Stjórnarslit

Stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er lokið.  Geir H. Haarde tilkynnti fréttamönnum í Alþingishúsinu um endalok þessa ríkisstjórnarsamstarfs sem margir bundu miklar vonir við þegar til þess var stofnað í upphafi.

Aðdragandi þessara stjórnarslita var í raun býsna langur.  Þrátt fyrir að augljóst væri að ágreiningur væri milli flokkanna í ýmsum málum fór að kræla á alvarlegum titringi milli stjórnarflokkanna í kringum og í aðdraganda bankahrunsins.  Það kom okkur sjálfstæðismönnum til dæmis í opna skjöldu á haustmánuðum að tveir ráðherrar Samfylkingarinnar í ríkisstjórninni, þau Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, og Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, skyldu taka upp á því að taka undir með stjórnarandstöðunni á Alþingi og krefjast kosninga í stað þess að vinna í sameiningu úr þeim viðfangsefnum sem við blöstu.  Yfirlýsing þeirra var til merkis um uppgjöf ráðherranna tveggja.

Eftir því sem tíminn leið varð ljóst að ókyrrðin og ístöðuleysið innan þingflokks Samfylkingarinnar jókst.  Einhliða yfirlýsingar varaformanns Samfylkingarinnar, Ágústar Ólafs Ágústssonar, um að ganga skyldi til kosninga í vor,  sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður, tók síðar undir, báru hvorki vott um einlægan samstarfsvilja af þeirra hálfu né mikil heilindi í garð samstarfsflokksins.  Undir eðlilegum kringumstæðum eru ákvarðanir um örlög ríkisstjórnar teknar að höfðu samráði og með vitund samstarfsflokksins.

Steininn tók síðan úr þegar nokkrir af þingmönnum Samfylkingarinnar, þar á meðal varaformaðurinn Ágúst Ólafur, Lúðvík Bergvinsson, formaður þingflokksins, og Steinunn Valdís Óskarsdóttir, alþingismaður, tóku með lófataki undir kröfu fundar Samfylkingarfélags Reykjavíkur um að flokkurinn sliti eigin stjórnarsamstarfi.  Þeir þingmenn sem þannig ganga fram vita lítið út á hvað samstarf gengur.  Það sjá allir.

Atburðir helgarinnar voru viðburðarríkir en þeim lauk með yfirlýsingu Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, um stjórnarslit.  Í yfirlýsingu sinni sagði forsætisráðherra m.a.:

,,Rétt er að gera þingheimi grein fyrir því að ekki er um málefnalegan ágreining að ræða milli flokkanna heldur hefur krafa Samfylkingarinnar um að taka við forsætisráðuneytinu valdið trúnaðarbresti sem ekki er yfirstíganlegur.  Öllum má ljóst vera að krafa um að stjórnarforystan flytjist á milli flokka í ríkisstjórn getur ekki leitt til annars en stjórnarslita."

Það merkilega við þessi stjórnarslit er sú staðreynd að ekki var um málefnalegan ágreining að ræða milli flokkanna, heldur lágu aðrar ástæður þeim að baki, sem forysta Samfylkingarinnar þarf að skýra út hverjar eru.

Fyrir liggur að forysta Sjálfstæðisflokksins var reiðubúin til þess að standa að uppstokkun í ríkisstjórn og skiptingu ráðuneyta upp á nýtt, meðal annars með því að bjóða Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur stól fjármálaráðherra.  Þá hafði forysta flokksins lýst sig reiðubúna til að gera grundvallarbreytingar á skipulagi og stjórn Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands fyrir áramót.  Sá vilji var ítrekaður nú um helgina gagnvart forystu Samfylkingarinnar.  Það er því fullkominn fyrirsláttur og ómerkilegur málflutningur að halda því fram að þessi stjórnarslit hafi snúist um persónu Davíðs Oddssonar og setu hans í stóli bankastjóra Seðlabanka Íslands.  Þar lágu aðrar ástæður að baki.  Þar fyrir utan hóf Sjálfstæðisflokkurinn endurskoðun Evrópustefnustefnu sinnar, lýsti sig reiðubúinn til þess að vinna að endurskoðun stjórnarskrár, fara í frekari aðgerðir til aðstoðar heimilum og fyrirtækjum landsins og svo mætti lengi telja.  Ég tel að fáir hefðu gengið lengra til þess að koma til móts við sjónarmið Samfylkingarinnar en Geir H. Haarde hefur gert.

En hann gekk þó lengra, því um helgina gerði Samfylkingin þá kröfu, og setti það raunar sem skilyrði fyrir áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarfi, að Geir H. Haarde viki sem forsætisráðherra.  Sú krafa hefur af forystumönnum Samfylkingarinnar verið skýrð út með því að hann hafi verið svo slæmur ,,verkstjóri".  Þá hefur beinlínis verið sagt að nýtilkomin veikindi Geirs gerðu það að verkum að hann gæti ekki haldið áfram að mati Samfylkingarinnar.  Raunar hafa ýmis ummæli forystumanna Samfylkingarinnar í garð Geirs H. Haarde verið með þeim hætti að ég kæri mig ekki um að rifja þau upp, ekki síst í ljósi þess hversu mikla tillitssemi hann hefur sýnt þeim erfiðleikum sem herjað hafa á forystu Samfylkingarinnar á síðustu vikum og mánuðum.  Svo langt gekk Geir H. Haarde til þess að halda stjórnarsamstarfinu við Samfylkinguna áfram að hann lýsti sig reiðubúinn til þess að víkja úr sæti forsætisráðherra í stað staðgengils síns, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur.  Því boði var hafnað.

Ég velti því fyrir mér hvers vegna Samfylkingin féllst ekki á að Þorgerður Katrín tæki við stjórnartaumunum í stað Geirs, sem þau töldu svo veikan ,,verkstjóra".  Mér dettur einna helst í hug að Samfylkingin hafi ekki getað lifað við þá tilhugsun að fyrsta konan til þess að gegna embætti forsætisráðherra kæmi úr röðum okkar sjálfstæðismanna.

Hvort sem það er rétt eða ekki er ljóst að sú krafa forystu Samfylkingarinnar um að Geir H. Haarde viki úr embætti forsætisráðherra, ekki síst á þeim forsendum sem nefndar voru af hálfu þingmanna og ráðherra flokksins, felur í sér slíkt vantraust í hans garð og svo alvarlegan trúnaðarbrest að slíta varð þessu ríkisstjórnarsamstarfi.   Um það voru allir í þingflokki sjálfstæðismanna sammála.

Það var reyndar merkilegt að heyra að Samfylkingin hefði lagt til að Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, tæki við embætti forsætisráðherra af Geir.  Þá uppástungu heyrðum við sjálfstæðismenn fyrst á fréttamannafundi Ingibjargar Sólrúnar eftir að Geir hafði tilkynnt um stjórnarslit.  Fram að því hafði Samfylkingin talað um að fá utanaðkomandi einstakling sem nyti trausts til þess að taka við embættinu.  Hvort Samfylkingin hafði Þórólf Árnason í huga, Stefán Jón Hafstein, Dag B. Eggertsson eða einhvern annan veit ég ekki.  En tillagan um Jóhönnu var síðartilkominn tilbúningur af hálfu Samfylkingarinnar.

Það hefur verið afar sérstakt að fylgjast með yfirlýsingum ýmissa Samfylkingarmanna eftir að stjórninni var slitið.  Árni Páll Árnason, hinn ,,orðvari" þingmaður flokksins, sá ástæðu til að kalla fyrrum samstarfsfólk sitt öllum illum nöfnum og líkja Sjálfstæðisflokknum við bandalag fjölmargra skæruliðahópa!  Raunar er orðfæri Árna Páls og belgingurinn í honum orðinn þess eðlis að fólk er hætt að taka mark á honum.

En mér fannst sérstaklega ómerkilegt af honum að halda því fram í Kastljóssþætti Sjónvarpsins  að Sjálfstæðisflokkurinn hefði með öllum ráðum reynt að koma í veg fyrir að ríkisstjórnin færi í samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í kjölfar hruns fjármálakerfisins.  Eins og Geir H. Haarde, forsætisráðherra, upplýsti í sama þætti átti hann sjálfur frumkvæði að því að leita til sjóðsins um efnahagsaðstoð.  Árni Páll veit að þeir sem höfðu efasemdir innan ríkisstjórnarinnar um þá leið voru tveir ráðherrar Samfylkingarinnar, sem lengi þráuðust við.  Annar þeirra er nú forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir.

Nú hafa bæði formaður Samfylkingarinnar og varaformaður líst því yfir að þau vonist til að þeim takist að mynda nýja ríkisstjórn með Vinstrihreyfingunni grænu framboði með hlutleysi Framsóknarflokksins.  Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, neitaði því reyndar að viðræður ættu sér stað milli flokkanna í Kastljósi Sjónvarpsins eftir fund þeirra Ólafs Ragnars Grímssonar á Bessastöðum, en játaði þó að viðræður hefðu átt sér stað í vikunni fyrir stjórnarslit.  Sú játning segir auðvitað meira en mörg orð um hversu heiðarlegur samstarfsaðili Samfylkingin er í ríkisstjórn.

Fyrir utan hversu baneitraður kokteill vinstriflokkanna á Alþingi er, verður engu að síður fróðlegt að sjá um hvaða málefni þessir þrír flokkar ætla að sameinast.  Varla verður samstaða um samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, aðild að ESB eða uppbyggingu atvinnulífsins.

En takist að mynda vinstristjórn munu samstarfsflokkar Samfylkingarinnar hins vegar kynnast því fljótt hversu illa tætt Samfylkingin er sem flokkur.  Það vitum við sjálfstæðismenn að innan þingflokks Samfylkingarinnar er hver höndin uppi á móti annarri.  Þar hefur raunar verið stríðsástand þar sem nokkrar fylkingar eða flokksbrot takast á.  Ósamstaða er í afstöðu til grundvallarmála og metorðagirnd ýmissa þingmanna flokksins hefur skapað eitrað andrúmsloft innan þingflokksins.  Öllu þessu eiga verðandi samstarfsaðilar Samfylkingarinnar eftir að kynnast.  Sú reynsla er því miður ekki mjög eftirsóknarverð.

Sigurður Kári


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Sigurður Kári.

Þú ættir að fara yfir í Samfylkinguna.  Þú átt miklu meira heima þar Það er allt í lagi þótt að flokkar séu ekki alveg eins smurð vél þar sem enginn haggast, vegna þess að í flokkum er fólk en ekki vélar.  

Margrét St Hafsteinsdóttir, 27.1.2009 kl. 02:29

2 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Pottaglamrið fór með liðið á taugum. Fylgishrunið hjálpaði til. Innbyrðisátök gerðu útslagið.

BGS skilur FME eftir stjórnlaust. ISG skilur þjóðina eftir stjórnlausa.

Þjóðin getur aldrei treyst þessu fólki aftur.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 27.1.2009 kl. 08:26

3 Smámynd: Elfur Logadóttir

Óttaleg fórnalömb er blessaður Sjálfstæðisflokkurinn, enginn gerandi í eigin stjórnarsamstarfi. Trúirðu raunverulega eigin orðum Sigurður Kári?

Elfur Logadóttir, 27.1.2009 kl. 11:13

4 identicon

Sæll Sigurður Kári

Ég vil byrja á því að taka það fram að ég er óflokksbundinn. Ég frekar kjósa einstaklinga  en flokka.

Hinsvegar er ég orðinn rosalega þreyttur á þessum pólitíska skrípaleik. Sem leikskólakennari fylgist ég daglega með þroskaðri leikjum en þið hafið leikið undanfarnar vikur og mánuði.

Aðlalatriði málsins er að þið sjálfstæðismenn berið mesta pólitíska ábyrgð á ástandi þjóðarinnar. Sama hvað þú skrifar langa pistla um pólitíska skrípaleiki getur þú ekki neitað þeirri staðreynd.

Að sjálfsögðu berandi alla þessa ábyrgð áttuð þið strax að viðurkenna mistök ykkar og segja af ykkur.

Ég er þeirrar skoðunar að þegar að menn eru búnir að setja fyrirtæki á hausinn eiga þeir ekki að geta skipt um kennitölu og haldið áfram sama leiknum. Það er rangt.

Þið með ónýtu regluverki keyrðuð landið í þrot. Því fyrr sem þið viðurkennið það og hættið þessum sandkassaleik því fyrr getið þið gert ykkur gildandi aftur.

Virðing

Haraldur F Gíslason

Haraldur F Gíslason (IP-tala skráð) 27.1.2009 kl. 11:27

5 Smámynd: hilmar  jónsson

Æ mig aumann. Opnið nú hlið undirdjúpanna og kallið á Hannes og Davíð til hjálpar.

Ekki veitir af.

hilmar jónsson, 27.1.2009 kl. 12:23

6 identicon

Að sjálfsögðu ætlaði ég að segja "Ég vil frekar kjósa einstaklinga  en flokka." Samt var "ég frekar kjósa einstaklinga en flokka" skemmtilega barnalegt og í takti við hinn pólitíska sandakassaleik sem er búinn að vera í gangi. 

Haraldur F Gíslason (IP-tala skráð) 27.1.2009 kl. 12:25

7 Smámynd: Haraldur Baldursson

Ég hvet fólk eindregið til að skoða sjálft það ástand sem komið hafa upp þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur verið fjarverandi. Samfylkingin hefur bæði þegar hún var í New York og núna síðast í Svíþjóð dottið af vagninum.

Það þarf ekki að taka orð Sigurðar Kára fyrir þessu, þetta er hreinlega algerlega rétt hjá honum.

Snautleg framkoma Ingibjargar Sólrúnar við Ágúst Ólaf, réttkjörin varaformanns síns, undirstirkar kannski nokkuð skýrt hversu grunnt lýðræðisást Ingibjargar nær, alla vega ristir hún ekki nægjanlega djúpt til að virða kosningu Landsfundar Samfylkingarinnar. Ágúst átti betra skilið en þetta.

Haraldur Baldursson, 27.1.2009 kl. 12:53

8 identicon

Samfylkingin er ekki stjórntæk.  Þetta er, eins og Geir segir, margir flokkar.   Samfylkingin er hreinlega búin til úr afgöngum og það kann ekki góðri lukku að stýra.

Ég efast reyndar um heillandi Samfylkingarinnar í þessu stjórnarsamstarfi.  Tel að þau hafi misnotað Sjálfstæðisflokkinn til að komast til valda og ætli að halda áfram þessu valdabrölti.

Nú mun ISG halda vinkonuvæðingu sinni á fullu og skipa þær í góð og vel borguð embætti.

Finnst framkoma forsetans í þessu öllu saman með endemum.  Þetta er maðurinn sem dansaði við útrásarsukkliðsins og glæpakvendið; Mörthu Stewart.  Hann lét bjóða sér í boðsferðir með einkaþotum útrásarsukkliðsins sem setti okkur á hausinn.  ÞAÐ ÆTTI ÞVÍ AÐ VERA SKÝR KRAFA UM ÞAÐ AÐ FORSETINN SEGI AF SÉR, til að friður skapist hér á landi.

Björn G. Jónasson (IP-tala skráð) 27.1.2009 kl. 14:16

9 identicon

Málefni flokka fyrir stjórnarmyndun hefur ekkert með málefni sömu flokka eftir hana að gera.

Því miður snýst hún um völd og áhrif forystumanna, flokksins og stærstu kostendurna að gera, en ekki hagsmuni þjóðarinnar.

Núna stefnir í að Jón Ásgeir og útrásarvinirnir fá jafn milda meðhöndlun sinna mála og greiðslurnar í sjóði Samfylkingunnar mæla.

Besta mál að nú losna Björn Bjarna og Davíð undan þöggunaránauð og getað tekið til að hjálpa til með útrásarhreinsanirnar með að skýra frá hvernig kaupin hafa gerst á eyrinni.

Vernd Samfylkingunnar til handa þessu útrásarhyski á eftir að koma mörgum stórkostlega á óvart og þeirra mikla ábyrgð á hvernig fór.

Blogghöfundur getur örugglega frætt okkur um það, þas. ef það er útséð að Sjálfstæðisflokkurinn fer ekki í neitt samstarf við Samfylkinguna?

Stjórnmálaflokkur í stjórnarþukli er jú svipaður og ódýr portkona að störfum.

Kv.

joð (IP-tala skráð) 27.1.2009 kl. 14:19

10 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

Ansk að geta ekki unnið saman - hvorki sjálfir né með öðrum - eins og svifaseinn supertankari með svifaseinni áhöfn - ferlega dapurt Sigurður Kári - gjörsamlega óþolandi

Jón Snæbjörnsson, 27.1.2009 kl. 16:36

11 Smámynd: Benedikta E

Sigurður Kári.Samfylkingin stofnaði ekki til stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkin með það fyrir augum að það ætti að endast - lítið yfir ferlið - það er nokkuð ljóst - sumir kanski velja þann kostinn að vilja ekki sjá það.Það er alltaf sárt að vera - svikinn en það er betra að horfast í augu við það.

Sumir eru bara skítseyði - og verða aldrei öðruvísi - Samfylkingin er af þeirri sortinni ! ! ! Það er meira að segja nokkuð augljóst ! ! !

Það er betra að vita við hvern er glímt - Sjálfstæðisflokkurinn á eftir að gefa Samfylkingunnuni - á kjaftinn -  rækilega ! ! !

Benedikta E, 28.1.2009 kl. 01:57

12 identicon

já sæll, ertu að gagnrýna flokka sem ætla sér að mynda saman ríkisstjórn að vera ósammála??? Varst þú ekki í einni slíkri í um eitt og hálft ár. Þessi kemur bara til með að starfa í 3-4 mánuði. Þú ættir kannski að rifja upp hversu oft þú gagnrýndir samfylkinguna áður en þú hoppaðir upp í rúm til þeirra.

Davíð (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 23:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband