Mistök eftir allt

Það er merkilegt hversu oft hatröm deilumál falla í gleymskunnar dá.

Eitt þeirra er REI-málið svokallaða, sem var á allra manna vörum í upphafi síðasta árs.  Það mál varð tilefni ótrúlegrar atburðarrásar í borgarstjórn Reykjavíkur, meirihlutaskipta og afsagna.

REI-málið rifjaðist upp fyrir mér þegar ég horfði á viðtal Sigmars Guðmundssonar við Bjarna Ármannsson, fyrrverandi forstjóra Glitnis og stjórnarformanns REI, í Kastljósi Sjónvarpsins í vikunni.

Í viðtalinu lýsti Bjarni því afdráttarlaust yfir að þátttaka sín í REI-málinu hefði verið mistök.  Þá lýsti Bjarni því jafnframt yfir, og ekki síður afdráttarlaust, að tilraunir til sameiningar Reykjavík Energy Invest (REI) og Geysis Green Energy hefðu verið mistök.

Yfirlýsingar Bjarna Ármannssonar um þessi mál eru afar athyglisverðar, svo ekki sé meira sagt.

x x x

Til upprifjunar vil ég nefna að kjarni þess ágreinings REI-málsins var sá að þann 3. október 2007 var gerður þjónustusamningur milli Orkuveitu Reykjavíkur, tveimur dögum áður en samruni REI og Geysis Green Energy var tilkynntur.

Þjónustusamningurinn var til 20 ára og óuppseigjanlegur.  Slík ákvæði eru auðvitað óvenjuleg, en það sama má segja um önnur ákvæði hans.

Í þjónustusamningnum kom m.a. fram:

-  að REI fengi forgangsrétt að öllum erlendum verkefnum Orkuveitu Reykjavíkur á samningstímanum, þ.e. næstu 20 árum.

- að Orkuveita Reykjavíkur skuldbindi sig til þess að upplýsa REI og vísa þangað öllum ábendingum og fyrirspyrnum um að hagnýta jarðhita, hvar sem er í heiminum, nema hér á landi.

-  Að REI mætti nota vörumerki Orkuveitu Reykjavíkur í starfi sínu auk nafnanna Orkuveita Reykjavíkur og Reykjavik Energy, sem mun vera það heiti sem Orkuveitan hefur sjálf notað erlendis.

- Að sérfræðingar Orkuveitu Reykjavíkur skyldu vera tiltækir fyrir REI.

- Að þjónustusamningurinn milli Orkuveitu Reykjavíkur og REI gilti næstu 20 árin, eins og áður segir, óháð því hver eigi félagið, opinberir-, einka- eða erlendir aðilar.

Með öðrum orðum kvað þessi þjónustusamningur á um það að hirða flest það bitastæðasta í starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur til framtíðar út úr fyrirtækinu og afhenda það öðru fyrirtæki næstu 20 árin, þ.e. verkefni á erlendri grundu, starfsfólkið og nafnið!

Fyrir þetta ,,lítilræði" átti Orkuveitan að fá greidda 10 milljarða króna.

x x x

Fulltrúar vinstriflokkanna í borgarstjórn Reykjavíkur studdu þennan samning og fögnuðu honum sérstaklega.  Samfylkingarfólk, með Dag B. Eggertsson í broddi fylkingar, studdi samninginn, ásamt Birni Inga Hrafnssyni, þáverandi borgarfulltrúa Framsóknarflokksins.  Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, sat hjá.

Sex borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, þau Hanna Birna Kristjánsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Kjartan Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Jórunn Frímannsdóttir, komu hins vegar í veg fyrir sameiningu REI og Geysis Green Energy og að þjónustusamningurinn, sem hér hefur verið vikið að, tæki gildi.

Óhætt er að segja að ,,sexmenningarnir" í Sjálfstæðisflokknum hafi ekki fengið klapp á bakið fyrir framgöngu sína.

Þvert á móti voru þau úthrópuð á torgum úti og í fjölmiðlum, útnefnd skussar ársins og í raun kölluð öllum illum nöfnum, einkum fyrir að hafa haft gríðarlega hagnað af borgarbúum sem sagður var felast í þessum gjörningum öllum.

Svo langt var raunar gengið að þeir gagnrýnendur sem harðast gengu fram áttu í stökustu vandræðum með að telja öll núllin í væntanlegum hagnaði af sameiningu REI og Geysis Green Energy og þjónustusamningnum.

x x x

Sá stjórmálamaður sem gekk hvað harðast fram í gagnrýni sinni á ,,sexmenningana" á þessum tíma var Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra.  Við Össur deildum hart á þessum tíma um réttmæti aðgerða ,,sexmenninganna" í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna.  Ég studdi aðgerðir þeirra.  Hann ekki.

Í pistli sem Össur skrifaði á heimasíðu sína í nóvember 2007, lýsti hann framgöngu ,,sexmenninganna" sem gríðarlegum skemmdarverkum.

Í pistlinu sagði iðnaðarráðherra meðal annars:

,, Harðvítugustu innanflokksátök seinni ára í Sjálfstæðisflokknum hafa því miður nánast ónýtt vörumerkið REI hvað útrás varðar, og stórskaðað viðskiptavild Orkuveitunnar. Skemmdarverk þeirra má líklega meta á milljarðatugi ef miðað er við þá framvindu sem var í kortunum."

Síðar sagði Össur:

,, Ég hika ekki við að meta kostnaðinn af skemmdum þeirra (það er þeirra borgarfulltrúa sem nefndir eru hér að ofan - innskot mitt) á REI á tugi milljarða. Þá er ótalinn skaðinn sem hlýst af missi lykilmanna en flótti þeirra virðist brostinn á, og láir þeim enginn."

Og enn:

,,Menn skulu ekki fara neitt í grafgötur með það, að valdarán sexmenninganna í borgarstjórnarflokki íhaldsins, sem framið var til að svala særðum metnaði, hefur haft ótrúleg verðmæti af Reykvíkingum, og laskað Orkuveituna og starfsmenn þess gríðarlega."

Í lok pistilsins spurði Össur:  ,,Er þetta lið með réttu ráði?"

x x x

Hinn meinti glæpur ,,sexmenninganna" var sá að gera athugasemdir við að stjórnmálamenn í Reykjavík og embættismenn á þeirra vegum stunduðu áhættufjárfestingar með milljarða af skattfé borgar búa og að gerðir yrðu samningar við útvalda gæðinga stjórnmálamanna sem hefðu getað tryggt þeim umtalsverðan hagnað í eigin vasa.

Ég tel að nú sé að koma í ljós að sú harða gagnrýni sem ,,sexmenningarnir" í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins þurftu að sæta á þessum tíma hafi ekki verið réttmæt.

Ég tel að yfirlýsingar Bjarna Ármannssonar, fyrrverandi stjórnformanns REI, í Kastljóssþættinum í vikunni, um að REI-málið hafi frá upphafi til enda verið mistök sýni og sanni að framganga ,,sexmenninganna" hafi verið skynsamleg, en gagnrýnin sem þau hlutu óréttmæt.

x x x

Nú er eðlilegt að fólk velti því fyrir sér hvers vegna ég er að rifja þetta mál upp með þeim hætti sem ég hef hér gert.

Sú spurning er eðlileg.

Ástæðan er sú eftir að REI-málinu lauk með þeirri niðurstöðu sem hér hefur verið líst hefur mikið vatn runnið til sjávar.  Fjármálakerfið hrundi í október síðastliðinn, viðskiptabankarnir voru yfirteknir af ríkinu og nýjar bankastofnanir reystar á rústum hinna fyrri, sem nú bíða þess að verða teknar til gjaldþrotaskipta.

Ég er ansi hræddur um að hefðu ,,sexmenningarnir" í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins ekki haft bein í nefinu til þess að koma í veg fyrir sameiningu REI og Geysis Green Energy og að þjónustusamningurinn, sem gerði ráð fyrir að flest það bitastæðasta úr starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur til framtíðar yrði hirt út úr fyrirtækinu og afhent öðru fyrirtæki fyrir smotterí, tæki gildi, biðu þessar verðmætu eignir Reykvíkinga og Orkuveitu Reykjavíkur nú skipta í einu af þrotabúum gömlu bankanna.

Menn hljóta að sjá hversu skelfileg niðurstaða það hefði verið.

Sem betur fer varð sú ekki raunin.

x x x

Fjárhagsleg staða Orkuveitu Reykjavíkur er síðan sérstakt rannsóknarefni sem ástæða væri að fjalla nánar um.  Af fréttum að dæma virðast skuldir í erlendum myntum nú vera að sliga þessa gullnámu Reykvíkinga.

Ég sem Reykvíkingur og þingmaður Reykjavíkur hefði áhuga á að vita hvers vegna opinbert fyrirtæki eins og Orkuveita Reykjavíkur hefur skuldsett sig svo mjög í erlendum myntum og af hvaða ástæðum.

Kannski Alfreð Þorsteinsson geti veitt einhverjar upplýsingar um það.

Sigurður Kári


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigfús Axfjörð Sigfússon

Já Sigurður Kári, Sjálfstæðisflokkurinn fór svona að, henti ósyndu barni í laugina og stungu sér svo á eftir til að bjarga því. En ekki fyrr en athugulir sundlaugargestir höfðu bent á að barnið var að drukna!

Sigfús Axfjörð Sigfússon, 8.1.2009 kl. 02:10

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta er svipað og mér hefur komið í hug að undanförnu. Bjarni upplýsti líka að hraðinn í málinu hefði verið allt of mikill og kaupréttarákvæði til handa lykilaðilum mistöku.

"REI-klúðrið" fólst af hálfu Sjálfstæðismanna í borgarstjórn af pólitískt tæknilegum samskiptaörðugleikum aðila að þáverandi meirihluta og samskiptum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins innbyrðis svo sem þegar sexmenningarnir voru á fundi með formanni flokksins "án Villa" og þegar Hanna Birna móðgaði Björn Inga með því að segja að lokum löngum "sáttafundi" sjömenninganna að náðst hefði lending og "sátt" í málinu án þess að Björn Ingi hefði komið nálægt því.

Það skapaði að sjálfsögðu vantraust eða að minnsta kosti átyllu fyrir Björn Inga til að sprengja meirihlutann.

Ómar Ragnarsson, 8.1.2009 kl. 08:15

3 identicon

Flott Sigurður Kári!     Drepa málum á dreif!

Burt með Geir og ríkisstjórn hans strax.

Ragnar (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 12:03

4 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Já en Ómar,  voru það ekki sexmenningarnir í Sjálfstæðisflokknum sem komu í veg fyrir þetta rugl. 

Og að öðru.  Hvernig væri að Alfreð upplýsti okkur um það hvers vegna skuldirnar eru allar í erlendri mynt.  '

Er þetta ekki enn eitt dæmið um skelfilega fjármálastjórn R-listans, því miður.

Sigurður Sigurðsson, 8.1.2009 kl. 16:36

5 identicon

Það er ágætt að rifja upp þessa tíma þegar auðmenn og einkabankarnir ætluðu allt að gleypa og lögðust af ofurþunga á stjórnmálamenn og á ég þá við Villa Þ,sem eflaust hélt að hann væri að gera góða hluti með milljarðaglýjuna í augum sem vilti flestum okkar sýn. En stjórn Orkuveitunnar var langt komin með gjörninginn þegar Svandís Svavars vakti athygli á þessu,fékk almenning á sitt band og þá snerist sjálfstæðishetjunum ef til vill hugur, þótt Vilhjálmur væri of flæktur í auðmannanetið. Þáttur Björns Inga bíður svo skýringa sagnfræðinga. Mér fannst eins og hann þyrfti að sprengja stjórnina til að stoppa þetta. Þú minntist á Alfreð Þorsteinsson. Síðan Orkuveitan tók lán í útlöndum til stórra orkuöflunarverkefna, hefur auk annars óárans gengið fallið um 100% undir ykkar stjórn. Já, já, þetta voru allt saman mistök!! Nafni, c'mon

Sigurdur Ingólfsson (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 21:41

6 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Sæll Sigurður Kári Kristjánsson!  Ég er konan sem þú sagðir við á opnum Borgarafundi í okt., s.l. að þú myndir fara með og kæra Intrum fyrir lögbrot.

Þú virðist hafa gleymt því loforði.

Því spyr ég, því ég er eldri en tvævetur - og þú líka........

Kannast þú nokkuð við mann sem heitir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson?

Hann sagðist eftirá ekki hafa skilið alveg það sem í samningum stóð því það hefði verið á ensku!!!!

Sjálf á ég það til að gleyma og því spyr ég því hvort þú hafir nokkuð lent í þessari sömu gleymsku og hreinlega gleymt því að Vilhjálmur Þ. var annar þeirra fulltrúa borgarbúa sem stóðu að þessum gerningi?

Hinn hét víst Björn Ingi Hrafnsson 

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 8.1.2009 kl. 23:05

7 Smámynd: Baldur Hermannsson

Þetta er góð úttekt hjá þér Sigurður. Hvers vegna hafa sexmenningarnir ekki hlotið þá viðurkenninga sem þau verðskulda? Það er einfaldlega vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur um langt árabil vanrækt allt sem heita mætti upplýsingaflæði og eðlilegur áróður. Þetta er margbúið að koma flokknum í koll og gerir það aftur í næstu kosningum.

Baldur Hermannsson, 9.1.2009 kl. 04:47

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þau eru athyglisverð skrif Össurar. Það mætti alveg krefja hann um "comment" um þau í dag.

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.1.2009 kl. 23:59

9 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hið stærra samhengi: http://video.google.com/videosearch?q=money+masters+part+1&emb=0&aq=0&oq=money+masters#

Must see fyrir þá sem ætla að vinna á vandanum og forðast að týna sér í trúarbrögðum eða smáatriðum, sem engu máli skipta. Hér eru kannski lausnir að hugleiða.

Jón Steinar Ragnarsson, 20.1.2009 kl. 12:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband