Nú reynir á Alþingi og Alþingismenn

Ríkisstjórn Íslands kynnti í gær samkomulag sem hún gerði fyrir Íslands hönd við Hollendinga og Breta í Icesave-málinu.

Á blaðamannafundi sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, að lengra hefði ríkisstjórnin ekki komist.  Að hennar mati væri niðurstaðan ásættanleg og að það þjónaði hagsmunum íslensku þjóðarinnar að klára Icesave-málið með þeim hætti sem hún kynnti.

Í sama streng tók Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sem hélt því blákalt fram þeir fyrirvarar sem Alþingi samþykkti í ágúst héldu að meginstefnu til.

Ekkert af þessu stenst skoðun.  Samkomulagið er afleitt.  Það þjónar engan veginn hagsmunum þjóðarinnar að klára Icesave-málið á þeim forsendum sem ríkisstjórnin leggur nú til og fyrirvarar Alþingis eru að engu orðnir.

Það mun ég rökstyðja í þessum pistli.

1.  Fyrirvarar Alþingis hafa verið felldir brott.

Það samkomulag sem ríkisstjórnin kynnti í gær felur í sér algera uppgjöf hennar gagnvart kröfum Breta og Hollendinga gagnvart Íslendingum.  Niðurstaðan ber þess skýr merki að ríkisstjórnin samdi af sér.  Hún er niðurlægjandi fyrir ríkisstjórnina og ekki síður fyrir íslensku þjóðina.  Hún er Íslendingum afar óhagstæð og litlu skárri en sú niðurstaða sem birtist í upphaflegum samningum sem kynntir voru hinn 5. júní síðastliðinn.  Hún vegur að sjálfstæði íslensku þjóðarinnar, hvort sem er í stjórnskipulegu- eða efnahagslegu tilliti.

Af niðurstöðunni er ljóst að þeir fyrirvarar sem Alþingi lögfesti í ágúst síðastliðnum eru að litlu eða engu orðnir.

2.  Ríkisstjórnin fellst á að greiða alla kröfuna án skyldu

Með samkomulaginu vill ríkisstjórn Íslands fyrir hönd íslenska ríkisins að ábyrgjast greiðslur á hverju einasta pundi og hverri einustu evru til breskra og hollenskra innistæðueigenda að viðbættum háum vöxtum á höfuðstól kröfunnar.

Þetta gerir ríkisstjórnin án þess að fyrir liggi að ríkinu beri lagaleg skylda til þess að ábyrgjast vegna Icesave-reikninganna.

Hvernig getur slík niðurstaða verið ásættanleg?  Og hvernig getur það þjónað hagsmunum íslensku þjóðarinnar að fallast á slíkar kröfur?

3.  Lagalegur fyrirvari að engu orðinn

Í samkomulaginu fellst að ríkisstjórnin hefur afsalað íslensku þjóðinni þeim sjálfsagða rétti sínum að fá úr því skorið fyrir dómstólum hvort íslenska ríkinu beri að lögum að ábyrgjast skuldir Landsbanka Íslands vegna Icesave-reikninganna.

Afsalið fellst í því að verði slíkt mál höfðað og fáist í því sigur, hefur ríkisstjórnin samið um að slík niðurstaða hafi enga þýðingu fyrir Íslendinga.

Í niðurstöðu ríkisstjórnarinnar kemur fram að höfði Íslands slíkt mál fyrir dómstól og hafi sigur þá hafi sú niðurstaða engin áhrif gagnvart Bretum og Hollendingum, að öðru leyti en því að þessar þjóðir þyrftu að eiga við Íslendinga viðræður!

Yrði niðurstaða málsins með öðrum orðum á þá leið að samkvæmt gildandi lögum beri íslenska ríkinu ekki skylda til að ábyrgjast skuldir Landsbanka Íslands hf., þá hefur slík dómsniðurstaða, samkvæmt samkomulaginu, engin áhrif á greiðsluskyldu íslenska ríkisins gagnvart Bretum og Hollendingum.

Þeir héldu að slíkri dómsniðurstöðu genginni öllum sínum rétti gagnvart Íslendingum, að öðru leyti en því að Ísland geti óskað eftir viðræðum við Holland og Bretland um niðurstöður málsins.

Réttarafsal eins og þetta hlýtur að vera einsdæmi.

Það hlýtur að vera einsdæmi að nokkur ríkisstjórn frjáls og fullvalda ríkis skuli vera reiðubúnir að kyngja því að úrskurður eða dómur dómstóls í ágreiningsmáli hafi ekkert gildi fyrir málsaðilanna, annað en það að þeir þurfi að tala saman!

Það hlýtur líka að vera einsdæmi að nokkurri ríkisstjórn skuli hafa tekist að niðurlægja sjálfa sig og þjóð sína með því að semja með þessum hætti.

Það er auk þess mikið álitamál hvort ríkisstjórn Íslands sé heimilt að lögum, þar á meðal samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar, að afsala íslenska ríkinu og framtíðarkynslóðum þessa lands svo mikilsverðum hagsmunum eins og ríkisstjórn Íslands hefur nú gert.

4.  Ríkisábyrgðin verður óskilgreind og ótímabundin.

Í niðurstöðunni sem ríkisstjórnin kynnti fellst að í stað þess að ríkisábyrgð vegna Icesave-reikninganna falli niður árið 2024 verði hún ótímabundin og að öllu leyti óskilgreind.

Þar með hefur einn helsti varnaglinn sem Alþingi setti fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar í ágúst verið felldur úr gildi.  Með því að fella þann varnagla úr gildi að kröfu Breta og Hollendinga hefur ríkisstjórn Íslands stórskaðað hagsmuni þjóðarinnar.

Það er álitamál hvort Alþingi sé heimilt lögum samkvæmt að veita jafn óskilgreinda ríkisábyrgð og ríkisstjórnin ætlar sér að gera í þessu máli.  Slíkar ábyrgðir eru oftast nær tímabundnar eða bundnar tiltekinni fjárhæð.

Slík skilyrði vill ríkisstjórnin ekki setja í Icesave-málinu.

5.  Efnahagslegir fyrirvarar hafa verið felldir úr gildi

Í þeim efnahagslegu fyrirvörum sem Alþingi samþykkti í ágúst var sett hámark á greiðslur Íslendinga til Breta og Hollendinga.

Fyrirvararnir hefðu leitt til þess að greiðslan yrði aldrei hærri en 6% af hagvexti og að það sem eftir stæði árið 2024 félli niður. Þetta var gert í anda hinna sameiginlegu viðmiða (Brussel-viðmiðana).

Þessu hefur nú verið breytt þannig að nú borga Íslendingar aldrei meira en 6% af höfuðstól á ári en alltaf áfallna vexti. Þetta þýðir að ef upphafleg skuld er t.d. 700 milljarðar og hagvöxtur verður enginn þá er ekkert greitt af höfuðstól en vextir eru alltaf greiddir – höfuðstóll verður óbreyttur árið 2024.

Vaxtagreiðslurnar áranna 2016 til 2024 munu þá samtals nema um 245 milljörðum en höfuðstóllinn verður sá sami – 700 milljarðar!

Með þeirri breytingu sem ríkisstjórnin leggur nú til að verði samþykkt hefur þessi efnahagslegi fyrirvari litla sem enga þýðingu lengur.

Í versta falli kann þessi varnagli að vinna gegn hagsmunum þjóðarinnar.

Í besta falli felur hann það í sér að Íslendingar fá náðarsamlegast greiðsluaðlögun til þess að greiða hvert pund og hverja evru til Breta og Hollendinga.

6.  Fyrirvari um úthlutun krafna úr þrotabúi Landsbanka Íslands (fyrirvari Ragnars Hall) er háður túlkun EFTA-dómstólsins.

Sú breyting sem ríkisstjórnin leggur til að gerð verði á fyrirvara Alþingis sem kenndur hefur verið við Ragnar Hall, hæstaréttarlögmann, getur orðið til þess að torsótt verði fyrir Ísland að fá forgang á kröfur í bú Landsbanka Íslands.

Nú er mælt fyrir því að reglur um úthlutun úr búi Landsbanka Íslands skuli standa, en þó að því tilskyldu að það sé niðurstaða íslenskra dómstóla og að sú niðurstaða sé í samræmi við ráðgefandi álit frá EFTA-dómstólnum.

Að mati lögfræðinga eru verulegar líkur á því að slíkt álit fengist ekki frá EFTA-dómstólnum.  Það mat byggir á því að EFTA-dómstóllinn metur einungis hvort reglur landsréttar (íslensks réttar) séu í samræmi við reglur EES-réttarins.  Fram til þessa hefur verið talið að reglur íslensks gjaldþrotaréttar brjóta í engu í bága við EES-reglur.

Það er ekki hlutverk EFTA-dómstólsins að kveða á um með hvaða hætti eigi að úthluta fjármunum úr einstökum þrotabúum fyrirtækja til kröfuhafa.  EFTA-dómstóllinn hefur ekkert með slík úrlausnar efni að gera.

Hæstiréttur Íslands hefur túlkað ákvæði um ráðgefandi álit með mjög mismunandi hætti.  Af þeim úrlausnum sem fyrir liggja er alls ekki víst, og raunar býsna ólíklegt, að Hæstiréttur Íslands féllist á það að honum bæri skylda til að leita eftir slíku áliti.

Fengist slíkt álit ekki yrði sú niðurstaða alltaf á kostnað Íslendinga, en ekki Breta og Hollendinga, og myndi leiða til þess að fyrirvarinn sem kenndur er við Ragnar Hall hefði enga þýðingu.

7.  Getur Alþingi og ríkisstjórn sagt Hæstarétti Íslands fyrir verkum?

Það er verulegt álitamál hvort löggjafinn og ríkisstjórnin hafi samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár um þrískiptingu ríkisvaldsins heimildir til þess að skipa Hæstarétti Íslands fyrir verkum með þessum hætti.

Jafnframt er það líklega einsdæmi að við úrlausn ágreinings kjósi menn að binda niðurstöðu í slíku máli við ráðgefandi álit stofnunar, en ekki niðurstöðu dómstóls.

Það sýnir hins vegar að hvorki Bretar né Hollendingar treysta íslenskum dómstólum.  Þeir vilja sniðganga íslenska dómstóla.

Á þá sniðgöngu féllst ríkisstjórn Íslands.

8.  Hin sameiginlegu viðmið

Í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir að í viðaukasamningi við lánasamninga milli Íslands, Bretlands og Hollands, verði staðfest að lánasamningarnir hafi verið gerðir á grundvelli hinna sameiginlegu viðmiða (Brussel-viðmiða) frá 14. nóvember 2008.

Ekkert í þeim lánasamningum bendir til þess að nokkurt tillit hafi verið tekið til hinna sameiginlegu Brussel viðmiða.

Sú niðurstaða sem ríkisstjórnin hefur nú kynnt bendir ekki til annars en að enn og aftur hafi verið framhjá þeim litið.

Nú reynir á Alþingi og Alþingismenn

Þingmenn stjórnarflokkanna hafa um helgina líst því yfir að Icesave-málið sé gjörbreytt nú þegar niðurstaða samningaviðræðna landanna þriggja liggur fyrir.

Það er rétt.  Málið er gjörbreytt.

En það hefur breyst til hins verra.

Uppgjöf ríkisstjórnarinnar gagnvart Bretum og Hollendingum er algjör og niðurlægingin fullkomin.

Sú niðurstaða sem ríkisstjórnin hefur nú kynnt er ekki ásættanleg.  Hún er afleit.  Það þjónar ekki hagsmunum íslensku þjóðarinnar að fara að ráðum Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar og kyngja umyrðalaust afarkostum Breta og Hollendinga.

Nú reynir á þingmenn þessarar þjóðar að standa gegn þeim áformum sem ríkisstjórnin kynnti í Alþingishúsinu í gær.

Það er tími til kominn að þingmenn taki afstöðu með Íslendingum og bjargi þjóðinni frá stórslysi sem ekki verður aftur tekið, fyrst ríkisstjórn Íslands ætlar ekki að gera það.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband