Falleinkunn

,,Kjósum vinnu og velferð“ segir í auglýsingum Samfylkingarinnar fyrir alþingiskosningarnar. ,,Verjum velferð, sköpum störf.“, segja Vinstri græni

Þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna var mynduð var sagt að forgangsverkefni hennar væri að slá skjaldborg um heimilin í landinu og koma hjólum atvinnulífsins í gang á nýjan leik. Hvorugt hefur tekist. Formaður Framsóknarflokksins, sem varði stjórnina vantrausti, gaf henni á endanum falleinkunn.

Því er merkilegt að hlusta nú á Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon hreykja sér af því hvað ríkisstjórnin hafi náð góðum árangri þegar ljóst er að þeim hefur mistekist að leysa þau brýnu verkefni sem við blasa og fólkið í landinu kallar eftir að verði leyst.

Raunar er staðreyndin sú að staðan í íslensku samfélagi hefur versnað í flestu eða öllu tilliti eftir að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók við völdum.

Hér eru nokkur dæmi sem styðja þá fullyrðingu:

  • Um 12.000 Íslendingar voru atvinnulausir þegar ríkisstjórn þeirra tók við. Þeir eru nú um 18.000.
  • Eignarhlutur fólks í fasteignum sínum hefur rýrnað.
  • Verðmæti fasteigna hefur rýrnað.
  • Skuldir heimilanna hafa aukist.
  • Skuldir ríkisins hafa aukist.
  • Gengi krónunnar hefur hríðfallið.
  • Fleiri bankar og fjármálastofnanir hafa fallið í tíð þessarar ríkisstjórnar en hinnar fyrri.
  • Gjaldþrotum fyrirtækja hefur fjölgað.
  • Gjaldþrotum einstaklinga hefur fjölgað.
  • Gjaldeyrishöft hafa verið hert og viðskiptafrelsi skert.
  • Vextir eru enn himinháir.

Þessi listi gæti verið mun lengri, en árangurinn er ekkert til þess að hreykja sér af.

Skjaldborg hefur hvorki verið slegin um vinnu né velferð.

Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að snúa þessari þróun við. Við ætlum að koma atvinnulífinu af stað á nýjan leik. Við ætlum að tryggja 20.000 ný störf. Við ætlum að nýta auðlindir landsins fyrir fólkið í landinu. Við ætlum að lækka greiðslubyrði húsnæðislána um 50%. Við ætlum ekki að lækka laun og hækka skatta.

Við ætlum að standa með fólkinu og fyrirtækjunum í landinu.

Höfundur er alþingismaður og skipar 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband