Frumvarp vegna málsókna gegn breskum stjórnvöldum

Í kvöld mælti ég fyrir frumvarpi á Alþingi sem gerir ráð fyrir að fjármálaráðherra fái heimild til þess að veita fjárhagslega fyrirgreiðslu til þess að standa undir kostnaði við undirbúning og rekstur dómsmála gegn erlendum stjórnvöldum.

Það gefur augaleið að þar er átt við málsóknir gegn breskum stjórnvöldum vegna beitingar þeirra á hryðjuverkalögum gagnvart Íslendingum og íslenskum fyrirtækjum í byrjun október.

Frumvarpið sömdum við Helgi Áss Grétarsson, sérfræðingur við Lagastofnun Háskóla Íslands, en ásamt mér flytja frumvarpið þingmennirnir Árni Páll Árnason, Samfylkingu, Katrín Jakobsdóttir, Vinstrihreyfingunni grænu framboði, Höskuldur Þórhallsson, Framsóknarflokki, og Jón Magnússon, Frjálslynda flokknum.

Eins og sjá má ríkir þverpólitísk samstaða um frumvarpið á Alþingi.

Tilgangur þess er fyrst og fremst sá að tryggja að íslenska ríkið geti stutt fjárhagslega við bakið á þeim sem höfða vilja mál gegn breskum stjórnvöldum vegna aðgerða þeirra gegn Íslendingum og íslenskum hagsmunum.

Verði frumvarpið samþykkt sem lög frá Alþingi felur það í sér mikilvæga pólitíska yfirlýsingu frá Alþingi Íslendinga um að þingið og þingmenn þess sætti sig ekki við beitingu hryðjuverkalaga gagnvart Íslendingum.

Samþykkt frumvarpsins myndi fela í sér skýr skilaboð til breskra stjórnvalda um að við Íslendingar ætlum ekki að sitja undir því að vera beittir hryðjuverkalögum.  Íslendingar eru ekki hryðjuverkamenn og munu ekki sitja undir því að vera meðhöndlaðir sem slíkir.

Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a:

,,Hinn 7. október sl. tóku gildi lög um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., nr. 125/2008. Þessi lög hafa verið nefnd neyðarlög. Á grundvelli laganna tók Fjármálaeftirlitið yfir rekstur Landsbanka Íslands hf., Glitnis banka hf. og Kaupþings banka hf. dagana 7.-9. október sl. og setti yfir þeim skilanefndir. Landsbankinn var fyrsti bankinn til að fara í þetta ferli en Kaupþing sá síðasti.

Hinn 8. október sl. frystu bresk stjórnvöld eignir Landsbanka Íslands hf. á grundvelli ákvæða sem er að finna í svokölluðum hryðjuverkalögum (e. Anti-terrorism, Crime and Security Act 2001). Sama dag gripu bresk stjórnvöld til aðgerða sem gerðu að verkum að stærsta dótturfélag Kaupþings banka hf., Singer & Friedlander, var knúið í greiðslustöðvun. Í kjölfarið varð Kaupþing banki hf. ógjaldfær.

Landsbanki Íslands hf. og Kaupþing banki hf. eru nú í því ferli sem kveðið er á um í ákvæðum neyðarlaganna sem og laga nr. 129/2008, um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og er yfirstjórn þeirra í höndum áðurnefndra skilanefnda eða eftir atvikum aðstoðarmanns í greiðslustöðvun.

Á Íslandi voru viðbrögð við framgöngu og aðgerðum breskra stjórnvalda gagnvart Íslendingum á einn veg. Bretar voru fordæmdir og því mótmælt af hálfu Íslendinga að íslenskur einkabanki þyrfti að sæta því að vera beittur hryðjuverkalögum og þannig með óbeinum hætti gefið til kynna að Íslendingar ættu að vera á bás með þekktum hryðjuverkasamtökum og löndum sem styðja við bakið á slíkri starfsemi.

Allt frá því að bresk stjórnvöld gripu til aðgerða hefur sú skoðun notið mikils stuðnings á Íslandi að höfða ætti mál gegn breskum stjórnvöldum fyrir breskum dómstólum til að freista þess að fá það viðurkennt að með aðgerðum sínum hafi bresk stjórnvöld brotið lög og farið offari gagnvart Íslendingum og íslenskum hagsmunum. Þetta er ekki síður nauðsynlegt til að sýna fram á með formlegum, táknrænum og afdráttarlausum hætti að Íslendingar sætta sig ekki við að vera beittir hryðjuverkalögum af hálfu annarrar þjóðar. Slíkur málarekstur getur einnig verið æskilegur til að styrkja mögulegar herferðir sem fara þarf í á Bretlandi og víðar til að bæta orðspor Íslands. Brýnt er að leggja þetta frumvarp fram nú vegna þess að fyrir liggur að viðeigandi málshöfðunarfrestir samkvæmt breskum lögum, a.m.k. í máli Kaupþings banka hf., eru að renna út.

Samkvæmt almennum reglum gjaldþrotaréttar, sbr. lög um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/ 1991, eru það kröfuhafar þrotabúa sem ráða því hvort bú höfði mál til að afla því meiri eigna og fjármuna. Nærtækast er að líta á Landsbanka Íslands hf. og Kaupþing banka hf. sem ígildi tveggja þrotabúa. Að óbreyttu eru það fyrst og fremst kröfuhafar bankanna tveggja sem ákveða hvort höfða skuli mál gegn breskum stjórnvöldum vegna athafna þeirra hinn 8. október sl. Telja verður hins vegar líklegt að kröfuhafarnir hafa annaðhvort takmarkaðan áhuga á að fjármagna málshöfðun gegn breskum stjórnvöldum eða þá að þeir treysta sér ekki til þess af ýmsum ástæðum.

Flutningsmenn frumvarpsins telja það varða miklum almannahagsmunum að í málsókn á hendur breskum yfirvöldum verði ráðist til að freista þess að fá úr því skorið hvort aðgerðir breskra stjórnvalda gegn íslenskum lögaðilum á tímabilinu 1. október til 1. desember 2008 hafi brotið gegn lögum. Verði niðurstaða slíkrar málshöfðunar jákvæð getur stofnast til skaðabótaréttar á hendur breska ríkinu. Þegar af þeim ástæðum er mikilvægt að til slíks málareksturs sé stofnað. Það er skoðun flutningsmanna að löggjafarvaldinu og íslenskum stjórnvöldum beri að gera allt sem í valdi þeirra stendur til að tryggja að mögulegt verði að höfða mál innan málshöfðunarfresta gegn breskum stjórnvöldum vegna þeirra stjórnvaldsaðgerða sem bresk stjórnvöld beittu gagnvart íslensku bönkunum tveimur jafnvel þó svo að kröfuhafar bankanna kjósi að velja ekki þann kost. Telja flutningsmenn að hagsmunir þeirra sem í hlut kunna að eiga og hagsmunir íslensku þjóðarinnar af slíkri málsókn séu svo veigamiklir að óvissa um það hver beri fjárhagslega og lagalega ábyrgð á slíkri málsókn megi ekki standa henni í vegi. Og í ljósi þess að þær stofnanir sem að slíkri málsókn kunni að koma eru flestar eða allar með einum eða öðrum hætti á vegum og ábyrgð ríkisins telja flutningsmenn réttlætanlegt að mæla fyrir frumvarpi sem þessu.

Með málshöfðun af þessu tagi, óháð því hver aðild kunni að eiga að henni, telja flutningsmenn að íslenska þjóðin væri að koma á framfæri skýrum skilaboðum gagnvart breskum stjórnvöldum um að framferði þeirra gagnvart íslenskum hagsmunum verði ekki liðið og að nauðsynlegt sé að skera úr um lögmæti aðgerðanna fyrir dómstólum."

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er það rétt að urgur hafi verið í þingmönnum Samfylkingarinnar vegna þess frumvarps og að það hafi án skýringa verið tekið af dagskrá þingsins í fyrradag? Sjá hér

Þú veist að það er of seint að afgreiða þetta frumvarp þegar þingmenn skokka á ný til vinnu eftir nokkuð langt jólafrí og þess vegna spyr ég: Lofarðu því ekki örugglega, Sigurður Kári, að standa gegn því að þinginu verði frestað fyrir jól nema þetta frumvarp hafi verið samþykkt sem lög?

Helga (IP-tala skráð) 19.12.2008 kl. 02:17

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Það hefur ekki mikið farið fyrir heiðri og sæmd á Alþingi Íslendinga undanfarið. Þetta frumvarp gæti breytt þeirri stöðu.

Við sem þjóð getum ekki setið undir því þegjandi að Bretar misvirði okkur á svo svívirðilegan hátt sem raunber vitni. Þér og þeim sem að þessu frumvarpi standa ber að þakka. Standið nú fast á ykkar. 

Ragnhildur Kolka, 19.12.2008 kl. 09:20

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Sigurður.

Það er hægt að fyrirgefa þér margt ef þú stendur á sannfæringu þinni í þessu máli og mundu það, það tókst hjá Pétri Blöndal að hafa rétt fyrir sér.  Enginn þingmaður á von um endurkjör hafi hann stutt árás ESB á fullveldi Íslands.  Aumingjaliðið og kvislingarnir tuða um hvað við hefpum gert í stöðu breta.  Ég vona a' við hefðim farið aðalþjóðalögum.  Samfylkingin skeytir hvorki um skömm eða heiður.  Hún vill að öryrkjar og sjúklingar, gamalmenni og fátæklingar borgi aðgöngumiðann að ESB, allt til að við getum hugsanlega tekið upp Evru 2020.  

Sigurður!  Það er betra að slíta stjórninni en að selja land sitt og þjóð, eins og æðsti draumur Samfylkingarinnar er.  Hægrisinnaðir kjósendue þurfa leiðsögn og þeir samþykkja allt annað en landsölu og skuldaþrældóm.  Íslendingar munu greiða sínar skuldir en þeir munu aldrei samþykkja að fórna lítilmagnanum fyrir ábyrgðir breta og Hollendinga og IFM lán sem hefur þann eina tilgang að spákaupmenn sleppi óskaddaðir frá  gambli sínu. 

Þjóðin þarf leiðsögn.  Ekki Sollu og landsöluna.  Ef þú ert í vafa þá skaltu bara spyrja mömmu þína.

Baráttukveðja að austan.

Ómar Geirsson, 19.12.2008 kl. 10:24

4 Smámynd: Bjarni Kjartansson

TAKK VONANDI FÆST ÞETTA SAMÞYKKT MEÐ HRAÐI

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 19.12.2008 kl. 10:56

5 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Jú, auðvitað væri nauðsynlegt að fá úr því skorið hvort aðgerðir breta fái staðist lagalega.

En nú hafa sumir gefið í skyn eða skilja hefur mátt orð þeirra á þann hátt, að ekki sé allt opinbert sem varð til að bretar gripu til aðgerðanna. 

Mér finnst það ekki síður skipta máli.  Að það sé dregið uppá borð hverjar nákvæmlega ástæðurnar voru. 

Nú má vel vera að ekkert stórvægilegt sé enn hulið - en einhvernvegin hef ég allavega sterklega á tilfinningunni að svo sé.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 19.12.2008 kl. 13:30

6 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Frábært framtak Sigurður Kári. Set Ágætt í kladdann.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 19.12.2008 kl. 19:32

7 identicon

Gleðilegt að það náðist að leggja þetta fram. Alþingi fær gott prik ef þetta fæst samþykkt og  í tæka tíð.

Sigurdur Ingólfsson (IP-tala skráð) 19.12.2008 kl. 21:22

8 identicon

Frábært og til hamingju með að ná þessu í gegn á mettíma. 

Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 20.12.2008 kl. 20:52

9 Smámynd: Þórður Haraldsson

Flott framtak, óttaðist að að við værum að falla á tíma með málið.

Þórður Haraldsson, 20.12.2008 kl. 23:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband