Kosningaloforð ársins: Lægri laun og hærri skatta!

Kosningaloforð ársins eiga Vinstri grænir.

Vinstri grænir ætla að slá skjaldborg um heimilin í landinu með því að lækka laun opinberra starfsmanna og hækka skatta.

Þetta tilkynnti Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri grænna, á borgarafundi á þriðjudaginn var.

x x x

Áform Vinstri grænna um lækkun launa og hækkun skatta hafa ítrekað verið staðfest af þingmönnum þeirra í þeim umræðum sem ég hef staðið fyrir um málið á Alþingi síðustu daga.

Endanleg staðfesting fékkst síðan á borgarafundi á Akureyri í vikunni.  Þá ítrekaði Steingrímur J. Sigfússon áform sín og Vinstri grænna um að lækka laun fólksins í landinu og leggja á það auknar byrðar.

Raunar gekk formaður Vinstri grænna lengra en varaformaðurinn, því hann útfærði launalækkunarhugmynd sína.  Á fundinum sagðist Steingrímur J. vilja lækka laun þeirra sem væru með hærri tekjur en 250-300 þúsund krónur á mánuði.

x x x

Í kjölfar yfirlýsingar Steingríms J. aflaði ég mér upplýsinga um það hverjar meðalheildartekjur Íslendinga eru um þessar mundir.

Sú athugun leiddi í ljós að meðalheildartekjur Íslendingsins eru um 380.000 kr. á mánuði.

Þetta þýðir að Vinstri grænir ætla sér ekki að láta við það sitja að lækka einungis laun þeirra sem hæstu tekjurnar hafa í ríkiskerfinu, heldur ætla þeir líka að þjösnast á fólki sem er með tekjur sem eru lægri en meðaltekjur.

Sú staðreynd ein og sér er ansi merkileg, eiginlega alveg ótrúleg.  Hver hefði trúað því fyrir nokkrum mánuðum að stjórnarandstæðingurinn Steingrímur J. Sigfússon stæði að tillöguflutningi um að lækka laun fólks sem ekki nær meðaltekjum og telst því vera allt að því láglaunafólk?

Ekki ég að minnsta kosti.

Og enn síður hefði ég trúað því upp á stjórnarandstæðinginn Steingrím að hann vildi líka hækka skattana á þetta sama fólk, svona í kaupbæti.

Til að bæta gráu ofan á svart njóta þessar hugmyndir stuðnings innan Samfylkingarinnar.

x x x

Áform Vinstri grænna um að lækka laun opinberra starfsmanna og um að hækka skatta til viðbótar er aðför að fjölskyldunum og heimilunum í landinu.  Sú aðför lýsir ekki fagurri framtíðarsýn, heldur varpar hún frekar ljósi á það hversu mikil firring hefur gripið um sig innan forustu Vinstri grænna.

Áform Vinstri grænna um lægri laun og hærri skatta sýna auk þess að íslenskir vinstrimenn hafa ekki upp á neinar aðrir lausnir að bjóða gagnvart vanda heimilanna en að láta sverfa til stáls gegn þeim.

x x x

Vinstri grænir virðast ekki hafa áttað sig á því að fjölskyldurnar í landinu mega ekki við því að ráðstöfunartekjur þeirra verði skertar meira en orðið er.  Fjölskyldurnar í landinu hafa nú þegar orðið fyrir svo miklum áföllum og kjaraskerðingum að það er ekki verjandi að bæta við þau.

Um 18.000 Íslendingar ganga nú um atvinnulausir, en þeim hefur fjölgað um 6.000 síðan ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar tók við völdum.  Þeir sem eru svo heppnir að hafa ekki misst vinnuna hafa þurft að sætta sig við launalækkanir.  Gjaldþrotum fjölgar og vanskil aukast.  Þar við bætist að vextir eru himinháir.  Verðbólgan líka.  Gengi krónunnar hefur hrunið og svo mætti lengi telja.

Í ljósi þess veltir maður því auðvitað fyrir sér hvernig nokkrum stjórnmálaflokki dettur í hug að setja það fram sem stefnumál skömmu fyrir kosningar að lækka laun opinberra starfsmanna og hækka skatta.

x x x 

Áform Vinstri grænna um lækkun launa og hækkun skatta er baneitraður kokteill.

Verði þau að veruleika munu þau leiða til þess að ráðstöfunartekjur opinberra starfsmanna munu minnka.  Fjölskyldufólki mun því reynast erfiðara að greiða afborganir af húsnæðislánum sínum og bjóða börnum sínum upp á þau lífskjör sem þeim eru sæmandi.

Þá er viðbúið að verði laun opinberra starfsmanna lækkuð muni almenni markaðurinn fylgja í kjölfarið.  Þar við bætist að í kjölfarið munu greiðslur til lífeyrisþega, þ.e. eldri borgara, skerðast.

Þær skattahækkanir sem Vinstri grænir og Samfylkingin ætla síðan að bjóða öllum almenningi í landinu munu aðeins bæta gráu ofan á svart.

Þær munu einungis leiða til þess að sá vandi sem nú steðjar að heimilunum mun stóraukast.

x x x

Sá stjórnmálamaður sem einna mest hagnaðist á þeim breytingum sem gerðar voru með setningu hinna umdeildu eftirlaunalaga var Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, en lögin tryggðu honum 50% álag á þingfararkaup, sem formanni í stjórnarandstöðuflokki.

Þó svo að þjóðin hafi einungis séð í iljarnar á Steingrími þegar hann flúði upp á fjöll þegar eftirlaunalögin voru til umræðu á Alþingi er ástæða til að halda því til haga að siðan þau lög tóku gildi, þann 30. desember 2003, hafa tekjur formanns Vinstri grænna hækkað um milljónir.  Steingrímur J. hefur með öðrum orðum hagnast mest á eftirlaunalögunum umdeildu.

Og þegar eftirlaunalögin voru numin úr gildi, var kaupauki formanna stjórnarandstöðuflokkanna, sem nýst hefur Steingrími J. svo vel, látinn standa óbreyttur, af einhverjum ástæðum.

x x x

Vera má að þeir forystumenn Vinstri grænna sem helst hafa talað fyrir lækkun launa og hækkun skatta, þau Steingrímur J. Sigfússon og Katrín Jakobsdóttir, megi við launaskerðingu og hærri sköttum.

Það er hins vegar misskilningur að barnafjölskyldurnar í landinu geti tekið slíkar byrðar á sig til viðbótar við himinhátt vaxtastig, verðbólgu, atvinnuleysi og þær launalækkanir sem þegar hefur verið gripið til.

Það er líka til merkis um veruleikafirringu að halda að fólk sem er með tekjur undir meðaltekjum geti tekið á sig launalækkanir og skattahækkanir, eins og þær sem Vinstri grænir hafa boðað.

Það fólk er ekki á ráðherralaunum eins og formaður og varaformaður Vinstri grænna og má því ekki við því að missa spón úr aski sínum og stærri hlut launa sinna í vasa fjármálaráðherra Vinstri grænna.

Tillögur Vinstri grænna um lægri laun og hærri skatta er til merkis um að forystumenn flokksins séu afar illa meðvitaðir um launakjör fólksins í landinu.

x x x

En þó svo að tillögur Vinstri grænna um lækkun launa opinberra starfsmanna og hækkun skatta á heimilin í landinu komi á óvart, kemur það ekki síður á óvart að Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, láti sig hafa það að sitja hljóður undir þessum tillöguflutningi eigin flokks.

Ögmundur er nefnilega formaður B.S.R.B. ásamt því að vera ráðherra í ríkisstjórn.

Sú var tíð að Ögmundur Jónasson mátti ekki heyra á það minnst að kjör hans eigin félagsmanna yrðu skert.  En nú þegar hans eigin flokkur leggur til launalækkanir til handa félagsmönnum í B.S.R.B., og skattahækkanir í kaupbæti, þegir formaðurinn þunnu hljóði í stað þess að taka upp hanskann fyrir félagsmenn sína með okkur sjálfstæðismönnum.

Hugsanlegt er að ráðherrastóll Ögmundar sé svo þægilegur að hann hafi misst málið um leið og hann settist í hann.

x x x

Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki styðja þá aðför sem Vinstri grænir og Samfylkingin eru nú að leggja drög að gagnvart heimilunum í landinu.

Þvert á móti mun Sjálfstæðisflokkurinn berjast harkalega gegn áformum vinstrimanna um lægri laun og hærri skatta.

Ég trúi því ekki að fólkið í landinu muni kjósa stjórnmálaöfl sem hafa þá yfirlýstu stefnu að skerða kjör þeirra með þeim hætti sem vinstriflokkarnir hafa boðað.

Slíkt kallast á mannamáli að vera sjálfum sér verstur.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband