Byltingin étur börnin sín

Hann var glaðhlakkalegur, fjármálaráðherrann Steingrímur J. Sigfússon, þegar hann tilkynnti alþjóð í fréttatíma Stöðvar 2 á miðvikudag að ríkisstjórnin ætlaði að ráðast í mestu skattahækkanir Íslandssögunnar.

Fjármálaráðherrann íslenski hefur fram til þess að reynst Hollendingum og Bretum ákaflega góður liðsmaður í baráttunni gegn íslenskum almenningi í Icesave-málinu.  Hans framlag í því máli hefur annars vegar falist í því að fallast umyrðalaust á allar kröfur Breta og Hollendinga á hendur Íslendingum.  Hins vegar hefur fjármálaráðherrann lagt sig allan fram við falla frá öllum þeim vörnum sem Íslendingar hafa haldið á lofti gagnvart Bretum og Hollendingum í Icesave-málinu.

Í vinnu hálft árið fyrir ríkið

Og fjármálaráðherrann er ekki af baki dottinn í aðför sinni að fólkinu í landinu.  Í viðtali Stöðvar 2 á miðvikudaginn kom fram að almenningur í landinu megi búast við því að staðgreiðsla skatta fyrir einstaklinga hækki stórkostlega og verði allt að 50% á næsta ári.

Það þýðir í raun að fólkið í landinu mun þurfa að sætta sig við að vinna hálft árið fyrir ríkið, en ekki fyrir sig og fjölskyldur sínar.  Allar þeirra tekjur frá 1. janúar til 1. júlí 2010 munu þá renna til fjármálaráðherrans og hans skattþyrsta aðstoðarmanns, Indriða H. Þorlákssonar.

Fólk á nú þegar nóg með sitt

Skattahækkunaráform ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna eru eins og blaut tuska framan í fólkið í landinu.

Það virðist hafa farið framhjá ríkisstjórninni að nú þegar á venjulegt fólk nóg með sitt.  Þúsundir hafa misst vinnuna.  Laun þeirra sem enn eru í vinnu hafa lækkað.  Afborgarnir lána hafa hækkað.  Verðlag er nú hærra en áður og vextir eru enn himinháir.  Allt hefur þetta leitt til þess að fjölskyldurnar í landinu eiga mun erfiðara en áður með að greiða af lánum sínum.  Mörgum hefur reynst það ómögulegt og horfa nú fram á að missa heimili sín.

Lægri laun, hærri skattar

Við þessar aðstæður er glapræði að ráðast í skattahækkanir.  Þær munu einungis auka á erfiðleika venjulegs fólks, sem þó eru ærnir fyrir.  Ráðstöfunartekjur munu dragast saman.  Nauðungarsölum mun fjölga og þeir sem ná að greiða af lánum sínum munu hafa minna aflögu fyrir sig og börn sín.

Í vor boðaði varaformaður Vinstri grænna, Katrín Jakobsdóttir, á borgarfundi sem sjónvarpað var frá, að flokkur hennar og fjármálaráðherrans myndi beita sér fyrir því að launin í landinu yrðu lækkuð og skattar hækkaðir.  Nú er sú martröð sem þá var boðuð að verða að veruleika.  Laun hafa lækkað og ríkisstjórn ætlar að hækka tekjaskatta einstaklinga upp í rjáfur.

Tillögur Sjálfstæðisflokksins

Fyrir skemmstu kynnti Sjálfstæðisflokkurinn tillögur sínar í efnahagsmálum.  Þar var bent á að leiðir sem uppfylla aukna tekjuþörf ríkissjóðs, án skattahækkana.  Þær byggjast á því að ríkið skattleggi lífeyrissparnað landsmanna fyrirfram í stað þess að gera það eftirá.  Slík kerfisbreyting hefur hvorki áhrif á greiðslur til lífeyrisþega í nútíð né framtíð, en með henni getur ríkisstjórnin komist hjá því að leggja enn þyngri byrðar á fólkið í landinu.

Það er sorglegt að ríkisstjórnin skuli ekki velja þá leið, og hlífa almenningi, í stað þess að skattpína hann.

Öllum er refsað

Fyrir alþingiskosningarnar í vor var því haldið fram að Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti að taka sér frí frá landsstjórninni og að refsa þyrfti flokkum.  En byltingin étur börnin sín.  Nú finnur fólkið í landinu það á eigin skinni að sú refsing sem sumir vildu veita Sjálfstæðisflokknum, er farin að bitna illilega á þjóðinni allri.

Höfundur er varaþingmaður og aðstoðarmaður formanns Sjálfstæðisflokksins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband