Prófessor í öngstræti

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, sagði í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á þriðjudag að stjórnskipan Íslands væri komin í öngstræti. Hún væri farin að þvælast fyrir eðlilegum gangi mála í stjórnkerfinu. Það sýndi samkomulag um meðferð Icesave-málsins í fjárlaganefnd Alþingis.

Vert er að taka fram að það samkomulag kveður á um það að taka þurfi til skoðunar ein 16 atriði sem þingmenn telja að rannsaka þurfi betur áður en Icesave-málið, sem varðar einhverja mestu þjóðarhagsmuni sem Alþingi hefur fjallað um í sögu sinni, kemur til lokaafgreiðslu.

Til að rökstyðja þessa skoðun sína nefndi stjórnmálafræðiprófessorinn tvö dæmi úr samkomulaginu sem gert var.

Stjórnarskrá Íslands

Í fyrsta lagi gagnrýndi Gunnar Helgi að fjárlaganefnd leitaði eftir áliti tveggja fyrrverandi hæstaréttardómara, um það hvort frumvarpið stæðist ákvæði stjórnarskrár Íslands. Í öllum öðrum löndum yrði framkvæmdavaldinu, þ.e. ríkisstjórninni, treyst til þess að meta hvort mál stæðust stjórnarskrá eða ekki.

Það virðist hafa farið framhjá prófessor Gunnari Helga að á síðustu dögum og vikum hafa nokkrir af virtustu lögfræðingum landsins, þar á meðal prófessorarnir Sigurður Líndal og Stefán Már Stefánsson, og hæstaréttarlögmennirnir Ragnar H. Hall og Lárus Blöndal, haft opinberlega uppi efasemdir um að Icesave-frumvarpið stæðist ákvæði stjórnarskrárinnar.

Það virðist líka hafa farið framhjá prófessornum að alþingismenn vinna drengskaparheit að stjórnarskránni, skv. 47. gr. hennar, þegar þeir taka sæti á Alþingi. Í drengskaparheitinu felst að þeir heiti því að standa vörð um stjórnarskrána og geri ekkert í sínum störfum sem kunni að brjóta gegn henni.

Þó svo að Gunnar Helgi Kristinsson vilji gera lítið úr ákvæðum stjórnarskrárinnar og telji nú að ákvæði hennar séu farin að þvælast fyrir ríkisstjórninni þá breytir sú skoðun hans því ekki að alþingismenn þjóðarinnar eru skuldbundnir til að fylgja því sem í henni stendur.

Þegar fram koma rökstuddar efasemdir um að frumvörp sem til meðferðar eru á Alþingi standist ákvæði stjórnarskrár, og ekki síst þegar þær koma frá virtustu fræðimönnum landsins á sviði lögfræði, ber alþingismönnum skylda til þess að ganga úr skugga um hvort þær efasemdir eigi við rök að styðjast þannig að stjórnarskráin njóti vafans sem uppi er.

Þess vegna er sjálfsagt og eðlilegt, en alls ekki gagnrýnivert, eins og Gunnar Helgi heldur fram, að Alþingi leiti eftir áliti tveggja reyndra lögfræðinga og fyrrverandi hæstaréttardómara á því hvort frumvarpið standist ákvæði stjórnarskrár. Það ber þeim að gera. Það á prófessor í stjórnmálafræði að vita.

Lögfræðiálit frá breskri lögmannsstofu

Í annan stað telur Gunnar Helgi Kristinsson að íslensk stjórnskipan sé komin í öngstræti vegna þess að ákveðið hafi verið að fjárlaganefnd leitaði eftir sérfræðiáliti breskrar lögmannsstofu á ákvæðum Icesave-samninganna.

Eins og kunnugt er gilda ensk lög um Icesave-samninginn milli Íslands og Bretlands. Verði höfðað dómsmál vegna þeirra í framtíðinni mun niðurstaða þess ráðast af túlkun samningsákvæðanna og enskra laga.

Í langri og dapurlegri sögu Icesave-málsins hefur því miður aldrei verið ráðist í slíka yfirferð.

Enginn nefndarmanna í fjárlaganefnd hefur nauðsynlega þekkingu á enskum lögum til þess að geta lagt sérfræðilegt mat á það hvaða þýðingu það hefur fyrir hagsmuni Íslands að um samningana gildi ensk lög en ekki íslensk. Slík sérþekking er heldur ekki til staðar innan ríkisstjórnar Íslands né hjá þeirri samninganefnd sem samningana gerði, þó stjórnmálafræðiprófessorinn treysti þeim vel til verksins.

Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að fengnir séu sérfræðingar í enskum lögum til að yfirfara Icesave-samninginn og leggja mat á þau álitaefni sem hér hafa verið tiltekin. Það hefði raunar þurft að gera miklu fyrr, enda eru þeir hagsmunir sem í húfi eru gríðarlegir.

Með því að leita eftir slíku áliti er engan veginn verið að þvælast fyrir eðlilegum gangi mála í stjórnkerfinu eins og Gunnar Helgi heldur fram.

Þvert á móti er verið að tryggja að staðið sé með eðlilegum hætti að meðferð mikilvægs máls sem varðar þjóðarhagsmuni á Alþingi.

Prófessor í öngstræti

Stjórnskipan Íslands er ekki í neinu öngstræti. Hún er ágætlega á sig komin og hefur dugað þessari þjóð vel um áratuga skeið.

Í slíkt öngstræti hefur stjórnmálafræðiprófessorinn Gunnar Helgi Kristinsson hins vegar ratað.

Það veldur auðvitað áhyggjum að prófessor í stjórnmálafræði hafi uppi málflutning eins og þann sem Gunnar Helgi viðhafði í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á þriðjudag.

Vonandi endurspeglar hann ekki þann boðskap sem prófessorinn færir nemendum sínum í Háskóla Íslands.

Höfundur er lögfræðingur og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband