Gjá milli þings og þjóðar

Icesave-frumvarpið var samþykkt með naumum meirihluta á Alþingi, 33 atkvæðum gegn 30, næstsíðasta dag ársins 2009.

Þeir alþingismenn sem samþykktu frumvarpið, samþykktu að gera fólkið í landinu, íslenskan almenning, sem ekkert hefur til saka unnið, ábyrgt án dóms og laga, fyrir skuldum sem það hefur aldrei stofnað til og ber enga ábyrgð á.

Icesave-málið varðaði einhverja mestu þjóðarhagsmuni sem Alþingi Íslendinga hefur nokkru sinni haft til meðferðar í sinni löngu og merku sögu.

Það snýst um framtíðarlífkjör kynslóðanna í landinu og varðar gríðarlega miklu um .  Úrlausn hvernig þessari þjóð mun vegna á komandi áratugum.

Samþykkt Icesave-frumvarpsins vegur að efnahagslegu sjálfstæði og fullveldi íslensku þjóðarinnar, eins og bent hefur verið ítrekað á.

Það felur í sér gríðarlegar fjárskuldbindingar fyrir íslenska ríkið og íslensku þjóðina, sem nema hundruðum milljarðar króna.  Það segir sína sögu um fjárhagslegt umfang málsins að vaxtagreiðslur einar munu kosta íslenska skattgreiðendur 100 milljónir króna á hverjum degi!

Vafi leikur á því hvort lögin standist stjórnarskrá.

Icesave-samningarnir taka ekkert tillit til hinna fordæmislausu aðstæðna íslensku þjóðarinnar eftir bankahrunið, sem samið var um að tekið yrði tillit til í hinum svokölluðu Brussel-viðmiðunum.

Þeir lagalegu og efnahagslegu fyrirvarar sem Alþingi setti í sumar hafa nú verið að engu gerðir.

Efni Icesave-laganna byggir á pólitískum afarkostum og þvingunum Breta og Hollendinga sem ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna hefur lét undan, ríkisstjórn sem átti að gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar, en brást svo illilega.

Hvorki lög né dómur kveður á um að íslenskur almenningur sé skyldugur til þess að greiða kröfur Hollendinga og Breta.

Ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar hafa nú ákveðið að það skuli fólkið í landinu engu að síður gera, án dóms og laga.

x x x

Frá upphafi hafa Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, reynt að koma ábyrgð Icesave-málsins yfir á Sjálfstæðisflokkinn.

Það mun þeim ekki takast.

Ábyrgðina á Icesave-málinu bera hugmyndasmiðir Icesave-reikninganna.  Það eru forsvarsmenn Landsbanka Íslands hf., sem stofnuðu til skuldbindinga sem þeir gátu á endanum ekki staðið við.

Ábyrgðina á þessum Icesave-lögunum og því hversu afleitir samningarnir við Breta og Hollendinga eru, er öll ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna.

Það var staðfest í bréfi sem fyrrverandi utanríkisráðherra þjóðarinnar og fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sendi fjárlaganefnd Alþingis á dögunum.

Hvorki í þessu máli né öðrum er ekki stórmannlegt, að reyna að hengja bakara fyrir smið, og það mun þessari ríkisstjórn ekki takast að gera.

Sjálfstæðisflokkurinn og þingmenn hans gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til þess að afstýra því stórslysi sem varð þegar Icesave-frumvarpið var samþykkt.  Allt var gert til þess að reyna að koma vitinu fyrir ríkissstjórnina og þingmenn stjórnarflokkanna.

Öll sú vinna miðaði að gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar.

Því miður bar hún ekki árangur.

x x x

Í raun er fráleitt að gengið hafi verið til atkvæða um Icesave-frumvarpið þann 30. desember. 

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar og fulltrúar stjórnarflokkanna höfðu oft og ítrekað haldið því fram að öll gögn málsins hefðu verið lögð fram á Alþingi.

Í ljós kom kvöldið áður en gengið var til atkvæða um málið að ríkisstjórnin hafði leynt þingið og þjóðina mikilvægum gögnum um málið.

Upplýst var að formaður íslensku Icesave-samninganefndarinnar, Svavar Gestsson, hefði haldið frá Alþingi, og að því er virðist sjálfum utanríkisráðherranum, Össuri Skarphéðinssyni, mikilvægum ráðleggingum breskra lögmanna um það hvernig íslenska ríkið gæti höfðað mál gegn breskum stjórnvöldum fyrir breskum dómstólum, og að sú málsókn kynni að reynast íslenska ríkinu afar dýrmæt í samningaviðræðum við Breta um Icesave-málið.

Þessi leyndarhyggja og framganga ríkisstjórnar og formanns samninganefndarinnar er hneyksli og ekkert annað.

Og það er reginhneyksli að þannig sé á málum haldið þegar í húfi eru þjóðarhagsmunir.

Formaður íslensku Icesave-nefndarinnar treysti sér síðan ekki til þess að mæta á fund fjárlaganefndar Alþingis til þess að gera grein fyrir leyndinni og framgöngu sinni í Icesave-málinu.

Það eitt segir sína sögu.

Það verður síðan fróðlegt að sjá með hvaða hætti utanríkisráðherrann hyggst bregðast við því að hafa verið haldið úti í kuldanum, af hálfu formanns samninganefndar ríkisstjórnarinnar, um mikilvæga þætti Icesave-málsins.

x x x

Enginn þingmanna Sjálfstæðisflokksins studdi Icesave-frumvarp ríkisstjórnarinnar.

Allir þingmenn flokksins greiddu atkvæði gegn því.

Því miður var frávísunartillaga flokksins felld og breytingatillaga Péturs H. Blöndal um að vísa málinu til þjóðaratkvæðagreiðslu hlaut því miður sömu örlög.

Þrátt fyrir það er ljóst að þeir þingmenn stjórnarflokkanna, Samfylkingar og Vinstri grænna, greiddu frumvarpinu ekki atkvæði sitt af mikilli sannfæringu.  Þeir fórnuðu sannfæringu sinni fyrir völd, en verðmiðinn fyrir völdin var afar hár að þessu sinni og óforsvaranlegur með öllu.

Það var augljóst í atkvæðagreiðslunni um frávísunartillögu Sjálfstæðisflokksins.

Enn augljósara var það þegar þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingar felldu breytingartillöguna um þjóðaratkvæðagreiðslu, enda hafa báðir þessir flokkar barist lengi fyrir því að vægi þjóðaratkvæðagreiðslna yrði aukið í okkar þjóðskipulagi og meira að segja lagt fram frumvarp á Alþingi þar um.

x x x

Nú tekur við nýr kafli í hinu dapurlega Icesave-máli.

Nú mun reyna á hvort forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, muni staðfesta lögin eða synja þeim staðfestingar.

Það má ekki gleyma því að þegar hin fyrri Icesave-lög voru samþykkt sem lög frá Alþingi þá staðfesti forseti Íslands lögin með sérstakri áritaðri tilvísun til hinna mikilvægu fyrirvara sem Alþingi hafði þá samþykkt.

Það gerði forsetinn til þess að undirstika mikilvægi fyrirvaranna fyrir hagsmuni Íslands og lýsti þeim þannig að þeir tækju mið af sanngjörnum rétti þjóðarinnar, hagsmunum Íslendinga á komandi árum og alþjóðlegri samábyrgð.

Fyrirvararnir voru því forsenda staðfestingar forsetans. 

Þessir fyrirvarar eru nú að engu orðnir.

Ég veit að hin sérstaka áritaða tilvísun forsetans til hinna mikilvægu fyrirvara eru honum í fersku mynni, því þá áritaði hann þann 2. september sl.

Ég leyfi mér að fullyrða að hafi einhvern tímann myndast ,,gjá milli þings og þjóðar“ þá er það nú.

Nýjustu skoðanakannanir sýndu að 70% þjóðarinnar, 7 Íslendingar af hverjum 10, voru á móti því að Icesave-frumvarpið yrði samþykkt.

Þegar þetta er skrifað hafa rúmlega 55 þúsund Íslendingar undirritað ákorun til forsetans um að synja lögunum staðfestingar.  Mun fleiri en undirrituðu áskorun til forseta þegar hann synjaði lögum síðast staðfestingar, árið 2004.

Icesave-frumvarpið er með öðrum orðum það umdeildasta sem Alþingi Íslendinga hefur samþykkt.

Ég fullyrði að engin ríkisstjórn hafi á nokkrum tíma reynt að fá samþykkt frumvarp sem er í svo hróplegri andstöðu við skoðanir þorra almennings.

Þessu hlýtur forseti Íslands að gera sér grein fyrir.

x x x

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í lokaræðu sinni um Icesave-málið að kæmist Sjálfstæðisflokkurinn til áhrifa við landstjórnina myndi það verða fyrsta verk flokksins að leiða íslensku þjóðina út úr því kviksyndi sem ríkisstjórnin hefur leitt hana í með framgöngu sinni í Icesave-málinu.

Þar kom fram að Sjálfstæðisflokkurinn myndi leita allra leiða til þess að rétta hlut íslensku þjóðarinnar sem var svo illilega fyrir borð borinn.

Það er auðvitað afar mikilvægt að slík yfirlýsing komi fram frá forustumönnum þeirra stjórnmálaflokka sem ekki sætta sig við þá niðurstöðu sem nú liggur fyrir á Alþingi, enda er það heilög skylda stjórnmálamanna gagnvart framtíðarkynslóðum þessa lands, börnum okkar og barnabörnum, að staðinn sé vörður um framtíðarhagmuni þeirra.

Ljóst er af yfirlýsingu formanns Sjálfstæðisflokksins að undan þeirri skyldu mun Sjálfstæðisflokkurinn aldrei hlaupast.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband