Nýir tímar í Sjálfstæðisflokknum

Glæsilegum og afar vel heppnuðum Landsfundi Sjálfstæðisflokksins lauk á sunnudag.

Á fundinum kusum við sjálfstæðismenn okkur nýja og glæsilega forystu.

Óhætt er að segja að á Landsfundinum hafi sjálfstæðismenn gert upp þá atburðarás sem leiddi til hruns bankakerfisins, en jafnframt birtist í ályktunum fundarins sú framtíðarsýn og stefnumörkun sem við sjálfstæðismenn munum leggja áherslu á í komandi alþingiskosningum.

Í kjölfar þeirra atburða sem átt hafa sér stað í íslensku efnahagslífi er það að sjálfsögðu mikilvægt að allir stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn líti yfir farinn veg og horfist í augu við það sem betur hefði mátt fara.  Það höfum við sjálfstæðismenn nú gert.

En það er ekki síður mikilvægt að flokkarnir marki stefnu sína til framtíðar og segi kjósendum hvernig þeir hyggist standa að endurreisn efnahagslífsins.

Eins og fram kemur í stjórnmálaályktun Landsfundar Sjálfstæðisflokksins þá mun Sjálfstæðisflokkurinn leggja alla áherslu á endurreisn bankakerfisins, tryggja að hjól atvinnulífsins komist af stað á nýjan leik svo tryggja megi atvinnu fyrir fólkið í landinu, en auk þess og ekki síður ætlum við að styðja og vernda heimilin í landinu.

Á þessum grunni mun Sjálfstæðisflokkurinn byggja kosningabaráttu sína.

Bjarni Benediktsson, alþingismaður, var kjörinn nýr formaður Sjálfstæðisflokksins á Landsfundinum og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var endurkjörin varaformaður.

Sjálfur lýsti ég strax yfir stuðningi við Bjarna Benediktsson þegar hann lýsti yfir framboði til formanns.  Ástæðan er sú að ég veit að Bjarni hefur allt sem til þarf til þess að leiða Sjálfstæðisflokkinn á komandi árum og afla honum fylgis á grundvelli þeirrar stefnu sem flokkurinn er byggður á og þeirra sjónarmiða sem hann hefur sett fram og vill berjast fyrir við það endurreisnarstarf sem framundan er í íslensku samfélagi.

Við Bjarni höfum verið nánir samstarfsmenn á Alþingi og í þingflokki okkar sjálfstæðismanna síðan við tókum saman sæti á Alþingi árið 2003, en áður höfðum við verið samstarfsmenn í okkar lögfræðistörfum.

Ég þekki því vel til Bjarna Benediktssonar, hans starfa og þeirra sjónarmiða sem hann mun leggja til grundvallar í formennskutíð sinni í Sjálfstæðisflokknum.  Ég er sannfærður um að Bjarni á eftir að verða öflugur, traustur og vinsæll formaður Sjálfstæðisflokksins.

Með kjöri Bjarna Benediktssonar eiga sér stað kynslóðaskipti í forystu Sjálfstæðisflokksins auk þess sem kjör hans markar upphaf nýrra tíma í Sjálfstæðisflokknum.

Um leið og ég óska honum til hamingju þakka ég Geir H. Haarde fyrir hans miklu og góðu störf í þágu þjóðarinnar og Sjálfstæðisflokksins.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband