Fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskrá - Þeim getur ekki verið alvara

Í gær var frumvarp til breytinga á stjórnarskrá Íslands lagt fram á Alþingi.  Flutningsmenn frumvarpsins eru Jóhanna Sigurðardóttir, Birkir J. Jónsson, Steingrímur J. Sigfússon og Guðjón A. Kristjánsson.

Í frumvarpinu er meðal annars lagt til að fest verði í stjórnarskrá nýtt ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur, en í ákvæðinu segir:

,,Frumvarp til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari má bera upp á Alþingi.  Þegar Alþingi hefur samþykkt frumvarpið skal það borið undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu í leynilegri atkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar.  Atkvæðagreiðslan skal fara fram í fyrsta lagi einum mánuði og í síðasta lagi þremur mánuðum eftir samþykkt frumvarppsins á Alþingi.  Sé meirihluti gildra atkvæða fylgjandi frumvarpinu, þó minnst 25 af hundraði allra kjósenda á kjörskrá, skal það staðfest af forseta Íslands og öðlast þá gildi sem stjórnskipunarlög.“

Þetta þýðir á mannamáli að einungis 25% kosningabærra manna í landinu getur breytt stjórnarskránni, grundvallarlögum lýðveldisins.

Það þýðir að lítill hluti þjóðarinnar getur samþykkt grundvallarbreytingar á stjórnskipan landsins, fullveldi þess og þeim réttindum sem borgurunum eru tryggð í stjórnarskánni.

Ég trúi því ekki að flutningmönnum frumvarpsins sé alvara með þessum tillöguflutningi.

Það hlýtur að mínu mati að vera lágmarkskrafa að breytingar á stjórnarskránni þurfi að hljóta samþykki að minnsta kosti meirihluta þjóðarinnar til þess að þær öðlist gildi.

Það er einfaldlega ekki í samræmi við þau grundvallarsjónarmið lýðræðisins sem ég aðhyllist að einungis 25% þjóðarinnar geti knúið fram breytingar á sjálfri stjórnarskránni.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband