Ögmundur þjófstartar

Ögmundur Jónasson, dómsmála- og mannréttindaráðherra, var gestur morgunútvarps Rásar 2 í morgun.

Í þættinum lýsti Ögmundur því yfir að hann reiknaði með því að greiða atkvæði með því að greiða atkvæði með tillögu um ákæru á hendur fjórum fyrrverandi ráðherrum, þeim Geir H. Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Árna M. Mathiesen og Björgvini G. Sigurðssyni.

Þessi afstaða dómsmála- og mannréttindaráðherrans kemur nokkuð á óvart í ljósi þess hversu umhugað ráðherranum var um áfrýjunarrétt sakborninga til æðra dómstigs í grein sem hann ritaði hinn 17. febrúar 2002, og ég vísaði til í síðasta pistli á þessari síðu.

Enn einkennilegri eru þær röksemdir sem Ögmundur færði fyrir þessari niðurstöðu sinni í viðtalinu á Rás 2 í morgun, en þar sagði ráðherrann m.a.:

 „Mér fannst málflutningur formanns þingmannanefndarinnar vera mjög sannfærandi þegar hann talaði fyrir áliti meirihluta nefndarinnar. Það kemur reyndar ekki til atkvæðagreiðslu fyrr en eftir helgina, en það þarf eitthvað mikið að gerast til að sannfæra mig um annað."

Þessi yfirlýsing ráðherrans er einkennileg vegna þess að hann var ekki í þingsalnum þegar formaður þingmannanefndarinnar, Atli Gíslason, mælti fyrir ,,áliti meirihluta nefndarinnar".

Þar við bætist að Atli Gíslason hefur enn ekki mælt fyrir áliti þess meirihluta þingmannanefndarinnar sem ákæra vill fjóra fyrrverandi ráðherra og færa þá fyrir Landsdóm.

Þvert á móti hefur Atli einungis gert Alþingi grein fyrir skýrslu þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, en sú skýrsla fjallar ekki um ákærurnar á hendur ráðherrunum fyrrverandi, líkt og Atli sjálfur gat um í ræðu sinni.

Raunar óskaði Atli Gíslason sérstaklega eftir því sjálfur að við þingmenn ræddum ekki um ákærurnar fyrr en að umræðu um skýrsluna lokinni.

Umræðum um skýrsluna lýkur væntanlega á næstu dögum.

Þá fyrst mun Atli Gíslason fá tækifæri til þess að mæla fyrir ákærunum og það mun hann að öllum líkindum gera næstkomandi föstudag.

Fyrr en Atli hefur gert það er eiginlega tæknilega ómögulegt fyrir Ögmund að lýsa því yfir fyrir alþjóð að málflutningur hans sé mjög sannfærandi!

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband