Grátur og gnístran tanna

bjorn_ingiHún var hjartnæm stundin sem Björn Ingi Hrafnsson átti með flokksbræðrum sínum og -systrum í félagsheimili Framsóknarflokksins við Hverfisgötuna í Reykjavík í dag.

Þar lýsti Björn Ingi því yfir að hann hefði ekki átt annarra kosta völ en að slíta stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn í borginni.  Sú ástæða sem hann færði fyrir þeirri niðurstöðu sinni var sú að óeiningin og þær innbyrðis deilur sem átt hefðu sér stað innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins hefðu verið slíkar að hann hefði séð sig tilneyddan til þess að skipta um lið og ganga til liðs við andstæðinga sína í stjórnarandstöðunni.  "Það var ekkert annað í stöðunni."

Þá virðist sem Birni Inga hafi þótt full ástæða til þess að slíta meirihlutasamstarfinu vegna þess að sjálfstæðismenn vildu selja hlut Orkuveitu Reykjavíkur í Reykjavik Energy Invest heldur fyrr en hann sjálfur hefði kosið.  Að öðru leyti verður ekki séð að Björn Ingi hafi átt í nokkrum einustu útistöðum við samstarfsmenn sína í borgarstjórn.

Enda tók Björn Ingi það sérstaklega fram á fundinum að samstarf sitt við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson hefði verið með eindæmum gott og að milli þeirra hefði ríkt góður trúnaður!

Birni Inga og öðrum Framsóknarmönnum hefur á síðasta sólarhring verið tíðrætt um hversu mjög þeim hefði mislíkað sú meðferð sem Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hefði þurft að þola af hálfu samflokksmanna sinna, en orðrétt sagði Björn Ingi:

,,Og ég hef fundið til með vini mínum, Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, síðustu daga.  Mér hefur ekki fundist hann eiga skilið þá meðferð sem hann hefur fengið."

Að lokinni ræðu sinni grét Björn Ingi.

frett_alfredthorsteinssonHann þurfti hins vegar ekki að gráta lengi því í táraflóðinu mætti hann opnum og dúnmjúkum faðmi Alfreðs Þorsteinssonar, sem hefur á síðustu dögum gengið í endurnýjun lífdaga og komið inn í íslensk stjórnmál eins og ferskur andblær, Birni Inga, nýjum samstarfsmönnum hans og borgarbúum öllum til mikillar gleði, enda hlýtur að það að teljast mikill búhnykkur fyrir nýjan meirihluta að eiga slíkan mann að á raunastundu!

Af fréttum og ummælum valinkunnra framsóknarmanna, eins og Óskars Bergssonar, verður ekki annað séð en að Alfreð Þorsteinsson hafi leikið lykilhlutverk í því að sprengja sitjandi meirihluta (sem er útaf fyrir sig nokkuð sérstakt þar sem Framsóknarflokkurinn átti aðild að þeim meirihluta) og að mynda þann nýja.  Það er því ekki ofsögum sagt að Alfreð Þorsteinsson megi kalla með rentu guðföður REI-listans og eiginlega andlit hins nýja meirihluta.

x x x x x

Maður hlýtur auðvitað, í ljósi atburða síðustu daga, að velta því fyrir sér hvort einhver trúir orði af því sem Björn Ingi Hrafnsson hefur sagt um endalok samstarfs Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og um ástæður endalokanna.

Ég er til dæmis ekki viss um að væntumþykja, trúnaður og vinátta hafi verið Birni Inga ofarlega í huga þegar hann ákvað að mæta ekki til fundar við Vilhjálm og sjálfstæðismenn og samdi þess í stað á sama tíma um nýjan meirihluta við fulltrúa minnihlutans.  Vera má að Björn Ingi hafi fundið til með vini sínum Vilhjálmi meðan á þeim samningum stóð, en sú illa meðferð sem Björn Ingi talar um var meðferð hans sjálfs á Vilhjálmi og fyrrum samstarfsmönnum sínum í borgarstjórn.  Sú meðferð á hins vegar ekkert skilið við vinskap.

Gráturinn í félagsheimil Framsóknarflokksins (sem minnir óneitanlega um margt á sögufrægt atriði í stórgóðri kvikmynd, Broadcast News, fyrir þá sem hana þekkja) breytir engu þar um.

793-LLÞað verður auk þess ekki séð að staðhæfingar Björns Inga um óeiningu og illvígar deilur innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins eigi við rök að styðjast.

Þvert á móti hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins oft og ítrekað lýst því yfir að þeir beri fullt traust til Vilhjálms borgarstjóra.  Þar við bætist að borgarstjórnarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa margoft lýst því yfir að þeir séu sammála um þá stefnumörkun sem þeir hafa tekið varðandi málefni Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavik Energy Invest og þá grundvallarskoðun sína að það sé í andstöðu við þá hugmyndafræði sem þeir og við sjálstæðismenn aðhyllumst að það sé ekki og eigi ekki að vera hlutverk stjórnmálamanna að stunda hlutabréfabrask, spákaupmennsku og áhættufjárfestingar á kostnað skattgreiðenda.

Og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins njóta virðingar fyrir að hafa ekki selt þessar hugsjónir sínar fyrir völd í Reykjavíkurborg.

x x x x x

Það dylst auðvitað engum sem á þessa atburðarás hefur horft að það er, svo ekki sé meira sagt, ótrúverðugt af Birni Inga að lýsa því yfir hann líti á Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson sem vin sinn, og jafnframt að honum hafi ofboðið sú meðferð sem Vilhjálmur þurfti að þola í tengslum við þetta má.

Þetta sjá allir.

Björn Ingi Hrafnsson var í meirihlutasamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.  Honum skolaði á land borgarstjórnar Reykjavíkur við síðustu kosningar með lágmarksfylgi á bak við sig.  Þrátt fyrir það létu Vilhjálmur og borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins hann ekki líða fyrir þann litla stuðning sem að baki honum var, heldur þvert á móti, tryggðu þau honum miklu meiri völd en fylgi kjósenda hans gaf tilefni til.

Þetta traust sem sjálfstæðismenn í borgarstjórn sýndu Birni Inga Hrafnssyni endurgalt hann þeim með því að hlaupast undan merkjum og mynda samstarf með andstæðingum meirihlutans í borgarstjórn.

Hann þakkaði traustið með því að stinga samstarfsfélaga sína í bakið, um hábjartan dag, og hafði ekki einu sinni fyrir því að segja þeim það augliti til auglitis á þeim fundum sem hann hafði verið boðaður á.

Allar lýsingar Björns Inga á vinskap þeirra Vilhjálms Þ. og þeirri meðferð sem hann telur að Vilhjálmur hafi þurft að sæta er því fullkominn fyrirsláttur.   Það er ekki stórmannlegt að reyna að koma sökinni yfir á aðra.

Ólíklegt er að í nútímastjórnmálum hafi nokkur stjórnmálamaður sýnt jafn mikil óheilindi í garð samstarfsmanna sinn og Björn Ingi gerði gagnvart samstarfsmönnum sínum í meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur.

Grátur og faðmlög við Alfreð Þorsteinsson geta engu um það breytt.

x x x x x

svanhildurÉg spái því að það muni reynast Degi B. Eggertssyni erfitt að mynda starfhæfa stjórn í Reykjajvíkurborg við þær aðstæður sem nú eru uppi.  Samstarfsstjórn fjögurra ólíkra flokka og stjórnmálamanna sem átt hafa í hatrömum deilum sín á milli er ekki líkleg til mikilla afreka.

Nú berast reyndar fréttir af því að nýr meirihluti í borgarstjórn hafi yfirhöfuð ekki gert það upp við sig hvort hann muni gera með sér neinn málefnasamning, sem er auðvitað sérsakt í ljósi fyrri yfirlýsinga og vanþóknunar Dags B. Eggertssonar af því að þannig sé staðið að málum.

Innan þeirra stjórnar mun Svandís Svavarsdóttir eiga erfiðast uppdráttar.  Svandís hefur allt frá því að meirihlutastjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gengið hart fram gegn Birni Inga Hrafnssyni og meðal annars sakað hann um grófa spilliingu.

Eins og rakið er í leiðara Morgunblaðsins í dag sagði Svandís þetta þann 5. október sl. um Björn Inga:

,,Þessir menn haga sér með opinbert fyrirtæki og opinbert fé eins og þeir séu með sjoppu, sem þeiri eigi sjálfir á sinni kennitölu."

Svandís sagði einnig:

,, ... það er greinilegt að fólki er algjörlega misboðið.  Maður finnur svo sterkt fyrir því, að þessi gjörningur sem þarna fer fram er táknrænn fyrir svo margt.  Hann er táknrænn fyrir spillingu í stjórnmálum og menn sem fara með völd almennings sem sín eigin."

Sjálfur hafði ég bundið nokkrar vonir við að Svandís væri stjórnmálamaður þeirrar gerðar að hún stæði fast á sínum grundvallarsjónarmiðum og gæfi ekki á þeim afslátt.  En þrátt fyrir öll stóru orðin sem hún hefur látið falla um Björn Inga Hrafnsson þurfti hann ekki svo mikið meira en að veifa henni að hún var kominn upp í með framsóknarmanninum.

Þar fyrir utan verður auðvitað athyglisvert að fylgjast með framgöngu Svandísar Svavarsdóttur sem hafði sig svo mjög í frammi gegn sameiningu útrásarfyrirtækjanna tveggja, Reykjavik Energi Invest og Geysir Green Energy, og gegn þeim kaupréttarsamningum sem ætlunin var að gera við útvalda einstaklinga.

Nú hefur hins vegar verið myndaður nýr vinstri meirihluti í Reykjavík.  Ekki verður betur séð en að sá meirihluti sé myndaður um að Orkuveita Reykjavíkur skuli áfram fá að taka þátt í spákaupmennsku og áhættusömum hlutabréfaviðskiptum, á kostnað almennings í Reykjavík.   Hann er virðist byggja á því sjónarmiði að eðlilegt sé að blanda saman opinberum rekstri og einkarekstri í útrásarverkaefnum í fjarlægum löndum.  Hann er myndaður á grundvelli þeirrar spár að verðmæti REI muni margfaldast í nánustu framtíð, án þess að þeirri staðhæfingu sé hægt að finna nokkurn stað.

Það kemur auðvitað mjög á óvart að Svandís Svavarsdóttir og Vinstrihreyfingin grænt framboð skuli snúa blaðinu gersamlega við og séu nú reiðubúin til þess að kyngja öllum þeim stóru orðum sem þau hafa látið falla um þetta mál.

x x x x x 

getfileEinkennilegust í öllu þessu púsluspili er auðvitað staða Margrétar Sverrisdóttur.  Margrét verður seint sökuð um að hafa ekki reynt fyrir sér á vettvangi stjórnmálanna.  Hún hefur margoft verið í framboði til Alþingis og borgarstjórnar Reykjavíkur, fyrst fyrir Frjálslynda flokkinn en nú síðast fyrir Íslandshreyfinguna, þar sem hún gegnir nú varaformennsku.  Það sem hins vegar gerir stóðu hennar einkennilega er sú staðreynd að nýr borgarstjórnarmeirihluti hefur gefið til kynna að Margrét verði forseti borgarstjórnar, án þess að Margrét hafi nokkurn tíma hlotið kosningu í þau embætti sem hún hefur boðið sig fram í.

x x x x x

Það verður ekki annað sagt en að atburðir síðustu daga veki upp spurningar um hvort breyting sé að verða á þeim vinnubrögðum sem fram til þessa hafa verið viðhöfð í íslenskum stjórnmálum.

Ég spái því að ýmislegt eigi eftir að koma fram í dagsljósið varðandi málefni Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavik Energy Invest og ég er ekki viss um að það allt muni þar þola dagsins ljós. 

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Ásgeirsson (Icerock)

Þeir tímar voru að það stóð frekar illa á í lífi stjórnmálamanns, á árum áður spilað hann með Fram og var frægur fyrir að bjarga á línu.
Ritfær og orðsnjall áhrifamaður í Sjálfstæðisflokknum tók sig til og skrifaði lítið sjónvarpsleikrit sem heitir "Kusk á Hvítflippanum". Og var talið að þar væri átt við Frammarann- Ráðagóða. Sagan segir að honum hafi sárnað þetta .
Nú leið tíminn og nú stóð ekki svo illa á fyrir Framaranum- Ráðagóða og hann sá möguleika að koma einkavinaflokknum út úr Borginni. Þetta gerði hann og hélt þeim burtu í langann tíma. Þetta líkaði þeim illa , og það mæti halda að þeir hefðu lært eitthvað af þessu bursti..
Nú hætti Frammarinn- Ráðagóði að starfa að stjórnmálum og fór að vinna .
þá taldi ungur og glæsilegur Sjálfstæðismaður að  Frammarinn Ráðagóða gæti ekki lengur bjargað á  línu og reyndi að skora framhjá honum . það tókst einu sinni því Frammarinn- Ráðagóði datt.
Hann reis þó upp og kom einkavinaflokknum aftur út úr Borginni. Það líkaði þeim illa .

Gamlir bændur  segja að ef menn detta oftar en einu sinni um sömu þúfuna þá eigi menn skilið að hálsbrjóta sig. Þetta ætti Heilbrigðisráðherrann ungi að vara sig sérstaklega á. Hann er sennilega of ungur til að fara að svona gamaldags ráðum .

Sumir segja að Frammarinn  ráðsnjalli sé Alfreð Þorsteinsson og Sjálfstæðismaðurinn Davíð Oddsson en heilbrigðisráðherrann þekkja allir .


Þorsteinn Ásgeirsson (Icerock), 13.10.2007 kl. 20:18

2 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Björn Ingi Hrafnsson og sex af sjö borgarfulltrúum hafa komið þannig fram,að kusk er komið á flibba þeirra sem erfir mun reynast að dusta af.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 13.10.2007 kl. 20:58

3 Smámynd: Auðun Gíslason

Umorða hluta af bloggi SKK.  Eftir kosningarnar gengu dvergarnir sjö á reka fjöru og fundu Björn (en ekki Mjallhvíti, enda býr hún með Geir).  Ekki hefur nú Bingi reynst hvalreki fyrir þrotabú djélistans. SKK sagði um Binga, að leitun væri að svikulli og undirförlari stjórnmálamanni.  Það hlýtur að vera nokkur huggun fyrir SKK, að hann þarf varla að leita lengi í eigin flokki til að finna einhvern sem skákar Binga.  Nóg er úrvalið!

Athugasemdin hér fyrst er hrein snilld!

Auðun Gíslason, 13.10.2007 kl. 21:05

4 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

Takk fyrir góðan pistil Sigurður Kári, sagði allt sem segja þarf !!!

Hafðu gott,

Inga Lára Helgadóttir 

Inga Lára Helgadóttir, 13.10.2007 kl. 21:27

5 identicon

"Ég spái því að ýmislegt eigi eftir að koma fram í dagsljósið varðandi málefni Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavik Energy Invest og ég er ekki viss um að það allt muni þar þola dagsins ljós."Segir Sigurður Kári kristjánsson þingmaður D-listans. Í stað þess að upplýsa málið, því D-listamenn vita allt um það og stóðu enda að því, hendir SKK svona óræðu bulli fram - af hverju upplýsir maðurinn ekki einfaldlega hvað þetta er sem þolir ekki dagsljósið? Af hverju bregður hann ekki vasaljósi á það? Er hann að meina fjárhagslega hagsmuni framsóknarmanna, sem upplýst hefur verið um? Er hann að tala um einhverjar gjörðir Hjörleifs Kvaran og Guðmundar Þóroddssonar, sem Gísli Marteinn hefur gefið í skyn - notabene gefið í skyn og ekki meira - að hafi komið borgarfulltrúum D-listans á óvart? Eða er SKK bara að spá því að eitthvað óljóst eitthvað muni koma fram sem hann hefur enga hugmynd um?

Friðrik Guðmundsson (IP-tala skráð) 13.10.2007 kl. 21:39

6 Smámynd: Kristján Pétursson

Ágæt

Kristján Pétursson, 13.10.2007 kl. 22:13

7 Smámynd: Kristján Pétursson

Ágæt grein hjá þér Sigurður Kári um framkomu Björns Inga  gagnvart Vilhjálmi Þ Vilhjálmssyni.Það er með ólíkindum hvernig hann lýsir brottför sinni úr borgarstjórn Sjálfstæðisfl.og væntumleika við fyrrv.borgarstj.Þessi "hugljómun öll "verður svo innantóm og fölsk af því ekkert innlegg var fyrir henni.Meira að segja gráturinn mistókst og faðmlag Alfreðs var frosið.

Á bloggsíðu minni fjalla ég um þennan hvalreka á fjörur nýrrar borgarstjórnar o.fl.

Kristján Pétursson, 13.10.2007 kl. 22:31

8 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

"Ég spái því að ýmislegt eigi eftir að koma fram í dagsljósið varðandi málefni Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavik Energy Invest og ég er ekki viss um að það allt muni þar þola dagsins ljós."Segir Sigurður Kári kristjánsson þingmaður D-listans. Í stað þess að upplýsa málið, því D-listamenn vita allt um það og stóðu enda að því, hendir SKK svona óræðu bulli fram - af hverju upplýsir maðurinn ekki einfaldlega hvað þetta er sem þolir ekki dagsljósið? Af hverju bregður hann ekki vasaljósi á það? Er hann að meina fjárhagslega hagsmuni framsóknarmanna, sem upplýst hefur verið um? Er hann að tala um einhverjar gjörðir Hjörleifs Kvaran og Guðmundar Þóroddssonar, sem Gísli Marteinn hefur gefið í skyn - notabene gefið í skyn og ekki meira - að hafi komið borgarfulltrúum D-listans á óvart? Eða er SKK bara að spá því að eitthvað óljóst eitthvað muni koma fram sem hann hefur enga hugmynd um?

Friðrik Þór Guðmundsson, 14.10.2007 kl. 01:33

9 Smámynd: Jóhann Páll Símonarson

Heill og sæll Sigurður.

Ég get ekki annað enn verið mjög ósáttur hvernig okkar fulltrúar fóru með sitt vald. Það ganga skítkast og reiði á milli manna í hita leiksins Það sem vantar í þessa umræðu eru staðreyndir mála sem ekki er hægt að rekja.

Síðan eru stóru málin staða flokksins og borgafulltrúa sem mun koma í ljós síðar okkar kjósendur sætta sig ekki við þessi vinnubrögð.

Jóhann Páll Símonarson.

Jóhann Páll Símonarson, 14.10.2007 kl. 14:13

10 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Öðrum til upplýsingar: Jóhann Páll er varaborgarfulltrúi D-listans og einn af kosningastjórum Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar.

Friðrik Þór Guðmundsson, 14.10.2007 kl. 14:39

11 identicon

Svona fer fyrir frjalshyggjunni thegar menn vantar meiri peninga tha bua their tha til eda raena almenning. Hvad med SMSis sem Bjorn Ingi syndi folki i Kina fra Joni Asgeiri, hefur thad ekki verid lesid upp. Thad ad Ragnar Hall samstarfsmadur Gests Jonssonar roi umraeduna kemur mer ekki a ovart en ord Svandisar skelfa mig. God uttekt hja ther Sigurdur Kari, thad er vont hvad Sjalfstaedisflokkurinn hlustar illa a flokksmenn sina. Thetta var augljost fyrir morgum manudum og adkoma flokksbraedra okkar til skammar. Spillingin endalaus er varadar upphafid, thad er einkavaedingu HS. Hvad segja menn um thann gjorning. I alvoru talad ? Hvar er svo rikisstjornin. Kemur engum thar vid hvort fjarglaeframenn sem nu nylega fengu a sig dom fyrir bokhaldsfals taki orkulindirnar eignarnami med adstod auma lidsins i Framsoknarflokknum sem hefur engan sjalfstaedan vilja og nu hefur Birni Inga tekist ad faekka atkvaedum thessa spillingarbandalags svo um munar. Gudni tharf ad taka til ef ekki a verr ad fara fyrir flokknum. Menn nota nu maga, fjolskyldur og vini  til thess ad fela eignarhald flokksmanna i opinberum fyrirtaekjum. Er haegt ad gerast aumari ?

Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 14.10.2007 kl. 18:01

12 Smámynd: Jóhann Páll Símonarson

Heill og sæll Sigurður.

Friðrik Þór Guðmundsson upplýsir að ég sé varaborgarfulltrúi því miður Friðrik það er ég ekki. Enn samkvæmt niðurstöðu prófkjörsins átti ég þetta sæti enn var þurrkaður burtu af kjörnefnd Sjálfstæðisflokksins. Hvers vegna það verður þú að eiga við Kjörnefndina. Til upplýsingar líka fyrir þig er ég varafulltrúi í stjórn Faxaflóahafna og hef verið aðeins kallaður á einn fund þar sem mér fannst Björn Ingi vera með frekju og yfirgang.

Varandi okkar fyrrverandi borgarstjóra Vilhjálm Þ Vilhjálmsson það er rétt hjá þér ég var með honum í þessari baráttu og skammast mín ekkert fyrir Vilhjálm Þ Vilhjálmsson sem er mjög góður maður og mjög gott að vinna með honum.

Enn eitt Friðrik Þór Guðmundsson ég tel mig vera heiðarlegan og góðan mann sem er traust sín verður og segi mínar skoðanir hvort sem þér líkar betur eða verr. Ég veit líka að þú komst í kosningaskrifstofu hjá Vilhjálmi Þ Vilhjálmsson.

Jóhann Páll Símonarson.

Jóhann Páll Símonarson, 14.10.2007 kl. 18:53

13 identicon

Góð færsla Sigurður og haltu áfram að standa þíg.

Er ekki annars komin tími á systur í þjóðmálin?

Örn Johnson ´67 (IP-tala skráð) 14.10.2007 kl. 19:23

14 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Jedúddamía Jóhann Páll, hvernig dettur þér í hug að ég sé að draga úr því að þú segir skoðanir þínar? Það er algjörlega á hinn veginn, ég er einmitt að auka á vigt orða þinna með því að benda þeim á, sem ekki kynnu að vita það, að þú ert innarlega í flokknum. Ég hef nokkrum sinnum talað við þig (meðal annars þegar ég heimsótti kosningaskrifstofu Villa vegna háskólaverkefnis) og veit að þú ert heiðarlegur og traustur, það þarf enginn að velkjast í vafa um það. Út af öllu þessu vega orð þín meir um frammistöðu flokksmannanna.

Friðrik Þór Guðmundsson, 14.10.2007 kl. 21:40

15 Smámynd: haraldurhar

Sigurður lýsing þín á orðum og gjörðum borgafulltrúa annara flokka en sjálfstæðisflokksins, eru sjalfsagt sannar og trúverðugar, og sitthvað má nú bæta á þeim bæjum.

Það væri áhugavert að þú færir yfir og gæfir palladóma um hvað er um að vera á kærleiksheimilinu, þá ekki síst þátt Gísla M. Hönnu b. Guðlaugs þórs, og Björns Bjarnasonar, í upphlaupinu varðandi Orkuveituna.

haraldurhar, 14.10.2007 kl. 22:31

16 Smámynd: Jóhann Páll Símonarson

Heill og sæll Sigurður.

Friðrik Þór Guðmundsson.

Þakka hlýleg orð í minn garð.

Jóhann Páll Símonarson.

Jóhann Páll Símonarson, 15.10.2007 kl. 07:50

17 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Sigurður Kári, þú segir hér að ofan:

"...að það sé í andstöðu við þá hugmyndafræði sem þeir og við sjálstæðismenn aðhyllumst að það sé ekki og eigi ekki að vera hlutverk stjórnmálamanna að stunda hlutabréfabrask, spákaupmennsku og áhættufjárfestingar á kostnað skattgreiðenda."

Úr niðurstöðu landsfundar Sjálfstæðisflokksins 2007:

"Íslensku orkufyrirtækin eru í dag leiðandi þekkingarfyrirtæki Landsfundur fagnar aðkomu einkaaðila að útrás orkufyrirtækjanna."

Stutt er síðan bæði Landsvirkjun og RARIK stofnuðu slík fyrirtæki í samvinnu við einkaaðila.  Bæði fyrirtækin eru undir stjórn Sjálfstæðismanna.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 23.10.2007 kl. 20:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband