Meirihluti vill annan gjaldmiðil án aðildar að ESB

Ég var gestur Sigurjóns M. Egilssonar í þætti hans Sprengisandi á Bylgjunni  síðasta sunnudag.  Þar ræddi ég stöðuna í íslenskum stjórnmálum við Eygló Harðardóttur, nýjan þingmann Framsóknarflokksins, sem tók sæti á Alþingi eftir hið skyndilega brotthvarf Guðna Ágústssonar úr íslenskum stjórnmálum.

Í þættinum ítrekaði ég þá skoðun mína að við þær aðstæður sem nú eru uppi í efnahagsmálum þjóðarinnar eigi stjórnvöld að skoða af fullri alvöru þann möguleika að taka upp annan gjaldmiðil í stað krónunnar, ýmist einhliða eða með samkomulagi við önnur ríki.  Ég benti á að þær óvenjulegu aðstæður sem nú eru uppi kölluðu á óvenjulegar lausnir.

Mér fannst viðmælandi minn úr Framsóknarflokknum ekki taka hugmyndinni illa, en hún óttaðist að þessi skoðun mín nyti ekki hljómgrunns innan Sjálfstæðisflokksins og þjóðfélaginu, heldur væri ég einangraður.

x x x

Ég hef á síðustu vikum átt samræður við fjölmarga aðila, innlenda og erlenda sérfræðinga, framámenn og konur og atvinnulífinu, stjórnmálamenn, innan og utan Sjálfstæðisflokksins, og almenna borgara, um möguleg gjaldmiðilsskipti, ýmist með einhliða upptöku annars gjaldmiðils eða tengingu hans við annan gjaldmiðil.

Og ég finn ekki betur en að þessar hugmyndir njóti mikils og víðtæks stuðnings hvar sem borið er niður og að það sé fjarri sanni að skoðanir mínar í þessum efnum séu einangraðar í mínu höfði.  Að minnsta kosti fæ ég ekki betur séð en að ýmsir málsmetandi aðilar séu reiðubúnir til þess að skoða þessa möguleika af alvöru.

Síðastliðinn laugardag birtist til dæmis stórmerkileg frétt á vefsíðu Morgunblaðsins af viðtali Reuters fréttastofunnar við Geir H. Haarde, forsætisráðherra, um gjaldmiðilsmál.

Þessi frétt hlaut einhverra hluta vegna ekki þá athygli sem hún verðskuldar, en hún er eftirfarandi:

Geir H. Haarde, forsætisráðherra Íslands, segir í viðtali við Reuters fréttastofuna, að það sé óráðið hvort Íslendingar hafi áfram sinn eigin gjaldmiðil til lengri tíma litið eða hvort þeir tengi gjalmiðil sinn annað hvort við evruna eða Bandaríkjadollar. Þetta kemur fram á fréttavefnum Javno.

Haft er eftir Geir að efnahagsþregningarnar á Íslandi að undanförnu hafi undirstrikað þau vandamál sem því fylgi að halda úti sjálfstæðum gjaldmiðli í litlu, opnu hagkerfi.

„Fólk er að skoða möguleikanan á tengingu við dollara eða einhliða upptökuevru sem myndi sennilega fá ýmsa innan Evrópusambandsins til að lyfta brúnum. Þriðji möguleikinn gæti verið gjaldeyrissamvinna. Þetta eru allt spurningar sem eftir á að svara."

Geir segir það þó vera forgangsverkefni núna að tryggja stöðugleika krónunnar. „Við erum að ganga í gegn um viðkvæmt tímabil og það væri mjög hættuleg að missa gengið niður í eitthvað hyldýpi. Það er það sem við erum að reyna að komast hjá núna í þeirri vissu að núverandi gengi sé of lágt.""

Einhverra hluta vegna hlaut þessi stjórmerkilega frétt ekki þá athygli sem hún sannarlega verðskuldar.

x x x

Sjávarútvegurinn er sú atvinnugrein á Íslandi sem á síðustu áratugum hefur aflað þjóðarbúinu meiri gjaldeyris en nokkur önnur atvinnugrein.  Síðustu misserin öfluðu fjármálafyrirtækin þjóðarbúinu meiri gjaldeyris en sjávarútvegurinn.  En eftir hrun fjármálakerfisins er þetta breytt og sjávarútvegurinn nú aftur orðinn lykilatvinnugrein á Íslandi sem aflar okkur mestra gjaldeyristekna.

Af þeirri ástæðu hlýtur framlag forystumanna í sjávarútvegi að skipta miklu máli í umræðunni um gjaldmiðla.

Á laugardaginn var lét Landsamband íslenskra útvegsmanna að sér kveða í umræðunni um gjaldmiðilsmál, en á vefsíðu LÍÚ birtist neðagreint:

,,Stjórn Landssambands íslenskra útvegsmanna hefur samþykkt eftirfarandi áskorun til stjórnvalda:  ,,Stjórn LÍÚ skorar á stjórnvöld að kanna nú þegar kosti þess að taka einhliða upp annan gjaldmiðil."

Í greinargerð með áskoruninni segir forysta útvegsmanna:

,,Frá því að horfið var frá fastgengisstefnu árið 2001 hefur gengi krónunnar í raun verið stýrt með háum vöxtum.  Þetta varð til þess að gengi krónunnar var allt of sterkt um margra ára skeið og leiddi að endingu til skipbrots peningamálastefnunnar.  Nauðsynlegt er að grópa hratt til aðgerða til þess að koma á stöðugleika í efnahagslífinu, lækka vexti og afnema gjaldeyrishöft.  Koma þarf í veg fyrir að fyrirtæki og heimili komist í þrot vegna hárra vaxta og verðbólgu og afstýra stórfelldu atvinnuleysi."

Krafa Landssambands íslenskra útvegsmanna um að kannaður verði sá kostur að taka einhliða upp annan gjaldmiðil á Íslandi en krónuna er skýr og eindregin.  Jafn skýr og eindregin og andstaða útvegsmanna gegn inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

Framhjá slíkri kröfu verður ekki horft, ekki síst þegar hún er sett fram af þeirri atvinnugrein sem mestra gjaldeyristekna aflar fyrir þjóðina.

x x x

Í dag var ég í viðtali við þá félaga Kristófer Helgason, Þorgeir Ástvaldsson og Braga Guðmundsson, í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.

Þar ræddum við niðurstöður skoðanakönnunar sem þeir framkvæmdu og birtu í þætti sínum síðdegis.

Með skoðanakönnuninni var kannað viðhorf almennings til aðildar Íslands að Evrópusambandinu og upptöku evru sem gjaldmiðils hér á landi, en spurt var:

,,Hver af eftirtöldum kostum finnst þér vænlegastur?

1. Standa utan ESB og halda krónunni.

2. Standa utan ESB og skipta um gjaldmiðil.

3.  Ganga í ESB og halda krónunni.

4.  Ganga í ESB og skipta um gjaldmiðil."

 

Niðurstöður könnunarinnar voru eftirfarandi:

 

12% vildu standa utan ESB og halda krónunni.

51% vildu standa uan ESB og skipta um gjaldmiðil.

1% vildu ganga í ESB og halda krónunni.

36% vildu ganga í ESB og skipta um gjaldmiðil.

x x x

Niðurstöður könnunarinnar eru auðvitað mjög athyglisverðar.

Ljóst er að meirihluti þeirra sem afstöðu taka telja að Ísland eigi að standa utan ESB, en skipta um gjaldmiðil, eða 51%, á meðan 36% telja að Ísland eigi að ganga í ESB og skipta jafnframt um gjaldmiðil.

Út úr þessari könnun má jafnframt lesa þá niðurstöðu að 63% þeirra sem þátt tóku telji að Ísland eigi að standa utan ESB, en 37% vilja aðild að sambandinu.

Þá er ljóst að 87% þátttakenda vilja taka upp annan gjaldmiðil.

x x x

Niðurstaða skoðanakönnunar Reykjavík síðdegis staðfestir þá skoðun mína sem ég hef margoft líst að sú krafa sem nú er uppi um inngöngu Íslands í Evrópusambandið byggir ekki á vilja eða þrá Íslendinga til þess að undirgangast hina sameiginlegu sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, eða félagsmálapakka þess, eða landbúnaðarstefnu, eða hvað þetta allt saman heitir.

Hún snýst um gjaldmiðilinn.

Niðurstaða skoðanakönnunar Reykjavík síðdegis gefur einnig til kynna að líklega sé ég ekki einn um þá skoðun að við þær aðstæður sem nú eru uppi í efnahagsmálum þjóðarinnar eigi stjórnvöld að skoða af fullri alvöru þann möguleika að taka upp annan gjaldmiðil í stað krónunnar, ýmist einhliða eða með samkomulagi við önnur ríki.

Það er gott að vita til þess að sú skoðun njóti svo mikils fylgis.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórbergur Torfason

Auðvitað eigum við að opna umræðu um upptöku annars gjaldmiðils. (Spurnig hvort við ættum að bjóða einhverjum upp á að taka upp íslensku krónuna.) Allt eru þetta sjónarmið sem vert er að skoða. Okkar vandamál varðandi gjaldmiðilskipti er, að Evran virðist vera ansi tungutöm viðhlæjendum ykkar í ráðherrastólunum. Brýna nauðsyn ber til að opna umræðu um möguleika á að taka upp einhvern annan gjaldmiðil en Evru.

Ég hef mikinn áhuga á viðræðum við Norðmenn, Rússa og allar þær þjóðir sem hagsmuna eiga að gæta við jaðar Norðuríshafsins. Áþessum slóðum eru gríðarlegar auðlindir, meiri en nokkurn óraði fyrir þegar Evrópusambandið var stofnað. Ekki þarf að telja þær upp hér.

Evrópa, sú sem vistar Evrópusambandsríkin, er rúin öllum auðlindum. Þessar þjóðir lifa ennþá á rentum nýlendutímans, tíma yfirgangs og kúgunar. Við Íslendingar skulum gæta þess að þær þjóðir sem ferðinni ráða Í Evrópusambandinu, eru gamlir kúgarar nýlendna sinna. Vörumst að láta þær komast í þá aðstöðu gagnvart okkur. Það er alveg eins ljóst og dagur fylgir morgni að gamla Evrópa mun gleypa við okkur sama daginn og við beiðumst inngöngu. Forsendurnar fyrir velvildinni eru einfaldar. Mið og suður-Evrópa eru gjaldþrota. Við erum þó aðeins í greiðslustöðvun sem stendur. Sú gamla er í stökustu vandræðum með að láta enda ná saman. Hún hefur tekið inn staurblankar þjóðir sem þó eiga auðlindir í litlum mæli, í þeirri von að hægt væri að mjólka þær til hagsbóta fyrir þá gömlu sem löngu er komin úr barneign. Við eigum það sameiginlegt með þeim þjóðum sem liggja að Norðuríshafinu að á því svæði er mikill auður óunninn. Undir hafsbotninum, á hafsbotninum, í undirdjúpunum liggja auðlindir sem nútímafólk getur ekki lagt verðmat á og mun í náinni framtíð, ekki verða hægt að verðmeta.

Því ekki að opna á viðræður við Norðmenn, Rússa, Grænlendinga, Kanadamenn, Bandaríkjamenn og allar þær þjóðir sem hugsanlega ættu hlut í auðlindum Norðuríshafsins.

Allt annað en steingelt nýlenduhugsunarkerfi gömlu Evrópu.

Þórbergur Torfason, 4.12.2008 kl. 02:10

2 identicon

Sæll,

tilvitnun í Geir;

„Fólk er að skoða möguleikanan á tengingu við dollara eða einhliða upptökuevru sem myndi sennilega fá ýmsa innan Evrópusambandsins til að lyfta brúnum. Þriðji möguleikinn gæti verið gjaldeyrissamvinna. Þetta eru allt spurningar sem eftir á að svara."

Þegar Geir talar um "tengingu við dollara" þá á hann við Myntslátturáð. Eftirfarandi þættir þurfa að vera til staðar svo að hægt sé að fara í þá aðgerð;

1. styrk efnahagsstjórn

2. hallalaus fjárlög

3. Lágar skuldir

4. Trúverðug ríkisstjórn

Nú geta menn velt ofanhreindum atriðum fyrir sér.

Einhliða upptaka Evru er varasöm þótt ekki sé fastar að orði kveðið.

Að síðustu þá eru ummæli Geirs H. Haarde til þess hönnuð að slá málum á frest þangað til að fólk gleymir málinu. 2 kostir eru nefndir;

1. Einhliða upptaka Evru - gríðarlega varasöm aðgerð af pólitískum ástæðum.

2. Tenging við dollar - Hefur í fyrsta lagi aldrei gengið upp - í öðru lagi myndi það taka okkur jafn langan tíma að koma því málii framkvæmd eins og að ganga í gegnum ERM ll.

Á meðan menn velta sér upp úr slíkum hugmyndum þá byrja fyrirtækin í landinu að poppa og í framhaldi byrjar fólkið í landinu mun fólk byrja að missa húsin sín.

Sumt af þessu fólki er með börn. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar í málefnum íbúðarlána sem dæmi eru einungis til þess hönnuð að lengja í snörunni.

Er ekki komin tími til Sigurður Kári minn kæri að hætta þessum flokksdindlahætti og koma breitingum í gegn í stað þess að bíða eftir Geir H. Haarde?

Láttu nú slag standa félagi - Dollar í kerfið strax í febrúar.

sandkassi (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 11:49

3 Smámynd: Júlíus Björnsson

Þegar almenningur verður upplýstur um "what in it for me"  allir vilja græða þegar upp er staðið. Þá verður allur almenningur á móti innlimun í ESB.

En fyrir upptöku Dollars.

Þetta er líka spurning um hernaðarlegan styrk USA til að vernda hagsmuni frelsins.  Jöfnuður er afstætt hugtak. 

Júlíus Björnsson, 4.12.2008 kl. 14:36

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er vitað að tæknilega séð er ekkert því til fyrirstöðu að taka upp annan gjaldmiðil en krónuna en sumir sjá vankanta á því að halda því fyrirkomulagið til streitu.

Íslenska krónan var tengd við dönsku krónuna til 1922 og hefði betur verið það áfram. Þá væri hún 2500 sinnum verðmeiri en hún er í raun í dag, því að ef litið er framhjá því að tvö núll voru tekin af henni 1981 þá hefur hefur verðgildi dönsku krónunnar hækkað nær stanslaust í 77 ár miðað við íslensku krónuna, alls 2500-falt.

Ómar Ragnarsson, 4.12.2008 kl. 16:07

5 identicon

Þetta er allt spurning um það hvort við tökum dollar upp einhliða eða tvíhliða. Ef við tökum hann upp tvíhliða væri það frábært en einhliða upptaka er varasöm af nokkrum ástæðum.

Í fyrsta lagi byggist það á lántöku til að skipta út grunnforða landsins ( amk. 410 milljarðar). Þá væri það gert þannig að við tækum dollara að láni og skiptum út krónunum á ákveðnu gengi. En vandamálið við það er að krónurnar yrðu verðlausar og því væri gífurlegum verðmætum eytt þar sem dollararnir sem við ættum væru einfaldlega lán og krónan verðlaus. 

Svo er ekki hægt að verja á móti áhlaupi á bankanna en það er í heild amk. 1.290 milljarðar sem ríkið þyrfti að geta staðið undir: Meiri lántaka.

Svo væri enginn lánveitandi til þrautavara.

Því er þetta ekki raunverulega góð hugmynd að skipta út gjaldmiðilinum einhliða.

Egill (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 21:21

6 Smámynd: Róbert Viðar Bjarnason

Egill - Ég tek undir þetta, þó að ég styðji það að skoða einhliða upptöku dollars þá væri best að semja við Seðlabanka Bandakíkjana um að stækka dollar myntkerfi sem samsvarar þeim dollurum sem við þurfum.  Þetta kostar Bandaríkin ekki mikið þar sem þeir geta stækkað/prentað eins mikið og þeir vilja og ekki rýrna virði þeirra dollara sem er fyrir þar sem þessir dollarar koma í staðin fyrir krónuna sem er þá hent...

Róbert Viðar Bjarnason, 4.12.2008 kl. 22:17

7 identicon

Ég er búin að fylgjast með umræðunni og langar að gefa smá ráð.

1. það þarf ekki að breyta lögum til að alþingismenn geti lagt af mörkum til fjölskyldna í landinu.

2. Ég hef bent á það, að hægt er hjá hvaða fyrirtæki sem er, að stofna "neyðarreikning" eins og við búum til starfsmannareikning.

3. Fjölskylduhjálpin ætti að njóta t.d. jólagjafanna í ár hjá fyrirtækjunum í formi peningagjafa.

4. Ég vil hvetja fyrirtæki sem eru enn með starfrsmenn að opna "neyðarreikning" hjá sér og sínum starfsmönnum og safna fé til fjölskylduhjálpar.

Fjölskylduhjálpin í ár erum VIÐ.......

Við erum svo mörg sem getum gefið smátt...en margt smátt gerir STÓRT !!!

Ef ég á að byrja, þarf ég stuðning!

myllfridur högnadottir (IP-tala skráð) 5.12.2008 kl. 00:34

8 Smámynd: Júlíus Björnsson

Gleymum ekki að 300.000- manna neytendamarkaður er nú ekki áhætta fyrir 300.000.000- manna markaði eða meira. Er ekki USA ekki besti "sponsorinn" ef um arðbært verkefni er að ræða?  

Júlíus Björnsson, 6.12.2008 kl. 22:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband