Algjör uppgjöf

Fréttir berast nú af því að niðurstaða sé fengin í Icesave-viðræðum íslenskra, breskra og hollenskra stjórnvalda.  Samkvæmt þeim hefur ríkisstjórnin fallist á að falla frá þeim fyrirvörum við Icesave-málið sem Alþingi samþykki í sumar.

Með öðrum orðum virðist ríkisstjórn Íslands vera búin að samþykkja kröfur Breta og Hollendinga á hendur íslenskum almenningi, en þær virðast af frétt Morgunblaðsins hafa verið eftirfarandi:

Ekki hætt að greiða árið 2024

Íslensk stjórnvöld hafa fallist á að ekki verði hætt að greiða af Icesave-skuldabréfunum árið 2024 eins og fyrirvararnir gerðu ráð fyrir, heldur verði upphæðin greidd að fullu. Greiðslur eftir 2024 munu miðast við 6% af hagvexti líkt og fram til 2024 og vextir verða óbreyttir.

Dómsúrskurður hnekkir ekki greiðsluskyldu Íslands

Bretar og Hollendingar munu hafa fallist á að hægt verði að fara með málið fyrir dóm til að láta reyna á greiðsluskyldu Íslands, líkt og fyrirvararnir kveða á um. Á hinn bóginn hefur niðurstaða dómsins, þótt hann yrði Íslendingum í hag, ekki sjálfkrafa þau áhrif að greiðslur falli niður. Verði dómurinn Íslandi í vil hefur hann aðeins þau áhrif að  sest verði aftur að samningaborði.

Ragnars Hall ákvæðið inni, nema ESA úrskurði gegn því

Ákvæðið sem kennt er við Ragnar Hall og kveður á um forgangsröð krafna er áfram inni líkt og fyrirvararnir gerðu ráð fyrir. Komist Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hins vegar að þeirri niðurstöðu að það stangist á við evrópskan rétt þá fellur það úr gildi og breytir þá engu þótt niðurstaða Hæstaréttar Íslands yrði á þá leið að ákvæðið héldi."

Hafi ríkisstjórn Íslands fallist á að breyta fyrirvörum Alþingis með þessum hætti er ljóst að uppgjöf Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar í Icesave-málinu er algjör.

Enn og aftur fallast þau skötuhjúin á að hollenskir og breskir innistæðueigendur fái allar sínar kröfur uppfylltar.

Eftir stendur illa leikinn íslenskur almenningur sem á sér engan málsvara í þessum viðræðum.  Jóhanna og Steingrímur J. hafa frá upphafi haldið fram málstað Hollendinga og Breta í viðræðunum.

Og í annað skiptið er niðurstaðan hörmuleg.

Og niðurlæging okkar Íslendinga er algjör, nema Alþingi komi þjóðinni til bjargar, í annað skipti á skömmum tíma.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband