Um gjaldmiðla

Undanfarið hef ég látið í ljós þá skoðun mína að stjórnvöld eigi að skoða af fullri alvöru þá hugmynd að taka upp annan gjaldmiðil í stað krónunnar, ýmist einhliða eða með samkomulagi við önnur eða annað ríki.  Að minnsta kosti teldi ég það mikla skammsýni að útiloka slíka möguleika við aðstæður eins og þær sem nú eru uppi í efnahagslífinu.

Í þessu sambandi hef ég bent á áhugaverða grein hagfræðinganna Heiðars Más Guðjónssonar og Ársæls Valfells, sem birtist í Fréttablaðinu sl. laugardag, þar sem færð eru rök fyrir því að upptaka annars gjaldmiðils hér á landi sé ekki einungis möguleg, heldur hugsanlega ódýrari, einfaldari og áhættuminni en að setja krónuna aftur á flot með tilheyrandi lántökum.

x x x

Ég hef sagt að við óvenjulegar aðstæður eins og þær sem nú eru uppi þurfi hugsanlega að grípa til óvenjulegra lausna.  Upptaka annars gjaldmiðils er lausn af því tagi.  Hún er vissulega djörf, en uppbyggileg og vel þess virði að um hana sé fjallað efnislega á opinberum vettvangi.

Ég er ósammála þeim sem halda því fram að þeir sem vilja ræða hugmyndir eins og þessa séu með því í raun að reyna að drepa öðrum hugmyndum, eins og hugsanlegri aðild Íslands að Evrópusambandinu, á dreif.

Ég vil að minnsta kosti ekki gangast við slíku, heldur finnst mér ástæða, ekki síst á þessum tímum, til þess að ræða þessa hugmynd efnislega og með uppbyggilegum hætti, en ekki á grundvelli skotgrafarhernaðar eða samsæriskenninga.

x x x

Benedikt Jóhannesson, ritstjóri Vísbendingar, vikurits um viðskipti og efnahagsmál, skrifar grein í Morgunblaðið í dag.  Þar segir hann að ríkisstjórnin þurfi að grípa strax til tiltekinna aðgerða, en ein er sú að lýsa því strax yfir að annar gjaldmiðill verði tekinn upp svo fljótt sem auðið er.  Í greininni segir Benedikt:

,,Annar gjaldmiðill verður tekinn upp svo fljótt em auðið er.  Kannski er þetta flókið og seinvirkt, kannski einfalt.  Aðalatriðið er að stjórnvöld marki þá stefnu að krónan verði ekki sá myllusteinn um háls þjóðarinnar í framtíðinni sem hún er nú."

x x x

Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld var haft eftir Vilhjálmi Egilssyni, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, að einhliða upptaka annars gjaldmiðils væri tæknilega framkvæmanleg, en ekki fýsileg.  Þá var það haft eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, að hún vildi að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu og tæki upp evru.  Skoðun utanríkisráðherrans þarf ekki að koma á óvart.  Hún hefur margoft komið fram.

Í umræðum síðustu daga um þessa hugmynd hefur verið bent á ýmis tæknileg vandkvæði sem kynnu að vera henni samfara.  Ég ætla ekki að draga dul á að eflaust þyrftu stjórnvöld að leysa ýmis tæknileg vandamál ef þau tækju ákvörðun um einhliða upptöku annars gjaldmiðils hér á landi.  Þau vandamál þarf einfaldlega að greina, ræða og leysa.

Þeir sem halda því fram að Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu og í framhaldinu taka upp evru á grundvelli aðildar, hljóta að viðurkenna að þeirri leið fylgi líka tæknileg vandamál.  Raunar má halda því fram að þau tæknilegu vandamál sem fylgja aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru séu mun umfangsmeiri og flóknari en þau sem upptaka nýs gjaldmiðils fylgir.

Þessu er nauðsynlegt að halda til haga í umræðunni um þessi mál.

x x x

Það hefur ennfremur ekki farið fram hjá neinum sem fylgst hefur með þessari umræðu síðustu daga að þeir sem hafa efasemdir um einhliða upptöku evru sem gjaldmiðils hafa haldið því fram að slík ákvörðun myndi kalla á hörð viðbrögð frá Evrópusambandinu.  Þessu sjónarmiði hefur Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ, meðal annarra haldið fram, nú síðast í Fréttablaðinu síðastliðinn mánudag.  Undir þau sjónarmið hafa talsmenn Evrópusambandsaðildar innan Samfylkingarinnar og raunar fleiri tekið.

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, bendir á þann athyglisverða vinkil á heimasíðu sinni fyrir nokkrum dögum, sem tengist íslenska óttanum við viðbrögðum Evrópusambandsins við einhliða upptöku evru, að árið 1999 hafi Bernard Kouchner, núverandi utanríkisráðherra Frakklands, verið landsstjóri á vegum Sameinuðu þjóðanna í Kosovo.  Hann hafi ákveðið einhliða upptöku þýsks marks þar í landi og síðan evru, án þess að hafa verið ofsóttur af valdhöfum í Brussel.  Bernard Kouchner sé nú forseti ráðherraráðs Evrópusambandsins.  Og Björn veltir því eðlilega fyrir sér hvort líklegt sé að viðbrögð hans yrðu hörð ef Íslendingar færu að fordæmi hans sjálfs, fyrir innan við áratug síðan, og tækju upp evru einhliða.

Sjálfur hefði ég haldið að skynsamlegra væri að leita ráða hjá forseta ráðherraráðs Evrópusambandsins, í ljósi áhrifa hans innan Evrópusambandsins og persónulegrar reynslu hans af því að taka evru einhliða í landi utan sambandsins, í stað þess að gefa sér fyrirfram að viðbrögð hans og starfsbræðra hans yrðu svo hörð sem haldið hefur verið fram.

x x x

Ég er alveg sammála því sem fram kom í máli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld, að við Íslendingar eigum að fara fram með okkar mál í sátt og samlyndi við aðrar þjóðir, þar á meðal í gjaldmiðilsmálum, en ekki með átökum.

Ég veit ekki til þess að nokkur maður sem tekið hefur þátt í umræðu um þessi gjaldmiðilsmál hafi mælt með slíkum átökum.  Og ég sé enga ástæðu til að gefa mér það fyrirfram að til slíkra átaka þurfi að koma vilji íslensk stjórnvöld skipta krónunni út fyrir annan gjaldmiðil.  Að minnsta kosti fæ ég ekki séð að það myndi skaða neinn ef slíkar viðræður færu fram.

Enn síður fæ ég séð hvers vegna bandarísk stjórnvöld, með hinn nýkjörna forseta Barak Obama í broddi fylkingar með öll sín nútímalegu og frjálslyndu viðhorf, ættu að taka því illa ef Íslendingar óskuðu eftir því að taka upp dollar sem gjaldmiðil á Íslandi.  Það hlýtur að minnsta kosti að mega ræða þann möguleika við stjórnvöld í Washington án þess að eiga það á hættu að allt fari í bál og brand í samskiptum þjóðanna.

x x x

Við þær aðstæður sem nú eru uppi í efnahagsmálum og miðað við þá erfiðleika sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir eiga stjórnvöld ekki að útiloka neinar hugmyndir sem geta verið til hagsbóta fyrir samfélagið okkar, fyrir fólkið og fyrirtækin í landinum.  Við megum hvorki við skammsýni eða þröngsýni í þessum málum, enda held ég að við höfum ekki efni á slíku.

Af þeirri ástæðu hef ég haldið því fram að skoða eigi að fullri alvöru og kanna til hlítar, fordómalaust, þá hugmynd sem sett hefur verið fram um að hér verði tekinn upp annar gjaldmiðill í stað krónunnar, annað hvort einhliða eða samkvæmt samkomulagi við önnur eða annað ríki.

Þar kemur upptaka evru til skoðunar, en eins, og ekki síður, upptaka Bandaríkjadals eða annars gjaldmiðils.

Slíkar hugmyndir á að mínu mati ekki að slá umræðu- og athugunarlaust út af borðinu, heldur á að mínu mati að ræða þær opinskátt.

Sigurður Kári.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ætli við fáum prentvél líka ef við tökum upp annan gjaldmiðil  

Toni (IP-tala skráð) 13.11.2008 kl. 02:11

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þakka agaða framsetningu málsins. Það er vert að menn, sem eru að dreifa umræðunni frá neyðarúrræðum með trúarbrögðum EU eins og ISG gerir, að lesa blogg Gunnars Rögnvaldssonar, sem rekur fyrirtæki á evrusvæði, er fjölfróður um myntmál og EU mál.  Hann málar þar ansi dökka mynd. Hratt fall Evru, erfiðleika í efnahag flestra landa, óeiningu um fjölda minni atriða og mein atriða eins og áformaða stjórnarskrá, viðvarandi 10% atvinnuleysi gegnumsneytt frá upphafi, (sem við höfum ekki náð enn) tal sumra ríkja um að segja sig úr sambandinu (t.d. Þjóðverjar sjálfir og svo síðast en ekki síst vil ég nefna Maastricht sáttmálann, sem er eins og brandarabók í okkar samhengi.

Varðandi Dollar má benda á að markaðir þar eru aftur í frjálsu falli eftir að gefið var út að innspýting seðlabankans þar færi ekki í að kaupa "toxic waste" af fjármálafyrirtækjum. (sennilega eru menn þar ánægðir með að JP Morgan tókst að dömpa sínu inn í Lehman)  Þar má reikna með enn meira falli, eins og við blikur um minnkandi hefnaðarumsvif ofl. ofl. Allt þetta verður að skoða eins og sjúklinga á gjörgæsludeild.

Kanadíski dollarinn er í kreppu eins og margir gjaldmiðlar en stabílli mynt þrátt fyrir sterka tengingu í USD. Það eru fleiri myntir, sem ég hef ekki skoðað eins og Yen, Rúblu (sem mér finnst Medvedev ætla að styrkja) Swissn. franka ofl.

Hér er verið að ræða mynteiningu í neyð og jafnvel ekki nema til einhverra ára, sem hefur ekki stærri merkingu í praxís en að skipta um kortafyrirtæki. Sígarettur eru mynt í fanagelsum sem dæmi.

Þetta er ímyndarkreppa líka og hana verður að bæta. Þetta er liður í því auk þess sem mér sýnist að ef stjórnvöld sýndu meiri festu gagnvart fjárglæframönnunum, blésu til allsherjarrannsóknar og söfnuðu þessum mönnum í stofufangelsi um leið og ránsfengsins væri leitað. Það myndi snúa við almannaálitinu út á við. Röggsemi eins og Thailand gagnvart spilltum forsætisráðherra.  Hreinsa þarf til í stjórnsýslunni ef tengsl eru þar inn og taka séns á blóðfórnum í öllum flokkum. Þetta er ekki spurning um persónur í dag. Það verður mönnum að fara að skiljast.

Annars ef um allt þrýtur, þá seljið allar ríkiseigur og fyrirtæki fyrir krónu til traustverðugra alþýðumanna, asset banka og allt og setjið landið í þrot. Við munum svo með samtakamætti afhenda þessar eignir aftur í sameiginlegan sjóð þegar uppgjör hefur farið fram og byggja nýtt Ísland. Ísland er hlutafélag og hægt að höndla málefni þess sem slíkt. Bara svona abstakt sagt.

Jón Steinar Ragnarsson, 13.11.2008 kl. 02:21

3 identicon

Takk fyrir þetta Sigurður- raunsær pistill

Hafa menn skoðað og rætt við Norðmenn um möguleika á að taka upp rekstrarlegt samstarf hagkerfanna?

Getur verið að menn séu að skoða gjaldmiðlamálin úr samhengi við líkur á því að við kunnum að þurfa að gefa eftir mun meira af meintu fullveldi en krónuna ?  

Er ekki ástæða til að skoða hlutina verulega heildstætt ?

Nú sem aldrei fyrr ríður á að viðhafa ekki smáskammtaraunsæi sem reynast mun óheppilega ófullnægjandi.

Miðað við vonda útgáfu af B-plani fæ ég ekki betur sé en að víðtækt samstarf við Norðmenn sé líklegt til að skila hagfelldri niðurstöðu. Ekki hvað síst ef raunsætt þykir að líkindi séu mikil fyrir því að við munum þurfum að deila með öðrum nýtingarrétti auðlinda tímabundið eða til framtíðar. Hér kemur upp í hugann t.d. nýting auðlinda á hafsbotni.

Einar Vilhjálmsson (IP-tala skráð) 13.11.2008 kl. 03:50

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það er rétt að slengja því hér inn svona til glöggvunar á smáaletri Evrópubandalagsins að í Rómarsáttmálanum er kveðið á um að fiskistofnar allir séu sameign bandalagsins. Á því hefur aldrei verið gefin nein undanþága.

Mér finnst að sjálfstæðismenn ættu að standa undir nafni og taka þessi föstu andrök saman og ekki bara hafa þau í eigin kolli og ræða inn í sápukúlunni alþingi. Þessi rök verða að komast til eyrna almennings, því það er almenningur, sem kemur til með að hafa síðasta orðið. Það er gríðarleg fáfræði í gangi um þessa hluti og lýðskrumið yfirfljótandi. Evrópubandalagsagentar eru ekkert annað en landráðamenn, þegar djúpt er skoðað.

Jón Steinar Ragnarsson, 13.11.2008 kl. 04:06

5 identicon

Samfylkingin hefur nú fengið þá niðurstöðu sem hún óskaði eftir í formi leynilegs "óbindandi lögfræðiálits" sem virðist mega útleggjast sem Gerðardómur ESB. Ef að álitið var ekki bindandi, af hverju birtist þá á sama tímapunkti lögfræðiálitið ásamt einróma niðurstöðu allra 27 aðildarríkjanna?

Á meðan löndin 27 komu sér saman um þessa viðbjóðslegu aðför að Íslensku þjóðinni settu þeir okkur undir þagnarskyldu meðal okkar eigin þegna.

Nú geta menn endanlega farið að átta sig á hverslags fyrirbæri Evrópusambandið er. Danmörk, Svíþjóð og Finnland fylgja eins og sauðir í þessum pakka algerlega viljalaus beitilönd með öllu.

Ef einhverntíma hefur verið morgunljóst að Ísland sé ekki Evrópuland þá er það á þessum degi.

Okkar helsta verkefni í dag er að taka upp aðildarviðræður við NFTA

sandkassi (IP-tala skráð) 13.11.2008 kl. 09:48

6 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Það er bara sorglegt, hve lítið er undir okkur mörgum Landanum.

Hrekjast undan og fara sjól úr skjóli, leggjandi skottið milli lappana og bakka að þeim rakka sem ætlar sér allt æti okkr.

Ef þeir sem þykjast vera í Sjálfstæðis-flokknum, ætla að semja við kvalara okkar með einhverjum hætti öðrum en lög standa til og við höfum undirgegnist, eiga þeir hið snarasta að la´ta laus skýrteini sín í Flokknum og fara sem leið liggur í Þjóðnýðingaflokkinnn Samfylkinguna.  Við þjóðhollir Íslendingar viljum EKKERT með svoleiðis lið gera né þekkjast.

Ef ESB sinnar telja sig eiga eitthvað vantalað við heiðarlegt Sjálfstæðisfólk, getur það pantað tíma EFTIR ap búið er að segja slitið Stjórnmálasambandi við Breta Hollendinga og alla þá sem fara með ójöfnuði á hendur okkur.

Nato getur svo átt sig og aukið enn fjárframlög til hernaðaruppbyggingu, sem þarf þegar við höfum lagt blátt bann við veru þeirra hér í bráð og lengd.

Með fullri virðing.

Miðbæjaríhaldið

Þjóðhollur að vanda

Bjarni Kjartansson, 13.11.2008 kl. 12:07

7 identicon

Mjög góð grein og gott að þú heldur þessu til haga, það verður að skoða alla möguleika í þessari erfiðu stöðu sem þjóðin er í.

Tek líka undir margt sem hér hefur verið skrifað að ofan, sérstaklega fannst mér hnyttið að kalla Samfylkinguna, þjóðníðingarflokk og finnst mér það sannarlega vera sorglegt réttnefni !

Samfylkingin er ekki og hefur ekki verið að gera neitt. Þar snúast hlutirnir ekki lengur um stjórnmál heldur eingöngu um ESB trúboðið.

Það má engar aðrar leiðir skoða til heilla fyrir land og þjóð, aðeins þessi sami söngur aftur og aftur og ekkkert annað. Þetta er beinlínis orðið þjóð hættulegt og flokkurinn er alls ekki stjórntækur.  Það meira að segja orðið hlakkar í sumu af þessu liði þegar bætist við óhamingjulista þjóðarinnar.

Þess vergna kalla ég þetta lið í Samfylkinguni þjóðníðinga og landráðahyski !

Já það er heitt í mörgum okkar sem höfum í gegmnum tíðina með góðum og gildum rökum barist fyrir því að Ísland gengi ekki í þetta bandalag andskotans ESB.

Er ekki nær að reyna að fylkja þjóðini saman um einhverja vitlega stefnu í þessum þrengingum heldur en að ætla nú að nýta sér sára neyð þjóðarinnar og hræðslu og reiði almennings til þess að reyna að nauðga þjóðinni inní þetta Bandalag með góðu eða illu.

Halda menn virkilega að þjóðin muni einhuga fylkja sér um þá stefnu.

Nei aldeilis ekki, það er mikill hiti og reiði í okkur sem erum andstæðingar ESB aðildar að hlusta á skefjalausan áróðurinn í trúboðskórnum og lýðskrumið. 

Þetta myndi algerlega kljúfa þjóðina í herðar niður.

Þetta er mörgum okkar ekki bara sannfæring um að þetta yrði þjóðinni alls ekki til góðs, heldur er þetta auk þess fyrir mörg okkar líka mikið tilfinningamál sem snýst um sjálfstæði og reisn Íslands og Íslensku þjóðarinnar.

Menn ættu ekki að vanmeta slíkar tilfinningar, það hefur mörgum orðið hált á því svellinu.

Það er það sem þjóðin þarf síst á að halda núna !  

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 13.11.2008 kl. 17:17

8 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sæll Sigurður Kári

Nú er ég meira sammála þér. Það er aldrei að vita nema að þetta sé einmitt rétta lendingin fyrir okkur Íslendinga.

Og auðvitað á að skoða þennan möguleika eins ESB aðild!

Sé reyndar ekki að einhliða upptaka evru útiloki ESB aðild síðar, sbr. Svartfjallalandi, sem sótt hefur um aðild og enginn sýndi þeim fjandskap vegna upptöku þeirra á þýsku marki og síðar evru.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 13.11.2008 kl. 21:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband