Liðsstyrkur úr óvæntri átt í Icesave-málinu

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hafa ítrekað og fyrirvaralaust haldið því fram að íslenska ríkinu, og þar með íslenskum almenningi, beri skilyrðislaus skylda til að ábyrgjast skuldir Landsbanka Íslands hf. vegna Icesave-reikninganna í Hollandi og Bretlandi.  Af þeirri ástæðu skrifaði ríkisstjórn þeirra undir hina afleitu Icesave-reikninga sem nú eru til umræðu á Alþingi.

Undir skoðanir forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar hafa flestir fylgismenn hennar á Alþingi tekið og nú hefur verið upplýst að þingflokkar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar veittu formönnum sínum og embættismönnum þeirra heimild til þess að undirrita samningana án þess að hafa lesið þá.

Það hefur verið býsna merkilegt að fylgjast með framgöngu Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar í Icesave-málinu.  Á öllum stigum málsins hafa þau lagt sig fram um að halda fram málsstað viðsemjenda sinna, Hollendinga og Breta, í stað þess að halda á lofti hagsmunum Íslands og íslensku þjóðarinnar.  Í raun má segja að þessir forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafi verið erfiðari í samningaviðræðum við stjórnarandstöðuflokkana en hægt hefði verið að ímynda sér að samningamenn Breta og Hollendinga hefðu nokkurn tíma verið.  Svo forhertir hafa forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar verið að þeir hafa vikum og mánuðum saman barist gegn öllum breytingum á þessum afleitu samningum.

Sú harka sem forsætisráðherra og fjármálaráðherra Íslands hafa sýnt í viðleitni sinni til þess að sannfæra þing og þjóð um nauðsyn þess að samþykkja ríkisábyrgð vegna Icesave-samninganna er merkileg í ljósi þess að síðustu daga og vikur hafa komið fram æ fleiri málsvarar sjónarmiða Íslands, svo sem í erlendum þjóðþingum og fjölmiðlum.  Þau sjónarmið hafa Steingrímur og Jóhanna ávallt slegið út af borðinu.

Merkilegra er þó að þegar kafað er ofan í þau sjónarmið sem viðsemjendur Jóhönnu og Steingríms J. hafa sjálfir sett fram um skyldur ríkja til þess að ábyrgjast innistæður á innlánsreikningum samkvæmt þeim lögum og reglum sem um þá gilda við kerfishrun eins og það sem átti sér stað á Íslandi í október sl.

Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, sem er kollegi og viðsemjandi Steingríms J. Sigfússonar, hélt merka ræðu hinn 3. mars 2009 á ráðstefnu Eymedion Conference.  Í ræðunni fjallaði fjármálaráðherrann um efnislegt inntak og hlutverk evrópskra réttarreglna um innistæðutryggingar, reglnanna sem ríkisstjórnin byggir samþykki ríkisábyrgðarinnar vegna Icesave á.

Í ræðunni sagði Wouter Bos meðal annars:

,,The question is how to achieve this.  First and foremost, European countries need to take a close look at how the deposit guarantee scheme is organised.  It was not designed to deal with a systemic crisis but with the collapse of a single bank.“

Eins og sjá má af ofangreindri tilvitnun í ræðu fjármálaráðherra Hollands, frá því í mars á þessu ári, kemur með afar skýrum hætti fram sú skoðun hans að hið evrópska innlánstryggingakerfi var ekki útbúið í þeim tilgangi að bregðast við kerfishruni bankakerfa, heldur til þess að bregaðst við falli einstakra banka eða fjármálastofnana.

Það má því með sanni segja að með ræðu fjármálaráðherra Hollands hafi Íslendingum borist liðsstyrkur úr óvæntri átt.

Það væri óskandi að Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra Íslands, hefði kynnt sér þessi sjónarmið kollega síns og viðsemjanda, og hermt þau upp á hann áður en skrifað var undir samningana við Hollendinga og Breta.

Því miður virðist íslenski fjármálaráðherrann ekki hafa gert það, þó ærin ástæða hefði verið til.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband