Þakkir!

Ég vil nota tækifærið og þakka innilega fyrir þann mikla og breiða stuðning sem ég hlaut í prófkjöri okkar sjálfstæðismanna í Reykjavík sem haldið var nú um helgina.

 

Niðurstaða prófkjörsins liggur nú fyrir og ég endaði í 5. sæti, sem þýðir að ég mun skipa 3. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í öðru Reykjavíkurkjördæminu fyrir komandi alþingiskosningar.  Keppnin milli mín og Ólafar Nordal, alþingismanns, um 4. sætið í prófkjörinu var æsispennandi og á endanum munaði einungis 60 atkvæðum á okkur tveimur.

 

Ég er afar þakklátur fyrir þá niðurstöðu sem ég hlaut og ekki síður með það hversu margir sjálfstæðismenn greiddu mér atkvæði sitt eða alls 4.676.

 

Ég vil líka nota tækifærið og þakka fyrir þá miklu velvild sem ég fann í minn garð í þessu prófkjöri.  Það var ótrúlegt að fylgjast með því hversu margir einstaklingar voru reiðubúnir að leggja lóð sitt á vogarskálarnar og vinna fyrir mig í prófkjörinu.  Fyrir það er ég afskaplega þakklátur og þakka öllum þeim sem veitt mér aðstoð í þessari baráttu.

 

Að mínu mati fór þetta prófkjör okkar sjálfstæðismanna í Reykjavík ákaflega vel fram.  Auglýsingum var stillt í hóf og kosningabaráttan byggðist fyrst og fremst á málefnalegum grunni.  Það er sérstakt ánægjuefni enda eiga kosningabarátta að snúast um innihald fremur en umbúðir.

 

Ég er stoltur af minni kosningabaráttu.  Ég tel að hún hafi verið málefnaleg, jákvæð og uppbyggileg frá upphafi til enda.  Sjálfur ritaði ég fjölmargar greinar í blöð og setti fram hugmyndir á heimasíðu minni og á fundum með frambjóðendum um lausn þeirra vandamála sem við samfélaginu okkar blasa.  Á þeim sömu nótum störfuðu stuðningsmenn mínir.  Sjálfur vona ég að þau málefni sem ég beitti mér fyrir verði veganesti fyrir Sjálfstæðisflokkinn í komandi alþingiskosningum.

 

Ég hef tekið eftir því að ýmsir álitsgjafar hafa verið að túlka niðurstöður í prófkjörum okkar Sjálfstæðismanna um allt land með þeim hætti að niðurstaða þeirra feli ekki í sér neina endurnýjun.

 

Ég er ósammála slíkum sjónarmiðum.

 

Úrslit þeirra prófkjara sem fram hafa farið á vegum Sjálfstæðisflokksins fela í sér kynslóðaskipti í forystu flokksins bæði með tilliti til aldurs og lengdar þingsetu.  Í raun eru kynslóðaskiptin í Sjálfstæðisflokknum miklu skýrari en hjá vinstri flokkunum.  Hjá Samfylkingu og Vinstri grænum munu sömu aðilar vera í lykilhlutverkum og verið hafa á síðustu árum og áratugum.

 

Innan Sjálfstæðisflokksins er hins vegar ljóst að nýtt fólk mun verða í forystu fyrir flokkinn í komandi alþingiskosningum.  Í því sambandi er ástæða til að minna á að mjög margir burðarásar úr forystusveit Sjálfstæðisflokksins hverfa af vettvangi stjórnmálanna eftir næstu alþingiskosningar eða eru nýhættir stjórnmálaafskiptum.

 

Nægir þar að nefna að formaður Sjálfstæðisflokksins, Geir H. Haarde, stígur nú til hliðar og verður ekki í framboði í fyrsta skipti síðan árið 1987.  Jafnframt hverfa af vettvangi þeir Björn Bjarnason, Árni M. Matthiesen, Sturla Böðvarsson, auk Guðfinnu S. Bjarnadóttur, en stutt er síðan Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og Halldór Blöndal, fyrrverandi forseti Alþingis, hurfu af vettvangi.

 

Þessar staðreyndir sýna að mikil endurnýjun hefur átt sér stað í forystusveit Sjálfstæðisflokksins.

 

Þá verður ekki annað séð en að staða kvenna í Sjálfstæðisflokknum hafi styrkst frá síðustu kosningum.  Munar þar mestu um niðurstöðu prófkjara í Suðurkjördæmi og í Kraganum, en í Reykjavík er staða kvenna sambærileg frá því sem var fyrir síðustu alþingiskosningar.

 

Nokkuð hefur verið rætt um að kjörsókn í prófkjöri okkar sjálfstæðismanna í Reykjavík hafi verið dræm.  Það er rétt að kjörsókn minnkaði nokkuð sé miðað við síðasta prófkjör okkar árið 2006.  Á hinn bóginn má benda á að nokkur hunduð fleiri sjálfstæðismenn tóku þátt í prófkjörinu nú en árið 2002.  Í ljósi þess má segja að þátttaka í prófkjörinu nú hafi verið býsna ásættanleg.

 

Að lokum vil ég þakka keppinautum mínum í prófkjörinu fyrir drengilega kosningabaráttu og óska þeim öllum til hamingju með árangur sinn.

 

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband