Endurreisn?

Endurreisn íslenska efnahagskerfisins gengur hægar en vonir stóðu til.  Þetta kom fram í viðtali fréttastofu Sjónvarpsins við leiðtoga ríkisstjórnarinnar, Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra, síðastliðinn mánudag.

Það er óhætt að segja að sjaldan hafi jafn mikið verið sagt um jafn lítið og þá endurreisn efnahagskerfisins sem Steingrímur segir að gangi hægt.  Í raun hefur sú endurreisn aldrei hafist.  Fólkið í landinu og fyrirtækin eru farin að finna það illilega á eigin skinni.

Það þarf enginn að undrast að sú ríkisstjórn sem nú er við völd komist hvorki lönd né strönd með að endurreisa íslenska efnahagskerfið.  Allar hennar aðgerðir og áform miða að því að koma í veg fyrir að slík endurreisn geti átt sér stað og hafa í raun ekkert með endurreisn að gera.

Það er auðvitað ekki við öðru að búast en að endurreisn efnahagskerfisins gangi hvorki né reki hjá ríkisstjórn sem:

- hótar að hækka skatta á fólkið í landinu;
 
- hótar að hækka skatta á fyrirtækin í landinu;

- hótar nýjum orku-, auðlinda- og umhverfissköttum sem koma sérstaklega illa niður á stærstu útflutningsfyrirtækjum landsins;

- neitar að framlengja viljayfirlýsingu um atvinnuuppbyggingu á Bakka við Húsavík;

- kemur í veg fyrir atvinnuuppbyggingu í Helguvík;

- stefnir stöðugleikasáttmála sem hún gerði við aðila vinnumarkaðarins í algjört uppnám;

- lækkar ekki stýrivexti sem fyrir eru þeir hæstu sem þekkjast;

- viðheldur stórskaðlegum gjaldeyrishöftum;

- og gefst upp gagnvart öllum kröfum Breta og Hollendinga um greiðslur á mörghundruð milljarða króna úr vösum íslensks almennings.

Sú ríkisstjórn sem nú er við völd hefur ekki lagt fram neina heildstæða áætlun um hvernig hún hyggst endurreisa íslenskt efnahagskerfi.  Hún býður því miður ekki upp á neinar lausnir sem máli skipta, heldur þvælist bara fyrir.

Höfundur er aðstoðarmaður formanns Sjálfstæðisflokksins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband