Línurnar farnar að skýrast

Nú eru línurnar farnar í skýrast í íslenskum stjórnmálum.

 

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, lýsir því yfir í Fréttablaðinu í dag að hann vilji áframhaldandi samstarf ríkisstjórnarflokkanna eftir alþingiskosningarnar í vor.  Vinstristjórn sé það sem koma skal á Íslandi.

 

Í svipaðan streng tók Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og verðandi formaður Samfylkingarinnar.  Þar kom fram að hún vildi áframhaldandi stjórnarsamstarf með Steingrími og útilokaði ekki að flokkarnir tveir, Samfylking og Vinstri grænir, gengju bundnir til kosninga.

 

Björgvin G. Sigurðsson, fyrrum viðskiptaráðherra og oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, gengur í pistli á vefsíðu Björns Inga Hrafnssonar, pressan.is.  Þar lýsir Björgvin þeim draumi sínum vinstri flokkarnir á Íslandi bjóði saman fram og myndi kosningabandalag.

 

Ég held að viðhorf Björgvins lýsi ágætlega þeim draumi Samfylkingarfólks að taka Vinstrihreyfinguna grænt framboð yfir með tíð og tíma.  Þó sameining íslenskra vinstrimanna hafi mistekist þegar Steingrímur J. neitaði að verða hluti af samfylkingu þeirra sýnist mér að Björgvin og félagar séu ekki að baki dottnir í þeirri viðleitni sinni.

 

Einkennilegust er hins vegar staða Framsóknarflokksins í öllum þessum bollaleggingum. Það vekur auðvitað athygli að þegar forystumenn Samfylkingar og Vinstri grænna tala um áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf sjá þeir enga ástæðu til að minnast á Framsóknarflokkinn.  Raunar láta þeir eins og Framsóknarflokkurinn skipti engu máli við myndun nýrrar ríkisstjórnar, ekki frekar en þeir taka á honum minnsta mark um þessar mundir.

 

Það er athyglisvert að á sama tíma og Framsóknarflokkurinn ver minnihlutastjórn vinstriflokkanna vantrausti, lýsir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, því yfir að hann hafi orðið fyrir vonbrigðum með ríkisstjórnina.

 

Hann hefur líka lýst Samfylkingunni sem „loftbólustjórnmálaflokki“.  Hvað í því hugtaki felst, veit ég ekki.  En þó þykist ég vita að þar er ekki hrós á ferðinni í garð Samfylkingarinnar sem stjórnmálaflokks.

 

Engu að síður ver Sigmundur Davíð og flokkur hans minnihlutastjórn, Samfylkingar og Vinstri grænna vantrausti, og hefur auk þess lýst því yfir að hann vilji að mynduð verði vinstristjórn að loknum alþingiskosningum með aðild Framsóknarflokksins.

 

Ég held að það væri verðugt verkefni fyrir lesendur þessarar síðu að reyna að átta sig á því hversu margar mótsagnir hafa komið fram í málflutningi forystumanna Framsóknarflokksins á síðustu vikum um þessi mál.

 

Ég ætla að minnsta kosti ekki að leggja það á mig að reyna að botna í framgöngu framsóknarmanna, enda er hún í mínum huga allt að því óskiljanleg.

 

Hvað sem öllu þessu líður er ljóst línurnar virðast vera að skýrast í íslenskum stjórnmálum nú í aðdraganda alþingiskosninga.

 

Það bendir allt til þess að kjósendur fái að velja á milli nokkuð skýrra kosta í kosningunum.

 

Annars vegar vinstri-sósíalíska ríkisstjórn sem leggja mun áherslu á umfangsmikil ríkisumsvif, mikla skattheimtu og útgjaldapólitík, og hins vegar ríkisstjórn frjálslyndra og borgaralegra afla.

 

Valið ætti ekki að verða erfitt.

 

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband