjálfsögðu hugsa sér.

Mér fannst ástæða til að nefna þessi af handahófi.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála, frændi, held svona ræðu svo til á hverjum degi. Ég vildi hafa ríkisútvarp efst á listanum. Þvingunaráskriftin er mér mikill þyrnir í auga.

Ellismellur (IP-tala skráð) 26.8.2008 kl. 04:23

2 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Hér verður að fara afar hægt og rólega og gaumgæfa þá REYNSLUR sem komin er af viðlíka væðingu.

Mér er til efs, að menn verði mjög ginkeyptir fyrir meira af svoleiðis.

Í það minnsta á það við mig.

Mér dettur ekki í hug, að veita þeim brautargengi, sem fara í beinum atriðum gegn hagsmunum barna minna.

Dæmi:

Vaxtakjör eru verulega verri hjá innlendum bönkum en erlendm, ÞRÁTT FYRIR að reiknaður HAGNAÐUR þeirra sé mun meiri og laun æðstu yfirmanna verulega HÆRRI en viðlíkra banka í Evrópu og BNA.

Eini möguleiki ungmenna er, að leita til Ríkisins um lán.

Vé þeim sem hrófla vilja við þessu kerfi.

Ef menn eru óánægðir með grunnto´n í Sjálfstæðisstefnunni, er þeim auðvitað heimilt, að yfirgefa Flokkinn minn en GRUNN-STEFNUMIÐ FLOKKSINS ERU EKKI EINKAVÆÐING AF ÞEIM KALIBER SEM HINGAÐTIL HEFUR VERIÐ FYLGT.

Flokkskveðjur

Miðbæjaríhaldið

af hinni SÖNNU sort Íhaldsmanna, vill halda í það sem hald er í  en henda öðru.

Bjarni Kjartansson, 26.8.2008 kl. 12:42

3 identicon

Meiriháttar fínar frjálshyggjuhugmyndir! Einkavinavæðing bankana hefur einmitt gengið svo fínt og skilað almenningi betri kjörum.

Að bæta við millilið sem krefst að sjálfsögð arðs af rekstinum (öfugt við ríki) er mikið hagræði fyrir landsmenn. S

íminn sem áður hét Landsíminn er dæmi einnig dæmi um vel heppnaða!? einkavæðingu. Þjónustan hefur minkað og verð rokið upp. 

 Lifi frelsi auðvaldsins!

Sigurður (IP-tala skráð) 26.8.2008 kl. 14:44

4 identicon

Já og ekki gleyma að fækka þingmönnum um þrjátíu. Svo væri nóg að hafa einn seðlabankastjóra. Í þeirri stofnum mætti fækk og bjóða út verkefni. Fækk í bankaráði Seðlabankans. Nú bjóða út rekstur sendiráða, það væri nóg að hafa þrjú á vegum ríkisins, eitt í Brussel, annað á Norðurlöndunum og eitt í Bandaríkjunum.

Sigmundur (IP-tala skráð) 26.8.2008 kl. 14:55

5 Smámynd: Jóhannes Reykdal

Alltaf er jafn fyndið þegar að misvitrir menn vilja einkavæða Ríkisútvarpið. Þeir virðast aldrei fatta hvernig rekstur RÚV er og hvað þyrfti að gera til að einkavæða það.

RÚV er fjármagnað af stórum hluta af afnotagjöldum. Hver myndi vilja kaupa fyrirtæki sem þarf strax að finna auka 3 miljarða (eða hvað sem það er mikið í dag) til að tryggja óbreyttan rekstur.

RÚV er með mjög miklar lífeyrisskuldbindingar sem eru nánast að sliga stofnunina. Hvern lagar til að kaupa þannig rekstur?

RÚV á eitthvað stærsta plötusafn landsins og mikinn fjársjóð í gömlum upptökum. Ætla menn virkilega að selja þannig til einkaaðila? Af hverju er þá ekki á planinu að selja Þjóðminjasafnið?

RÚV hefur verið fjársvelt í áratugi og mikill hluti af tækjabúnaði þess er orðinn eldgamall og hangir saman á lyginni einni oft á tíðum, þótt það hafi eitthvað skánað sl. ár.

Eftir þvi sem ég veit best þá á RÚV ekki einu sinni sendana sína heldur er það Síminn/Míla sem eiga þá og reka.

Eftir svona upptalningu er þá von að maður spyrji...hvað á eiginlega að einkavæða? 

Jóhannes Reykdal, 26.8.2008 kl. 14:58

6 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Markmið einkavæðingar eru tvö. Annars vegar að koma í veg fyrir að einkafyrirtæki í samkeppni við ríkisfyrirtæki beri skarðan hlut frá borði og auka hagkvæmni í atvinnulífinu. Hins vegar að draga úr áhættu og kostnaði í rekstri ríkisins.

Umfangsmesti atvinnurekstur ríkisins er á sviði orkumála. Áhrifamesta og jafnframt einfaldasta aðgerðin til að draga úr ríkisafskiptum í atvinnumálum er að leggja af ríkisábyrgð á virkjanaframkvæmdum og tryggja að hver framkvæmd sé fjármögnuð sjálfstætt án utanaðkomandi ábyrgða. Alvöru málsvarar minni ríkisafskipta myndu benda á þetta. Í samanburðinum eru útvarpið, flugstöðin og ríkið aukaatriði.

Þorsteinn Siglaugsson, 26.8.2008 kl. 15:02

7 Smámynd: Viðar Freyr Guðmundsson

Það geta þó allir verið sammála um nauðsyn orkubúskaps, anna má nú segja um nauðsyn RÚV. Er þá ekki bara eðlilegt að byrja á þeim endanum ?  Losa sig fyrst við það sem er ekki nauðsynlegt. Og leyfa þeim sem vilja standa í vafasömum rekstri að gera það, nú eða amk. breyta rekstrinum í eitthvað form sem markaðurinn býður upp á.

Viðar Freyr Guðmundsson, 26.8.2008 kl. 16:26

8 identicon

Það er alltaf rétt að skoða hvað sé betur gert hjá einkaaðilum og hvað ekki. RUV er sér dæmi og ef einkavæða ætti það yrði framboð efnis einhæfara t.d. veit ég að á mörgum einka útvarpstöðvum ráða þáttastjórnendur ekki hvaða lög þeir spila. (tengsl við útgefanda?).  Varðandi áfengissölu þá finnst mér að einkaaðilar þurfi að sýna þá ábyrgð að selja ekki börnum tóbak sem þeir gera í dag áður en þeir fái að selja áfengi.

Annað skondið er að Sjálfstæðisflokkurinn með Gísla Martein í fararbroddi kynnti bláu tunnuna fyrir dagblöð í upphafð þessa kjörtímabils í Reykjavík. Ekki veit ég af hverju var verið að því þar sem a.m.k. tvö einkafyrirtæki buðu þessa þjónustu og hún miklu betri og lítið dýrari (mín reynsla) og svo á að fara að bjóða hluta sorphirðu út.

Sigurjón Gunnarsson (IP-tala skráð) 26.8.2008 kl. 16:35

9 identicon

Legg til að áður en lengra er haldið við einkavæðinguna að skipuð verði óháð nefnd er fari yfir hvernig til hafi tekist með þá þjónustu og fyrirtæki er hafa verið einkavædd sl 20 ár.  Þá  með tilliti til heildarhagsmuna þjóðarinnar.

Td. Skipaútgerð ríkisins, Áburðarverksmiðjuna, Sementsverksmiðjuna, Landsími Íslands, Landsbanki Íslands, Búnaðarbanki Íslands... o.m.fl.

Þó ekki hafi Húsatryggingar Reykjavíkur verið ríkisfyrirtæki finnst mér iðgjöld tryggingafélaganna vega skyldutrygginga húseigna hafa hækkað við þær breytingar.

Ágúst Jónatansson (IP-tala skráð) 26.8.2008 kl. 16:53

10 identicon

Það er ótrúlegt að sjá að svona menn sem jafnast á við föðurlandssvikara skuli ná því að verða þingmenn.  Ég get ekki gert annað en kallað menn sem vilja "selja" ríkisfyrirtæki til vina sinna annað en það.  Þessi ríkisfyrirtæki væri hægt að reka vel ef ekki væri fyrir embættisveitingar þessara sömu manna og vilja selja þau.

Einar Viðarsson (IP-tala skráð) 26.8.2008 kl. 17:21

11 identicon

Umræðan um einkavæðingu ríkisfyrirtækja er auðvitað góð og gild.En hvað finnst okkur sjálfstæðismönnum um ljósmyndastofu ríkisins sem rekur ljósmyndastofur á öllum sýslumannsskrifstofum hringinn í kring um landið.Sannleikurinn er sá að frá því að vegabréf voru fyrst gefin út á Íslandi hafa þessar myndatökur hjálpað ljósmyndurum að hafa opið til þess að geta sinnt hlutverki sínu, að taka vandaðar portrettmyndir af íslendingum.

Það er ekki bara að ljósmyndarar fái skýr skilaboð að þeir skuli leggja niður fyrirtæki sín og loka heldur skuli þeir hætta sínu lífsstarfi og snúa sér að einhverju öðru.

Gott væri að fá skoðun þína Sigurður Kári og annara lesenda á þessu ofbeldi ríkisvaldsins.

Ekki það að þetta varði þjóðaröriggi eða annan útúrsnúning. Þetta gengur gegn þeirri sjálfstæðisstefnu sem ég varð fyrir áhrifum af þá ungur maður. Með vinsemd og virðingu

Guðmundur KR Jóhannesson ljósmyndari í Nærmynd

G KR J (IP-tala skráð) 26.8.2008 kl. 17:30

12 identicon

Eflaust má einkavæða ýmislegt, en þó liggur betur við og skilar betri árangri fyrr að draga úr útþenslu og afskiptum hinna ýmsu ríkisstofnana.  Þessi aukna starfsemi þeirra er löngu orðin verulega íþyngjandi fyrir atvinnulífið.  Allt þetta gera þó stofnanirnar, að því er virðist aðhaldslaust af hálfu stjórnmálamannanna, undir yfirskini reglna, eftirlits, Evrópusambandsins o.s.frv.  T.d. má nefna í þessu sambandi Fiskistofu, Vaktstöð siglinga, tollinn, Siglingastofnun o.s.frv.  Með því að setja hömlur á útþenslu núverandi ríkisstofnana má ná fram verulegri hagræðingu fyrir skattgreiðendur og viðskiptalífið.

Sigvaldi Hrafn Jósafatsson (IP-tala skráð) 26.8.2008 kl. 18:01

13 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ég hef nú verið einkavæðingar og einkarekstrarsinni frá því að ég var unglingur. Ég er algjörlega sammála þér varðandi einkavæðingu á Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og Íslandspóst.

Ég er hins vegar einn af þeim sjálfstæðismönnum - og þeir eru margir - sem vill halda í RÚV.

Hvað flugstöðina varðar er ég efins um að það fyrirtæki henti til einkavæðingar. Ástæðurnar eru fleiri og flóknari en hægt er að telja upp í athugasemd við blogg. Samt sem áður langar mig til að nefna þá mikilvægustu og það er skortur á samkeppni. Ég sé hreinlega ekki fyrir mér að 2-3 flugstöðvar rísi á Keflavíkurflugvelli. Rekstur flugstöðva kallar á löggæslu og tollgæslu og þá þyrfti að koma upp aðstöðu og mannskap til þeirra starfa í fleiri en einni byggingu, nema að tæknilega lausn væri fundin, þ.e.a.s. að útgangurinn (tollgæsla) og vegabréfaskoðun væru aðskilin frá flugstöðvunum. Þetta er flókið mál.

Nær væri að skoða frekari einkarekstur hjá grunnskólunum, leikskólum, framhaldsskólun og að ég tali nú ekki um í heilbrigðiskerfinu.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 26.8.2008 kl. 18:25

14 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Ég legg til að við einkavæðum Sjálfstæðisflokkinn.... þetta endalausa bull í Reykjavík er að því Sjálfstæðisflokkurinn er svo mikil stofnun að hann er orðinn steingeldur og þrútinn þurs. Láturm nokkra stórgúrúa t.d fyrrum forstjóra Fl group eða einhvern þann annan sem hefur stórbrillerað í himaríki einkavæðingarinnar, gefum þeim sjálfdæmi um rekstur flokksins. gefum út hlutbréf í honum og bjóðum það út á Evrópska efnahagssvæðinu...þá verður þetta allt svo gott og helv. bullið í Reykjavík hættir.....

annars að öllu gríni slepptu...mér finnst þú vogaður að fara að tala um einkavæðingu og fjármálatrix eftir þær kollsteypur sem þessir svokölluðu fjármálaspekingar hafa farið að undanförnu...eða kannski hefur þú bara misst af því.

Jón Ingi Cæsarsson, 26.8.2008 kl. 22:33

15 Smámynd: Karl Ólafsson

" Þegar ekki er nauðsynlegt að breyta, er nauðsynlegt að breyta ekki, sagði breskur íhaldsmaður fyrir löngu."

Þessi vísu orð vitnar Hannes Hólmsteinn Gissurarson í, að vísu ekki til þess að mæla móti því að óðslega sé farið í einkavæðingu, heldur til þess að rökstyðja það að engar nauður reki okkur til þess að sækjast eftir aðild að ESB.

Nú vil ég hins vegar nota þessi sömu orð til þess að rökstyðja það að ekki megi rasa um ráð fram við einkavæðingu grunnþjónustu eins og t.d. sorphirðu Reykjavíkurborgar.

Þessi sama speki er stundum notuð í mínu fagi þegar sagt er 'if it ain't broken, don't fix it'.

Annars væri náttúrulega gaman að vita hvaða aðilar það eru sem síðuhöfundur telur betur færa til að sinna verkefnum og þjónustu þessara fyrirtækja sem upp eru talin hér að ofan. Ég efast lítið um að hann hefur ákveðna aðila í huga og ég efast jafnframt lítið um að einhverjir aðilar hafi lýst yfir áhuga sínum á að taka yfir þessi ríkisfyrirtæki, svona svo lítið beri á. En varla eru Baugur eða Hagar efstir á óskalista x-D til þess að taka við rekstri ÁTVR, eða ?

Karl Ólafsson, 26.8.2008 kl. 23:41

16 Smámynd: Hannes Friðriksson

Skil ekki þess áráttu einkavæðingarsinnanna að vilja alltaf vera að reyna að laga eitthvað, sem ekki einu sinni er bilað. Og það sem þeir svo telja sig hafa lagað í nafni einkavæðingar, verður svo bilað að enginn getur að lokum lagað það. Þar er til að mynda Hitaveita Suðurnesja sem var bara nokkuð gott fyrirtæki áður en einkavæðingarguttarnir fóru að hjakka í það. Nei ég held að sem sem betur fer hafi frjálshyggjusveinarnir misst talsvert af trúverðugleikanum, og fáir eftir sem hlusta á. Þeir sáu sjálfir til þess

Hannes Friðriksson , 27.8.2008 kl. 11:04

17 Smámynd: Áddni

Svaka fjör í umræðunni!

Ég er nú hinsvegar alls ekki sammála þér með þessi fyrirtæki sem að þú telur til í upphafi pistils.

Hinsvegar finnst mér áhugavert hjá þér að stinga upp á að ríkisendurskoðun fari í einkavæðingu. Hinsvegar finnst mér ólíklegt að óráðssían myndi minnka, en þá myndu alla veganna endurskoðendavinir þínir fá fullt af vinnu á toppkjörum!

Áddni, 27.8.2008 kl. 15:36

18 Smámynd: Viðar Freyr Guðmundsson

Einkavæða þingið ? Væri þá hægt að stofna þingmenn ehf. Hagkvæmnin yrði gríðarleg. Svo ekki sé talað um að þá væri loksins hægt að fá einhverja samkeppni inn á þetta þing. Ég myndi undirbjóða ykkur alla þarna á þinginu, geri þetta á hálfvirði.

Viðar Freyr Guðmundsson, 27.8.2008 kl. 16:53

19 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Rétt Viðar... þá væri líka auðveldara að sparka þeim óhæfu þó svo ég nefni engin nöfn í því sambandi...en dettur nokkur nærtæk í hug svona í fyrstu lotu

Jón Ingi Cæsarsson, 27.8.2008 kl. 21:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband