Ekki gera ekki neitt

Með nýjum lögum um Seðlabanka Íslands réðst ríkisstjórnin í umfangsmikla uppstokkun á yfirstjórn bankans og skipaði sérstaka peningastefnunefnd.  Sagt var að breytingarnar myndu hafa mikla þýðingu fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.

Niðurstaðan liggur nú fyrir.  Seðlabanki Íslands og peningastefnunefnd hans tilkynntu á fimmtudag að stýrivextir yrðu lækkaðir um 1%.  Það er allt og sumt.

Það þýðir að peningastefnunefnd ætlar að lækka stýrivexti úr 18% í 17%.

1% stýrivaxtalækkun er blaut tuska framan í heimili og fyrirtæki þessa lands.  Ákvörðun Seðlabankans og peningastefnunefndarinnar er í raun ákvörðun um að gera ekki neitt.  Rekstrarumhverfi fyrirtækja og heimila er alveg jafnslæmt hvort sem stýrivextir eru 17% eða 18%.

Ríkisstjórn Íslands, sem segist ætla að slá skjaldborg um heimilin og fyrirtækin í landinu, getur ekki sætt sig við svo litla lækkun.  Hún verður að grípa til tafarlausra aðgerða.

Vilji stjórnvöld, ríkisstjórn og Seðlabanki Íslands beita sér fyrir því að bæta kjör almennings og fyrirtækja er nauðsynlegt og skynsamlegt að grípa nú þegar til þess ráðs að lækka stýrivexti verulega og grópa til róttækra aðgerða til að treysta rekstur fyrirtækjanna og létta undir með þeim.  1% lækkun stýrivaxta er ekki aðgerð af því tagi.

Undir venjulegum kringumstæðum veikir lækkun stýrivaxta gengi gjaldmiðla.  Á Íslandi eru aðstæður nú hins vegar ekki venjulegar og hafa raunar ekki verið lengi.  Háir stýrivextir þjóna við núverandi aðstæður ekki þeim tilgangi að verja gengi krónunnar.

Með gildandi gjaldeyrishöftum voru gríðarlegar hömlur settar á flutning fjármagns úr landi.  Að sama skapi var þeim sem afla sér tekna erlendis gert skylt að flytja fjármuni sína til Íslands að viðlagðri refsiábyrgð.  Við slíkar aðstæður er allt að því ómögulegt að rökstyðja hvers vegna stýrivextir eru svona háir.  Rökréttara væri að þeir væru afar lágir.

Heimilin í landinu þola ekki þessi vaxtakjör.  Það gera fyrirtækin ekki heldur.  Það ætti öllum að vera orðið ljóst.  Þeir koma afar illa niður á almenningi og atvinnufyrirtækjum og halda þeim í rekstrarlegri herkví.  Það verður tafarlaust að lækka vextina og það verulega.

Flestir virðast sammála um mikilvægi slíkra aðgerða og það er ekki eftir neinu að bíða.  Nú verða stjórnvöld að fara að einbeita sér að því sem máli skiptir og setja hag almennings og rekstur fyrirtækja í forgang og reyna að tryggja að hann geti borið sig þrátt fyrir afleitar aðstæður á fjármálamarkaði.  Þeim er nú beinlínis lífsnauðsynlegt að geta fjármagnað sig á viðunandi kjörum, sem ekki hafa verið í boði lengi.

Með því að lækka vexti með myndarlegum hætti nú hefðu stjórnvöld og Seðlabankinn treyst grundvöll atvinnulífsins og enduruppbyggingu þess og dregið úr hættu á frekara atvinnuleysi.

Nú verða stjórnvöld, seðlabanki og peningastefnunefnd að sýna í verki að þau beri eitthvað skynbragð á þann vanda sem heimilin og fyrirtækin í landinu eiga við að etja.  1% stýrivaxtalækkun á fimmtudag bar þess ekki merki.

Ég skora á Seðlabanka Íslands og peningastefnunefndina að endurskoða ákvörðun sína og lækka vexti verulega nú þegar til hagsbóta fyrir almenning og fyrirtækin í landinu.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Greinin birtist í Morgunblaðinu hinn 24. mars 2009.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband