Darling tekinn á beinið

Eins og fram kemur í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu í dag hefur fjárlaganefnd breska þingsins komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið tilefni til þess að beita hryðjuverkalögum gegn íslenskum fyrirtækjum, að minnsta kosti hafi beiting þeirra verið mjög gagnrýniverð aðgerð.  Þetta kemur fram í skýrslu nefndarinnar sem gerð var opinber í gærkvöldi.

Í skýrslunni kemur fram að Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, hafi rangtúlkað orð Árna M. Matthiesen, fyrrum fjármálaráðherra Íslands, í frægu símtali sem þeir áttu þann 7. október sl., daginn eftir að neyðarlögin svokölluðu voru sett og bankakerfið á Íslandi hrundi.

Í skýrslunni segir m.a.:

,,Útskrift af samtali fjármálaráðherrans við íslenska fjármálaráðherrann staðfestir ekki að íslenska ríkisstjórnin hafi haldið því fram að hún myndi ekki virða skuldbindingar sínar."

Rangtúlkun Alistair Darling á orðum Árna Mathiesen og beiting hryðjuverkalaganna reyndist íslensku þjóðinni dýrkeypt.  Þó staða íslensku fjármálafyrirtækjanna hafi verið erfið á þeim tíma sem Bretar beittu okkur hryðjuverkalögum er ljóst að framganga Breta í garð íslensku þjóðarinnar gerði það að verkum að landið sökk dýpra ofan í þá efnahagskreppu sem fyrir var og skaðaði orðstýr þjóðarinnar með stórkostlegum hætti á alþjóðavettvangi.

Í skýrslunni kemur fram að fjárlaganefndin breska telji augljóst að beiting hryðjuverkalaganna hafi haft mikil áhrif á tilraunir íslenskra stjórnvalda til að verja íslenska bankakerfið falli.  Sú yfirlýsing er auðvitað mikilvæg í ljósi þess að mikil orka fer í það þessa dagana hjá andstæðingum Sjálfstæðisflokksins að kenna honum einum um það sem aflaga fór í aðdraganda og kjölfar bankahrunsins.

Það er auðvitað stórmál að bresk þingnefnd komist að niðurstöðu sem felur í sér svo afgerandi gagnrýni á störf eins af hæst settu ráðherrum landsins.  Ég á erfitt með að trúa öðru en að þess verði krafist að Alistair Darling verði krafinn afsagnar úr ráðherraembætti nú þegar leitt hefur verið í ljós hvers konar offorsi sá maður hefur beitt í embættisfærslum sínum með þeim afleiðingum sem öllum eru kunn.

Að minnsta kosti er ljóst að íslenska þjóðin mun senda þeim þingmanni á breska þinginu sem krefst afsagnar ráðherrans hlýjar kveðjur.

Niðurstaða bresku fjárlaganefndarinnar í sér mikinn sigur fyrir okkur Íslendinga.  Hún styrkir óneitanlega réttarstöðu þeirra íslensku fyrirtækja sem leita vilja réttar síns fyrir breskum dómstólum, en hún gerir samningstöðu íslenskra stjórnvalda gagnvart þeim bresku mun sterkari en áður.

Það varðar því miklum þjóðarhagsmunum að íslensk stjórnvöld nýti sér niðurstöðu bresku fjárlaganefndarinnar til fulls í komandi samningaviðræðum.

Ég tók þátt í stuttum umræðum um skýrslu bresku fjárlaganefndarinnar á Alþingi í dag.

Þar óskaði ég eftir því við forseta Alþingis að efni skýrslunnar og fyrirhuguð viðbrögð ríkisstjórnarinnar við henni yrðu rædd á Alþingi strax á mánudag, enda tel ég málið varði svo mikla þjóðarhagsmuni að Alþingi Íslendinga geti ekki og megi ekki láta hjá líða að ræða málið.

Alþingi Íslendinga hefur þegar líst með formlegum hætti andúð sinni á framferði breskra stjórnvalda þegar þeir beittu okkur Íslendinga hryðjuverkalögum.

Þegar Alþingi samþykkti frumvarp mitt um fjárhagslega fyrirgreiðslu vegna málsókna gegn breskum stjórnvöldum fyrir áramót sendi Alþingi frá sér þau pólitísku skilaboð til breskra stjórnvalda um að við Íslendingar hefðum fullkomna skömm á framferði þeirra gegn okkur, Íslendingar væru ekki hryðjuverkamenn og sættu sig ekki við að vera meðhöldlaðir sem slíkir.

Nú stígum við næsta skref í þessu máli.

Vonandi mun ríkisstjórn Íslands hafa burði til þess að sinna því hlutverki sínu og gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar með vinunandi hætti.

Henni veitir ekki af.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband