Yfirlýsing forseta Íslands

Eins og allir vita samþykkti Alþingi svokölluð Icesave-lög þann 28. ágúst sl.  Með þeim voru lögfestir margvíslegir fyrirvarar sem verja áttu hagsmuni íslensku þjóðarinnar í þessu dapurlega máli.

Í kjölfarið voru lögin send Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, til staðfestingar.

Þegar forsetinn staðfesti lögin, þann 2. september 2009, sendi hann frá sér sérstaka yfirlýsingu þar sem hann rökstuddi þá ákvörðun sína að staðfesta þau.

Yfirlýsingin var svohljóðandi:

„Yfirlýsing forseta Íslands


    Í lögum um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf., sem Alþingi samþykkti þann 28. ágúst 2009, eru margvíslegir fyrirvarar sem settir voru í hið upphaflega frumvarp.


    Fyrirvararnir eru niðurstaða samvinnu fulltrúa fjögurra þingflokka í fjárlaganefnd Alþingis og byggðir á tillögum og hugmyndum fjölda sérfræðinga og áhugafólks á almennum vettvangi.


    Samstaða hefur náðst á Alþingi og utan þess um að afgreiða lögin í krafti þessara fyrirvara og Alþingi samþykkti þá með afgerandi hætti. Eðlilega er þó enn andstaða við málið meðal almennings eins og undirskriftir um 10.000 Íslendinga, sem forseta hafa borist, eru meðal annars til vitnis um.


    Fyrirvararnir sem Alþingi smíðaði og samþykkti taka mið af sanngjörnum rétti þjóðarinnar, hagmunum Íslendinga á komandi árum og alþjóðlegri samábyrgð.


    Forseti hefur því ákveðið að staðfesta lögin með sérstakri áritaðri tilvísun til fyrirvara Alþingis.


    Um leið lætur forseti í ljósi þá ósk, að kraftar þings og þjóðar verði sameinaðir í því brýna verkefni að endurreisa íslenskt efnahagslíf, styrkja fjárhag heimilanna og stoðir atvinnuveganna. Að undanförnu hefur okkur birst á margvíslegan hátt að Íslendingar eiga fjölþætt sóknarfæri, að auðlindir landsins, hæfni og þekking þjóðarinnar geti orðið grundvöllur að traustu og réttlátu hagkerfi. Þau sóknarfæri þarf nú að nýta.


    Bessastöðum, 2. september 2009


    Ólafur Ragnar Grímsson
    [sign]"

Eins og sjá má tiltók forsetinn sérstaklega og réttilega að fyrirvararnir taki mið af sanngjörnum rétti þjóðarinnar, hagsmunum Íslendinga á komandi árum og alþjóðlegri samábyrgð, auk þess sem þeir séu niðurstaða samvinnu fulltrúa fjögurra þingflokka í fjárlaganefnd Alþingis, byggðir á tillögum og hugmyndum sérfræðinga og áhugafólks. Af þeirri ástæðu hafi hann ákveðið að staðfesta lögin.

Það er ekki hægt að skilja þessa yfirlýsingu forsetans öðruvísi en svo að með hinni sérstöku árituðu tilvísun til fyrirvara Alþingis hafi hann verið að leggja sérstaka áherslu á mikilvægi þeirra fyrir hagsmuni þjóðarinnar og að samþykkt þeirra hafi verið forsenda þess að hann staðfesti lögin.

Í gær hófst á nýjan leik umræða um nýtt Icesave-frumvarp ríkisstjórnarinnar.

Í því frumvarpi felst að þeir fyrirvarar Alþingis, sem forsetinn taldi í sumarlok og réttilega svo mikilvæga, og voru forsenda staðfestingar hans, skuli að engu gerðir.

Með frumvarpinu hafa þau Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir fallið frá þeim fyrirvörum, sem þau sjálf samþykktu þann 28. ágúst sl.

Verði ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna að ósk sinni, og hið nýja Icesave-frumvarp samþykkt óbreytt sem lög frá Alþingi, verður fallið frá þessum mikilvægu fyrirvörum, sem forsetinn sjálfur sagði að tækju mið af sanngjörnum rétti þjóðarinnar, hagsmunum Íslendinga á komandi árum og alþjóðlegri samábyrgð.

Verði sú raunin er erfitt að sjá með hvaða hætti forseti Íslands getur staðfest slík lög.

Forsetinn hlýtur í ljósi yfirlýsingar sinnar að synja lögunum staðfestingar, með vísan til hennar og 26. gr. stjórnarskrárinnar.

Geri hann það mælir stjórnarskráin svo fyrir að Icesave-málinu verði vísað til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband