Í mál við bresk stjórnvöld!

Í Morgunblaðinu í morgun birtist grein eftir mig og Helga Áss Grétarsson, sérfræðing við Lagastofnun Háskóla Íslands, en við stóðum saman að því að semja frumvarp sem samþykkt var sem lög frá Alþingi skömmu fyrir jólaleyfi.

Lögin veita fjármálaráðherra heimild, fyrir hönd íslenska ríkisins, að styðja fjárhagslega við bakið á málsókn gegn breskum stjórnvöldum vegna aðgerða þeirra gegn íslenskum fyrirtækjum og íslenskum hagsmunum í október síðastliðnum.

Í greininni kemur skýrt fram sá einlægi vilji okkar að höfðað verði mál gegn breskum stjórnvöldum vegna framgöngu þeirra, en greinin er svohljóðandi:

"Skömmu áður en jólaleyfi skall á samþykkti Alþingi lagafrumvarp sem við sömdum í sameiningu.

Frumvarpið var flutt af þingmönnum allra stjórnmálaflokka á Alþingi, en það heimilar fjármálaráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins, að styðja fjárhagslega við málsóknir gegn breskum stjórnvöldum vegna aðgerða þeirra gegn íslenskum lögaðilum og íslenskum hagsmunum í byrjun október, aðgerða sem höfðu í för með sér afdrifaríkar afleiðingar fyrir íslensk fyrirtæki og íslenskt efnahagslíf.

Framganga Breta 

Íslendingar mega ekki gleyma með hvaða hætti bresk stjórnvöld komu fram við okkur í þann mund sem fjármálakerfið á Íslandi var að hrynja.

Hinn 7. október sl. tóku gildi á Íslandi svokölluð neyðarlög. Á grundvelli þeirra tók Fjármálaeftirlitið íslenska yfir rekstur Landsbanka Íslands hf., Glitnis banka hf. og Kaupþings banka hf. dagana 7.-9. október og setti yfir þeim skilanefndir. Landsbankinn var fyrsti bankinn til þess að fara í þetta ferli en Kaupþing sá síðasti. Hinn 8. október sl. frystu bresk stjórnvöld eignir Landsbanka Íslands hf. á grundvelli ákvæða sem er að finna í svokölluðum hryðjuverkalögum (e. Anti-terrorism, Crime and Security Act 2001). Með því settu bresk stjórnvöld bankann á stall með hryðjuverkasamtökum á borð við Al Queda, Talibönum og löndum á borð við Norður-Kóreu, Íran og Súdan, sem stutt hafa við bakið á hryðjuverkastarfsemi í heiminum. Sama dag gripu bresk stjórnvöld til aðgerða sem leiddu til þess að stærsta dótturfélag Kaupþings banka hf., Singer & Friedlander-bankinn, var knúinn í greiðslustöðvun. Í kjölfarið varð Kaupþing banki hf. ógjaldfær. Samhliða þessu beittu bresk stjórnvöld áhrifum sínum í þarlendum fjölmiðlum til að gera hlut Íslendinga sem verstan.

Flennifyrirsagnir dagblaða og umfjöllun breskra ljósvakamiðla hinn 9. október sl. breyttu vondri stöðu Íslands í skelfilega. Fjölmörg fyrirtæki og einstaklingar glötuðu viðskiptatækifærum og fjármunum vegna þessa. Ljóst er að bresk stjórnvöld og breskir fjölmiðlar hefðu aldrei hagað aðgerðum sínum með þessum hætti gegn öflugra ríki en því íslenska. Eina vörn okkar er sú að leita réttar okkar fyrir dómstólum.

Höfða skal mál

Þegar Alþingi samþykkti áðurnefnt frumvarp fékk íslenska ríkið afdráttarlausa heimild til þess að styðja þétt við bakið á þeim sem vilja og geta höfðað mál gegn breskum stjórnvöldum vegna þeirra forkastanlegu aðgerða sem þeir gripu til gegn Íslendingum og íslenskum hagsmunum.

Verði ráðist í slíka málsókn er auðvitað ekki hægt að gefa sér fyrirfram hvort hún skilar jákvæðum árangri eða ekki.

Yrði niðurstaða málsóknar jákvæð myndi hún án vafa styrkja rétt Íslendinga til þess að sækja skaðabætur úr hendi breskra stjórnvalda í framhaldinu. Jafnframt og ekki síður felst gildi málsóknar á hendur Bretum í því að skapa styrkan grunn til að koma málstað okkar Íslendinga á framfæri gagnvart almenningi í Bretlandi og víðar í Evrópu. Að okkar mati væri æskilegt að samhliða málsókn yrði gripið til kynningarherferðar erlendis til að ýta undir málefnalega umræðu um stöðu Íslands, forsendur þess að ákvæðum hryðjuverkalaga var beitt og hvort líklegt sé að fleiri þjóðir verði í kjölfarið látnar sæta sömu meðferð.

Skýr skilaboð

Alþingi Íslendinga hefur á síðustu vikum og misserum legið undir ámæli fyrir að vera afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórnina. Við teljum að með samþykkt frumvarpsins hafi Alþingi sýnt þann styrk sem í því býr.

Með því að samþykkja frumvarpið hefur Alþingi sent breskum stjórnvöldum skýr skilaboð um að það feli ríkisstjórninni að styðja fjárhagslega við bakið á þeim sem vilja og geta höfðað dómsmál vegna aðgerða þeirra gagnvart Íslendingum og íslenskum hagsmunum. Með því undirstrikar Alþingi Íslendinga með formlegum, táknrænum og afgerandi hætti að íslenska þjóðin sættir sig ekki við að þurfa að sæta því að vera beitt hryðjuverkalögum af annarri þjóð og sé reiðubúin til þess að berjast gegn því með oddi og egg að þurfa að sæta slíkri meðferð. Sú þverpólitíska yfirlýsing Alþingis verður vart misskilin.

Við teljum að fylgja þurfi þeirri afdráttarlausu yfirlýsingu Alþingis, að Íslendingar séu ekki hryðjuverkamenn og sætti sig ekki við að vera meðhöndlaðir sem slíkir, fast eftir með málsókn á hendur breskum stjórnvöldum.

Sigurður Kári er þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Helgi Áss er sérfræðingur við Lagastofnun HÍ."

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Ég bara skil ekki það GEÐLEYSI, sem er hjá okkar stjórnvöld.

EF við gömlu mennirnir hefðu ráðið værum við löngu búnir að segja okkur úr lögum við Breta-skítseiðin og búnir að senda NATO tóninn um, að þeir geti alveg gleymt allri aðstöðu hér.

Það gleymist ætíð í umræðunni, að það vorum VIÐ sem lögðum lang, lang mest til NATO varna í Evrópu, bæði hlutfallslega og jafnvel over all.

Haig Hershöfðing sagði við mörg tækifæri, að herstöðvaraðstaðan hér væri á við fjórar flotadeildir minnst og jafnvel meira. 

Rekstur hverrar hefði verið margföld fjárlög okkar og jafvel Englands líka.  í Hverri flotadeild er gert ráð fyrir Flugmóðurskipi og nokkrum freigátum að viðbættum kafbátum.

Stefna þessu liði og stinga spýtu í eyrun á þeim.

Kveðjur

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 5.1.2009 kl. 13:46

2 Smámynd: Pétur Kristinsson

Var einhver sérstök ástæða fyrir því að við erum að fara í mál við breta núna fyrst? Er hægt að túlka það sem svo að lagalegar forsendur hafi ekki verið eins sterkar og menn töldu þegar að þeir voru með digurbarkalegar yfirlýsingar um að þetta yrði ekki liðið á alþingi og í sjónvarpi í október?

Sammála öllu því sem Bjarni sagði hér að ofan. Það er af sem áður var þegar menn tóku á málunum af jafnmikilli festu og gert var þegar að verið var að færa út landhelgina. Það virkaði þá og af hverju ætti það ekki að virka í dag?

Pétur Kristinsson, 5.1.2009 kl. 16:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband