Hvað gerir forseti Íslands?

Það er eðli leppstjórna að gera það sem ráðstjórnarríkin skipa þeim að gera umyrðalaust.

Í stefnuræðu sinni í gær bað Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra Íslands, þjóðina um að hafa skilning á því að hún yrði fallast á kröfur Hollendinga og Breta í Icesave-málinu og greiða.

,,Kalt hagsmunamat segir mér að við eigum ekki annarra kosta völ en að gera upp Icesave-reikningana.“ – sagði Jóhanna og bætti við:

,,Þeir sem hrópa nú hæst og bjóða aðrar lausnir eru að stefna hagsmunum almennings hér á landi í hættu til lengri og skemmri tíma litið.  Hér höfum við ekkert val.“

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna gafst upp fyrir Hollendingum og Bretum þegar hún gerði þá samninga sem kynntir voru í sumar.  Þeim vondu samningum hafnaði Alþingi og samþykkti ströng skilyrði fyrir því að ríkisábyrgð yrði veitt á vegna þeirra, gegn andmælum ríkisstjórnarinnar sem talaði fyrir hagsmunum breskra og hollenskra innistæðueigenda og gekk erinda þeirra í stað þess að verja hagsmuni íslenskra skattgreiðenda, eins og henni bar skylda til að gera.

Nú liggur fyrir að Hollendingar og Bretar hafa hafnað skilyrðum og fyrirvörum Alþingis og gera nú meiri kröfur á hendur Íslendingu en Alþingi var reiðubúið að sætta sig við í ágústlok.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur virðist nú ætla að gefast upp í annað sinn og gerir sig nú líklega til að leggja nýtt Icesave-frumvarp fram á Alþingi, í trausti þess að þar sitji nægilega margir alþingismenn sem eru reiðubúnir til þess að gefast einnig upp gegn afarkostum Hollendinga og Breta.

Leggi ríkisstjórnin slíkt uppgjafarfrumvarp fram sýnir hún óverjandi undirlægjuhátt gagnvart Bretum og Hollendingum.  Þá mun hún í annað skipti á skömmum tíma bregðast siðferðislegri skyldu sinni gagnvart þingi og þjóð og fer á svig við þau lög sem Alþingi hefur þegar samþykkt um lyktir málsins.

Verði slíkt frumvarp hins vegar samþykkt verður spennandi að sjá hver viðbrögð Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, verða.

Eftir að Alþingi samþykkti Icesave-frumvarpið í sumarlok staðfesti forseti Íslands lögin.  Það gerði forsetinn reyndar með illskiljanlegum hætti, en í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér hinn 2. september í tilefni af staðfestingu laganna sagði eftirfarandi:

,,Forseti hefur því ákveðið að staðfesta lögin með sérstakri áritaðri tilvísun til fyrirvara Alþingis.“

Þessi yfirlýsing forseta Íslands verður ekki skilin öðruvísi en svo að með hinni sérstöku árituðu tilvísun til fyrirvara Alþingis hafi forsetinn verið að leggja sérstaka áherslu á mikilvægi þeirra fyrir hagsmuni þjóðarinnar og að samþykki þeirra hafi verið forsenda þess að hann staðfesti lögin.

Fái hollensk og bresk stjórnvöld hins vegar vilja sínum framgengt, með milligöngu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, verður að fróðlegt að sjá hvernig forseti Íslands bregst við.

Mun hann skipta um skoðun og staðfesta slík lög?

Eða mun hann standa í lappirnar og fast á þeim fyrirvörum sem hann áritaði svo sérstaklega hinn 2. september síðastliðinn?

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband