Starfsumhverfi fjölmiðla

Undir lok síðasta árs skipaði þáverandi menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, starfshóp sem ætlað var að fara yfir starfsumhverfi fjölmiðla og leggja fram tillögur til úrbóta.

Í starfshópnum tóku sæti ásamt mér þau Magnús Þór Hafsteinsson, fulltrúi Frjálslynda flokksins, Pétur Gunnarsson, fulltrúi Framsóknarflokksins, Kolbrún Halldórsdóttir, fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, og Skúli Helgason, fulltrúi Samfylkingarinnar. Þá var Steingrímur Sigurgeirsson, þáverandi aðstoðarmaður menntamálaráðherra, skipaður formaður.

Starfshópurinn fundaði stíft um viðfangsefnið, fékk til fundar við sig fjöldan allan af gestum og viðaði að sér upplýsingum úr öllum áttum um stöðu og horfur á íslenskum fjölmiðlamarkaði.

Um þá stöðu þarf í sjálfu sér ekki að fara mörgum orðum.  Samkeppnisstaða á fjölmiðlamarkaði er ekki jöfn.  Sú forgjöf sem Ríkisútvarpið nýtur umfram einkarekna fjölmiðla í formi afnotagjalda og útvarpsgjalds skekkir samkeppnisstöðuna.  Þar við bætist að Ríkisútvarpið hefur keppt við einkarekna fjölmiðla um tekjur af sölu auglýsinga.

Auglýsingamarkaðurinn á Íslandi hefur á síðustu mánuðum ekki einungis dregist saman heldur beinlínis hrunið.

Það þýðir að starfsumhverfi einkarekinna fjölmiðla um þessar mundir er afar erfitt enda treysta þeir mjög á auglýsingatekjur í rekstri sínum.

Í ljósi þess lagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi menntamálaráðherra, fram frumvarp í lok árs um breytingar á lögum um Ríkisútvarpið.  Það frumvarp mælti fyrir um minni fyrirferð Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði í sjónvarpi.

Við meðferð frumvarpsins í menntamálanefnd Alþingis, gerði ég sem þáverandi formaður nefndarinnar þá tillögu að afgreiðslu þess yrði frestað fram yfir áramót.  Þó ég hafi alltaf verið þeirrar skoðunar að takmarka bæri fyrirferð Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði taldi ég eðlilegt að samhliða slíkum takmörkunum yrðu mótaðar reglur um auglýsingar í útvarpi auk reglna um eignarhald á fjölmiðlum.

Ég gerði það jafnframt að tillögu minni að starfshópi menntamálaráðherra yrði falið að útfæra reglur um auglýsingamarkaðinn og eignarhald á fjölmiðlum og að hópurinn skyldi skila tillögum sínum fyrir 15. febrúar 2009.

Ástæðan fyrir því að ég vildi gefa starfshópi menntamálaráðherra svo stuttan frest til að skila tillögum sínum var sú að ég taldi nauðsynlegt að íslensku fjölmiðlafyrirtækin fengju að vita sem fyrst hvernig framtíðarstarfsumhverfi þeirra yrði háttað.  Slíkt taldi ég mikilvægt í ljósi þess að öll íslensku fjölmiðlafyrirtækin berjast nú í bökkum, óljóst er um framtíð sumra þeirra og þess fólks sem þar starfar.

Starfshópur menntamálaráðherra hélt áfram störfum eftir áramót þar sem ræddar voru hugmyndir um útfærslur á reglum um takmörkun á þátttöku Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði í útvarpi og sjónvarpi, um dreift eignarhald fjölmiðlafyrirtækja og fleiri þætti sem til skoðunar koma í vinnu sem þessari.

Í aðdraganda og við stjórnarslit ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar fjaraði hið mikla starf starfshóps fyrrverandi menntamálaráðherra út.

Engir fundir hafa verið haldnir eftir stjórnarslitin og engum áformum hefur verið lýst af hálfu núverandi menntamálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, um framhald vinnunnar.

Þau viðfangsefni sem okkur var ætlað að fjalla um eru því óleyst.

Íslenskir fjölmiðlar eru því nú í lausu lofti um það hvort starfsumhverfi þeirra muni breytast í þá veru sem til stóð í tíð fyrrverandi menntamálaráðherra.

Algjör óvissa er um framtíð starfshópsins sem fyrrverandi menntamálaráðherra skipaði.  Engir fundir eru fyrirhugaðir, eftir því er ég best veit, og eins og áður segir hefur Katrín Jakobsdóttir ekki gefið okkur sem í starfshópnum störfuðum nein fyrirheit um framhald þeirrar miklu vinnu sem við höfum lagt í þetta verkefni.

Slíkt er afar óheppilegt við þær aðstæður sem nú eru uppi á íslenskum fjölmiðlamarkaði, þar sem óljóst er um framtíðareignarhald sumra þeirra og störf fjölmargra starfsmanna eru í uppnámi.

Og starfshópurinn er fallinn á tíma.

Samkvæmt þeirri tillögu sem ég gerði um hröð og fumlaus vinnubrögð átti hann að skila tillögum sínum í gær, sunnudaginn 15. febrúar.

Það væri verðugt verkefni fyrir fjölmiðla þessa lands að spyrja Katrínu Jakobsdóttur, menntamálaráðherra, hvað hún hyggist gera varðandi framtíðarstarfsumhverfi íslenskra fjölmiðla.

Það er mér hulin ráðgáta, og sit ég þó enn í starfshópi um starfsumhverfi fjölmiðla, eftir því sem ég best veit.

Verra er að það starfsfólk fjölmiðla sem hugsanlega á yfir höfði sér atvinnumissi hefur ekki hugmynd um framtíðarstarfumhverfi þeirra fyrirtækja sem það starfar hjá.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband