Rýrt í roðinu

Minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs hefur nú tekið við stjórnartaumunum, varin vantrausti af Framsóknarflokknum.

Um leið og ég óska Jóhönnu Sigurðardóttur til hamingju með að vera fyrsta konan til þess að gegna embætti forsætisráðherra á Íslandi, hlýt ég að lýsa miklum vonbrigðum mínum með þá verkefnaskrá sem minnihlutastjórnin hefur kynnt.

Það sem veldur vonbrigðum er að eftir vikulanga fundalotu forystumanna stjórnarflokkanna, sem í fjölmiðlum var sögð ganga eins og í sögu, hafi afurðin ekki verið merkilegri en raun ber vitni.  Verkefnaskrá þessarar ríkisstjórnar er svo rýr í roðinu að leita þarf langt aftur í stjórnmálasöguna til þess að finna hliðstæðu.  Hún er í heild svo almennt orðuð að erfitt er að festa hendur á hver stefna nýrrar ríkisstjórnar er í mörgum af mikilvægustu málaflokkum þjóðarinnar.

Í verkefnaskrá minnihlutastjórnarinnar segir;

  • Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum.
  • Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum.
  • Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í gjaldmiðilsmálum.
  • Ekkert um stefnumörkun ríkisstjórnarinnar vegna deilunnar við bresk stjórnvöld um uppgjör vegna Icesave-reikninganna, þrátt fyrir að yfir íslenska ríkinu vofi krafa að fjárhæð 700 milljörðum íslenskra króna.
  • Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í samgöngumálum.
  • Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í menntamálum.
  • Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum.
  • Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum.
  • Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í landbúnaðarmálum.
  • Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum, annað en það að Evrópunefnd skili skýrslu fyrir 15. apríl næstkomandi.

Nefna mætti fleiri málaflokka þar sem hin nýja ríkisstjórn skilar auðu og hefur enga yfirlýsta stefnu.  Það dylst hins vegar engum að þessi verkefnaskrá er ekki gæfulegt veganesti fyrir ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra.

Stefnuleysi ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum vekur auðvitað sérstaka athygli ekki síst í ljósi þess að í ríkisstjórnarsamstarfi okkar sjálfstæðismanna og Samfylkingarinnar lagði Samfylkingin ofuráherslu á Evrópumálin.  Svo langt var gengið að formaður flokksins, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, lýsti því yfir að breytti Sjálfstæðisflokkurinn ekki stefnu sinni í Evrópumálum væri ríkisstjórnarsamstarfinu sjálfhætt.

En nú virðast Evrópumálin hafa gufað upp í hugum Samfylkingarfólks og verið tekin af dagskrá.

Einu atriði í þessari verkefnaskrá vil ég þó fagna sérstaklega.  Verkefnaskráin ber það nefnilega með sér að Vinstri grænir hafi kúvent stefnu sinni í stóriðjumálum.  Í verkefnaskránni segir að engin ný áform um álver verði á dagskrá ríkisstjórnarinnar.  Þá yfirlýsingu er ekki hægt að skilja öðruvísi en svo að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna muni halda áfram vinnu við þau verkefni sem þegar eru áformuð og varða uppbyggingu stóriðju í Helguvík og á Bakka við Húsavík.  Í því felast auðvitað mikil tíðindi þegar hafðar eru í huga fyrri yfirlýsingar forystumanna Vinstri grænna um þessar framkvæmdir.

Að öðru leyti sýnir verkefnaskrá hinar nýju ríkisstjórnar svart á hvítu að núverandi stjórnarflokkar hafa í raun ekki getað komið sér saman um neitt annað en völd.

Sú staðreynd er auðvitað afleit við þær aðstæður sem uppi eru í íslensku samfélagi.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Grein þessi birtist í Fréttablaðinu í dag.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Íslenska þjóðin stendur frammi fyrir mestu efnahagsþrengingum í sögu sinni. Hvað gerir Sjálfstæðisflokkurinn í stöðunni?

Skælir undan því að tapa embætti forseta Alþingis í lýðræðislegri kosningu. Þykir hróplega vegið að leiðtoga lífs síns þegar rætt er um að setja hann af úr því embætti sem hann veitti sér sjálfur með viljaleysi arftaka hans sjálfs að vopni. Hamast yfir því að ekki skyldi ganga meira undan nýrri ríkisstjórn á fjórum dögum en gekk undan þeirra eigin á fjórum mánuðum, en þegar fram koma frumvörp sem eru keimlík þeim sem einhver ykkar hafði sett á blað áður, þá er skrækt yfir því að einhver hafi kíkt yfir öxlina á ykkur í stað þess að segja bara frábært, samþykkt, næsta.

Hættu að væla yfir því að þóftan sé hörð og taktu til við að róa.

Sigurður Ingi Jónsson, 6.2.2009 kl. 16:17

2 Smámynd: Sigurbjörn Svavarsson

Sæll. Sigurður Kári.


Ég stóðst ekki mátið að senda þér þetta vegna ICESAVE þó að athugasemdin sé ekki á réttum stað. Þú hefur einn sjálfstæðismann gert eitthvað í þessu máli. Þetta mál er svo mikilvægt að manni svíður í sálina.

Nú hefur skilanefnd Kaupþings gefið okkur mynd af útkomunni á þeim bæ. Rúmlega 80% af eignum Kaupþings tapast. Ef útkoman verður svipuð hjá Landsbankanum úr skilanefnd, mun ekkert nást uppí Icesave helsið, það verður nær 700, en "aðeins" 150 milljörðum sá reikningur. Ef íslenskir stjórnmálamenn ætla að samþykkja þau lán, þá er það meira en landráð. Það væri að setja íslenska þjóð í ánauð lengur en barnabörn þeirra sjálfra lifðu. "Ljómi" þeirra stæði í sögubókum svo lengi sem íslensk þjóð væri til. Betra er að vera hér uppá sjálfþurftarbúskap í einn eða tvo áratugi en að taka við þeim bikar.Stjórnmálamenn munu þurfa að taka afstöðu í apríl, þá liggur uppgjör Landsbankans fyrir, því þetta verður kosningamálið, allt annað verður hljóm eitt.

Kveðja

Sigurbjörn


http://duddi9.blog.is/blog/duddi/

http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2009/02/05/kaupthing_skuldar_2432_milljarda/

Sigurbjörn Svavarsson, 6.2.2009 kl. 22:37

3 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

"Hjóm eitt" átti það að vera hjá síðasta ræðumanni, en þannig er nú þessi "Ekkertruna" þingmannsins í samanburði við vandan er blasir við og hans flokkur ber meginábyrgð á!

Magnús Geir Guðmundsson, 7.2.2009 kl. 00:30

4 Smámynd: Gísli Reynisson

er mjög hlynntur nýju stjórninni og mjög feginn að sjálfstæðisflokkurinn sé farin frá völdum. 

www.aflafrettir.com

Gísli Reynisson, 7.2.2009 kl. 02:48

5 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Að sjálfstæðismenn ætla nú að leika hlutverk fórnarlambsins til að fá samúð hinnar "aumingjagóðu" þjóðar sinnar finnst mér persónulega lákúrulegt en vera má að það gagnist þeim. Ég skil ekki mína "aumingjagóðu" þjóð jafn vel og sá flokkur sem hefur haft mestan kjörþokka frá því fyrir lýðveldisstofnun.

Gísli Ingvarsson, 7.2.2009 kl. 13:18

6 identicon

Látið Sigurð Kára í friði! ÞIð sem viljið svíkja landið úr höndum sjálfstæðra! Svei ykkur!

Höskuldur Marselíusarson (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 10:08

7 identicon

Æ, blessaður slakaðu á. Þetta er 80 dag ríkisstjórn. Hún á eftir að stjórna landinu í aðeins lengri tíma en þú færð í sumarfrí á ári. Þó hún sé ekki með patentlausnir á öllu sem þið klúðruðuð á 18 ára ferli hefur hún í nógu að snúast þessa nokkra daga fram að kostningum. Þú ætlast þó ekki í alvöru til þess að þessi stjórn komi með fastmótaðar hugmyndir um evrópumálin á þessum stutta tíma? Er sjálfstæðisflokkurinn búinn að vinna sína vinnu í þeim málum? Þið mynduð gera öllum greiða með að láta fara sem minnst fyrir ykkur fram að kostningum.

Þorsteinn (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 11:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband