Forsætisráðherra, fjölmiðlar og raunveruleikinn

Hrannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, skrifaði grein sem slegið var upp á leiðarasíðu Morgunblaðsins á miðvikudag.  Um leið og Hrannar hældi forsætisráðherra sínum á hvert reipi kvartaði hann sáran undan þeirri gagnrýni sem Jóhanna hefur sætt fyrir að hafa látið lítið fyrir sér fara í fjölmiðlum á þessum miklu umbrotatímum.  Á slíkum tímum sætta hvorki fjölmiðlar né almenningur sig við að forsætisráðherra þjóðarinnar hlaupi í felur líkt og Jóhanna hefur gert, heldur er þess eðlilega krafist að ráðherrann geri skýra grein fyrir því til hvaða aðgerða ríkisstjórnin hyggst grípa til þess að leysa úr þeim vanda sem þjóðin glímir nú við.

Sú gagnrýni sem Jóhanna Sigurðardóttir hefur sætt er ekki frá pólitískum andstæðingum hennar komin.  Hún kemur frá almenningi og fjölmiðlum, ekki síst erlendum fjölmiðlafólki, sem hefur ítrekað líst því opinberlega hversu erfitt sé og allt að því ómögulegt að eiga samskipti við íslenska forsætisráðherrann m.a. vegna álitamála sem varða þjóðarhagsmuni Íslands miklu.  Nægir þar að nefna Icesave-málið og aðildarumsókn Íslands að ESB.

Þó svo að aðstoðarmaður forsætisráðherra haldi því fram í grein sinni að Jóhanna Sigurðardóttir hafi haldið blaðamannafundi þá breytir það ekki því að erlendir fjölmiðlar hafa svo mánuðum skiptir ekki náð nokkru sambandi við forsætisráðherra Íslands.  Með framgöngu sinni hefur Jóhanna Sigurðardóttir, því miður, vanrækt þá skyldu sína sem forsætisráðherra að halda fram málstað Íslands á erlendum vettvangi og tala máli þjóðarinnar þegar að henni er sótt.

Það er algengt að þeir sem vita upp á sig skömmina reyni þeir að koma sökinni yfir aðra.  Í grein Hrannars segir:  ,,Undanfarinn hálfan mánuð hefur ekkert frést af formönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.  Á meðan er endurtekið kvartað yfir því að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sé ekki nógu sýnileg þótt haldnir hafi verið tveir blaðamannafundir eftir ríkisstjórnarfundi í sl. viku.“

Telji Hrannar B. Arnarsson að málflutningur eins og þessi geri hlut forsætisráðherrans fegurri, þá er það misskilningur.  Hvorki formaður Sjálfstæðisflokks né Framsóknarflokks gegna embætti forsætisráðherra.  Hvorugur þeirra ber ábyrgð á stjórn landsins með sama hætti og forsætisráðherrann Hvorugur þeirra hefur jafn ríka upplýsingaskyldu gagnvart fjölmiðlum og almenningi og Jóhanna.  Hvorugur þeirra hefur vikið sér undan samskiptum við fjölmiðla.  Og formenn stjórnarandstöðuflokkanna eru ekki talsmenn ríkisstjórnarinnar.  Það hlutverk er á herðum forsætisráðherrans.

Það furðulegasta í grein aðstoðarmanns forsætisráðherra er sú afbragðseinkunn sem hann gefur ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.  ,,Afköst og árangur ríkisstjórnarinnar þennan tíma er án nokkurs vafa meiri en nokkurrar annarrar ríkisstjórnar í lýðveldissögunni.  Verkin hafa verið látin tala frá fyrsta degi.“

Það er auðvitað sjálfsagt og eðlilegt að aðstoðarmaðurinn standi með sínu fólki og tali máli þeirra sem best hann kann.  En fyrr má nú vera.  Ég leyfi mér að efast um að fólkið í landinu finni fyrir þessum gríðarlegu afköstum og árangri á eigin skinni sem aðstoðarmaður Jóhönnu lýsir svo fjálglega.  Það virðist hafa farið gjörsamlega framhjá nánasta samstarfsmanni hennar að á annan tug þúsunda Íslendinga eru nú án atvinnu.  Laun annarra hafa lækkað, en skattar hafa hækkað.  Gengi krónunnar er hrunið.  Vextir eru hvergi hærri.  Við búum við stórskaðleg gjaldeyrishöft.  Þau fyrirtæki sem ekki eru komin í þrot berjast í bökkum.  Fjölskyldurnar í landinu óttast framtíðina þurfa á öllu sínu að halda til að missa ekki heimili sín á nauðungaruppboð og svo mætti lengi telja.

Ég vona svo sannarlega að forsætisráðherra Íslands sé í betri tengslum við raunveruleikann en aðstoðarmaðurinn hennar bersýnilega er.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband