Viðskiptablaðið á villigötum

Viðskiptablaðið birtir í dag furðulega úttekt á Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins.

Útektin er birt undir fyrirsögninni ,,Skortir hinn pólitíska sjarma" og í inngangi hennar segir blaðamaður Viðskiptablaðsins, Arna Schram að Bjarna Benediktssyni hafi ekki tekist að stimpla sig inn sem öflugur forystumaður í stjórnmálum.  Jafnframt segir blaðamaðurinn að Bjarni gjaldi þess sem formaður Sjálfstæðisflokksins að innan hans takist á tveir armar, annar kenndur við Davíð Oddsson en hinn við Geir H. Haarde.  Ennfremur er því haldið fram að enn hafi ekki gróið um heilt milli Bjarna og Kristjáns Þórs Júlíussonar eftir að þeir tókust á um formannsstólinn í Sjálfstæðisflokknum á síðasta ári.

Að mínu mati er úttekt Viðskiptablaðsins afar ósanngjörn í garð formanns Sjálfstæðisflokksins og stenst þegar betur er að gáð enga skoðun.  Í úttektinni skautar blaðamaðurinn býsna léttilega framhjá þeim árangri sem Bjarni Benediktsson hefur náð á þeim skamma tíma sem hann hefur gegnt formennsku.  Auk þess koma í úttektinni fram rangar fullyrðingar sem nauðsynlegt er að gera athugasemdir við.

Í fyrsta lagi er því ranglega haldið fram í úttektinni að ekki sé gróið um heilt milli Bjarna Benediktssonar og Kristjáns Þórs Júlíussonar eftir að úrslit í formannskjöri Sjálfstæðisflokksins lágu fyrir.  Þegar þau voru ljós munstraði Kristján sig í áhöfn Bjarna Benediktssonar, eins og hann orðaði það sjálfur í góðri ræðu, og síðan þá hafa þeir tveir unnið saman sem einn maður og af fullum heilindum.  Það vitum við sem vinnum náið með þessum tveimur mönnum.  Það er því fjarstæða að ekki sé gróið um heilt milli þeirra tveggja.

Í öðru lagi virðist sú klisja ætla að verða býsna lífseig meðal íslenskra blaðamanna og álitsgjafa að harðar deilur eigi sér stað milli tveggja arma í Sjálfstæðisflokknum, arma sem kenndir eru við Davíð Oddsson og Geir H. Haarde.  Þeir sem halda slíkum kenningum helst á lofti starfa reyndar fæstir innan Sjálfstæðisflokksins, en það virðist hafa farið framhjá þeim sem mest hafa sig í frammi í umræðunni að þessir tveir menn hafa lokið sínum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn.  Það væri umræðunni um meinta flokkadrætti í Sjálfstæðisflokknum verulega til framdráttar ef þeir sem halda þeim stöðugt á lofti útskýrðu fyrir okkur sem störfum á vettvangi Sjálfstæðisflokksins um hvað þessar deilur eiginlega snúast.

Í þriðja lagi skautar blaðamaðurinn að mínu mati býsna léttilega framhjá þeim árangri sem Bjarni Benediktsson hefur náð á þeim skamma tíma sem hann hefur gengt formennsku í Sjálfstæðisflokknum.

Þegar Bjarni tók við formennsku í Sjálfstæðisflokknum var fylgi flokksins í sögulegu lágmarki.  Skoðanakannanir sýndu að einungis um 20% þjóðarinnar studdu Sjálfstæðisflokkinn.  Raunar fór fylgi flokksins niður í allt að 18% þegar verst lét.  Niðurstöður síðustu alþingiskosninga voru Sjálfstæðisflokknum og sjálfstæðismönnum vonbrigði, enda fékk flokkurinn einungis 23,8% greiddra atkvæða.

Mikil og jákvæð breyting hefur hins vegar orðið á viðhorfi almennings gagnvart Sjálfstæðisflokknum.  Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun MMR nýtur Sjálfstæðisflokkurinn nú stuðnings 31,6% kjósenda, en til samanburðar má geta þess að fylgi Samfylkingar samkvæmt sömu könnun var 24,1% og fylgi Vinstri grænna 19,8%.

Þetta þýðir að fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur aukist um 75,5% frá því að flokkurinn var í sem mestri lægð.  Jafnframt sýnir könnun MMR að fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur aukist um ríflega 33% frá síðustu kosningum.

Ég hygg að núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og sjálfstæðismenn allir megi vera býsna sáttir við að svo mikill árangur hafi náðst á ekki lengri tíma.  Og ég efast ekki um annað en að aðrir formenn íslenskra stjórnmálaflokka myndu sætta sig við álíka fylgisaukningu.

Hvort fylgisaukningin hefur eitthvað með pólitískan sjarma eða gera eða eitthvað annað, þá segja þessar tölur sína sögu og talsvert aðra en þá sem Viðskiptablaðið segir í dag.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband